Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Af hverju verðum við að halda vöku okkar?

Af hverju verðum við að halda vöku okkar?

„Þér vitið eigi hvaða dag Drottinn yðar kemur.“ – MATT. 24:42.

SÖNGVAR: 136, 129

1. Lýstu með dæmi hvers vegna er mikilvægt að vera vakandi fyrir hvað tímanum líður og fyrir því sem er að gerast í kringum okkur. (Sjá mynd í upphafi greinar.)

FIMM, fjórir, þrír, tveir, einn. Klukkan á skjánum tifar og við vitum að það er kominn tími til að fá sér sæti og hlusta á fagra tónlistina sem er leikin í byrjun dagskrár á mótinu. Það er gott að sitja hljóður og hlusta á Varðturnshljómsveitina leika, og búa huga sinn og hjarta undir ræðurnar sem fylgja í kjölfarið. En kannski hafa sumir ekki tekið eftir að dagskráin er að hefjast og eru að vafra um salinn eða spjalla við vini og kunningja. Þeir hafa greinilega ekki fylgst með hvað tímanum líður og hvað er að gerast í salnum. Dagskrárkynnirinn er kominn á sviðið, tónlistin hafin og áheyrendur sestir. Þessi lýsing minnir okkur kannski á „niðurtalninguna“ að miklu mikilvægari atburði sem við þurfum að vera glaðvakandi fyrir. Hvaða atburður er það?

2. Hvers vegna sagði Jesús lærisveinum sínum að vaka?

2 Jesús talaði um tímann þegar ,veröldin væri að líða undir lok‘ og minnti lærisveina sína á að þeir þyrftu að halda  vöku sinni. „Gætið yðar, vakið! Þér vitið ekki nær tíminn er kominn,“ sagði hann. Síðan endurtók hann: „Vakið.“ (Matt. 24:3; lestu Markús 13:32-37.) Í frásögn Matteusar af sama atburði kemur einnig fram að Jesús hafi hvatt fylgjendur sína til að halda vöku sinni. „Vakið því, þér vitið eigi hvaða dag Drottinn yðar kemur ... Verið þér og viðbúin því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu sem þér ætlið eigi.“ Enn og aftur sagði hann: „Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.“ – Matt. 24:42-44; 25:13.

3. Af hverju tökum við viðvörun Jesú alvarlega?

3 Við sem erum vottar Jehóva tökum viðvörun Jesú alvarlega. Við vitum að endalokin eru mjög nærri og að ,þrengingin mikla‘ hlýtur að vera skammt undan. (Dan. 12:4; Matt. 24:21) Við sjáum stríð, vaxandi siðleysi og lögleysi, ringulreið á vettvangi trúmála, hungursneyðir, drepsóttir og jarðskjálfta út um allan heim. Við vitum að vottar Jehóva boða ríki hans af meiri krafti en nokkru sinni fyrr út um víða veröld. (Matt. 24:7, 11, 12, 14; Lúk. 21:11) Við bíðum þess með óþreyju að sjá hvað koma Drottins hefur í för með sér fyrir okkur og hvernig vilji Guðs nær fram að ganga. – Mark. 13:26, 27.

DAGURINN FÆRIST NÆR

4. (a) Hvers vegna er líklegt að Jesús viti núna hvenær Harmagedón brestur á? (b) Um hvað getum við verið viss þó að við vitum ekki hvenær þrengingin mikla verður?

4 Þegar við sækjum mót vitum við að dagskráin hefst á fyrir fram ákveðnum tíma. En hvað sem við reynum getum við ekki vitað hvaða ár þrengingin mikla hefst, og enn síður daginn og stundina. Þegar Jesús var á jörð sagði hann: „Þann dag og stund veit enginn, hvorki englar á himnum né sonurinn, enginn nema faðirinn einn.“ (Matt. 24:36) Jesús hefur hins vegar fengið vald núna á himnum til að heyja stríð gegn heimi Satans. (Opinb. 19:11-16) Það er því rökrétt að hann viti núna hvenær Harmagedón verður. Við vitum það hins vegar ekki. Það er því mjög áríðandi að við höldum vöku okkar þangað til þrengingin skellur á. Jehóva hefur þó alltaf vitað hvenær það gerist. Hann hefur ákveðið nákvæmlega hvenær endirinn kemur. Hann „telur niður“ tímann fram að þrengingunni miklu og henni seinkar ekki. (Lestu Habakkuk 2:1-3.) Hvernig getum við verið viss um það?

5. Nefndu dæmi sem sýnir að spádómar Jehóva rætast alltaf á réttum tíma.

5 Spádómar Jehóva hafa alltaf ræst nákvæmlega á réttum tíma. Sem dæmi má nefna að Jehóva frelsaði þjóð sína frá Egyptalandi 14. nísan árið 1513 f.Kr. Móse skrifaði um þann dag: „Einmitt á þeim degi, þegar fjögur hundruð og þrjátíu ár voru liðin, héldu allar hersveitir Drottins út úr Egyptalandi.“ (2. Mós. 12:40-42) Þessi 430 ár hófust árið 1943 f.Kr. þegar sáttmáli Jehóva við Abraham tók gildi. (Gal. 3:17, 18) Einhvern tíma síðar sagði Jehóva við Abraham: „Það skaltu vita að niðjar þínir munu lifa sem landlausir aðkomumenn í landi sem þeir eiga ekki. Þeir munu þrælkaðir verða og þjáðir í fjögur hundruð ár.“ (1. Mós. 15:13; Post. 7:6) Þessi 400 þrælkunarár hófust árið 1913 f.Kr. þegar Ísak var vaninn af brjósti og Ísmael hæddist að honum. Þeim lauk árið 1513 f.Kr.  þegar Ísraelsmenn fóru frá Egyptalandi. (1. Mós. 21:8-10; Gal. 4:22-29) Jehóva ákvað sem sagt nákvæmlega með fjögurra alda fyrirvara hvenær hann ætlaði að frelsa þjóð sína.

6. Hvers vegna getum við treyst að Jehóva bjargi þjónum sínum?

6 Jósúa var einn þeirra sem Jehóva frelsaði frá Egyptalandi. Hann sagði þjóðinni mörgum árum síðar: „Þið skuluð játa af öllu hjarta og allri sálu að ekkert fyrirheitanna sem voru ykkur í hag og Drottinn, Guð ykkar, gaf ykkur er óefnt, öll hafa þau ræst, ekkert þeirra hefur brugðist.“ (Jós. 23:2, 14) Við getum verið viss um að loforð Jehóva um að við komumst lifandi úr þrengingunni miklu bregst ekki heldur. En ef við viljum bjargast þegar þessum heimi verður eytt þurfum við að halda vöku okkar.

VIÐ ÞURFUM AÐ HALDA VÖKU OKKAR TIL AÐ BJARGAST

7, 8. (a) Hvaða hlutverki gegndu varðmenn til forna og hvaða lærdóm getum við dregið af því? (b) Nefndu dæmi sem sýnir hvað getur gerst ef varðmenn sofna á verðinum.

7 Við getum dregið lærdóm af varðmönnum sem gættu borga endur fyrir löngu. Margar stórar borgir á þeim tíma, eins og til dæmis Jerúsalem, voru umkringdar háum múrum sem vernduðu borgina fyrir innrásum óvina. Af múrnum höfðu varðmenn góða yfirsýn yfir landið í kring. Dag og nótt stóðu þeir vörð, bæði þar og við borgarhliðin, og höfðu það hlutverk að vara borgarbúa við aðsteðjandi hættu. (Jes. 62:6) Það var um líf og dauða að tefla að varðmennirnir væru vakandi og eftirtektarsamir hver á sínum stað. – Esek. 33:6.

8 Jósefus, sem skráði sögu Gyðinga, segir frá því að árið 70 hafi rómverskur her tekið Antóníusarturn sem lá að borgarmúr Jerúsalem. Þeim tókst það vegna þess að verðirnir við hliðin voru sofandi. Síðan réðust Rómverjar inn í musterið og kveiktu í því. Þannig lauk mestu þrengingu sem gengið hafði yfir Jerúsalem og Gyðinga sem þjóð.

9. Hvað vita fæstir jarðarbúar?

9 Nú á tímum eru flestar þjóðir með landamæraverði og háþróuð eftirlitskerfi sem eru nokkurs konar „varðmenn“. Þannig er reynt að verjast óvinum og gæta þess að ekkert ógni öryggi þjóðarinnar. En slíkir „varðmenn“ geta aðeins varist ógnum sem stafa af mönnum eða jarðneskum ríkisstjórnum. Þjóðir heims vita ekki af himneskri stjórn Guðs í höndum Krists og hlutverki hennar í þeim dómi sem vofir yfir þeim. (Jes. 9:5, 6; 56:10; Dan. 2:44) Ef við höldum vöku okkar, fylgjumst með spádómum Biblíunnar og þjónum Jehóva dyggilega verðum við viðbúin hvenær sem dómsdagurinn rennur upp. – Sálm. 130:6.

GÆTTU ÞESS AÐ SOFNA EKKI Á VERÐINUM

10, 11. (a) Hvað þurfum við að varast og hvers vegna? (b) Hvað sannfærir þig um að Satan hafi blindað fólk gagnvart spádómum Biblíunnar?

10 Hugsaðu þér varðmann sem er búinn að standa vörð alla nóttina. Hann er þreyttastur rétt áður en vaktin er á enda og þá er mest hætta á að hann sofni. Hið sama er að segja um okkur. Því nær sem dregur endalokum þessa heims því erfiðara er að halda vöku sinni. Það væri sorglegt ef við sofnuðum á verðinum. Við skulum nú líta á  þrennt sem getur dregið úr árvekni okkar ef við gætum okkar ekki.

11 Satan reynir að svæfa fólk. Skömmu áður en Jesús dó varaði hann lærisveina sína þrisvar við „höfðingja þessa heims“. (Jóh. 12:31; 14:30; 16:11) Satan reynir að halda þekkingu frá fólki. Margir skeyta þess vegna ekki um spádóma Biblíunnar sem sýna svart á hvítu að endir þessa heims er yfirvofandi. (Sef. 1:14) Satan notar falstrúarbrögðin til að blinda hugi fólks. Hefurðu ekki tekið eftir því þegar þú ræðir við fólk? Er Satan ekki búinn að ,blinda huga vantrúaðra‘ gagnvart því að þessi heimur sé að líða undir lok og að Kristur sé nú við völd í ríki Guðs? (2. Kor. 4:3-6) Hve oft hefurðu heyrt fólk segja: „Ég hef ekki áhuga“? Flestir sýna lítil viðbrögð þegar við reynum að segja þeim hvert þessi heimur stefnir.

12. Hvers vegna megum við ekki láta Satan blekkja okkur?

12 Láttu ekki áhugaleysi annarra draga úr þér kjarkinn. Þú veist hve áríðandi er að halda vöku sinni. „Þið vitið það sjálf gjörla að dagur Drottins kemur,“ skrifaði Páll trúsystkinum sínum og bætti við að hann kæmi „sem þjófur á nóttu“. (Lestu 1. Þessaloníkubréf 5:1-6.) Jesús sagði: „Verið þér ... viðbúnir því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu sem þér ætlið eigi.“ (Lúk. 12:39, 40) Satan telur fólki bráðlega trú um að það sé „friður og engin hætta“ í heiminum. Hann blekkir fólk þannig að það heldur að allt sé í himnalagi. Hvað um okkur? Dómsdagurinn þarf ekki að ,koma yfir okkur eins og þjófur‘ og gerir það ekki ef við ,vökum og erum allsgáð‘. Þess vegna þurfum við að lesa daglega í Biblíunni og hugleiða það sem Jehóva segir okkur þar.

13. Hvaða hættulegu áhrif hefur andi heimsins á mannkynið og hvernig getum við varast þau?

13 Andi heimsins getur svæft fólk. Margir eru svo uppteknir af amstri daglegs lífs að þeir skynja ekki andlega þörf sína. (Matt. 5:3) Þeir nota allan tíma sinn og krafta í að eignast sem mest af því sem heimurinn hefur upp á að bjóða. (1. Jóh. 2:16) Skemmtanaiðnaðurinn  býður fólki allt mögulegt sem höfðar til þess og hvetur það til að „elska munaðarlífið“ og fullnægja sérhverri löngun. Og freistingarnar vaxa með ári hverju. (2. Tím. 3:4) Þess vegna sagði Páll trúsystkinum sínum að þau ættu ekki að ,leggja þann hug á jarðnesk efni að það vekti girndir‘. – Rómv. 13:11-14.

14. Hvaða viðvörun er að finna í Lúkasi 21:34, 35?

14 Við viljum láta anda Guðs en ekki anda heimsins hafa áhrif á okkur. Með anda sínum hefur Jehóva gefið okkur góðan skilning á þeim atburðum sem eru fram undan. [1] (1. Kor. 2:12) Við vitum hins vegar að það er hægðarleikur að sofna á verðinum. Það getur gerst ef við verðum svo upptekin af hversdagslegum hlutum að þjónustan við Jehóva situr á hakanum. (Lestu Lúkas 21:34, 35.) Sumir gera kannski gys að okkur fyrir að trúa að við lifum á síðustu dögum. (2. Pét. 3:3-7) En við megum ekki láta þá hafa áhrif á okkur því að það er deginum ljósara að endirinn er nærri. Við skulum sækja samkomur reglulega til að leyfa anda Guðs að hafa áhrif á okkur.

Gerirðu allt sem þú getur til að halda vöku þinni? (Sjá 11.-16. grein.)

15. Hvað gerðist hjá Pétri, Jakobi og Jóhannesi og hvernig getur það hent okkur líka?

15 Ófullkomleikinn getur gert okkur erfitt að vaka. Jesús vissi að ófullkomnum mönnum hættir til að láta undan veikleikum sínum. Tökum sem dæmi það sem gerðist nóttina áður en Jesús var líflátinn. Hann þurfti að biðja föðurinn á himnum að veita sér styrk til að vera trúr. Hann bað Pétur, Jakob og Jóhannes að vaka meðan hann bæðist fyrir. En þeir gerðu sér ekki grein fyrir alvöru málsins. Í stað þess að vaka með meistara sínum létu þeir ófullkomleikann ráða ferðinni og sofnuðu. Jesús var líka þreyttur en var þó glaðvakandi og baðst fyrir. Félagar hans hefðu átt að gera það líka. – Mark. 14:32-41.

16. Hvernig sagði Jesús að við gætum ,vakað‘ samkvæmt Lúkasi 21:36?

16 Að ,vaka‘ er annað og meira en að ætla sér bara að gera það. Nokkrum dögum áður en atburðurinn í Getsemane átti sér stað sagði Jesús þessum sömu lærisveinum að biðja Jehóva um hjálp. (Lestu Lúkas 21:36.) Við þurfum líka að biðja stöðugt til að halda vöku okkar. – 1. Pét. 4:7.

HALTU ALLTAF VÖKU ÞINNI

17. Hvernig getum við verið viðbúin því sem nánasta framtíð ber í skauti sér?

17 Jesús sagði að endirinn kæmi ,á þeirri stundu sem við ætlum eigi‘. (Matt. 24:44) Nú er ekki rétti tíminn til að „blunda“ eða eltast við tálsýnir og draumóra sem Satan og heimurinn halda á lofti og höfða til ófullkominna manna. (Matt. 24:44) Guð og Kristur segja okkur í Biblíunni hvað nánasta framtíð ber í skauti sér og hvernig við getum haldið vöku okkar. Við verðum að hlúa að okkar andlega manni og sambandinu við Jehóva og láta ganga fyrir að þjóna ríki hans. Við verðum að vera vakandi fyrir því sem er að gerast í heiminum og hvað tímanum líður. Þá verðum við viðbúin þegar endirinn kemur. (Opinb. 22:20) Líf okkar er í húfi!

^ [1] (14. grein.) Sjá 21. kafla bókarinnar Ríki Guðs stjórnar.