Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 FORSÍÐUEFNI | ÞEGAR ÁSTVINUR DEYR

Að takast á við sorgina

Að takast á við sorgina

Nóg er til af ráðleggingum um þetta málefni en þær eru ekki allar gagnlegar. Sumir ráðleggja fólki til dæmis að gráta ekki eða sýna tilfinningar sínar á nokkurn hátt. Aðrir hvetja fólk til að fara þveröfugt að og tjá allar tilfinningar sínar. Ráð Biblíunnar eru hins vegar öfgalaus og koma heim og saman við nýlegar rannsóknir.

Sums staðar telst ekki karlmannlegt að gráta, sérstaklega svo að aðrir sjái til. En er ástæða til að skammast sín fyrir að gráta? Sérfræðingar á sviði geðheilbrigðis segja að grátur sé eðlilegur hluti af sorgarferlinu. Og sorgin getur með tímanum hjálpað manni að komast yfir missi, hversu mikill sem hann er. Að byrgja sorgina inni getur gert meiri skaða en gagn. Biblían styður engan veginn þá hugmynd að það sé rangt eða ókarlmannlegt að syrgja eða gráta. Tökum Jesú sem dæmi. Hann hafði mátt til að reisa látna til lífs á ný en var samt ófeiminn að láta aðra sjá sig gráta þegar Lasarus, kær vinur hans, dó. – Jóhannes 11:33-35.

Reiði er oft hluti af sorgarferlinu, sérstaklega þegar skyndilegt dauðsfall verður. Margar ástæður geta verið fyrir því að sá sem syrgir finni til reiði. Til dæmis getur það vakið reiði hans þegar einhver sem hann lítur upp til kemur með hugsunarlausar eða rangar athugasemdir. Mike, sem er frá Suður-Afríku, segir: „Ég var ekki nema 14 ára þegar pabbi minn dó. Við jarðarförina sagði presturinn að Guði vantaði gott fólk og tæki það til sín snemma. * Ég reiddist vegna þess að við þurftum sárlega á pabba okkar að halda. Þetta særir mig enn þó að 63 ár séu liðin.“

Hvað um sektarkennd? Þeir sem missa einhvern skyndilega í dauðann hugsa stundum aftur og aftur að ef þeir hefðu bara gert þetta eða hitt hefði þetta kannski ekki komið fyrir hann. Og ef síðustu samskiptin við hinn látna voru rifrildi eykur það stundum enn frekar á sektarkenndina.

Ef sektarkennd eða reiði þjáir þig er mikilvægt að byrgja ekki tilfinningarnar inni. Talaðu heldur við vin sem er tilbúinn að hlusta á þig. Hann getur fullvissað þig um að slíkar tilfinningar séu algengar hjá þeim sem syrgja þó að þær séu órökréttar. Í Biblíunni segir: „Vinur lætur aldrei af vináttu sinni, í andstreymi reynist hann sem bróðir.“ – Orðskviðirnir 17:17.

Þegar þú syrgir er skapari okkar, Jehóva Guð, besti vinurinn sem þú getur átt. Úthelltu hjarta þínu fyrir honum í bæn því að ,hann ber umhyggju fyrir þér‘. (1. Pétursbréf 5:7) Og hann lofar þeim sem gera það að „friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi“ verndi hugsanir þeirra og hjörtu. (Filippíbréfið 4:6, 7) Leyfðu Guði líka að hjálpa þér með huggandi orðum úr Biblíunni. Búðu þér til lista yfir hughreystandi biblíuvers. (Sjá  rammagrein.) Þú gætir lagt nokkur þeirra á  minnið. Það er sérstaklega gott að hugleiða slík vers þegar þú ert einmana og getur ekki sofið. – Jesaja 57:15.

Fertugur maður, sem við skulum kalla Jakob, missti konuna sína nýlega úr krabbameini. Hann segist stundum vera ákaflega einmana. En hann finnur huggun í bæninni. Hann segir: „Þegar ég bið til Jehóva finnst mér ég aldrei vera einn. Oft vakna ég um nætur og get ekki sofnað aftur. Þegar ég hef lesið og hugleitt hughreystandi orð úr Biblíunni og úthellt hjarta mínu í bæn finn ég ólýsanlegan frið innra með mér sem róar mig svo að ég get sofnað aftur.“

Ung kona, sem heitir Vanessa, missti móður sína vegna veikinda. Hún hefur líka upplifað mátt bænarinnar. Hún segir: „Á erfiðustu stundunum bað ég Jehóva Guð um hjálp og brast í grát. Jehóva hlustaði á bænir mínar og gaf mér alltaf þann styrk sem ég þurfti.“

Sumir sem veita syrgjendum ráðgjöf ráðleggja þeim að vera virkir í að hjálpa öðrum eða gefa af tíma sínum í þágu samfélagsins. Það veitir gleði og getur linað sorgina. (Postulasagan 20:35) Margir vottar Jehóva, sem hafa misst ástvin, hafa fundið mikla huggun í því að aðstoða aðra. – 2. Korintubréf 1:3, 4.

^ gr. 5 Þetta er ekki biblíuleg kenning. Biblían tilgreinir þrjár ástæður fyrir dauðanum. – Prédikarinn 9:11; Jóhannes 8:44; Rómverjabréfið 5:12.