Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að spá fyrir um framtíðina

Að spá fyrir um framtíðina

Hefurðu velt fyrir þér hvað bíður þín og fjölskyldu þinnar í framtíðinni? Verðurðu efnaður eða fátækur, elskaður eða einmana? Muntu lifa lengi eða deyja fyrir aldur fram? Í aldanna rás hefur fólk velt slíkum spurningum fyrir sér.

Spár sérfræðinga um framtíðina byggjast á þróun mála í heiminum. Þó að margar af spám þeirra hafi ræst hafa aðrar reynst rangar, jafnvel kolrangar. Dæmi um það er Guglielmo Marconi sem fann upp aðferð til að senda þráðlaus skeyti. Árið 1912 var haft eftir honum: „Þráðlaus tækni mun gera stríð óhugsandi.“ Annað dæmi er starfsmaður plötuútgáfunnar Decca. Hann hafnaði Bítlunum árið 1962 vegna þess að hann taldi að gítarhljómsveitir væru að detta úr tísku.

Margir leita til yfirnáttúrulegra fyrirbæra til að fá vísbendingar um framtíðina. Sumir leita ráða hjá stjörnuspekingum en stjörnuspá er fastur liður í mörgum tímaritum og dagblöðum. Aðrir fara til spámanna og miðla sem segjast geta lesið í framtíðina úr Tarotspilum, tölum eða með því lesa í lófa.

Fólk til forna leitaði stundum til véfrétta – presta eða hofgyðja sem töldu sig miðla upplýsingum frá guði sínum. Það er til dæmis sagt að Krösus Lýdíukonungur hafi sent dýrar gjafir til véfréttarinnar í Delfí í Grikklandi. Hann vildi vita hvernig færi ef hann réðist gegn Kýrusi Persakonungi. Véfréttin sagði að Krösus myndi eyða „voldugu heimsveldi“ ef hann réðist gegn Kýrusi. Krösus lagði til atlögu fullviss um að hann myndi sigra. En heimsveldið sem féll var hans eigið.

Þessi spádómur var einskis virði þar sem hægt var að skilja hann á tvo vegu. Hann hefði ræst á hvorn veginn sem færi. Krösus missti allt vegna þess að hann treysti á þessar upplýsingar. Hefur þeim sem treysta spásögnum nú á dögum farnast eitthvað betur?