Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Hvað merkir það að stafirnir tveir í 37. kafla Esekíels sameinist í einn?

Fyrir milligöngu Esekíels sagði Jehóva fyrir að Ísraelsþjóðin myndi snúa aftur til fyrirheitna landsins og verða sameinuð á ný. Þetta loforð er einnig spádómur um þá sameiningu sem hófst meðal þjóna Guðs á síðustu dögum.

Jehóva sagði spámanni sínum Esekíel að skrifa á tvo stafi. Á annan átti hann að skrifa: „Júda og Ísraelsmenn, sem eru í bandalagi við hann,“ og á hinn: „Jósef, stafur Efraíms, og allir Ísraelsmenn, sem eru í bandalagi við hann.“ Stafirnir tveir áttu að verða „að einum“ í hendi Esekíels. – Esek. 37:15-17, Biblían 1981.

 Við hvað er átt þegar talað er um ,Efraím‘? Jeróbóam, fyrsti konungur tíuættkvíslaríkisins í norðri, var af ættkvísl Efraíms, en hún var áhrifamesta ættkvíslin. (5. Mós. 33:13, 17; 1. Kon. 11:26, Biblían 1981) Þetta voru afkomendur Efraíms, sonar Jósefs. (4. Mós. 1:32, 33) Jósef hafði hlotið sérstaka blessun frá Jakobi, föður sínum. Það var því viðeigandi að stafurinn, sem táknaði tíuættkvíslaríkið, væri kallaður „stafur Efraíms“. Þegar Esekíel skrifaði spádóminn um stafina tvo var langt um liðið frá því að norðurríkið Ísrael hafði verið hneppt í ánauð Assýringa, en það gerðist árið 740 f.Kr. (2. Kon. 17:6) Flestir þessara Ísraelsmanna voru því dreifðir um allt heimsveldi Babýloníumanna þegar Esekíel skrifar spádóminn, en það heimsveldi hafði þá tekið við af Assýringum.

Árið 607 f.Kr. voru íbúar tveggjaættkvíslaríkisins í suðri fluttir í útlegð til Babýlonar, ef til vill ásamt fáeinum sem höfðu orðið eftir í norðurríkinu. Konungar af ætt Júda höfðu ríkt yfir þessum tveim ættkvíslum. Prestarnir bjuggu einnig í Júda þar sem þeir þjónuðu við musterið í Jerúsalem. (2. Kron. 11:13, 14; 34:30) Það átti því vel við að stafurinn merktur „Júda“ táknaði tveggjaættkvíslaríkið.

Hvenær voru þessir tveir táknrænu stafir sameinaðir? Það var þegar Ísraelsmenn sneru aftur til Jerúsalem árið 537 f.Kr. til að endurreisa musterið. Fulltrúar tveggjaættkvíslaríkisins og tíuættkvíslaríkisins sneru þá aftur úr útlegðinni í sameiningu. Ísraelsmenn voru ekki lengur sundraðir. (Esek. 37:21, 22) Þeir voru nú aftur sameinaðir í tilbeiðslunni á Jehóva. Spámennirnir Jesaja og Jeremía höfðu einnig sagt fyrir um þessa sameiningu. – Jes. 11:12, 13; Jer. 31:1, 6, 31.

Þessi spádómur beinir athyglinni að mikilvægum sannindum varðandi hreina tilbeiðslu. Hver eru þau? Jehóva sameinar tilbiðjendur sína þannig að þeir verði „einn“. (Esek. 37:18, 19) Hefur þetta loforð um sameiningu uppfyllst á okkar tíma? Já. Uppfylling spádómsins hófst árið 1919 þegar þjónar Guðs voru smám saman endurskipulagðir og sameinaðir á ný. Áform Satans um að sundra þeim fyrir fullt og allt höfðu runnið út í sandinn.

Um þetta leyti höfðu flestir þeirra sem sameinuðust á ný þá von að verða konungar og prestar á himni með Jesú. (Opinb. 20:6) Í táknrænum skilningi voru þeir eins og stafurinn merktur Júda. En með tímanum fór vaxandi hópur fólks með jarðneska von að sameinast þessum andlegu Gyðingum. (Sak. 8:23) Þessi hópur var eins og stafurinn merktur Jósef og hafði ekki þá von að ríkja með Kristi.

Báðir hóparnir þjóna nú Jehóva í sameiningu undir einum konungi, Jesú Kristi, en í spádómi Esekíels er talað um hann sem ,Davíð, þjón Guðs‘. (Esek. 37:24, 25) Jesús bað Guð þess að allir fylgjendur sínir ,yrðu eitt, eins og faðir hans er í honum og hann í föður sínum‘. * (Jóh. 17:20, 21) Jesús sagði einnig fyrir að lítil hjörð andasmurðra fylgjenda hans ætti eftir að mynda ,eina hjörð‘ með ,öðrum sauðum‘ hans. Þeir myndu allir fylgja ,einum hirði‘. (Jóh. 10:16) Orð Jesú lýsa vel þeirri andlegu einingu sem ríkir meðal þjóna Jehóva núna, hvort heldur þeir hafa himneska von eða jarðneska.

^ gr. 6 Það er athyglisvert að taka eftir í hvaða röð Jesús segir dæmisögurnar sem urðu hluti af tákninu um nærveru hans. Fyrst talaði hann um ,trúa og hyggna þjóninn‘, lítinn hóp andasmurðra bræðra sem færi með forystuna. (Matt. 24:45-47) Síðan sagði hann dæmisögur sem áttu fyrst og fremst við alla þá sem hafa himneska von. (Matt. 25:1-30) Að lokum ræddi hann svo um þá sem hafa jarðneska von og myndu styðja bræður hans. (Matt. 25:31-46) Þegar spádómur Esekíels tók að rætast í nútímanum átti hann sömuleiðis fyrst við þá sem hafa himneska von. Tíuættkvíslaríkið táknar yfirleitt ekki þá sem hafa jarðneska von. En sameiningin, sem lýst er í þessum spádómi, minnir okkur samt á eininguna sem ríkir milli þeirra sem hafa jarðneska von og þeirra sem hafa himneska von.