Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 FORSÍÐUEFNI | ENGLAR – ERU ÞEIR TIL? HVERS VEGNA SKIPTIR ÞAÐ MÁLI?

Hvernig geta englar hjálpað okkur?

Hvernig geta englar hjálpað okkur?

Trúfastir englar hafa mikinn áhuga á málefnum manna og taka virkan þátt í að framkvæma vilja Jehóva Guðs. Þegar Guð skapaði jörðina „sungu [englarnir] saman gleðisöng og allir synir Guðs fögnuðu“. (Jobsbók 38:4, 7) Í gegnum tíðina hefur englana langað „að skyggnast“ inn í spádóma um jörðina. – 1. Pétursbréf 1:11, 12.

Í Biblíunni kemur fram að englar hafa stundum verndað trúa þjóna Guðs til að vilji hans nái fram að ganga. (Sálmur 34:8) Sem dæmi má nefna:

  • Þegar Jehóva eyddi borgunum Sódómu og Gómorru vegna illsku borgarbúa hjálpuðu englar hinum réttláta manni Lot og fjölskyldu hans að flýja. – 1. Mósebók 19:1, 15-26.

  • Guð sendi „engil sinn að frelsa þjóna sína“ í Babýlon til forna þegar þrír ungir Gyðingar voru dæmdir til dauða í glóandi eldsofni. – Daníel 3:19-28.

  • Þegar hinn réttláti maður Daníel hafði verið heila nótt í gryfju með hungruðum ljónum lýsti hann því hvernig hann bjargaðist. Hann sagði: „Guð sendi engil sinn og hann lokaði gini ljónanna“. – Daníel 6:17, 23.

Í gegnum tíðina hafa englar hjálpað trúföstu fólki.

ENGLAR STUDDU FRUMKRISTNA SÖFNUÐINN

Stundum gripu englar inn í starfsemi kristna safnaðarins á fyrstu öld þegar þörf var á til að koma vilja Jehóva Guðs til leiðar. Sem dæmi má nefna:

  • Engill opnaði fangelsisdyr fyrir postulum sem voru þar í haldi og sagði þeim að halda áfram að boða fagnaðarerindið í musterinu. – Postulasagan 5:17-21.

  • Engill sendi Filippus trúboða um veg sem lá um óbyggðir frá Jerúsalem til Gasa til að hjálpa eþíópískum hirðmanni að skilja orð Guðs en hann hafði farið til Jerúsalem til að biðjast fyrir. – Postulasagan 8:26-33.

  • Þegar Guð taldi tímabært að heiðingjum yrði boðuð kristin trú birtist engill rómverska herforingjanum Kornelíusi í sýn og sagði honum að kalla Pétur postula til sín. – Postulasagan 10:3-5.

  • Þegar Pétur postuli var hnepptur í fangelsi birtist honum engill sem leiddi hann út. – Postulasagan 12:1-11.

 HVERNIG ENGLAR GETA HJÁLPAÐ ÞÉR

Ekkert bendir til að Guð láti engla gera kraftaverk nú á dögum, eins og hann gerði á biblíutímanum, til að hjálpa fólki. En Jesús sagði um okkar daga: „Fagnaðarerindið um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina til þess að allar þjóðir fái að heyra það. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:14) Vissirðu að fylgjendur Krists sinna þessu starfi undir umsjón engla?

Englar taka þátt í að boða fagnaðarerindið um allan heim.

Í Opinberunarbókinni er bent á að englar myndu af kostgæfni hjálpa fólki um allan heim að fræðast um Jehóva Guð og áform hans með mannkynið. Jóhannes postuli skrifaði: „Ég sá annan engil fljúga um háhvolf himins. Hann hélt á eilífum fagnaðarboðskap til að boða þeim sem á jörðunni búa og sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð og sagði hárri röddu: ,Óttist Guð og gefið honum dýrðina. Stundin er komin er hann kveður upp dóm sinn. Tilbiðjið þann sem hefur gert himininn og jörðina og hafið og uppsprettur vatnanna.‘“ (Opinberunarbókin 14:6, 7) Reynsla margra nú á dögum gefur til kynna að englar styðji boðun fagnaðarerindisins um allan heim. ,Englar Guðs gleðjast‘ jafnvel þegar einn syndari iðrast og snýr til Jehóva Guðs. – Lúkas 15:10.

Hvað gerist þegar boðuninni lýkur? „Hersveitirnar, sem á himni eru,“ það er að segja englarnir, munu styðja Jesú Krist, konung konunga, þegar hann heldur til „stríðsins á hinum mikla degi Guðs hins alvalda“ í Harmagedón. (Opinberunarbókin 16:14-16; 19:14-16) Máttugir englar fullnægja dómi Guðs þegar Jesús „hegnir þeim sem ... hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú“. – 2. Þessaloníkubréf 1:7, 8.

Þú mátt því vera viss um að englarnir hafa persónulegan áhuga á þér. Þeim er innilega annt um velferð þeirra sem langar til að þjóna Jehóva Guði og hann hefur oft sent þá til að styrkja og vernda trúa þjóna sína á jörðinni. – Hebreabréfið 1:14.

Hvert og eitt okkar þarf að taka mikilvæga ákvörðun. Ætlum við að hlusta á og hlýða fagnaðarerindinu sem er boðað um allan heim? Vottar Jehóva eru fúsir til að aðstoða þig persónulega svo að þú getir notið góðs af kærleiksríkri hjálp máttugra engla Guðs.