Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Njóttu gleðinnar sem fylgir gjafmildi

Njóttu gleðinnar sem fylgir gjafmildi

„RÚTAN má fara. En Kínverjinn verður eftir!“ Alexandra heyrði þetta þar sem hún beið í rútu eftir að komast yfir landamærin á milli tveggja ríkja í Suður-Ameríku. Hún fór út til að athuga hvað var á seyði og sá ungan kínverskan mann reyna á bjagaðri spænsku að skýra vandræði sín fyrir landamæraverði. Alexandra bauðst til að túlka fyrir manninn þar sem hún tilheyrði kínverskumælandi söfnuði Votta Jehóva.

Maðurinn sagðist eiga lögheimili í landinu en að pappírum hans og peningum hefði verið rænt. Til að byrja með trúði landamæravörðurinn honum ekki og grunaði Alexöndru jafnvel um að vera viðriðin mansal. Að lokum tók hann skýringu mannsins gilda en ferðalangurinn óheppni þurfti að borga sekt fyrir að vera ekki með tilskilda pappíra. Þar sem hann var peningalaus bauðst Alexandra til að lána honum 20 dollara. Maðurinn var henni afskaplega þakklátur og sagðist mundu borga henni ríflega til baka. Alexandra sagðist ekki falast eftir neinni umbun. Hún sagðist vera ánægð að geta hjálpað vegna þess að henni fyndist rétt að gera það. Hún gaf manninum biblíurit og hvatti hann til að kynna sér Biblíuna með aðstoð votta Jehóva.

Það er alltaf ánægjulegt að heyra af örlæti í garð ókunnugra. Áreiðanlega hafa fleiri gert eitthvað svipað, hvort sem þeir tilheyra einhverri trú eða ekki. Hefðir þú verið fús til að sýna slíkt örlæti? Spurningin er umhugsunarverð vegna þess að Jesús sagði: „Sælla er að gefa en þiggja.“ (Postulasagan 20:35) Vísindamenn hafa þar að auki komist að því að örlæti geri manni gott. Skoðum á hvaða vegu.

,GLAÐUR GJAFARI‘

Reynslan sýnir að gjafmildi og gleði haldast oft í hendur. Páll postuli sagði: „Guð elskar glaðan gjafara.“ Páll átti þar við kristna menn sem gáfu rausnarleg framlög til að hjálpa bágstöddum trúsystkinum sínum. (2. Korintubréf 8:4; 9:7) Hann átti ekki við að þeir hefðu gefið af því að þeir voru glaðir. Þeir voru glaðir vegna þess að þeir gáfu.

Rannsókn nokkur sýndi að það að gefa „virkjar svæði í heilanum sem tengjast ánægju, félagslegum tengslum og trausti. Það vekur hlýjar tilfinningar hjá gjafaranum.“ Önnur rannsókn leiddi í ljós að „það veitti fólki meiri gleði að nota fjármuni sína öðrum til góðs en að eyða þeim í sjálft sig“.

Hefur þér einhvern tíma fundist þú ekki vera í aðstöðu til að gera mikið fyrir aðra? Í rauninni geta allir notið gleðinnar sem fylgir gjafmildi. Ef gefið er af réttu tilefni þarf gjöfin ekki að vera stór. Kona ein sem er vottur Jehóva sendi framlög til útgefenda þessa blaðs með eftirfarandi skilaboðum: „Í fjölmörg ár hef ég aðeins haft ráð á að gefa litlar fjárhæðir til safnaðarins.“ En hún bætti við: „Jehóva Guð hefur gefið mér svo miklu meira til baka ... Takk fyrir að gefa mér færi á að gefa þessa gjöf – það lætur mér líða vel.“

Gjafmildi einskorðast að sjálfsögðu ekki við að gefa peninga. Hægt er að gefa á marga aðra vegu.

GJAFMILDI ER GÓÐ FYRIR HEILSUNA

Gjafmildi gerir sjálfum manni og öðrum gott.

Í Biblíunni stendur: „Kærleiksríkur maður vinnur sjálfum sér gagn, harðlyndur maður vinnur sér mein.“ (Orðskviðirnir 11:17) Þeir sem eru kærleiksríkir eru örlátir og fúsir að gefa af sér, þar á meðal af tíma sínum, kröftum og umhyggju. Gjafmildin er þeim sjálfum til góðs á ýmsa vegu. Meðal annars hefur hún góð áhrif á heilsu þeirra.

Rannsóknir sýna að þeir sem bjóða sig fram til að hjálpa öðrum þjást síður af kvillum, verkjum og depurð. Á heildina litið eru þeir heilsuhraustari. Gjafmildi getur jafnvel bætt heilsu þeirra sem þjást af langvinnum sjúkdómum eins og til dæmis HIV eða MS-sjúkdómnum. Einnig hefur verið sýnt fram á að óvirkir alkóhólistar, sem hjálpa öðrum, verða síður þunglyndir og það eru minni líkur á að þeir falli.

Ástæðan er talin sú að „neikvæðar tilfinningar víkja fyrir samúð, örlæti og góðvild“. Gjafmildi getur líka minnkað streitu og lækkað blóðþrýsting. Þeir sem missa maka sinn ná sér fyrr upp úr depurð ef þeir eru öðrum til stuðnings.

Það er engum blöðum um það að fletta að gjafmildi gerir manni gott.

GJAFMILDI ER SMITANDI

Jesús hvatti fylgjendur sína: „Gefið og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða.“ (Lúkas 6:38) Þegar þú gefur öðrum er líklegt að þeir sýni þakklæti og verði örlátir sjálfir. Gjafmildi stuðlar því að gagnkvæmri hjálp og vináttu.

Gjafmildi stuðlar að gagnkvæmri hjálp og vináttu.

Vísindamenn, sem rannsaka samskipti fólks, hafa tekið eftir því að „þeir sem eru að jafnaði fórnfúsir hafa hvetjandi áhrif á aðra til að gera slíkt hið sama. Það eitt að lesa um einstök góðverk annarra hvetur fólk til að vera örlátara.“ Enda kom í ljós í rannsókn nokkurri að „einn einstaklingur getur haft áhrif á tugi ef ekki hundruð manna, þar á meðal fólk sem hann þekkir ekki neitt“. Eitt góðverk getur þannig komið af stað keðjuverkun og vakið örlæti hjá fólki í heilu bæjarfélagi. Myndir þú ekki vilja búa á slíkum stað? Það væri til góðs ef fleiri temdu sér örlæti.

Frásaga frá Flórída í Bandaríkjunum sýnir hve góð áhrif gjafmildi getur haft. Hópur votta Jehóva bauð sig fram til að veita neyðaraðstoð eftir fellibyl. Á meðan þeir biðu eftir efnivið til að gera við hús nokkurt tóku þeir eftir að girðing nágrannans var skemmd og buðust til að laga hana. „Ég er þeim eilíflega þakklátur,“ sagði nágranninn í bréfi sem hann sendi nokkru síðar til höfuðstöðva Votta Jehóva. „Ég hef varla hitt betra fólk.“ Vegna þess hve þakklátur hann var sendi hann rausnarlegt framlag til að nota í það sem hann kallaði einstakt starf vottanna.

BESTA FYRIRMYNDIN Í GJAFMILDI

Vísindarannsókn leiddi í ljós markverða staðreynd: „Það virðist vera innbyggt í manninn að hjálpa öðrum.“ Í rannsókninni segir að börn „sýna fórnfýsi jafnvel áður en þau læra að tala“. Hvers vegna er það svo? Svarið er að finna í Biblíunni en hún segir að maðurinn sé skapaður „eftir Guðs mynd“, það er að segja með sömu eiginleika og hann. – 1. Mósebók 1:27.

Örlæti er einn af dásamlegum eiginleikum skapara okkar, Jehóva Guðs. Hann gaf okkur lífið og allt sem við þurfum til að vera hamingjusöm. (Postulasagan 14:17; 17:26-28) Við getum kynnst himneskum föður okkar og kærleiksríkri fyrirætlun hans með mannkynið með því að rannsaka orð hans. Biblían opinberar einnig að Guð hefur gert ráðstafanir til þess að tryggja hamingju okkar í framtíðinni. * (1. Jóhannesarbréf 4:9, 10) Þar sem Jehóva Guð er uppspretta gjafmildi og við erum sköpuð í hans mynd er eðlilegt að það geri okkur gott að vera gjafmild. Hann hefur velþóknun á okkur þegar við fylgjum fyrirmynd hans. – Hebreabréfið 13:16.

Hvernig endaði saga Alexöndru sem minnst var á í upphafi greinarinnar? Annar farþegi í rútunni sagði henni að hún sæi peningana sína aldrei aftur. En maðurinn, sem hún hjálpaði, hafði sambandi við vini sína í borg þar sem rútan stoppaði og hún fékk peningana til baka. Þar að auki fór maðurinn að ráði Alexöndru og byrjaði að kynna sér Biblíuna. Hún var mjög ánægð þegar hún hitti hann aftur þrem mánuðum síðar á móti Votta Jehóva fyrir kínverskumælandi fólk í Perú. Í þakklætisskyni fyrir allt sem Alexandra hafði gert fyrir hann bauð hann henni og samferðafólki hennar að borða á veitingastaðnum sínum.

Að gefa og að hjálpa öðrum veitir mikla gleði. Og það veitir enn meiri gleði ef hjálpum fólki um leið að kynnast Jehóva Guði sem er uppspretta allra góðra gjafa. (Jakobsbréfið 1:17) Nýtur þú gleðinnar sem fylgir gjafmildi?

^ gr. 21 Nánari upplýsingar er að finna í bókinni Hvað kennir Biblían? Bókin er gefin út af Vottum Jehóva og er fáanleg á www.jw.org/is. Sjá ÚTGÁFA > BÆKUR OG BÆKLINGAR.