Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vissir þú?

Vissir þú?

Hvað var sérstakt við framkomu Jesú við holdsveika?

Gyðingar til forna óttuðust holdsveikina sem var útbreidd á biblíutímanum. Þessi skelfilegi sjúkdómur gat skemmt taugaenda, afmyndað sjúklinginn og valdið varanlegum skaða. Engin þekkt lækning var til. Holdsveikisjúklingar þurftu að búa einangraðir og þeim bar skylda til að vara aðra við að þeir væru sýktir. – 3. Mósebók 13:45, 46.

Trúarleiðtogar Gyðinga settu reglur sem gengu lengra en ritningarnar kröfðust. Með því gerðu þeir holdsveikum óþarflega erfitt fyrir. Samkvæmt reglum rabbína átti fólk til dæmis að halda sig í að minnsta kosti tveggja metra fjarlægð frá holdsveikum. Og í vindi átti að halda sig í 45 metra fjarlægð. Sumir sérfræðingar í Talmúðinum túlkuðu kröfur ritningarinnar um að holdsveikir ættu að búa „utan herbúðanna“ á þann veg að þeir mættu ekki koma inn fyrir borgarmúra. Þess vegna var rabbíni nokkur vanur að kasta grjóti að holdsveikum sem hann sá innan borgar og kalla: „Farðu heim til þín og saurgaðu ekki annað fólk!“

Jesús kom allt öðruvísi fram við holdsveika. Í stað þess að reka þá í burtu var hann fús til að snerta þá. Hann læknaði meira að segja holdsveika. – Matteus 8:3.

Á hvaða forsendum heimiluðu trúarleiðtogar Gyðinga hjónaskilnað?

Skilnaðarvottorð frá árinu 71 eða 72.

Hjónaskilnaður var deiluefni hjá trúarleiðtogum á fyrstu öld. Farísear storkuðu Jesú einu sinni með þessari spurningu: „Leyfist manni að skilja við konu sína fyrir hvaða sök sem er?“ – Matteus 19:3.

Móselögin heimiluðu manni að skilja við konu sína ef hann varð „var við eitthvað viðbjóðslegt hjá henni“. (5. Mósebók 24:1, Biblían 1981) Á dögum Jesú skiptust rabbínar í tvö horn hvað varðaði túlkun á þessu ákvæði. Þeir sem fylgdu rabbínanum Sammaí að málum túlkuðu ákvæðið þannig að eina löglega forsendan fyrir hjónaskilnaði væri „ósiðsemi“, það er að segja framhjáhald. Þeir sem fylgdu Hillel kenndu hins vegar að það væri löglegt fyrir mann að skilja við konu sína vegna hjónabandságreinings, hversu smávægilegur sem hann væri. Samkvæmt honum gat maður skilið við konu sína ef hún svo mikið sem eyðilagði matinn hans eða ef hann fann sér aðra konu sem honum fannst fallegri.

Hvernig svaraði Jesús faríseunum? Hann sagði einfaldlega: „Sá sem skilur við konu sína, nema sakir hórdóms, og kvænist annarri drýgir hór.“ – Matteus 19:6, 9.