Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Hinn minnsti“ er orðinn að „þúsund“

„Hinn minnsti“ er orðinn að „þúsund“

 „Hinn minnsti“ er orðinn að „þúsund“

„Hinn minnsti skal verða að þúsund og hinn lítilmótlegasti að voldugri þjóð.“ — JESAJA 60:22.

1, 2. (a) Af hverju grúfir myrkur yfir jörðinni núna? (b) Hvernig hefur ljós Jehóva skinið æ skærar á fólk hans?

„MYRKUR grúfir yfir jörðinni og sorti yfir þjóðunum. En yfir þér upp rennur [Jehóva], og dýrð hans birtist yfir þér.“ (Jesaja 60:2) Þessi orð lýsa ágætlega ástandinu sem verið hefur á jörðinni síðan 1919. Kristni heimurinn hefur hafnað tákninu um konunglega nærveru Jesú Krists, ‚ljóss heimsins.‘ (Jóhannes 8:12; Matteus 24:3) Sökum þess að Satan, höfðingi „heimsdrottna þessa myrkurs,“ er „í miklum móð“ hefur 20. öldin verið mesti grimmdar- og skaðræðistími sögunnar. (Opinberunarbókin 12:12; Efesusbréfið 6:12) Flestir jarðarbúar eru í andlegu myrkri.

2 En það skín þó ljós nú á dögum. Jehóva hefur ‚runnið upp‘ og skín yfir þjónum sínum, leifum hinna smurðu sem eru jarðneskir fulltrúar himneskrar ‚konu‘ hans. (Jesaja 60:1) Síðan þeir voru leystir úr babýlonskri ánauð árið 1919 hafa þeir sérstaklega endurspeglað dýrð Guðs og látið ‚ljós sitt lýsa meðal mannanna.‘ (Matteus 5:16) Ljós Guðsríkis varð æ sterkara allt frá 1919 til 1931 um leið og þeir vörpuðu af sér þeim hlekkjum babýlonskrar hugsunar sem eftir voru. Jehóva efndi loforð sitt og þeim fjölgaði upp í tugi þúsunda: „Safna, já safna vil ég, Jakob, öllum þínum, færa saman leifar Ísraels eins og sauðfé í rétt, eins og hjörð í haga, og þar skal verða kliður mikill af mannmergðinni.“ (Míka 2:12) Þegar fólk Jehóva tók sér nafnið vottar Jehóva árið 1931 varð dýrð hans yfir því enn ljósari. — Jesaja 43:10, 12.

3. Hvernig varð ljóst að ljós Jehóva myndi skína á fleiri en hina smurðu?

3 Ætlaði Jehóva aðeins að skína yfir þeim sem eftir voru af ‚litlu hjörðinni‘? (Lúkas  12:32) Nei, hinn 1. september 1931 benti Varðturninn á annan hóp. Með greinagóðri skýringu á Esekíel 9:1-11 var sýnt fram á að maðurinn með skriffærin, sem þar er nefndur, tákni hinar smurðu leifar. Hverja merkti þessi ‚maður‘ á ennið? Það voru ‚aðrir sauðir‘ sem eiga þá von að lifa að eilífu í paradís á jörð. (Jóhannes 10:16; Sálmur 37:29) Árið 1935 var sýnt fram á að þessi hópur ‚annarra sauða‘ væri hinn ‚mikli múgur af alls kyns fólki‘ sem Jóhannes postuli sá í sýn. (Opinberunarbókin 7:9-14) Frá 1935 fram á okkar dag hefur athyglin beinst aðallega að því að safna saman hinum mikla múgi.

4. Hverjir eru ‚konungarnir‘ og „þjóðirnar“ sem nefndar eru í Jesaja 60:3?

4 Þessi samansöfnun er nefnd óbeint í spádómi Jesaja þar sem segir: „Þjóðirnar stefna á ljós þitt og konungar á ljómann, sem upp rennur yfir þér.“ (Jesaja 60:3) Hverjir eru ‚konungarnir‘ sem hér eru nefndir? Það eru þeir sem eftir eru af hinum 144.000 sem eru, ásamt Jesú Kristi, samerfingjar að ríkinu á himnum. Þeir veita boðunarstarfinu forystu. (Rómverjabréfið 8:17; Opinberunarbókin 12:17; 14:1) Núna eru aðeins fáeinar þúsundir eftir af hinum smurðu leifum en „þjóðirnar,“ sem eiga jarðneska von, eru margfalt fjölmennari. Þær koma til að fá fræðslu hjá Jehóva og hvetja aðra til að slást í för með sér. — Jesaja 2:3.

Kappsamir þjónar Jehóva

5. (a) Hvað ber vitni um að kostgæfni fólks Jehóva hefur ekki dvínað? (b) Hvaða lönd skera sig úr sökum aukningar á síðasta ári? (Sjá skýrsluna á bls. 17-20.)

5 Nútímavottar Jehóva hafa sýnt mikið kapp og kostgæfni alla 20. öldina. Og kostgæfni þeirra dvínaði ekki þrátt fyrir aukið álag er leið að árinu 2000. Þeir tóku enn þá mjög alvarlega fyrirmæli Jesú um að ‚fara og gera allar þjóðir að lærisveinum.‘ (Matteus 28:19, 20) Tala virkra boðbera fagnaðarerindisins náði nýju hámarki á síðasta þjónustuári, 5.912.492. Þeir vörðu heilum 1.144.566.849 klukkustundum samanlagt til að tala við aðra um Guð og tilgang hans. Þeir fóru í 420.047.796 endurheimsóknir til áhugasamra og héldu 4.433.884 ókeypis heimabiblíunámskeið. Þetta ber sannarlega vott um kappsama þjónustu.

6. Hvaða breyting var gerð á starfi brautryðjenda og hver voru viðbrögðin?

6 Í janúar síðastliðnum tilkynnti hið stjórnandi ráð um breytingu á tímakröfum brautryðjenda. Margir notfærðu sér hana og gerðust reglulegir brautryðjendur eða aðstoðarbrautryðjendur. Fyrstu fjóra mánuði ársins 1999 bárust útibúi Félagsins í Hollandi fjórfalt fleiri umsóknir um reglulegt brautryðjandastarf en á sama tíma árið áður, svo dæmi sé tekið. Útibúið í Ghana greinir frá því að reglulegum brautryðjendum hafi fjölgað jafnt og þétt síðan nýja stundakrafan tók gildi. Brautryðjendur urðu 738.343 um heim allan þjónustuárið 1999 sem er afbragðsdæmi um ‚kostgæfni til góðra verka.‘ — Títusarbréfið 2:14.

7. Hvernig hefur Jehóva blessað kostgæfni þjóna sinna?

7 Hefur Jehóva blessað kostgæfni þjóna sinna? Já, hann segir fyrir munn Jesaja: „Hef upp augu þín og litast um: Þeir safnast allir saman og koma til þín. Synir þínir koma af fjarlægum löndum, og dætur þínar eru bornar á mjöðminni.“ (Jesaja 60:4) Smurðir „synir“ og „dætur,“ sem safnað hefur verið saman, þjóna Guði enn kostgæfilega. Og núna er öðrum sauðum Jesú safnað við hlið smurðra ‚sona og dætra‘ Jehóva í 234 löndum og eyjum.

‚Sérhvert gott verk‘

8. Hvaða ‚góð verk‘ vinna vottar Jehóva?

8 Sú skylda hvílir á kristnum mönnum að boða fagnaðarerindið um ríkið og gera áhugasamt fólk að lærisveinum. Þeir eru ‚hæfir til sérhvers góðs verks.‘  (2. Tímóteusarbréf 3:17) Þeir annast fjölskyldur sínar, eru gestrisnir og heimsækja sjúka. (1. Tímóteusarbréf 5:8; Hebreabréfið 13:16) Og sjálfboðaliðar taka þátt í byggingarframkvæmdum, til dæmis ríkissalabyggingum, og það er líka vitnisburður. Eftir að ríkissalur hafði verið reistur í Tógó spurðu forystumenn vakningarkirkju á staðnum hvernig vottar Jehóva færu að því að reisa sín eigin hús en kirkjan þyrfti að nota aðkeypt vinnuafl. Tógóútibúið greinir frá því að bygging vandaðra ríkissala hafi svo jákvæð áhrif á hverfið að sumir reyni að leigja eða byggja hús í nágrenni ríkissala.

9. Hvernig hafa vottar Jehóva brugðist við náttúruhamförum?

9 Stundum er þörf á annars konar góðverkum. Náttúruhamfarir urðu víða um lönd á síðasta þjónustuári og oft voru vottar Jehóva fyrstir á vettvang með hjálpargögn. Fellibylurinn Mitch olli miklu tjóni í stórum hluta Hondúras. Útibúið þar í landi skipaði þegar í stað neyðarnefndir til að skipuleggja hjálparstarf. Vottar í Hondúras og fjölda annarra landa gáfu fatnað, matvæli, lyf og aðrar nauðsynjar. Svæðisbygginganefndir notuðu kunnáttu sína til að endurbyggja íbúðarhús. Skömmu síðar gátu þeir sem urðu fyrir tjóni snúið aftur til daglegra starfa. Í Ekvador komu vottar Jehóva bræðrum sínum til hjálpar þegar sumir þeirra misstu heimili sín vegna flóða. Opinber embættismaður sagði eftir að hafa fylgst með hversu vel vottarnir tóku á málum: „Ég gæti unnið kraftaverk ef ég hefði þennan hóp á mínum snærum. Það ætti að vera fólk eins og þið alls staðar í heiminum.“ Góðverk eins og þessi eru Jehóva Guði til lofs og bera vott um ‚guðhræðslu sem er til allra hluta nytsamleg.‘ — 1. Tímóteusarbréf 4:8.

Þeir „koma fljúgandi eins og ský“

10. Hvers vegna er nafn Jehóva boðað meira en nokkru sinni fyrr, þó svo að hinum smurðu fari fækkandi?

10 Nú spyr Jehóva: „Hverjir eru þessir, sem koma fljúgandi eins og ský og sem dúfur til búra sinna? Mín bíða eylöndin, og Tarsis-knerrir fara fremstir til þess að flytja sonu þína heim af fjarlægum löndum . . . Útlendir menn munu hlaða upp múra þína og konungar þeirra þjóna þér.“ (Jesaja 60:8-10) Smurðir kristnir menn, ‚synir‘ Jehóva, voru fyrstir til þegar hann ‚rann upp.‘ Svo komu „útlendir menn,“ múgurinn mikli sem þjónar dyggilega með smurðum bræðrum sínum og fylgja forystu þeirra í boðun fagnaðarerindisins. Þannig er nafn Jehóva boðað meir en nokkru sinni fyrr um alla jörðina, þótt hinum smurðu fari fækkandi.

11. (a) Hvað heldur enn áfram og hver var árangurinn á síðasta ári? (b) Í hvaða löndum skírðust áberandi margir? (Sjá skýrsluna á bls. 17-20.)

11 Árangurinn er sá að milljónir manna streyma að „sem dúfur til búra sinna“ og finna skjól í kristna söfnuðinum. Hundruð þúsunda manna bætast við árlega og leiðin er enn opin. Jesaja segir: „Hlið þín munu ávallt opin standa, þeim er hvorki lokað dag né nótt, til þess að menn geti fært þér fjárafla þjóðanna.“ (Jesaja 60:11) Á síðasta ári gáfu 323.439 tákn um vígslu til Jehóva með því að láta skírast, og hann hefur ekki lokað hliðunum enn. „Gersemar allra þjóða,“ múgurinn mikli, heldur enn áfram að streyma inn um hliðin. (Haggaí 2:7) Engum er vísað frá sem vill yfirgefa myrkrið. (Jóhannes 12:46) Megi þeir alltaf meta ljósið að verðleikum.

Óttalausir gagnvart andstöðu

12. Hvernig hafa þeir sem elska myrkrið reynt að slökkva ljósið?

12 Þeir sem elska myrkrið hata ljósið frá  Jehóva. (Jóhannes 3:19) Sumir reyna jafnvel að slökkva ljósið. Það kemur ekki á óvart. Jafnvel Jesús, „hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann,“ var hæddur, honum var andmælt og hann var að síðustu drepinn af samlöndum sínum. (Jóhannes 1:9) Alla 20. öldina hafa vottar Jehóva líka verið hæddir, fangelsaðir, bannaðir og jafnvel drepnir fyrir að endurspegla ljós Jehóva í trúfesti. Á síðustu árum hafa andstæðingar brugðið á það ráð að breiða út lygar í fjölmiðlum um þá sem endurspegla ljós Guðs. Sumir vilja telja fólki trú um að vottar Jehóva séu hættulegir og að það eigi að takmarka eða banna starfsemi þeirra. Hefur þeim tekist það?

13. Hvaða árangri hefur það skilað að koma staðreyndum um starf okkar á framfæri við fjölmiðla?

13 Nei, þar sem það hefur átt við hafa vottar Jehóva komið staðreyndunum á framfæri við fjölmiðla með þeim árangri að nafni Jehóva hefur verið haldið á loft í dagblöðum, tímaritum, útvarpi og sjónvarpi. Þetta hefur haft góð áhrif á boðunarstarfið. Í Danmörku var sýndur þáttur í ríkissjónvarpi sem nefndist: „Hvers vegna fer trúin dvínandi í Danmörku?“ Í þættinum var meðal annars viðtal við votta Jehóva. Kona sagði eftir að hafa horft á þáttinn: „Það var augljóst hverjir höfðu anda Guðs,“ og þáði biblíunámskeið.

14. Hvað munu andstæðingar neyðast til að viðurkenna bráðlega, sér til skapraunar?

14 Vottar Jehóva vita að margir munu berjast gegn þeim í þessum heimi. (Jóhannes 17:14) En þeir sækja styrk í spádóm Jesaja: „Synir þeirra, sem kúguðu þig, munu koma til þín niðurlútir, og allir þeir, sem smánuðu þig, munu fleygja sér flötum fyrir fætur þér. Þeir munu kalla þig borg [Jehóva], Síon Hins heilaga í Ísrael.“ (Jesaja 60:14) Sér til skapraunar munu andstæðingarnir uppgötva innan skamms að þeir hafa í rauninni verið að berjast gegn Guði sjálfum. Hver getur unnið slíkan bardaga?

15. Hvernig hafa vottar Jehóva ‚drukkið mjólk þjóðanna‘ og hvernig endurspeglast það í kennslu þeirra og trúboði?

15 Jehóva lofar enn fremur: „Ég [geri] þig að eilífri vegsemd, að fögnuði margra kynslóða. Og þú munt drekka mjólk þjóðanna og sjúga brjóst konunganna, og þá skalt þú reyna það, að ég, [Jehóva], er frelsari þinn.“ (Jesaja 60:15, 16) Já, Jehóva er frelsari þjóna sinna. Ef þeir reiða sig á hann munu þeir standa ‚að eilífu.‘ Og þeir munu „drekka mjólk þjóðanna“ með því að nota ýmis tiltæk úrræði til að efla sanna tilbeiðslu. Skynsamleg notkun fjarskipta- og tölvutækni hefur til dæmis gert þeim kleift að gefa tímaritið Varðturninn út samtímis á 121 tungumáli og Vaknið! á 62. Sérstakur hugbúnaður hefur verið gerður til að auðvelda þýðingu Nýheimsþýðingarinnar á ný tungumál, og þessar nýju þýðingar vekja mikla gleði. Þúsundir manna felldu gleðitár þegar kristnu Grísku ritningarnar voru gefnar út á króatísku árið 1999. Roskinn bróðir sagði: „Ég hef beðið svo lengi eftir þessari biblíu. Nú get ég dáið í friði!“ Nýheimsþýðingunni hefur nú verið dreift í heild eða að hluta í meira en 100 milljónum eintaka á 34 tungumálum.

Siðferði á háu stigi

16, 17. (a) Hvers vegna er miklvægt að halda siðferðiskröfur Jehóva? (b) Hvaða dæmi sýnir að ungt fólk getur forðast mengun heimsins?

16 Jesús sagði: „Hver sem illt gjörir hatar ljósið.“ (Jóhannes 3:20) Þeim sem halda sig í ljósinu þykir hins vegar vænt um siðferðisreglur  Jehóva. Jehóva segir fyrir munn Jesaja: „Lýður þinn — þeir eru allir réttlátir.“ (Jesaja 60:21a) Það er ekki auðvelt að halda réttar siðferðisreglur í heiðri í heimi þar sem siðleysi, lygi, ágirnd og dramb er útbreitt. Í sumum löndum er efnahagslíf í miklum blóma, og þar er hægur vandi að fara út af sporinu og fara að sækjast ákaft eftir peningum. En Páll áminnti: „Þeir, sem ríkir vilja verða, falla í freistni og snöru og alls kyns óviturlegar og skaðlegar fýsnir, er sökkva mönnunum niður í tortímingu og glötun.“ (1. Tímóteusarbréf 6:9) Það er sorglegt þegar einhver verður svo upptekinn af viðskiptum og rekstri að hann fórnar því sem skiptir raunverulegu máli, svo sem kristnum samkomum og heilagri þjónustu, og varpar frá sér góðu siðferði og hættir að sinna skyldum sínum gagnvart fjölskyldunni.

17 Það getur verið sérlega erfitt fyrir unga fólkið að halda sig við réttar  siðferðisreglur því að margir af jafnöldrunum neyta fíkniefna og lifa í siðleysi. Í Súrínam kom myndarlegur piltur að máli við fjórtán ára stúlku og bauð henni að eiga kynmök við sig. Hún afþakkaði og útskýrði að Biblían banni slíkt utan hjónabands. Aðrar stúlkur í skólanum gerðu gys að henni og reyndu að fá hana til að skipta um skoðun. Þær sögðu að allar stelpurnar langaði til að sofa hjá þessum strák. En stúlkan sat við sinn keip. Fáeinum vikum síðar greindist pilturinn HIV-jákvæður og veiktist hastarlega. Stúlkan var lifandi fegin að hún skyldi hafa hlýtt fyrirmælum Jehóva um að ‚halda sig frá saurlifnaði.‘ (Postulasagan 15:28, 29) Vottar Jehóva eru afar stoltir af unga fólkinu sín á meðal sem er staðfast í réttri breytni. Trú þess og foreldranna ‚vegsamar‘ og heiðrar nafn Jehóva Guðs. — Jesaja 60:21b.

Jehóva hefur gefið vöxtinn

18. (a) Hvað hefur Jehóva gert fyrir fólk sitt? (b) Hvað bendir til að vöxturinn muni halda áfram og hvaða framtíð bíður þeirra sem halda sig í ljósinu?

18 Já, Jehóva lætur ljós sitt lýsa á þjóna sína. Hann blessar þá, leiðbeinir og styrkir. Þeir hafa séð rætast orð Jesaja á 20. öldinni: „Hinn minnsti skal verða að þúsund og hinn lítilmótlegasti að voldugri þjóð. Ég, [Jehóva], mun hraða því, þegar að því kemur.“ (Jesaja 60:22) Þjónar Jehóva voru ekki margir árið 1919 en núna er „hinn minnsti“ orðinn meira en „þúsund.“ Og vextinum er enn ekki lokið! Á síðasta ári sóttu 14.088.751 alls minningarhátíðina um dauða Jesú. Margir þeirra voru ekki starfandi vottar. Það gleður okkur að þeir skyldu vera viðstaddir þessa mikilvægu minningarhátíð, og við hvetjum þá til að halda áfram í átt til ljóssins. Jehóva skín enn sem skært ljós yfir þjóna sína. Dyrnar að skipulagi hans standa enn opnar. Við skulum því öll vera staðráðin í að halda okkur í ljósi Jehóva. Það hefur í för með sér ríkulega blessun fyrir okkur núna. Og það á eftir að vera mikið gleðiefni í framtíðinni þegar öll sköpunin lofar Jehóva og fagnar í ljóma dýrðar hans! — Opinberunarbókin 5:13, 14.

Geturðu svarað?

Hverjir hafa endurspeglað dýrð Jehóva núna á síðustu dögum?

Hvað sýnir að kostgæfni fólks Jehóva hefur ekki dvínað?

Nefndu nokkur góð verk sem vottar Jehóva eru önnum kafnir við.

Hverju treystum við þrátt fyrir megna andstöðu?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 15]

Fólk streymir enn inn í skipulag Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 16]

Það gleður okkur að Jehóva skuli halda dyrunum opnum fyrir þeim sem elska ljósið.