Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er lykillinn að langlífi fólginn í að meðhöndla gen manna?

Leitin að lengra lífi

Leitin að lengra lífi

„Ég virti fyrir mér þá þraut sem Guð hefur fengið mönnunum að þreyta sig á. Allt hefur hann gert hagfellt á sínum tíma, jafnvel eilífðina hefur hann lagt í brjóst þeirra.“ – Prédikarinn 3:10, 11.

SALÓMON konungur sagði þessi orð og þau lýsa því vel hvernig fólk lítur á lífið. Menn hafa alltaf þráð að lifa lengur, kannski vegna þess hve lífið er stutt og dauðinn óumflýjanlegur. Til eru margar frásögur og þjóðsögur af leit manna að lengra lífi.

Tökum sem dæmi Gilgames, sem var súmerskur konungur. Margar fjarstæðukenndar goðsögur eru til um hann. Eina þeirra er að finna í söguljóðinu um Gilgames en þar er sagt að hann hafi farið í hættulega för til að læra hvernig hann gæti umflúið dauðann. Honum tókst það ekki.

Gullgerðarmaður á miðöldum á tilraunastofu sinni.

Á fjórðu öld f.Kr. reyndu gullgerðarmenn í Kína að brugga elixír sem fólk trúði að myndi lengja lífið. Þeir bjuggu til mixtúru sem var styrkt með örlitlu kvikasilfri og arseníki. Talið er að þessi elixír hafi dregið nokkra kínverska keisara til dauða. Sumir gullgerðarmenn í Evrópu á miðöldum reyndu að gera gull meltanlegt því að þeir trúðu að það gæti lengt líf manna vegna þess hve tæringarþolið það er.

Nú á dögum reyna sumir líf- og erfðafræðingar að finna út hvað veldur öldrun. Það sýnir að vonin um að vinna bug á öldrun og dauða er enn ofarlega í hugum manna. Hvað hefur komið út úr þessum rannsóknum?

„EILÍFÐINA HEFUR [GUÐ] LAGT Í BRJÓST ÞEIRRA.“ – PRÉDIKARINN 3:10, 11.

LEITIN AÐ ORSÖKUM ÖLDRUNAR

Vísindamenn sem rannsaka frumur mannslíkamans hafa sett fram fleiri en 300 kenningar um hvers vegna við eldumst og deyjum. Á undanförnum árum hefur sameindalíffræðingum tekist að meðhöndla gen og prótín til þess að hægja á öldrun tilraunadýra og frumum mannslíkamans. Slíkar framfarir hafa fengið auðmenn til að fjármagna rannsóknir á „þeim vanda sem dauðinn er“. Hvað hafa menn gert með slíkar rannsóknir?

Lífsklukkunni seinkað. Sumir líffræðingar telja að helsta ástæðan fyrir öldrun felist í litningaendum, einnig kallaðir telómerar. Litningaendar gæta erfðafræðilegra upplýsinga í frumunum þegar þær skipta sér. En þeir styttast við hverja skiptingu. Að lokum hætta frumurnar að skipta sér og við byrjum að eldast.

Elizabeth Blackburn, sem hlaut nóbelsverðlaun árið 2009, bar ásamt teymi sínu kennsl á ensím  sem hægir á að litningaendarnir styttist og hægir þar af leiðandi á öldrun frumnanna. En í skýrslu sinni viðurkennir teymið þó að litningaendar lengi ekki líf fólks.

Að endurforrita frumur er önnur leið til að halda aftur af öldrun. Þegar frumurnar verða of gamlar til að skipta sér geta þær sent nálægum ónæmisfrumum röng skilaboð og þannig valdið bólgum, stöðugum verkjum og sjúkdómum. Vísindamenn í Frakklandi hafa nýlega endurforritað frumur úr gömlu fólki sem sumt var orðið yfir 100 ára. Prófessor Jean-Marc Lemaître sem leiddi rannsóknina segir að vinna þeirra sýni að „hægt sé að snúa við öldrun“ í frumum.

GETA VÍSINDIN LENGT LÍF OKKAR?

Vísindamenn eru ekki allir sammála um að meðferðir til að halda aftur af öldrun geti lengt líf okkar til muna. Að vísu hafa lífslíkur manna aukist jafnt og þétt frá því á 19. öld. En það er að mestu vegna aukins hreinlætis, árangurs í meðferðum smitsjúkdóma, notkunar sýklalyfja og bólusetninga. Sumir erfðafræðingar telja að æviskeið mannsins hafi nú þegar náð þeim mörkum sem hægt er.

Fyrir um 3.500 árum sagði biblíuritarinn Móse: „Ævidagar vorir eru sjötíu ár og þegar best lætur áttatíu ár, og dýrasta hnossið er mæða og hégómi, því að þeir líða í skyndi og vér fljúgum burt.“ (Sálmur 90:10) Þrátt fyrir það sem menn hafa lagt á sig til að lengja lífið er æviskeið okkar nokkurn veginn eins og Móse lýsti því.

Aftur á móti eru til hákarlar og kúfskeljar sem geta orðið meira en 200 ára og risafuran getur orðið nokkur þúsund ára gömul. Þegar við berum æviskeið okkar saman við æviskeið annarra lífvera veltum við kannski fyrir okkur hvort 70–80 ár séu allt og sumt.