Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Höfuðþættir bóka Óbadía, Jónasar og Míka

Höfuðþættir bóka Óbadía, Jónasar og Míka

Orð Jehóva er lifandi

Höfuðþættir bóka Óbadía, Jónasar og Míka

„VITRUN Óbadía.“ (Óbadía 1) Þannig hefst bók Óbadía spámanns sem er skrifuð árið 607 f.Kr. Hann gefur engar upplýsingar um sjálfan sig nema hvað hann heiti. Í bók, sem skrifuð var tveim öldum áður, segir Jónas hins vegar hreinskilnislega frá eigin reynslu af trúboðsstarfi sínu. Míka starfaði sem spámaður um 60 ára skeið á milli þeirra Óbadía og Jónasar, eða á árabilinu 777 til 717 f.Kr. Míka er fáorður um sjálfan sig nema það að hann sé frá þorpinu Móreset og að orð Jehóva hafi komið til sín „á dögum Jótams, Akasar og Hiskía, Júdakonunga“. (Míka 1:1) Af þeim samlíkingum, sem spámaðurinn notar til að undirstrika boðskap sinn, er ljóst að hann er gagnkunnugur lífi fólks til sveita.

EDÓM VERÐUR „AÐ EILÍFU UPPRÆTTUR“

(Óbadía 1-21)

Óbadía segir um Edóm: „Sökum ofríkis þess, er þú hefir sýnt bróður þínum Jakob, skal smán hylja þig, og þú skalt að eilífu upprættur verða.“ Spámanninum eru ofarlega í huga nýafstaðin níðingsverk sem Edómítar unnu á Ísraelsmönnum, afkomendum Jakobs. Þegar Babýloníumenn eyddu Jerúsalem árið 607 f.Kr. stóðu Edómítar „andspænis“ þeim og lögðust á sveif með ‚útlendingunum‘ sem gert höfðu innrás. — Óbadía 10, 11.

Ætt Jakobs á hins vegar endurreisn í vændum. Í spádómi Óbadía segir: „Á Síonfjalli skal frelsun verða, og það skal heilagt vera.“ — Óbadía 17.

Biblíuspurningar og svör:

Vers 5-8 — Hvaða þýðingu hefur það að eyðing Edóms skuli borin saman við vínlestursmenn og ræningja að náttarþeli? Ef þjófar hefðu komið til Edóms hefðu þeir ekki stolið meiru en þeir gátu tekið með sér. Ef vínlestursmenn hefðu komið hefðu þeir skilið eftir eitthvað af uppskerunni til eftirtínings. Þegar Edóm fellur fara Babýloníumenn hins vegar ránshendi um landið, leita vandlega uppi fjársjóði landsmanna og hirða þá alla, en Babýloníumenn höfðu verið „sambandsmenn“ eða bandamenn Edómíta. — Jeremía 49:9, 10.

Vers 10 — Hvernig var Edóm „að eilífu upprættur“? Edómítar liðu undir lok sem þjóð með ríkisstjórn og þegnum búsettum á ákveðnu landsvæði. Nabónídus, konungur Babýlonar, vann Edóm um miðbik sjöttu aldar f.Kr. Á fjórðu öld f.Kr. bjuggu Nabatear í landi Edómíta sem urðu að setjast að í sunnanverðri Júdeu, á svæði í Negeb sem síðar var kallað Ídúmea. Edómítar hurfu af sjónarsviðinu eftir að Rómverjar eyddu Jerúsalem árið 70 e.Kr.

Lærdómur:

Vers 3, 4. Edómítar bjuggu á hrjóstrugu svæði með háum fjöllum og djúpum giljum þar sem óvinveittar hersveitir áttu erfitt með að athafna sig. Hugsanlegt er að þeir hafi þess vegna talið sig örugga og óhulta. En dómar Jehóva eru óumflýjanlegir.

Vers 8, 9, 15. Viska og máttur manna veitir enga vernd á ‚degi Drottins‘. — Jeremía 49:7, 22.

Vers 12-14. Edómítar eru til viðvörunar þeim sem hlakka yfir óförum þjóna Guðs. Jehóva lítur það alvarlegum augum ef þjónar hans sæta illri meðferð.

Vers 17-20. Þessi endurreisnarspádómur byrjaði að rætast á niðjum Jakobs þegar sumir þeirra sneru heim til Jerúsalem frá Babýlon árið 537 f.Kr. Orð Jehóva rætast alltaf. Við getum treyst fyrirheitum hans í hvívetna.

„SKAL NÍNÍVE VERÐA Í EYÐI LÖGГ

(Jónas 1:1–4:11)

Jónas fær þau fyrirmæli frá Guði að fara „til Níníve, hinnar miklu borgar, og prédika móti henni“ dóm. En Jónas forðar sér og fer í öfuga átt. Jehóva beitir „miklum stormi á sjóinn“ og ‚stórfiski‘ til að beina Jónasi á rétta braut, og segir honum öðru sinni að fara til höfuðborgar Assýríu. — Jónas 1:2, 4; 2:1; 3:1, 2.

Jónas gengur inn í borgina og flytur einfaldan boðskap: „Að fjörutíu dögum liðnum skal Níníve verða í eyði lögð.“ (Jónas 3:4) Óvænt viðbrögð borgarbúa við boðun hans verða til þess að hann reiðist stórlega. Jehóva notar þá „rísínusrunn“ til að kenna honum lexíu í miskunn. — Jónas 4:1, 6.

Biblíuspurningar og svör:

3:3 — Var Níníve raunverulega „þrjár dagleiðir á lengd“? Já, það er mjög líklegt að byggðin frá Khorsabad í norðri til Nimrud í suðri hafi talist tilheyra Níníve forðum daga. Borgin og þessi úthverfi mynda ferhyrning sem er 100 km að ummáli.

3:4 — Þurfti Jónas að læra tungu Assýringa til að prédika fyrir Nínívebúum? Hugsanlegt er að hann hafi kunnað málið fyrir eða fengið hæfileika til þess vegna kraftaverks. Annar möguleiki er að hann hafi flutt gagnorðan boðskap sinn á hebresku og látið túlka fyrir sig. Ef svo hefur verið hefur boðskapurinn vakið enn meiri forvitni.

Lærdómur:

1:1-3. Það er vísbending um rangar hvatir að skipuleggja sig þannig að maður geti ekki tekið nema takmarkaðan þátt í því að boða Guðsríki og gera menn að lærisveinum. Það má orða það svo að sá sem gerir það hlaupi frá verkefni sem Guð hefur falið honum.

1:1, 2; 3:10. Jehóva takmarkar ekki miskunn sína við eina þjóð, kynþátt eða hóp manna. „Drottinn er öllum góður, og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar.“ — Sálmur 145:9.

2:1, 11. Vera Jónasar í stórfiskinum í þrjá daga og nætur er spádómlegt tákn um dauða Jesú og upprisu. — Matteus 12:39, 40; 16:21.

2:1, 11; 4:6. Jehóva bjargaði Jónasi úr hafrótinu. Hann lét einnig „rísínusrunn upp spretta yfir Jónas til þess að bera skugga á höfuð hans og til þess að hafa af honum óhuginn“. Tilbiðjendur Jehóva nú á tímum geta treyst á Guð og miskunn hans, vitandi að hann verndar þá og bjargar þeim. — Sálmur 13:6; 40:12.

2:2, 3, 10, 11. Jehóva heyrir bænir þjóna sinna og leggur eyrun við áköllum þeirra. — Sálmur 120:1; 130:1, 2.

3:8, 10. Hinn sanni Guð „iðraðist“ eða skipti um skoðun varðandi þá ógæfu sem hann hafði ætlað Nínívemönum. Hann „lét hana ekki fram koma“ af því að Nínívemenn „létu af illri breytni sinni“. Syndari getur afstýrt dómi Guðs yfir sér ef hann sýnir sanna iðrun.

4:1-4. Enginn maður getur fengið Guð til að setja miskunn sinni takmörk. Við ættum að varast að gagnrýna miskunn hans.

4:11. Í þolinmæði sinni lætur Jehóva boða fagnaðarerindið um ríkið út um alla jörðina. Hann kennir í brjósti um þá sem „ekki þekkja hægri hönd sína frá hinni vinstri“, líkt og þeir 120.000 sem bjuggu í Níníve. Ættum við ekki að kenna í brjósti um fólkið á starfssvæði okkar og leggja okkur dyggilega fram við að boða ríki Guðs og gera menn að lærisveinum? — 2. Pétursbréf 3:9.

‚SKALLI ÞEIRRA VERÐUR BREIÐUR‘

(Míka 1:1–7:20)

Míka afhjúpar syndir Ísraels og Júda, boðar að höfuðborgir þeirra verði eyddar og lofar endurreisn. Samaría á að verða „grjótrúst á víðavangi“. Ísrael og Júda verðskulda að fá „skalla“ vegna skurðgoðadýrkunar sinnar en skallinn táknar skömm. Með því að senda þá í útlegð verður skalli þeirra ‚breiður sem á gammi‘ og er þar greinilega átt við gammategund sem er aðeins með örlítið af mjúku hári á höfðinu. Jehóva lofar: „Safna, já safna vil ég, Jakob.“ (Míka 1:6, 16; 2:12) Jerúsalem á líka að verða að „rúst“ vegna spillingar leiðtoganna og óhlýðni spámannanna. En Jehóva ætlar að „færa saman“ þjóð sína. „Drottnari í Ísrael“ á að koma frá „Betlehem Efrata“. — Míka 3:12; 4:12; 5:1.

Hefur Jehóva verið ósanngjarn við Ísrael? Gerir hann of miklar kröfur? Nei, Jehóva fer ekki fram á annað af tilbiðjendum sínum en að „gjöra rétt, ástunda kærleika og fram ganga í lítillæti“ fyrir Guði sínum. (Míka 6:8) Hins vegar eru samtíðarmenn Míka orðnir svo spilltir að „hinn besti meðal þeirra er sem þyrnir og hinn ráðvandasti verri en þyrnigerði“ sem meiðir hvern þann sem kemur nærri. En spámaðurinn spyr: „Hver er slíkur Guð sem þú [Jehóva]?“ Hann ætlar að miskunna fólki sínu enn á ný og „varpa öllum syndum [þess] í djúp hafsins“. — Míka 7:4, 18, 19.

Biblíuspurningar og svör:

2:12 — Hvenær rættist spádómurinn um að Jehóva ‚færði saman leifar Ísraels‘? Hann rættist fyrst árið 537 f.Kr. þegar hópur Gyðinga sneri heim úr útlegðinni í Babýlon. Á síðari tímum rætist spádómurinn á „Ísrael Guðs“. (Galatabréfið 6:16) Síðan 1919 hefur andasmurðum kristnum mönnum verið safnað saman „eins og sauðfé í rétt“. „Mikill múgur“ af ‚öðrum sauðum‘ hefur gengið til liðs við þá, einkum frá 1935, svo að nú er „kliður mikill af mannmergðinni“. (Opinberunarbókin 7:9; Jóhannes 10:16) Í sameiningu vinna þeir dyggilega að því að efla sanna tilbeiðslu.

4:1-4 — Hvernig mun Jehóva „dæma meðal margra lýða og skera úr málum voldugra þjóða“ „á hinum síðustu dögum“? Með orðunum ‚margir lýðir‘ og ‚voldugar þjóðir‘ er ekki átt við pólitískar þjóðir eða samtök þjóða heldur einstaklinga sem eru af öllum þjóðum og hafa lært að tilbiðja Jehóva. Hann dæmir og sker úr málum þeirra í andlegum skilningi.

Lærdómur:

1:6, 9; 3:12; 5:1. Assýringar eyddu Samaríu á dögum Míka. Það gerðist árið 740 f.Kr. (2. Konungabók 17:5, 6) Þeir komust allt til Jerúsalem í stjórnartíð Hiskía. (2. Konungabók 18:13) Babýloníumenn eyddu svo Jerúsalem og brenndu hana árið 607 f.Kr. (2. Kroníkubók 36:19) Messías fæddist í „Betlehem Efrata“ eins og spáð var. (Matteus 2:3-6) Spádómsorð Jehóva bregðast aldrei.

2:1, 2. Það væri hættulegt fyrir okkur að segjast þjóna Guði en leita ekki fyrst „ríkis hans og réttlætis“ heldur sækjast fyrst og fremst eftir veraldlegum auði. — Matteus 6:33; 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10.

3:1-3, 5. Jehóva væntir þess að þeir sem fara með forystuhlutverk meðal þjóna hans séu réttlátir.

3:4. Ef við viljum að Jehóva svari bænum okkar megum við ekki iðka synd eða lifa tvöföldu lífi.

3:8. Við höfum það verkefni að prédika fagnaðarerindið og það felur einnig í sér dómsboðskap. Við getum ekki gert því skil nema við fáum styrk af heilögum anda.

5:4. Þessi Messíasarspádómur er fyrirheit um að ‚sjö hirðar‘ (talan sjö táknar algerleika) og ‚átta þjóðhöfðingjar‘ (töluverður fjöldi hæfra manna) verði látnir fara með forystu meðal þjóna Jehóva þegar ráðist er á þá.

5:6, 7. Andasmurðir kristnir menn nú á dögum eru eins og „dögg frá Drottni“. Þeir eru blessun frá Guði vegna þess að hann notar þá til að boða boðskapinn um ríkið. ‚Aðrir sauðir‘ styðja hina andasmurðu dyggilega í boðunarstarfinu og leggja þeim lið við að hjálpa fólki að eignast samband við Guð. (Jóhannes 10:16) Það er mikill heiður að mega taka þátt í þessu starfi sem er svo endurnærandi fyrir aðra.

6:3, 4. Við ættum að líkja eftir Jehóva Guði og vera vingjarnleg og umhyggjusöm við þá sem eru erfiðir í umgengni eða hafa látið sambandi sínu við Guð hraka.

7:7. Við ættum ekki að missa vonina þó að það sé við margs konar erfiðleika að glíma undir lok þessa illa heims. Við skulum „bíða eftir Guði“ líkt og Míka gerði.

7:18, 19. Verum fús til að fyrirgefa þeim sem gera á hlut okkar, rétt eins og Jehóva er fús til að fyrirgefa syndir okkar.

„Göngum í nafni Drottins“ Jehóva

Þeir sem berjast gegn Guði og þjónum hans verða ‚upprættir að eilífu‘. (Óbadía 10) Við getum hins vegar bægt reiði hans frá okkur með því að hlýða viðvörunum hans og ‚láta af illri breytni okkar‘. (Jónas 3:10) „Á hinum síðustu dögum,“ það er að segja núna, er sönn tilbeiðsla hafin hátt yfir falstrú af öllu tagi og fólk streymir að til að tilbiðja Jehóva í sannleika. (Míka 4:1; 2. Tímóteusarbréf 3:1) Verum því staðráðin í að ‚ganga í nafni Drottins, Guðs vors, æ og ævinlega‘. — Míka 4:5.

Við lærum margt af spádómsbókum Óbadía, Jónasar og Míka. Þótt liðin séu meira en 2500 ár frá því að þær voru skrifaðar er boðskapur þeirra lifandi og kröftugur enn þann dag í dag. — Hebreabréfið 4:12.

[Mynd á blaðsíðu 29]

Óbadía spáði að Edóm skyldi „að eilífu upprættur verða“.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Míka var ákveðinn í að „bíða eftir Guði“. Þú getur líkt eftir honum.

[Mynd á blaðsíðu 32]

Það er mikill heiður að mega boða fagnaðarerindið.