Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

LÍKJUM EFTIR TRÚ ÞEIRRA | DAVÍÐ

„Þetta er stríð Jehóva“

„Þetta er stríð Jehóva“

DAVÍÐ herti sig upp og gekk á móti þvögu hermanna sem ruddist fram hjá honum. Þeir voru skelfingu lostnir þar sem þeir hlupu frá víglínunni. Af hverju voru þeir svona hræddir? Davíð hefur eflaust heyrt þá endurtaka sama nafnið aftur og aftur. Og þarna í miðjum dalnum stóð maðurinn sem þeir óttuðust og ögraði þeim. Þar sem Davíð horfði á hann álengdar virtist hann ógnvænlegri en nokkur annar maður sem hann hafði augum litið.

Þetta var Golíat! Davíð skildi hvers vegna hermennirnir voru hræddir við hann. Hann var ótrúlega stór og mikill maður – tröllaukinn. Jafnvel án allra herklæða vó hann trúlega meira en tveir stórir karlmenn til samans. En hann var vel vopnum búinn, gríðarlega sterkur og reyndur hermaður. Golíat hrópaði á Ísraelsmenn og skoraði á þá. Ímyndaðu þér hvernig sterk og djúp rödd hans bergmálaði í fjöllunum í kring þegar hann hæddi her Ísraels og Sál konung. Hann manaði þá að senda mann til að berjast við sig og gera út um bardagann í einvígi. – 1. Samúelsbók 17:4-10.

Ísraelsmenn hörfuðu óttaslegnir undan Golíat. Sál konungur hörfaði líka. Davíð frétti að svona hefði staðan verið í rúman mánuð. Það var komið upp þrátefli milli herja Filistea og Ísraelsmanna þar sem Golíat hæddi Ísrael dag eftir dag. Davíð var miður sín. Hvílík niðurlæging að Sál konungur og hermenn hans, þeirra á meðal þrír eldri bræður Davíðs, skyldu hörfa óttaslegnir undan Golíat. Það sem Davíð fannst enn verra var að þessi heiðingi lítilsvirti ekki aðeins Ísraelsher heldur smánaði hann Jehóva, Guð Ísraels. En Davíð var svo ungur. Hvað gat hann gert? Og hvað getum við lært af trú Davíðs? – 1. Samúelsbók 17:11-14.

„SMYRÐU HANN ÞVÍ AÐ ÞETTA ER HANN“

Förum þó nokkra mánuði aftur í tímann. Davíð var að gæta sauða föður síns í hlíðunum í nágrenni Betlehem eitt sinn er tekið var að skyggja. Davíð var myndarlegur ungur maður – sennilega enn á unglingsaldri – rauðbirkinn með falleg greindarleg augu. Á rólegum dögum naut hann þess að stytta sér stundir við að leika á hörpu. Fegurð sköpunarverksins var honum innblástur og tónlistarhæfileikar hans höfðu vaxið jafnt og þétt. En þetta kvöld lét faðir Davíðs senda eftir honum. Hann vildi hitta hann án tafar. – 1. Samúelsbók 16:12.

Þegar Davíð kom var Ísaí, faðir hans, að tala við aldraðan mann. Það var hinn trúfasti spámaður Samúel. Jehóva hafði sent hann til að smyrja einn af sonum Ísaí til að verða næsti konungur yfir Ísrael. Samúel hafði þegar hitt sjö eldri bræður Davíðs en Jehóva gaf skýrt til kynna að hann hefði ekki valið neinn af þeim. Þegar Davíð kom sagði Jehóva við Samúel: „Smyrðu hann því að þetta er hann.“ Samúel tók horn sem hafði að geyma sérstaka olíu og hellti á höfuð Davíðs að bræðrum hans viðstöddum. Líf Davíðs breyttist þegar Samúel smurði hann. Í Biblíunni segir: „Andi Drottins kom yfir Davíð frá þessum degi.“ – 1. Samúelsbók 16:1, 5-11, 13.

Davíð var auðmjúkur og gaf Jehóva heiðurinn af því að geta sigrað villidýr.

Fylltist Davíð metnaði vegna þess að hann var valinn konungur? Nei. Hann var fús til að bíða eftir að andi Jehóva léti hann vita hvenær væri tímabært að taka á sig meiri ábyrgð. Þangað til hélt hann auðmjúkur áfram að gæta sauða föður síns. Hann sinnti því starfi af trúfesti og hugrekki. Tvisvar var hjörðinni ógnað, einu sinni af ljóni og einu sinni af birni. Davíð lét sér ekki nægja að halda sig í öruggri fjarlægð og reka rándýrin burt. Án þess að hika réðst hann á þau til varnar bjargarlausum sauðunum. Í bæði skiptin drap hann þessi villidýr einn síns liðs. – 1. Samúelsbók 17:34-36; Jesaja 31:4.

Síðar var aftur sent eftir Davíð. Orðstír hans hafði borist Sál konungi til eyrna. Þó að Sál væri enn öflugur hermaður hafði hann misst velþóknun Jehóva Guðs með því að hunsa fyrirmæli hans. Jehóva hafði tekið anda sinn frá konunginum og þess vegna náðu illar hvatir oft tökum á honum svo að hann fékk reiðiköst, varð tortrygginn og ofbeldisfullur. Þegar þessi andi kom yfir Sál gat tónlist róað hann. Einhverjir manna hans höfðu frétt að Davíð væri fær tónlistarmaður og góður bardagamaður. Davíð var því sóttur og varð fljótlega settur við hirð Sáls sem tónlistarmaður og skjaldsveinn. – 1. Samúelsbók 15:26-29; 16:14-23.

Ungt fólk getur lært margt af trú Davíðs. Taktu eftir að hann notaði frítíma sinn til að sinna áhugamálum sem styrktu samband hans við Jehóva. Þar að auki þroskaði hann með sér hæfileika sem voru gagnlegir. En umfram allt fylgdi hann leiðsögn anda Jehóva. Við getum öll lært margt af fordæmi Davíðs. – Prédikarinn 12:1.

„ÞAÐ ER ÁSTÆÐULAUST AÐ LÁTA HUGFALLAST VEGNA FILISTEANS“

Meðan Davíð var í þjónustu Sáls fór hann oft heim til að gæta sauða föður síns, stundum í lengri tíma í einu. Eitt sinn þegar Davíð gætti sauðanna sendi Ísaí hann til að huga að þrem elstu sonum sínum sem þjónuðu í her Sáls. Davíð hlýddi og lagði af stað í Eikadalinn, hlaðinn vistum fyrir bræður sína. Þegar hann kom þangað brá honum að sjá herina tvo í þeirri pattstöðu sem lýst var fyrr í greininni. Filistear höfðu tekið sér stöðu öðrum megin í hlíðum dalsins en Ísraelsmenn hinum megin. – 1. Samúelsbók 17:1-3, 15-19.

Davíð fannst þessi staða ólíðandi. Hvernig gat her hins lifandi Guðs flúið í skelfingu undan einum manni – og það heiðnum manni? Davíð fannst háð Golíats vera hrein og klár móðgun við Jehóva Guð og tók því að tala af ákafa við hermennina um að sigra Golíat. Elíab, elsti bróðir Davíðs, frétti fljótlega af þessu. Hann ávítaði yngsta bróður sinn harðlega og sakaði hann um að hafa komið einungis til að geta horft á blóðugan bardaga. En Davíð svaraði: „Hvað hef ég nú gert? Mátti ég ekki spyrja?“ Síðan hélt hann áfram að tala öruggur um að sigra Golíat þar til orð hans bárust til Sáls. Konungurinn lét sækja Davíð. – 1. Samúelsbók 17:23-31.

Davíð sagði hvetjandi við konunginn: „Það er ástæðulaust að láta hugfallast vegna Filisteans.“ Sál og menn hans höfðu vissulega látið hugfallast vegna Golíats. Hugsanlega höfðu þeir gert þau mannlegu mistök að bera sig saman við þennan gríðarstóra mann. Þeir sáu fyrir sér að þessi vel brynjaði risi færi létt með að sigra þá enda næðu þeir honum varla upp að bringu. En Davíð hugsaði ekki þannig. Eins og við eigum eftir að komast að raun um sá hann vandann í allt öðru ljósi. Hann bauðst því sjálfur til að berjast við Golíat. – 1. Samúelsbók 17:32.

Sál mótmælti: „Þú hefur ekki burði til að berjast við Filisteann. Þú ert aðeins unglingur. En hann hefur verið hermaður allt frá æskuárum.“ Var Davíð bara táningur? Nei, en hann var ekki nógu gamall til að ganga í herinn og leit kannski út fyrir að vera yngri en hann var. En hann var þegar þekktur fyrir að vera hugrakkur bardagamaður og gæti hafa verið að nálgast tvítugt. – 1. Samúelsbók 16:18; 17:33.

Davíð sagði Sál frá viðureign sinni við ljónið og björninn. Var hann að gorta sig? Nei. Hann vissi vel hvernig honum hafði tekist að yfirbuga þessi villidýr. Hann sagði: „Drottinn, sem bjargaði mér úr klóm ljóna og bjarna, mun einnig bjarga mér frá Filisteanum.“ Sál lét að lokum undan og svaraði: „Þú skalt fara, Drottinn veri með þér.“ – 1. Samúelsbók 17:37.

Langar þig að hafa sterka trú eins og Davíð? Trú hans var ekki bara óskhyggja heldur var hún byggð á þekkingu og reynslu. Hann vissi af reynslunni að Jehóva Guð er kærleiksríkur verndari sem stendur við loforð sín. Ef við viljum eignast slíka trú þurfum við að halda áfram að fræðast um Guð Biblíunnar. Og þegar við förum eftir því sem við lærum finnum við að það hefur góð áhrif á líf okkar og það styrkir trúna. – Hebreabréfið 11:1.

„Í DAG MUN DROTTINN FRAMSELJA ÞIG Í HENDUR MÉR“

Sál lét Davíð fyrst klæðast herklæðum sínum en þau voru úr kopar og ekki ósvipuð herklæðum Golíats. Meðal annars var hann líklega klæddur í stóra brynju, það er að segja bolhlíf úr málmplötum sem sköruðust. Davíð reyndi að ganga í þessum fyrirferðarmikla herbúningi en fann fljótlega að hann gat ekki athafnað sig í honum. Hann var ekki þjálfaður hermaður og því óvanur að bera herklæði, allra síst herklæði Sáls – en Sál var hærri en allir aðrir Ísraelsmenn. (1. Samúelsbók 9:2) Hann fór úr þeim og valdi klæðin sem hann var vanur – fatnað fjárhirðis sem var reiðubúinn að verja sauðféð. – 1. Samúelsbók 17:38-40.

Davíð var með hirðisstaf, smalatösku yfir öxlina og slöngvu. Þó að það virðist kannski ekki mikið gagn í slöngvu var hún í rauninni öflugt vopn. Slöngvan, sem var lítill skinnpoki með tveimur löngum leðurólum, var ákjósanlegasta vopn fjárhirðis. Fjárhirðirinn setti stein í pokann, þeytti honum yfir höfði sér á ógnarhraða og sleppti síðan annarri ólinni. Þannig gat hann þeytt steininum af banvænni nákvæmni. Slöngva var svo áhrifaríkt vopn að stundum voru herir með herdeildir slöngvukastara.

Davíð flýtti sér á móti andstæðingnum búinn þessu vopni. Við getum rétt ímyndað okkur að hann hafi beðið innilega til Jehóva þar sem hann beygði sig niður við þurran árfarveginn og valdi sér fimm hála smásteina. Síðan hljóp hann fram á vígvöllinn án þess að hika.

Hvað hugsaði Golíat þegar hann sá mótherja sinn? Hann „leit til hans með fyrirlitningu því að hann var aðeins unglingur, fríður og rauðbirkinn“, segir í frásögunni. Golíat þrumaði: „Heldurðu að ég sé hundur ... úr því að þú kemur á móti mér með staf?“ Hann sá greinilega staf Davíðs en virðist ekki hafa tekið eftir slöngvunni. Hann formælti Davíð við guði Filistea og sór þess að fóðra fugla og dýr merkurinnar með líki þessa auvirðilega fjandmanns. – 1. Samúelsbók 17:41-44.

Með svari sínu sýndi Davíð afar sterka trú. Við getum enn dregið lærdóm af fordæmi hans. Sjáðu fyrir þér þennan unga mann hrópa til Golíats: „Þú kemur á móti mér með sverð, spjót og lensu en ég kem á móti þér í nafni Drottins hersveitanna. Hann er Guð herfylkinga Ísraels sem þú hefur smánað.“ (1. Samúelsbók 17:45, 46) Davíð vissi að máttur manna og vopnabúnaður höfðu lítið að segja. Golíat hafði lítilsvirt Jehóva Guð og Jehóva myndi bregðast við því. Eða eins og Davíð orðaði það: „Þetta er stríð Jehóva.“ – 1. Samúelsbók 17:47, New World Translation.

Davíð gerði sér fulla grein fyrir stærð Golíats og vopnabúnaði hans. En hann neitaði að láta það hræða sig. Hann gerði ekki sömu mistök og Sál og hermenn hans. Davíð bar sjálfan sig ekki saman við Golíat heldur bar hann Golíat saman við Jehóva. Golíat var miklu hærri en aðrir menn, tæpir þrír metrar á hæð. En hve stór var hann miðað við drottnara alheims? Frammi fyrir Jehóva var hann rétt eins og aðrir menn, varla stærri en skordýr – og í þessu tilfelli skordýr sem Jehóva var í þann mund að útrýma.

Davíð sótti stein ofan í töskuna um leið og hann hljóp á móti andstæðingnum. Hann setti steininn í slöngvuna og þeytti henni yfir höfði sér þar til hvein í henni. Golíat sótti fram gegn Davíð, hugsanlega á hæla skjaldbera síns. Líklega kom það sér ekkert vel fyrir Golíat á þessari stundu að vera risavaxinn því að miðlungshár skjaldberi gat varla lyft skildinum nógu hátt til að verja höfuð hans. Og Davíð miðaði einmitt á höfuðið. – 1. Samúelsbók 17:41.

Davíð gerði sér grein fyrir að jafnvel risi er agnarsmár í samanburði við Jehóva Guð.

Davíð skaut steininum. Ímyndaðu þér þögnina þegar steinninn þeyttist í átt að markinu. Jehóva sá örugglega til þess að Davíð þurfti ekki að slöngva öðrum. Steinninn hitti beint í mark og grófst inn í enni Golíats. Risinn riðaði og féll á grúfu til jarðar. Skjaldberinn flúði eflaust í ofboði. Davíð hljóp að Golíat, tók sverð hans og hjó af honum höfuðið. – 1. Samúelsbók 17:48-51.

Nú endurheimtu Sál og hermenn hans hugrekki sitt. Með miklu herópi þustu þeir á móti Filisteunum. Bardaginn fór rétt eins og Davíð hafði sagt við Golíat: „Drottinn ... mun framselja ykkur í hendur okkar.“ – 1. Samúelsbók 17:47, 52, 53.

Þjónar Guðs nú á dögum taka ekki þátt í bókstaflegum hernaði. Sá tími er liðinn. (Matteus 26:52) En við þurfum samt að líkja eftir trú Davíðs. Jehóva þarf að vera okkur jafn raunverulegur og hann var Davíð, og við þurfum að vera sannfærð um að hann sé sá eini sem á skilið að fá lof okkar og tilbeiðslu. Þó að vandamálin geti stundum vaxið okkur í augum eru þau agnarsmá miðað við ótakmarkað afl Jehóva. Ef við tökum afstöðu með Jehóva Guði og treystum á hann, eins og Davíð gerði, þurfum við ekki að láta neina erfiðleika draga úr okkur kjarkinn. Ekkert er Jehóva um megn!