Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Höfuðþættir bóka Jóels og Amosar

Höfuðþættir bóka Jóels og Amosar

Orð Jehóva er lifandi

Höfuðþættir bóka Jóels og Amosar

HANN segir ekkert um sjálfan sig annað en að hann heiti Jóel Petúelsson. (Jóel 1:1) Og hann er svo fáorður um annað en boðskapinn að það þarf meira að segja að áætla hvenær hann ritaði spádómsbókina sem kennd er við hann. Það er talið hafa verið um 820 f.Kr., níu árum eftir að Ússía tók við konungdómi í Júda. Sennilegasta ástæðan fyrir því að Jóel segir svona fátt um eigin hagi er sú að hann vill leggja áherslu á boðskapinn en ekki boðberann.

Það er sömuleiðis á dögum Ússía að ‚hjarðmaður, sem ræktar mórber,‘ er skipaður spámaður. Hann heitir Amos og býr í Júda. (Amos 7:14) Amos er sendur norður til tíuættkvíslaríkisins Ísraels ólíkt Jóel sem er spámaður í Júda. Amos lýkur bók sinni um 804 f.Kr. eftir að hann er snúinn aftur heim til Júda. Málfar bókarinnar er einfalt en myndríkt.

„Æ, SÁ DAGUR!“ — AF HVERJU?

(Jóel 1:1–3:26)

Jóel sér sýn þar sem ‚nagari, átvargur og flysjari‘ ráðast inn í landið og er þar átt við fiðrildislirfur, engisprettur og kakkalakka. Hann kallar þetta ‚mikla og volduga þjóð‘ og „hetjur“. (Jóel 1:4; 2:2-7) „Æ, sá dagur!“ andvarpar Jóel, „því að dagur Drottins er nálægur, og hann kemur sem eyðing frá hinum Almáttka.“ (Jóel 1:15) Jehóva hvetur Síonarbúa: „Snúið yður nú til mín . . . af öllu hjarta.“ Geri þeir það ætlar hann að ‚þyrma lýð sínum‘ og reka burt „óvininn, sem frá norðri kemur“, það er að segja skordýrapláguna. En áður en hinn mikli dagur Jehóva rennur upp ætlar hann að ‚úthella anda sínum yfir allt hold‘ og „láta tákn verða á himni og á jörðu“. — Jóel 2:12, 18-20; 3:1-4.

Hann skorar á þjóðirnar að vígbúast: „Smíðið sverð úr plógjárnum yðar og lensur úr sniðlum yðar!“ Þeim er skipað að „halda upp í Jósafatsdal“ þar sem þær verða dæmdar og þeim tortímt. „En Júda mun eilíflega byggt verða“, segir í framhaldinu. — Jóel 3:15, 17, 25.

Biblíuspurningar og svör:

1:15; 2:1, 11; 3:4, 19. — Hvað er „dagur Drottins“? Dagur Drottins Jehóva er sá tími þegar hann fullnægir dómi yfir óvinum sínum og útrýmir þeim. Sannir guðsdýrkendur hljóta hins vegar hjálpræði. Slíkur dagur rann upp yfir Babýlon árið 539 f.Kr. þegar Medar og Persar unnu hana. (Jesaja 13:1, 6) Annar slíkur „dagur Drottins“ er fram undan og þá fullnægir hann dómi sínum yfir ‚Babýlon hinni miklu‘, heimsveldi falskra trúarbragða. — Opinberunarbókin 18:1-4, 21.

2:1-10; 3:1 — Hvernig rættist spádómurinn um innrás skordýranna? Þess er hvergi getið í Biblíunni að skordýraplága hafi orðið í Kanaanlandi í þeim mæli sem lýst er í bók Jóels. Árásin, sem hann segir frá, er því greinilega táknræn og lýsir því sem gerðist árið 33 e.Kr. þegar Jehóva tók að úthella heilögum anda yfir fylgjendur Krists og þeir fóru að prédika boðskap sem kvaldi falska trúarleiðtoga. (Postulasagan 2:1, 14-21; 5:27-33) Við höfum sams konar verk að vinna nú á dögum.

3:5 — Hvað er fólgið í því að ‚ákalla nafn Jehóva‘? Það merkir að þekkja nafnið, virða það mikils, reiða sig á hann sem ber það og treysta honum. — Rómverjabréfið 10:13, 14.

3:19 — Hvað er ‚dómsdalurinn‘? Þetta er táknrænn staður þar sem Guð fullnægir dómi sínum. Guð frelsaði Júdamenn frá grannþjóðunum með því að valda glundroða meðal hersveita þeirra á dögum Jósafats konungs. Nafn hans merkir „Jehóva er dómari“ og staðurinn er því einnig kallaður ‚Jósafatsdalur‘. (Jóel 3:7, 17) Nú á dögum er átt við táknrænan stað þar sem þjóðirnar verða kramdar eins og ber í vínþröng. — Opinberunarbókin 19:15.

Lærdómur:

1:13, 14. Til að hljóta hjálpræði er nauðsynlegt að iðrast í einlægni og viðurkenna Jehóva sem hinn sanna Guð.

2:12, 13. Sönn iðrun þarf að eiga sér rætur í hjartanu. Það er nauðsynlegt að ‚sundurrífa hjörtu sín‘, ekki aðeins hin ytri klæði.

3:1-5. Sá einn „sem ákallar nafn Drottins, mun frelsast“ á ‚hinum mikla og ógurlega degi Drottins‘ Jehóva. Við megum vera þakklát fyrir að Jehóva skuli úthella anda sínum yfir alls konar fólk og láta jafnt unga sem aldna og karla sem konur taka þátt í því verki að spá, það er að segja að boða „stórmerki Guðs“. (Postulasagan 2:11) Dagur Jehóva nálgast og við ættum sannarlega að „ganga fram í heilagri breytni og guðrækni“. — 2. Pétursbréf 3:10-12.

3:9-13, 24. Jóel spáði að þjóðirnar umhverfis Júda yrðu látnar svara til saka fyrir illa meðferð þeirra á útvalinni þjóð Guðs. Það var í samræmi við þennan spádóm að Nebúkadnesar, konungur Babýlonar, lagði meginlandshluta borgarinnar Týrusar í rúst. Síðar, þegar Alexander mikli tók eyborgina, féllu þúsundir hermanna og fyrirmenna og 30.000 Týrverjar voru seldir í þrælkun. Filistar hlutu svipuð örlög af hendi Alexanders og arftaka hans. Á fjórðu öld f.Kr. var Edóm lögst í eyði. (Malakí 1:3) Þessir uppfylltu spádómar styrkja það traust okkar að Jehóva standi við loforð sín. Þeir sýna sömuleiðis hvernig hann tekur á þjóðum sem ofsækja tilbiðjendur hans nú á dögum.

3:21-26. „Himinn og jörð nötra“ og þjóðirnar þurfa að taka út dóm Jehóva. „En Drottinn er athvarf sínum lýð“ og veitir þjónum sínum líf í paradís á jörð. Ættum við ekki að vera staðráðin í að halda okkur fast við hann þegar dagurinn nálgast að hann fullnægi dómi á óguðlegum heimi?

„VER VIÐBÚINN AÐ MÆTA GUÐI ÞÍNUM“

(Amos 1:1–9:15)

Amos hefur boðskap að flytja óvinaþjóðunum umhverfis Ísrael og sömuleiðis boðskap handa Júda og Ísrael. Sýrland, Filistea, Týrus, Edóm og Móab verða eydd vegna grimmdar þeirra gagnvart þjóð Guðs. Júdamenn eiga sömuleiðis tortímingu í vændum vegna þess að þeir hafa „hafnað lögmáli Drottins“. (Amos 2:4) Og hvað um tíuættkvíslaríkið Ísrael? Íbúarnir hafa syndgað, meðal annars með því að kúga fátæka, stunda siðleysi og óvirða spámenn Guðs. Amos varar þá við og segir að Jehóva ætli að „láta hegninguna koma niður á ölturunum í Betel“ og hann ætli að „brjóta niður vetrarhallirnar ásamt sumarhöllunum“. — Amos 3:14, 15.

Skurðgoðadýrkendurnir í Ísrael eru þrjóskir enda þótt þeim hafi verið refsað með ýmsum hætti. Amos segir Ísrael: „Ver viðbúinn að mæta Guði þínum“. (Amos 4:12) Fyrir marga Ísraelsmenn hefur dagur Jehóva í för með sér að þeir verða herleiddir „austur fyrir Damaskus“, það er að segja til Assýríu. (Amos 5:27) Amos heldur ótrauður áfram þó að prestur í Betel beiti sér gegn honum. „Endirinn er kominn yfir lýð minn Ísrael, ég vil eigi lengur umbera hann,“ segir Jehóva Amosi. (Amos 8:2) Þeir geta hvergi falið sig fyrir dómum Guðs, hvorki í undirheimum né á hæstu fjöllum. (Amos 9:2, 3) En Jehóva lofar endurreisn. „Þá mun ég snúa við högum lýðs míns Ísraels,“ segir Jehóva. „Þeir munu byggja upp hinar eyddu borgir og búa í þeim, planta víngarða og drekka vín úr þeim, búa til aldingarða og eta ávöxtu þeirra.“ — Amos 9:14.

Biblíuspurningar og svör:

4:1 — Hverja tákna „Basans kvígur“? Búfé á hásléttunni Basan austur af Galíleuvatni þótti afbragð, þar á meðal nautgripirnir. Gott beitiland átti sinn þátt í því. Amos líkir munaðargjörnum konum í Samaríu við kvígurnar í Basan. Konurnar hafa eflaust hvatt menn sína óspart til að svíkja hina fátæku svo að þær gætu lifað í munaði.

4:6 — Við hvað er átt með „hreinum tönnum“? Þar sem þetta stendur í samhengi við ‚skort á mat‘ getur það vísað til þess að tennurnar séu hreinar vegna hungursneyðar.

5:5 — Í hvaða skilningi áttu Ísraelsmenn ‚ekki að leita til Betel‘? Jeróbóam hafði komið á kálfadýrkun í Betel. Borgin hafði verið miðstöð falskrar tilbeiðslu þaðan í frá. Í Gilgal og Beerseba hlýtur einnig að hafa verið stunduð falsguðadýrkun. Til að umflýja ógæfuna, sem boðuð var, þurftu Ísraelsmenn að hætta að fara þangað í pílagrímsferðir og leita Jehóva í staðinn.

7:1 — Hvað merkir ‚konungssláttur‘? Sennilega er átt við skatt sem konungur lagði á landsmenn til uppihalds hestamönnum sínum og dýrum. Skattinn þurfti að greiða „þá er háin tók til að spretta“. Eftir það gátu landsmenn uppskorið fyrir sjálfa sig. En áður en þeim auðnaðist að gera það myndu engisprettur éta uppskeruna ásamt öðrum jarðargróðri.

8:1, 2 — Hvað táknaði ‚karfan með sumarávöxtum‘? Hún táknaði að dagur Jehóva var nærri. Sumarávextir eru tíndir í lok uppskerutímans þegar landbúnaðarárinu er að ljúka. Þegar Jehóva lætur Amos sjá „körfu með sumarávöxtum“ merkir það að endirinn var í nánd hjá Ísraelsmönnum. Hann segir því Amosi: „Endirinn er kominn yfir lýð minn Ísrael, ég vil eigi lengur umbera hann.“

Lærdómur:

1:3, 6, 9, 11, 13; 2:1, 4, 6. Jehóva segir: „Vil ég eigi snúa aftur með það,“ og vísar þá til reiði sinnar gegn Ísrael, Júda og þjóðunum sex umhverfis. Dómar Jehóva eru óumflýjanlegir. — Amos 9:2-5.

2:12. Við ættum ekki að hvetja duglega brautryðjendur, farandumsjónarmenn, trúboða eða þá sem starfa á Betel til að hætta að þjóna Jehóva í fullu starfi og taka upp svokallað eðlilegt líf. Það væri letjandi fyrir þá. Við ættum heldur að hvetja þá til að halda áfram sínu ágæta starfi.

3:8. Fólk verður óttaslegið þegar það heyrir ljón öskra. Amos fann sig sömuleiðis knúinn til að prédika þegar hann heyrði Jehóva segja: „Far þú og spá þú hjá lýð mínum.“ (Amos 7:15) Guðsótti ætti að vera okkur hvati til að boða boðskapinn um Guðsríki af kappi.

3:13-15; 5:11. Amos var óbreyttur fjárhirðir en með hjálp Jehóva gat hann vitnað fyrir fólki sem var í góðum efnum og þar af leiðandi sjálfsöruggt. Jehóva getur líka gert okkur kleift að boða boðskapinn um ríkið óháð því hvernig starfssvæðið er.

4:6-11; 5:4, 6, 14. Ísraelsmenn höfðu ítrekað þráast við að ‚snúa sér‘ til Jehóva en voru engu að síður hvattir: „Leitið Drottins, til þess að þér megið lífi halda.“ Við ættum að hvetja fólk til að snúa sér til Jehóva meðan hann sýnir þá þolinmæði að láta þennan illa heim standa.

5:18, 19. Það er heimskulegt að „óska þess, að dagur Drottins komi“ en vera ekki undir það búinn. Sá sem gerir það er eins og maður sem flýr undan ljóni en verður þá á vegi bjarndýrs og flýr síðan undan birninum en er þá bitinn af höggormi. Það er viturlegt að ‚vaka‘ andlega og vera reiðubúinn öllum stundum. — Lúkas 21:36.

7:12-17. Við ættum að flytja boðskap Guðs djarflega og óttalaust.

9:7-10. Ísraelsmenn voru afkomendur trúfastra ættfeðra og hinna útvöldu sem Guð bjargaði frá Egyptalandi. Það kom hins vegar ekki í veg fyrir að þeir bökuðu sér vanþóknun hans með ótrúmennsku sinni og væru ekki mætari í augum hans en Blálendingar. Guð er óhlutdrægur og velþóknun hans byggist ekki á ákveðnu ætterni heldur því að ‚óttast hann og ástunda réttlæti‘. — Postulasagan 10:34, 35.

Hvað ber okkur að gera?

Þess er skammt að bíða að Jehóva fullnægi dómi sínum yfir heimi Satans. Hann hefur úthellt anda sínum yfir dýrkendur sína þannig að þeir eru færir um að vara mannkynið við degi hans. Ættum við ekki að eiga sem mestan þátt í að hjálpa öðrum að kynnast Jehóva og ‚ákalla nafn hans‘? — Jóel 3:4, 5.

„Hatið hið illa og elskið hið góða, eflið réttinn í borgarhliðinu,“ hvetur Amos. (Amos 5:15) Dagur Jehóva er nærri. Það er því viturlegt að nálægja sig Jehóva og halda sér aðgreindum frá illum heimi og spillandi áhrifum hans. Við drögum dýrmætan lærdóm þar að lútandi af spádómsbókum Jóels og Amosar. — Hebreabréfið 4:12.

[Myndir á blaðsíðu 27]

Við ættum að boða boðskap Guðs óttalaust og djarflega líkt og Amos gerði.

[Mynd á blaðsíðu 28]

Jóel spáði: „Dagur Drottins er nálægur.“