Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að hjálpa þeim sem glíma við geðraskanir

Að hjálpa þeim sem glíma við geðraskanir

BIBLÍAN SEGIR: „Sannur vinur elskar alltaf og er sem bróðir á raunastund.“ – ORÐSKVIÐIRNIR 17:17.

Hvað þýðir það?

Okkur geta auðveldlega fallist hendur ef vinur glímir við geðröskun. En við getum sýnt hve vænt okkur þykir um vin okkar með því að hjálpa honum að takast á við veikindin.

Hvernig hjálpar þetta?

‚Vertu fljótur til að heyra.‘ – JAKOBSBRÉFIÐ 1:19.

Eitt af því besta sem þú getur gert er að hlusta á vin þinn þegar hann vill tala. Þú þarft ekki að svara öllu sem hann segir. Láttu hann vita að þú ert að hlusta og reyndu að sýna honum umhyggju. Reyndu að skilja hvernig honum líður og ekki dæma hann fyrir það. Hafðu í huga að hann segir kannski eitthvað sem hann meinar ekki og sér seinna eftir. – Jobsbók 6:2, 3.

‚Hughreystu niðurdregna.‘ – 1. ÞESSALONÍKUBRÉF 5:14.

Vinur þinn er kannski kvíðinn eða finnst hann einskis virði. Þú getur verið hughreystandi og uppörvandi með því að fullvissa hann um að þér sé annt um hann, jafnvel þó að þú vitir ekki nákvæmlega hvað þú eigir að segja.

„Sannur vinur elskar alltaf.“ – ORÐSKVIÐIRNIR 17:17.

Bjóddu fram aðstoð. Spyrðu hvað þú getir gert í stað þess að gera ráð fyrir að þú vitir hvernig þú getir hjálpað. Ef vinur þinn á erfitt með að útskýra hvers hann þarfnast geturðu stungið upp á að þið gerið eitthvað saman, eins og til dæmis að fara í göngutúr. Þú gætir líka boðist til að aðstoða hann við innkaup, þrif eða einhver önnur verk. – Galatabréfið 6:2.

‚Vertu þolinmóður.‘ – 1. ÞESSALONÍKUBRÉF 5:14.

Vinur þinn er kannski ekki alltaf tilbúinn til að tala. Fullvissaðu hann um að þú sért alltaf tilbúinn til að hlusta ef hann langar til að tala. Vegna veikindanna gerir hann kannski eitthvað eða segir sem særir þig. Hann afboðar kannski það sem þið hafið ákveðið eða verður pirraður. Sýndu honum þann stuðning sem hann þarf og vertu þolinmóður og skilningsríkur. – Orðskviðirnir 18:24.

Stuðningur þinn getur skipt sköpum

„Ég legg mig fram um að vera vinur sem hún getur alltaf reitt sig á. Þó að ég hafi ekki lausn á vandamálum hennar reyni ég alltaf að hlusta á hana. Stundum þarf hún bara að fá að tala við einhvern til að líða betur.“ – Farrah, a en vinkona hennar glímir við átröskun, kvíða og alvarlegt þunglyndi.

„Ein vinkona mín er svo góð og jákvæð. Hún bauð mér heim í góðan mat. Í þessu hlýlega andrúmslofti gat ég sagt henni hvernig mér leið. Það var svo uppörvandi.“ – Ha-eun, sem glímir við alvarlegt þunglyndi.

„Það er mjög mikilvægt að sýna þolinmæði. Þegar konan mín gerir eitthvað sem kemur mér í uppnám reyni ég að minna mig á að það er út af veikindunum sem hún gerir það. Það hjálpar mér að verða ekki reiður og að sýna henni meiri nærgætni.“ – Jacob, en eiginkona hans þjáist af alvarlegu þunglyndi.

„Konan mín hefur veitt mér einstakan stuðning og hughreystingu. Þegar kvíðinn gagntekur mig neyðir hún mig aldrei til að gera eitthvað sem ég vil ekki gera. Það þýðir stundum að hún getur ekki gert eitthvað sem hún hefði gjarnan viljað. Fórnfýsi hennar og örlæti er ómetanlegt.“ – Enrico, sem þjáist af kvíðaröskun.

a Sumum nöfnum er breytt.