Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sannleikurinn um framtíðina

Sannleikurinn um framtíðina

Hefurðu nokkurn tíma velt fyrir þér hvernig framtíðin verður? Biblían sýnir fram á að rétt fram undan eru mikilvægir atburðir sem munu hafa áhrif á alla jarðarbúa.

Jesús sagði hvernig við myndum ,vita að ríki Guðs væri í nánd‘. (Lúkas 21:31) Hann spáði meðal annars að það yrðu miklar styrjaldir, stórir jarðskjálftar, hungursneyðir og drepsóttir – rétt eins og er að gerast núna. – Lúkas 21:10–17.

Biblían sýnir einnig að á „síðustu dögum“ mannlegra stjórna myndi fólk sýna af sér slæma hegðun. Lýsinguna er að finna í 2. Tímóteusarbréfi 3:1–5. Þegar þú verður var við þess konar viðhorf og hegðun ertu eflaust sammála því að þessi spádómur Biblíunnar á vel við okkar tíma.

Hvað merkir þetta? Það er stutt í að ríki Guðs geri miklar breytingar sem eiga eftir að bæta lífið á jörðinni til muna. (Lúkas 21:36) Í Biblíunni lofar Guð góðri framtíð fyrir jörðina og þá sem munu búa á henni. Hér eru nokkur dæmi.

GÓÐ STJÓRN

„Honum [Jesú] var falið valdið, tignin og konungdæmið og allir menn, þjóðir og tungur skyldu lúta honum. Veldi hans er eilíft og líður aldrei undir lok, á konungdæmi hans verður enginn endir.“ – DANÍEL 7:14.

Hvað merkir þetta? Þú getur fengið að njóta lífsins undir einstakri heimsstjórn sem Guð kemur á fót með son sinn sem konung.

GÓÐ HEILSA

„Enginn borgarbúi mun segja: ,Ég er veikur.‘“ – JESAJA 33:24.

Hvað merkir þetta? Þú verður aldrei veikur eða bæklaður og þarft aldrei að deyja.

FULLKOMINN FRIÐUR

„Hann stöðvar stríð til endimarka jarðar.“ – SÁLMUR 46:10.

Hvað merkir þetta? Stríð og þær þjáningar sem fylgja þeim ógna engum framar.

ÞAÐ VERÐUR BARA GOTT FÓLK Á JÖRÐINNI

„Innan stundar er hinn óguðlegi horfinn ... hinir hógværu fá landið til eignar.“ – SÁLMUR 37:10, 11.

Hvað merkir þetta? Engir vondir menn verða til lengur heldur aðeins þeir sem hafa yndi af að hlýða Guði.

ÖLL JÖRÐIN VERÐUR PARADÍS

„Menn munu reisa hús og búa í þeim, planta víngarða og neyta ávaxta þeirra.“ – JESAJA 65:21, 22.

Hvað merkir þetta? Öll jörðin verður fegruð og Guð svarar bæn okkar um að láta vilja sinn verða hér „á jörð“. – Matteus 6:10.