Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS

Mér mistókst oft áður en ég náði árangri

Mér mistókst oft áður en ég náði árangri
  • FÆÐINGARÁR: 1953

  • FÖÐURLAND: ÁSTRALÍA

  • FORSAGA: VAR HÁÐUR KLÁMI

FORTÍÐ MÍN:

Faðir minn fluttist frá Þýskalandi til Ástralíu árið 1949. Hann kom til þess að starfa í orku- og námuiðnaðinum og settist að í sveitum Viktoríufylkis. Þar kvæntist hann móður minni og ég fæddist svo árið 1953.

Móðir mín fór að kynna sér Biblíuna með aðstoð votta Jehóva nokkrum árum síðar. Ég kynntist því Biblíunni strax í bernsku. Pabbi var hins vegar algerlega á móti öllum trúarbrögðum. Hann varð ofbeldisfullur og kúgaði mömmu svo að hún var dauðhrædd við hann. Hún hélt áfram að nema Biblíuna á laun og það sem hún lærði náði til hjartans. Þegar pabbi var að heiman kenndi hún mér og systur minni það sem hún hafði lært. Hún sagði okkur frá loforðinu um paradís á jörð og hvernig við gætum orðið hamingjusöm ef við hegðuðum okkur eftir frumreglum Biblíunnar. – Sálmur 37:10, 29; Jesaja 48:17.

Vegna þess hve ofbeldisfullur pabbi var neyddist ég til að flytjast að heiman 18 ára gamall. Þó að ég tryði því sem mamma kenndi mér frá Biblíunni kunni ég ekki að meta það til fulls og fór þess vegna ekki eftir því. Ég fór að vinna sem rafvirki í kolanámunum. Ég kvæntist þegar ég var 20 ára. Þremur árum síðar fæddist elsta dóttir mín og ég fór að endurskoða hvað væri mikilvægast í lífinu. Ég vissi að Biblían gæti hjálpað fjölskyldunni og fór því að kynna mér hana með aðstoð votta Jehóva. En konan mín var alveg á móti vottunum. Ég fór á samkomu hjá þeim og þá setti hún mér stólinn fyrir dyrnar – annaðhvort hætti ég í biblíunáminu eða færi út af heimilinu. Ég gafst upp, lét eftir kröfum hennar og sleit sambandi við vottana. Ég sá seinna eftir því að hafa ekki fylgt því sem ég vissi að var rétt.

Einn daginn sýndi vinnufélagi minn mér klám. Það var hrífandi en á sama tíma sjúklegt og ég fylltist sektarkennd. Ég mundi eftir því sem ég hafði lært í biblíunáminu og var sannfærður um að Guð myndi refsa mér. En viðhorf mitt til kláms breyttist jafnt og þétt eftir því sem ég horfði meira á klúrar og sóðalegar myndir. Með tímanum varð ég háður klámi.

Næstu 20 árin fjarlægðist ég enn meira siðferðisstaðlana sem mamma hafði reynt að innprenta mér. Hegðun mín endurspeglaði  það sem ég fyllti hugann af. Ég var dónalegur í tali og hafði gaman af klúrum bröndurum. Viðhorf mitt til kynlífs varð brenglað. Ég var með öðrum konum þrátt fyrir að við hjónin byggjum enn saman. Eitt sinn þegar ég leit í spegilinn líkaði mér ekki lengur við það sem ég sá. Sjálfsvirðing mín var í molum og ég hafði óbeit á sjálfum mér.

Hjónabandið fór út um þúfur og líf mitt var í rúst. Þá bað ég einlæglega til Jehóva. Ég tók upp þráðinn að nýju og hélt biblíunámi mínu áfram eftir tveggja áratuga hlé. Pabbi var þá látinn og mamma hafði látið skírast sem vottur Jehóva.

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU:

Þó að risastór gjá væri á milli lífernis míns og háleitra staðla Biblíunnar var ég nú staðráðinn í að eignast þann hugarfrið sem Biblían lofar. Ég vandi mig af dónalegu tali og reyndi að ná tökum á skapinu. Ég sagði skilið við siðlaust líferni, fjárhættuspil, ofdrykkju og hætti að stela frá vinnuveitanda mínum.

Vinnufélagar mínir gátu ekki skilið hvers vegna ég vildi gera svo róttækar breytingar á lífi mínu. Í þrjú ár reyndu þeir stöðugt að draga mig aftur í gamla farið. Þegar ég missteig mig með því að blóta eða missa stjórn á skapi mínu sögðu þeir sigri hrósandi: „Gamli Joe er bara mættur aftur!“ Það særði mig að heyra þetta og oft fannst mér ég vera gersamlega misheppnaður.

Á vinnustaðnum mínum var klámfengið efni hvert sem litið var, í tölvum og á prenti. Vinnufélagar mínir voru vanir að dreifa sóðalegum myndum í gegnum tölvurnar sínar eins og ég hafði áður gert. Ég var að reyna að sigrast á fíkninni en þeir virtust staðráðnir í að fella mig. Ég leitaði til biblíukennara míns til þess að fá hjálp og uppörvun. Hann hlustaði þolinmóður á mig á meðan ég útskýrði vanda minn fyrir honum. Með vel völdum ritningarstöðum sýndi hann mér hvernig ég gæti tekist á við fíknina og hvatti mig til þess að gefast ekki upp á að biðja Jehóva um hjálp. – Sálmur 119:37.

Eitt sinn kallaði ég vinnuhópinn saman. Þegar allir voru komnir bað ég vinnufélagana um að gefa tveimur þeirra bjór sem voru óvirkir alkóhólistar. Allir mótmæltu og sögðu: „Maður gerir ekki svoleiðis! Þeir eru að berjast við fíkn.“ Ég svaraði: „Já, einmitt! Ég er það líka.“ Þaðan í frá skildu vinnufélagarnir að ég var að glíma við klámfíkn og þeir hættu að reyna að draga mig í gamla farið.

Með mikilli hjálp frá Jehóva tókst mér smám saman að sigrast á klámfíkninni. Ég lét skírast sem vottur Jehóva árið 1999 og er afar þakklátur fyrir að hafa fengið annað tækifæri til að lifa hamingjuríku og góðu lífi.

Ég skil núna hvers vegna Jehóva hatar það sem ég hafði áður unun af svo lengi. Hann er kærleiksríkur faðir og vildi vernda mig fyrir skaðlegum áhrifum kláms. Ráðin í Orðskviðunum 3:5, 6 hafa heldur betur reynst sönn. Þar segir: „Treystu Drottni af öllu hjarta en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Minnstu hans á öllum vegum þínum, þá mun hann gera leiðir þínar greiðar.“ Siðferðisreglur Biblíunnar hafa bæði verið vernd fyrir mig og lykill að árangri. – Sálmur 1:1-3.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS:

Áður fyrr bauð mér við sjálfum mér en núna hef ég sjálfsvirðingu og hugarfrið. Líf mitt er laust við siðferðilegan óhreinleika og ég hef fundið fyrir stuðningi Jehóva og fyrirgefningu hans. Árið 2000 kvæntist ég Karolin en hún er yndisleg trúsystir sem elskar Jehóva eins heitt og ég geri. Heimili okkar er friðsælt skjól. Við erum stolt af því að tilheyra alþjóðlegum kristnum söfnuði sem er bæði kærleiksríkur og siðferðilega hreinn.