Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Viska Biblíunnar er sígild

Viska Biblíunnar er sígild

SJÁÐU ÞETTA FYRIR ÞÉR: Þú ert að skoða safn sem hefur að geyma fjölmarga forngripi. Flestir þeirra eru rispaðir, veðraðir og skemmdir. Í suma þeirra vantar stóra hluta. Einn gripurinn er þó óvenju heillegur og enn er hægt að sjá margbrotið mynstrið greinilega. „Er þessi gripur nýrri en hinir?“ spyrð þú leiðsögumanninn. „Nei,“ segir hann. „Þetta er frumgerðin og með elstu munum á safninu.“ „Hefur hann þá verið verndaður fyrir veðri og vindum?“ spyrð þú. Hann svarar: „Nei, þessi gripur hefur staðið úti í verstu veðrum og margir hafa reynt að skemma hann.“ Þú hugsar: „Úr hverju er þessi gripur eiginlega?“

Á vissan hátt er Biblían eins og þessi óvenjulegi forngripur. Hún er ævaforn bók – eldri en flestar aðrar bækur. Það eru að sjálfsögðu til fleiri fornrit en rétt eins og aðrar fornminjar hafa fæst þeirra staðist tímans tönn. Sumar vísindalegar staðhæfingar í þessum fornritum stangast á við nýjustu þekkingu sem byggir á órækum staðreyndum. Það hefur jafnvel reynst hættulegt að fylgja læknisráðum í þeim. Og af sumum fornum ritum eru aðeins til slitrur vegna þess að stór hluti af þeim hefur skemmst illa eða glatast.

En aðra sögu er að segja um Biblíuna. Byrjað var að rita hana fyrir meira en 3.500 árum en samt hefur hún varðveist fram á okkar daga. Og þó að hún hafi sætt ótal árásum í gegnum aldirnar – verið brennd, bönnuð og gert lítið úr henni – stendur boðskapur hennar enn fyrir sínu. Borin saman við þekkingu manna nú á tímum ber margt í Biblíunni vott um undraverða framsýni. Hún er á engan hátt úrelt bók. – Sjá rammann „Úrelt eða á undan sinni samtíð?

 MEGINREGLUR SEM VIÐ ÞÖRFNUMST

Þú veltir kannski fyrir þér hvort það sem Biblían kennir sé gagnlegt fyrir okkur. Hugleiddu þá hver séu helstu vandamál mannkyns nú á dögum? Hver þeirra finnst þér skelfilegust? Eru það stríð, mengun, glæpir eða spilling? Skoðaðu svo eftirfarandi meginreglur Biblíunnar og spyrðu þig hvort heimurinn væri betur á vegi staddur ef fólk færi eftir þeim.

AÐ ELSKA FRIÐ

„Sælir eru friðflytjendur því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.“ (Matteus 5:9) „Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á ykkar valdi.“ – Rómverjabréfið 12:18.

MISKUNNSEMI OG FYRIRGEFNING

„Sælir eru miskunnsamir því að þeim mun miskunnað verða.“ (Matteus 5:7) „Umberið hvert annað og fyrirgefið hvert öðru ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið ykkur, svo skuluð þið og gera.“ – Kólossubréfið 3:13.

EINING ÓLÍKRA KYNÞÁTTA

Guð „skóp og af einum allar þjóðir manna og lét þær byggja allt yfirborð jarðar“. (Postulasagan 17:26) „Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ – Postulasagan 10:34, 35.

VIRÐING FYRIR JÖRÐINNI

„Drottinn Guð [tók] manninn og setti hann í aldingarðinn Eden til að yrkja hann og gæta hans.“ (1. Mósebók 2:15) Guð mun „eyða þeim sem jörðina eyða“. – Opinberunarbókin 11:18.

ÓBEIT Á GRÆÐGI OG SIÐLEYSI

„Varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé.“ (Lúkas 12:15) „Frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal ykkar. Slíkt hæfir ekki heilögum.“ – Efesusbréfið 5:3.

HEIÐARLEIKI OG VINNUSEMI

„Ég hef góða samvisku og vil í öllum greinum breyta vel.“ (Hebreabréfið 13:18) „Hinn stelvísi hætti að stela en leggi hart að sér.“ – Efesusbréfið 4:28.

MIKILVÆGI ÞESS AÐ HJÁLPA NAUÐSTÖDDUM

„Hughreystið ístöðulitla [niðurdregna, New World Translation], takið að ykkur óstyrka, verið þolinmóð við alla.“ (1. Þessaloníkubréf 5:14) ‚Vitjið munaðarlausra og ekkna í þrengingum þeirra.‘ – Jakobsbréfið 1:27.

Biblían segir okkur ekki bara hvað séu góð lífsgildi heldur kennir hún okkur að meta þau að verðleikum og tileinka okkur þau í daglegu lífi. Myndi það ekki leysa mörg af alvarlegustu vandamálum manna ef fleira fólk færi eftir meginreglum Biblíunnar? Leiðbeiningar hennar eiga betur við nú en nokkru sinni fyrr. En hvernig geturðu haft gagn af ráðum hennar í eigin lífi?

 HVERNIG GETA RÁÐ BIBLÍUNNAR GAGNAST ÞÉR?

Vitrasti maður, sem uppi hefur verið, sagði eitt sinn: „Spekin sannast af verkum sínum.“ (Matteus 11:19) Ertu ekki sammála því að besti mælikvarðinn á visku er hvaða áhrif hún hefur á hegðun okkar og ákvarðanir? Ef ráð Biblíunnar eru gagnleg ættum við að sjá góðan árangur af því að fara eftir þeim. Hvernig geta ráð hennar hjálpað þér að takast á við vandamál sem þú glímir við núna? Skoðum dæmi.

Daníella * lifði erilsömu og innihaldsríku lífi. En skyndilega dundu áföllin yfir hvert á fætur öðru. Dóttir hennar á táningsaldri lést. Hjónabandið fór út um þúfur. Og hún lenti í fjárhagskröggum. Hún segir: „Ég tapaði algerlega áttum. Allt í einu átti ég hvorki dóttur, eiginmann né heimili. Mér fannst ég einskis virði – ég hafði ekkert sjálfsmat, hafði enga orku og enga framtíðarsýn.“

Aldrei hafði Daníella séð sannleiksgildi þessara orða jafn skýrt: „Ævidagar vorir eru sjötíu ár og þegar best lætur áttatíu ár, og dýrasta hnossið er mæða og hégómi, því að þeir líða í skyndi og vér fljúgum burt.“ – Sálmur 90:10.

Daníella leitaði huggunar í Biblíunni á þessum erfiða tíma. Það hjálpaði henni ákaflega mikið.  Eins og sjá má í næstu þremur greinum hefur það skipt sköpum fyrir Daníellu og marga aðra að fara eftir ráðum Biblíunnar. Þau hafa komist að raun um að Biblían er einstök bók – rétt eins og forngripurinn sem lýst var í byrjun greinarinnar. Hún er mjög ólík öðrum bókum því að flestar bækur úreldast með tímanum. Getur verið að Biblían hafi í raun að geyma hugsanir Guðs en ekki manna og sé þannig gerð úr öðrum „efnivið“ en aðrar bækur? – 1. Þessaloníkubréf 2:13.

Finnst þér lífið vera stutt og áhyggjurnar margar? Hvar leitar þú huggunar, stuðnings og ráða þegar þér finnst þú vera að sligast undan vandamálum?

Skoðum hvernig Biblían getur á þrenna vegu hjálpað okkur að takast á við vandamál. Í henni má finna ráð til að

  1. komast hjá vandamálum þegar það er mögulegt.

  2. leysa vandamál þegar þau koma upp.

  3. þola erfiðar aðstæður á sem bestan hátt.

Í næstu greinum er fjallað um þetta þrennt.

^ gr. 24 Nöfnum er breytt í þessari grein og næstu þremur greinum.