Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 FORSÍÐUEFNI | ÞEGAR ÁSTVINUR DEYR

Er rangt að syrgja?

Er rangt að syrgja?

Hefurðu orðið veikur um tíma en síðan náð þér það vel að þú ert nánast búinn að gleyma veikindunum? Því er ekki þannig farið með sorgina. Doktor Alan Wolfelt segir í bók sinni Healing a Spouse’s Grieving Heart (Að græða hjarta syrgjandi maka): „Það er ekkert sem heitir að ,komast yfir‘ sorg.“ Hann bætir við: „Tíminn og hjálp annarra milda sorgina.“

Sem dæmi getum við skoðað hvernig ættfaðirinn Abraham brást við þegar konan hans dó. „Hóf Abraham þá að flytja líksöng og syrgja hana,“ segir í Biblíunni. Orðalagið gefur til kynna að það tók Abraham nokkurn tíma að vinna úr sorginni. * Jakob er annað dæmi. Hann var blekktur svo að hann hélt að Jósef, sonur hans, hefði verið drepinn af villidýri. Hann syrgði í „langan tíma“ og var óhuggandi þrátt fyrir að fjölskyldan reyndi að hughreysta hann. Mörgum árum síðar hvíldi dauði Jósefs enn þungt á honum. – 1. Mósebók 23:2; 37:34, 35; 42:36; 45:28.

Abraham syrgði Söru, ástkæra eiginkonu sína.

Eins er með marga nú á dögum sem hafa misst einhvern nákominn eins og sjá má af eftirfarandi dæmum.

  • „Robert, maðurinn minn, lést 9. júlí 2008. Dagurinn, sem banaslysið varð, byrjaði rétt eins og aðrir dagar. Eftir morgunmatinn kvöddumst við með kossi, faðmlagi og sögðumst elska hvort annað eins og við vorum vön að gera þegar hann fór í vinnuna. Þó að sex ár séu liðin sakna ég hans enn sárt. Ég held að ég eigi aldrei eftir að komast yfir sorgina af því að missa Rob.“ – Gail, 60 ára.

  • „Það eru meira en 18 ár síðan ég missti ástkæra eiginkonu mína en ég sakna hennar enn og syrgi hana. Í hvert sinn sem ég sé eitthvað fallegt í náttúrunni hugsa ég ósjálfrátt til hennar og velti fyrir mér hvernig hún hefði notið þess.“ – Etienne, 84 ára.

Þungbærar tilfinningar sem þessar eru augljóslega eðlilegar og þær geta staðið lengi. Hver og einn syrgir á sinn hátt og það ætti ekki að dæma aðra fyrir það hvernig þeir bregðast við áföllum. Við ættum ekki heldur að dæma okkur sjálf ef okkur finnst við syrgja of mikið eða of lengi. Hvernig getum við tekist á við sorgina?

^ gr. 4 Ísak, sonur Abrahams, syrgði einnig lengi. Eins og sjá má í greininni „Líkjum eftir trú þeirra“ í þessu blaði, syrgði Ísak enn Söru, móður sína, þremur árum eftir að hún lést. – 1. Mósebók 24:67.