Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vissir þú?

Vissir þú?

Var líking Jesú um „hundana“ móðgandi?

Barn með hvolp. Grísk eða rómversk stytta frá fyrstu öld f.Kr. til annarrar aldar e.Kr.

Eitt sinn bað grísk kona Jesú um hjálp þegar hann var staddur utan landamæra Ísraels í rómverska skattlandinu Sýrlandi. Í svari sínu kom Jesús með líkingu þar sem hann líkti þeim sem ekki voru Gyðingar við hunda. Í Móselögunum voru hundar taldir óhrein dýr. (3. Mósebók 11:27) En ætlaði Jesús að móðga konuna og aðra sem voru ekki Gyðingar?

Alls ekki. En eins og Jesús útskýrði fyrir lærisveinum sínum hafði það forgang á þessum tíma að veita Gyðingum aðstoð. Til að skýra mál sitt sagði hann við grísku konuna: „Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.“ (Matteus 15:21-26; Markús 7:26) Hjá Grikkjum og Rómverjum voru hundar oft gæludýr sem þeim þótti vænt um og börnin léku sér við. Því kann samlíkingin við hunda að hafa vakið upp hlýja mynd í huga konunnar. Gríska konan skildi Jesú og svaraði: „Satt er það, Drottinn, þó eta hundarnir mola þá sem falla af borðum húsbænda þeirra.“ Jesús hrósaði konunni fyrir að hafa sterka trú og læknaði dóttur hennar. – Matteus 15:27, 28.

Voru ráð Páls postula um að seinka sjóferð viturleg?

Lágmynd frá fyrstu öld af stóru flutningaskipi.

Skip, sem flytja átti Pál til Ítalíu, barðist við mótvind á leiðinni. Þegar skipið hafði viðdvöl í höfn einni lagði Páll til að sigla ekki lengra í bili. (Postulasagan 27:9-12) Var það rökrétt?

Sjómenn til forna vissu vel að siglingar um Miðjarðarhafið voru hættulegar yfir vetrarmánuðina. Frá miðjum nóvember fram í miðjan mars var talið ófært að sigla þar. En sjóferðin, sem Páll segir frá, var farin í september eða október. Rómverski rithöfundurinn Vegetius, sem var uppi á fjórðu öld e. Kr., sagði í bók sinni Epitoma rei militaris varðandi siglingar á Miðjarðarhafi: „Nokkrir mánuðir eru hentugir, nokkrir varasamir en aðrir með öllu ófærir.“ Vegetius sagði að öruggt væri að sigla á milli 27. maí og 14. september en tvísýnu tímabilin væru frá 15. september til 11. nóvember og frá 11. mars til 26. maí. Páll hafði mikla reynslu af sjóferðum og hefur áreiðanlega vitað þetta. Skipstjórinn og skipseigandinn hafa eflaust vitað af hættunum líka en þeir ákváðu að hunsa ráð Páls. Sjóferðin endaði með skipbroti. – Postulasagan 27:13-44.