Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lífið er sannarlega erfiðisins virði

Lífið er sannarlega erfiðisins virði

Faizal þurfti að fara í stóra hjartaaðgerð rétt um ári eftir að hann missti eiginkonu sína. Hann segir: „Þegar ég las Jobsbók skildi ég ástæðuna fyrir því að Jehóva lét rita bókina. Það er ákaflega hughreystandi að lesa frásögur í Biblíunni sem eiga við um okkar aðstæður.“ Hann bætir við: „Lífið er enn erfiðisins virði.“

Tarsha missti móður sína þegar hún var ung. Hún segir: „Þrátt fyrir að ég þurfi að glíma við ýmsa erfiðleika hefur það að kynnast skaparanum gefið mér tilgang, von og gleði. Jehóva getur svo sannarlega séð um okkur og hjálpað okkur að halda út dag eftir dag.“

Í ÞESSARI greinaröð höfum við fjallað um hvernig ýmis áföll geta valdið því að okkur finnist lífið óbærilegt. Þegar þú burðast með þungar byrðar gætirðu farið að efast um að lífið sé þess virði að lifa því eða jafnvel hugsað að engum þyki vænt um þig. Þú mátt samt vera viss um að Guð tekur eftir þjáningum þínum. Þú ert honum mikils virði.

Sá sem ritaði 86. sálminn bar mikið traust til Guðs: „Þegar ég er í nauðum staddur ákalla ég þig því að þú bænheyrir mig.“ (Sálmur 86:7) Þú gætir samt spurt: „Hvernig mun Guð svara mér ,þegar ég er í nauðum staddur‘?“

Þó að Guð muni ekki leysa öll þín vandamál núna getur orð hans fullvissað þig um að hann gefi þér hugarfrið til þess að takast á við vandamálin. Í Biblíunni segir: „Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir.“ (Filippíbréfið 4:6, 7) Hugleiddu hvernig eftirfarandi biblíuvers geta fullvissað þig um kærleika Guðs til þín.

Guði er annt um þig

,Guð gleymir engum spörfugli. Þér eruð meira verðir en margir spörvar.‘ – Lúkas 12:6, 7.

HUGLEIDDU ÞETTA: Þótt mörgum finnist spörvar og aðrir smáfuglar vera frekar ómerkilegir eru þeir það ekki í augum Guðs. Honum yfirsést ekki einu sinni einn lítill spörfugl, hver og einn þeirra er dýrmætur. Mennirnir eru enn verðmætari í augum Guðs. Maðurinn er hápunktur jarðneskrar sköpunar Guðs, skapaður í hans mynd og fær um að þroska með sér eiginleika hans. – 1. Mósebók 1:26, 27.

„Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig ... Þú skynjar hugrenningar mínar ... Rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar.“ – Sálmur 139:1, 2, 23.

HUGLEIDDU ÞETTA: Guð þekkir þig persónulega. Hann þekkir allar áhyggjur þínar og innstu tilfinningar. Guði þykir vænt um þig og hann vill hjálpa þér þótt aðrir skilji kannski ekki vandamál þín og kvíða. Það gerir lífið erfiðisins virði.

 Líf þitt hefur tilgang

„Drottinn, heyr þú bæn mína, hróp mitt berist til þín ... Hneig eyra þitt að mér, svara mér skjótt þegar ég kalla ... Hann gefur gaum að bæn hinna allslausu.“ – Sálmur 102:2, 3, 18.

HUGLEIDDU ÞETTA: Það er eins og Jehóva hafi haldið bókhald um hvert tár sem fallið hefur allt frá því að þjáningar manna hófust. (Sálmur 56:9) Þar með talin eru tárin þín. Guð man eftir öllum erfiðleikum þínum og tárum því að þú ert honum kær.

„Vertu ekki hræddur því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér ... Ég, Drottinn, er Guð þinn ... og segi við þig: ,Óttast eigi, ég bjarga þér.‘“ – Jesaja 41:10, 13.

HUGLEIDDU ÞETTA: Guð vill hjálpa þér. Ef þú fellur mun hann hjálpa þér á fætur.

Von um bjarta framtíð

„Svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“ – Jóhannes 3:16.

HUGLEIDDU ÞETTA: Þú ert svo verðmætur í augum Guðs að hann gaf son sinn, Jesú, sem lausnarfórn fyrir þig. Lausnarfórnin gefur þér möguleika á að lifa innihaldsríku og hamingjuríku lífi að eilífu. *

Þrátt fyrir að maður glími við kvíða og líf manns virðist óbærilegt er viturlegt að rannsaka orð Guðs vel og byggja upp trú á vonina sem loforð Guðs veita. Það gerir mann ánægðan og öruggan um að lífið sé erfiðisins virði.

^ gr. 19 Hægt er að fá nánari upplýsingar um hvaða gagn þú getur haft af lausnarfórn Jesú með því að horfa á myndskeiðið Minnist dauða Jesú á www.jw.org/is. Sjá ÚTGÁFA > MYNDBÖND > SAMKOMUR OG BOÐUN.