Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig leit Jesús út?

Hvernig leit Jesús út?

Enginn á ljósmynd af Jesú og hann sat aldrei fyrir hjá listmálara eða höggmyndasmið. Samt hefur hann komið fyrir í verkum ótal listamanna í aldanna rás.

Listamennirnir vissu að sjálfsögðu ekki hvernig Jesús leit út. Ríkjandi menning, trúarskoðanir og óskir viðskiptavina réðu því oft hvaða mynd listamennirnir drógu upp af honum. En verk þeirra hafa samt sem áður haft áhrif á viðhorf fólks til Jesú og kenninga hans og jafnvel ruglað það í ríminu.

Sumir listamenn hafa dregið upp mynd af Jesú sem veikburða manni með sítt hár, þunnt skegg og dapurlegt yfirbragð. Önnur verk sýna hann sem andaveru, með geislabaug eða fálátan gagnvart öðrum. Gefa slík verk rétta mynd af Jesú? Hvernig getum við komist að því? Ein leið til þess er að skoða hvað Biblían segir um Jesú sem varpar ljósi á hvernig hann getur hafa litið út. Þar að auki getur það hjálpað okkur að líta hann réttum augum.

„LÍKAMA HEFUR ÞÚ BÚIÐ MÉR“

Jesús sagði þetta í bæn, að því er virðist þegar hann lét skírast. (Hebreabréfið 10:5; Matteus 3:13-17) En hvernig var líkami hans? Um 30 árum áður sagði engillinn Gabríel við Maríu: „Þú munt þunguð verða og son ala“ og bætti við að barnið yrði „sonur Guðs“. (Lúkas 1:31, 35) Jesús var þess vegna fullkominn maður rétt eins og Adam var þegar hann var skapaður. (Lúkas 3:38; 1. Korintubréf 15:45) Jesús hlýtur að hafa verið vel vaxinn maður og trúlega líktist hann Maríu, móður sinni, í útliti en hún var Gyðingur.

Eins og venja var meðal Gyðinga var Jesús með skegg, ólíkt Rómverjum. Skegg var tákn virðuleika og reisnar og það var ekki haft sítt og ósnyrt. Án efa snyrti Jesús hár sitt og skegg. Aðeins þeir sem voru helgaðir Guði sem nasírear, eins og Samson, létu hár sitt vaxa. – 4. Mósebók 6:5; Dómarabókin 13:5.

Bróðurhlutann af fyrstu 30 árum ævinnar vann Jesús við smíðar. Og hann hafði engar vélar til að auðvelda sér vinnuna. (Markús 6:3) Hann hlýtur því að hafa verið sterklega byggður. Snemma á þjónustutíð sinni „rak [hann] alla út úr helgidóminum, líka sauðina og nautin. Hann steypti niður peningum víxlaranna og hratt um borðum þeirra.“ (Jóhannes 2:14-17) Það þarf sterkan og kraftmikinn mann til að gera slíkt. Jesús notaði líkamann, sem Guð hafði búið honum, til að sinna verkefninu sem honum var falið. Hann sagði: „Mér ber og að flytja hinum borgunum fagnaðarerindið um Guðs ríki því að til þess var ég sendur.“ (Lúkas 4:43) Það þurfti heilmikið úthald til að fara fótgangandi um Palestínu þvera og endilanga til að bera út boðskapinn.

„KOMIÐ TIL MÍN ... OG ÉG MUN VEITA YÐUR HVÍLD“

Hlýja Jesú og notaleg framkoma hlýtur að hafa gert þetta boð sérstaklega aðlaðandi fyrir þá sem ,erfiðuðu og þunga voru hlaðnir‘. (Matteus 11:28-30) Orð Jesú um að veita þeim hvíld og endurnæringu sem voru fúsir til að læra af honum fengu meira vægi vegna þess hve hlýlegur og  vinsamlegur hann var. Börn löðuðust jafnvel að honum. Í Biblíunni segir: „Jesús tók þau sér í faðm.“ – Markús 10:13-16.

Þó að Jesús hafi þjáðst rétt áður en hann dó var hann ekki dapur að eðlisfari. Hann tók til dæmis þátt í veisluhöldum í Kana og hjálpaði til með því að breyta vatni í gæðavín. (Jóhannes 2:1-11) Við önnur tækifæri kenndi hann fólki sannindi sem það gleymdi aldrei. – Matteus 9:9-13; Jóhannes 12:1-8.

En fyrst og fremst gaf Jesús áheyrendum sínum von um eilíft líf með boðun sinni. (Jóhannes 11:25, 26; 17:3) Þegar 70 lærisveinar sögðu honum frá því sem gerst hafði í boðuninni „fylltist Jesús af fagnandi gleði“ og sagði: „Gleðjist ... að nöfn yðar eru skráð í himnunum.“ – Lúkas 10:20, 21.

„EIGI SÉ YÐUR SVO FARIГ

Trúarleiðtogar á dögum Jesú fundu leiðir til að draga athyglina að sjálfum sér og sýna vald sitt. (4. Mósebók 15:38-40; Matteus 23:5-7) Jesús bauð hins vegar postulunum að þeir skyldu ekki „drottna yfir“ öðrum. (Lúkas 22:25, 26) Hann gaf jafnvel þessa viðvörun: „Varist fræðimennina sem fýsir að ganga í síðskikkjum og láta heilsa sér á torgum.“ – Markús 12:38.

Jesús skar sig aftur á móti ekki úr fjöldanum í útliti og stundum tóku menn jafnvel ekki eftir honum. (Jóhannes 7:10, 11) Hann var ekkert frábrugðinn 11 trúföstum postulum sínum. Júdas, sem sveik hann, greip til þess ráðs að kyssa hann „til marks“ um að hann væri sá sem múgurinn leitaði að. – Markús 14:44, 45.

Þó að margt sé á huldu um útlit Jesú er greinilegt að hann leit ekki út eins og mörg listaverk sýna hann. En það skiptir meira máli hvernig við lítum á hann heldur en hvernig hann var í útliti.

„INNAN SKAMMS MUN HEIMURINN EKKI SJÁ MIG FRAMAR“

Innan við sólarhring eftir að Jesús sagði þetta var hann dáinn og grafinn. (Jóhannes 14:19) Hann gaf líf sitt „til lausnargjalds fyrir alla“. (Matteus 20:28) Á þriðja degi reisti Guð hann upp „í anda“ og „lét hann birtast“ nokkrum lærisveinanna. (1. Pétursbréf 3:18; Postulasagan 10:40) Hvernig leit Jesús út þegar hann birtist þeim? Hann leit greinilega ekki út eins og áður vegna þess að jafnvel nánustu lærisveinar hans þekktu hann ekki strax. María Magdalena hélt að hann væri grasgarðsvörður og tveir lærisveinar, sem voru á leið til Emmaus, héldu að hann væri ókunnugur aðkomumaður. – Lúkas 24:13-18; Jóhannes 20:1, 14, 15.

Hvernig ættum við að sjá Jesú fyrir okkur núna? Rúmlega sex áratugum eftir að Jesús dó sá Jóhannes postuli hann í sýn. Hann sá ekki deyjandi mann á krossi heldur ,konung konunga og Drottin drottna‘ – konung Guðsríkis sem mun bráðlega sigra óvini Guðs, bæði menn og illa anda, og færa mannkyninu eilífa blessun. – Opinberunarbókin 19:16; 21:3, 4.