Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI | HVAR GETUM VIÐ FENGIÐ HUGGUN?

Við þörfnumst öll huggunar

Við þörfnumst öll huggunar

Manstu eftir því þegar þú varst barn og dast og meiddir þig. Þú fékkst kannski sár á höndina eða hruflaðir hnéð. Manstu hvernig mamma þín huggaði þig? Sennilega hreinsaði hún sárið og setti plástur á það. Þú grést en hún faðmaði þig hlýlega og rödd hennar róaði þig. Fljótlega leið þér betur. Það var aldrei langt í huggun og hughreystingu.

En þegar við eldumst vandast lífið. Vandamálin verða flóknari og erfiðara að finna huggun. Því miður er sjaldnast hægt að leysa erfiðleika fullorðinna með plástri og faðmlagi frá mömmu. Lítum á nokkur dæmi.

  • Hefurðu einhvern tíma orðið fyrir því að missa vinnuna? Julian segir að hann hafi fengið gríðarlegt áfall þegar honum var sagt upp vinnunni. Hann velti fyrir sér hvernig hann gæti séð fyrir fjölskyldunni og hugsaði: „Ég er búinn að vinna hörðum höndum hjá fyrirtækinu í mörg ár. Af hverju er ég allt í einu orðinn óþarfur?“

  • Ef til vill ertu miður þín vegna þess að hjónabandið fór út um þúfur. „Þegar maðurinn minn yfirgaf mig skyndilega fyrir 18 mánuðum fylltist ég sorg. Mér leið eins og hjartað hefði verið rifið úr mér,“ segir Raquel. „Sársaukinn var ekki bara tilfinningalegur heldur líka líkamlegur og það skelfdi mig.“

  • Kannski áttu við alvarleg veikindi að stríða og engin merki eru um bata. Þér líður ef til vill stundum eins og ættföðurnum Job. Hann sagði harmþrunginn: „Ég er uppgefinn, ég vil ekki lifa lengur.“ (Jobsbók 7:16) Eða líður þér kannski eins og Luis sem er á níræðisaldri? Hann segir: „Stundum finnst mér ég bara vera að bíða eftir að deyja.“

  • Kannski þarftu sárlega á huggun að halda vegna þess að þú hefur misst ástvin í dauðann. „Þegar sonur minn fórst í hörmulegu flugslysi trúði ég því ekki til að byrja með,“ segir Robert. „Síðan kom sársaukinn. Sársauki sem Biblían líkir við það að vera rekinn í gegn með sverði.“ – Lúkas 2:35.

Robert, Luis, Raquel og Julian fengu öll huggun og hughreystingu þrátt fyrir mjög erfiða lífsreynslu. Þau fengu huggun frá þeim sem er færastur í að veita hana – Guði sjálfum. Hvernig veitir hann huggun? Getur Guð líka huggað og hughreyst þig?