Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Eikadalur

Davíð og Golíat – er sagan sönn?

Davíð og Golíat – er sagan sönn?

Sumir velta fyrir sér hvort sagan af Davíð og Golíat sé sönn eða bara goðsögn. Varst þú í vafa þegar þú last síðustu grein? Veltu þá fyrir þér eftirfarandi þremur spurningum.

1 | Getur nokkur maður orðið 2,9 metrar á hæð?

Í Biblíunni segir að Golíat hafi verið „sex og hálf alin á hæð“. (1. Samúelsbók 17:4) Sú alin, sem um ræðir, var 44,5 sentimetrar. Golíat var því um 2,9 metrar á hæð. Sumir halda því fram að hann geti ekki hafa verið svona stór. En hugleiddu þetta: Hæsti maður, sem um getur á okkar tímum, var rúmir 2,7 metrar á hæð. Er nokkuð óraunhæft að ætla að Golíat hafi verið um 20 sentimetrum hærri? Hann var af ætt Refaíta en þeir voru þekktir fyrir að vera óvenjuhávaxnir. Egypskt skjal frá 13. öld f.Kr. talar um ógurlega stríðsmenn í Kanaanslandi sem voru yfir 2,4 metrar á hæð. Það er því ekkert fráleitt að Golíat hafi verið svo hár.

2 | Var Davíð til?

Um tíma drógu fræðimenn í efa að Davíð konungur hafi verið til og töldu frásöguna uppspuna. En mönnum er varla stætt á því lengur. Fornleifafræðingar hafa fundið forna áletrun þar sem „ætt Davíðs“ er nefnd. Jesús Kristur talaði líka um Davíð sem raunverulega persónu. (Matteus 12:3; 22:43-45) Tvær ítarlegar ættarskrár, sem sýna fram á að Jesús hafi verið Messías, nefna Davíð konung sem forföður Jesú. (Matteus 1:6-16; Lúkas 3:23-31) Davíð var augljóslega til.

3 | Er staðurinn til þar sem atburðirnir gerðust?

Í Biblíunni segir að bardaginn hafi verið háður í Eikadal. En hún skýrir nákvæmar frá atburðinum og segir að Filistear hafi sett upp herbúðir á hæð einhvers staðar á milli borganna Sókó og Aseka. Búðir Ísraelsmanna voru í hlíðinni hinum megin í dalnum. Voru þessir staðir til í raun og veru?

Taktu eftir hvernig ferðamaður lýsir því sem fyrir augu bar þegar hann kom á svæðið fyrir stuttu. Hann segir: „Leiðsögumaðurinn – sem var ekki trúaður maður – fór með okkur í Eikadalinn. Við gengum eftir stíg upp á hæð og horfðum þaðan yfir dalinn. Þar lét hann okkur lesa 1. Samúelsbók 17:1-3. Hann benti yfir dalinn og sagði: ,Þarna til vinstri eru rústir Sókó.‘ Síðan sneri hann sér við og sagði: ,Þarna hægra megin eru rústir Aseka. Filistear slógu upp búðum milli þessara tveggja borga, einhvers staðar í hlíðunum þarna hinum megin. Við stöndum því hugsanlega þar sem búðir Ísraelsmanna voru.‘ Ég ímyndaði mér Sál og Davíð standa nákvæmlega í sömu sporum og ég stóð. Síðan gengum við niður í dalinn og fórum yfir næstum þurran árfarveg fullan af steinum. Ég sá Davíð fyrir mér beygja sig niður og taka upp fimm ávala steina. Með einum þeirra felldi hann Golíat.“ Þessi ferðamaður, líkt og margir aðrir, var djúpt snortinn af því hve nákvæm frásögn Biblíunnar er.

Við höfum enga ástæðu til að draga þessa frásögn í efa. Hún segir frá raunverulegu fólki og raunverulegum stöðum. Það sem meira máli skiptir er að hún er hluti af innblásnu orði Guðs. Höfundur sögunnar er því Guð sannleikans, „sá Guð, sem aldrei lýgur“. – Títusarbréfið 1:2; 2. Tímóteusarbréf 3:16.