Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

2 Hjálp til að leysa vandamál

2 Hjálp til að leysa vandamál

Sum vandamál er erfitt að leysa og þau geta jafnvel fest rætur áður en við gerum okkur grein fyrir því. Þar af leiðandi getum við þurft að glíma við þau í mörg ár. Er hægt að fá góð ráð í Biblíunni til að leysa slík þrálát og íþyngjandi vandamál? Lítum á nokkur dæmi.

ÓHÓFLEGAR ÁHYGGJUR

Rósa segir: „Ég hafði stöðugar áhyggjur og ímyndaði mér alltaf að það versta myndi gerast.“ Eitt af þeim biblíuversum sem hjálpuðu Rósu er Matteus 6:34: „Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.“ Rósa segir að þessi orð Jesú hafi hjálpað sér að hætta að hafa áhyggjur af því sem gæti hugsanlega gerst síðar og bætir við: „Vandmálin voru nógu mörg þó að ég bætti ekki við þau með því að hafa áhyggjur af því sem hafði ekki gerst og myndi líklega aldrei gerast.“

Jasmín fann líka að áhyggjur voru að ná tökum á henni. Hún segir: „Ég grét oft í hverri viku og gat stundum ekki sofið. Mér fannst neikvæðar hugsanir vera að gera út af við mig.“ Hvað hjálpaði henni? Hún nefnir 1. Pétursbréf 5:7 en þar stendur: „Varpið allri áhyggju ykkar á [Guð] því að hann ber umhyggju fyrir ykkur.“ Jasmín segir: „Ég leitaði oft til Jehóva í bæn og hann svaraði bænum mínum. Það var eins og þungu fargi væri létt af mér. Neikvæðar hugsanir sækja á mig af og til en núna veit ég hvernig á að bregðast við þeim.“

 FRESTUNARÁRÁTTA

Ung kona, sem heitir Ísabella, segir: „Ég held að tilhneigingin til að fresta hlutunum sé arfgeng vegna þess að pabbi er líka svona. Ég fresta mikilvægum verkum bara til að slaka á eða horfa á sjónvarpið. Þetta er slæmur ávani sem eykur streitu og maður skilar illa unnu verki.“ Það hjálpaði Ísabellu að íhuga meginregluna í 2. Tímóteusarbréfi 2:15: „Legg kapp á að standast fyrir Guði sem verkamaður er ekki þarf að skammast sín.“ Hún segir: „Ég vildi ekki að Jehóva þyrfti að skammast sín fyrir trassaskapinn í mér.“ Ísabella hefur tekið heilmiklum framförum.

Karen tekur í sama streng: „Ég beið með að vinna verkefni mín alveg fram á síðustu stundu. Ég grét og missti svefn af áhyggjum. Það gerði mér ekki gott.“ Karen fann hjálp í Orðskviðunum 13:16: „Vitur maður fer að öllu með hyggindum en flónið dreifir um sig heimsku.“ Karen lýsir því hvað hún hafi lært af því að íhuga þetta vers: „Það er viturlegt að vera raunsær og skipuleggja fram í tímann. Núna er ég með dagbók við höndina þar sem ég tímaset næstu verkefni. Það auðveldar mér að vera skipulögð og geyma ekki allt fram á síðustu stundu.“

EINMANALEIKI

„Maðurinn minn yfirgaf mig og skildi mig eftir með fjögur ung börn,“ segir Kristín. Hvaða meginregla í Biblíunni hjálpaði henni? Í Orðskviðunum 17:17 stendur: „Vinur lætur aldrei af vináttu sinni, í andstreymi reynist hann sem bróðir.“ Kristín leitaði til trúsystkina sinna sem þjóna Jehóva eins og hún. Hún segir: „Vinir mínir fylktu liði í kringum mig og hjálpuðu mér á marga vegu. Sumir þeirra skildu eftir blóm og matvörur við dyrnar hjá mér. Þrisvar sinnum hjálpaði hópur fólks okkur börnunum að flytja og einn vina minna hjálpaði mér að finna vinnu. Vinir mínir voru mér alltaf innan handar.“

Daníella, sem minnst var á áður, fann einnig til einmanaleika. Hún lýsir ástandinu eftir allan missinn sem hún varð fyrir: „Mér fannst ég vera að horfa á líf allra annarra án þess að vera þátttakandi og ég var afskaplega einmana.“ Eitt biblíuvers, sem hjálpaði henni, var Sálmur 68:7: „Guð býr hinum einmana heimili.“ Hún segir: „Ég áttaði mig á að þetta vers getur átt við fleira en bókstaflegt heimili. Guð býður okkur andlegt heimili, athvarf þar sem við erum örugg, eignumst sanna vini og tengjumst sterkum böndum fólki sem elskar Jehóva Guð. En ég vissi að ég þyrfti að nálægja mig Jehóva áður en ég gæti orðið náin öðrum. Sálmur 37:4 hjálpaði mér að gera það: ‚Njót gleði í Drottni, þá veitir hann þér það sem hjarta þitt þráir.‘“

Hún segir að lokum: „Ég gerði mér grein fyrir að ég þurfti að tengjast Jehóva sterkari böndum. Hann er besti vinur sem hægt er að eiga. Síðan bjó ég til lista yfir það sem ég gæti gert með öðru fólki til að eignast vini sem elska Jehóva. Ég lærði að sjá það góða í öðrum og að horfa fram hjá göllum þeirra.“

Trúsystkin okkar eru þó auðvitað ófullkomin. Vottar Jehóva kljást við sín vandamál rétt eins og aðrir. En kennslan frá Biblíunni hvetur fólk til að hjálpa öðrum þegar það mögulega getur. Þannig fólk eru góðir vinir. En geta ráð Biblíunnar líka hjálpað okkur með vandamál, sem ekki er hægt að leysa núna, eins og langvinn veikindi og sorg?

Að fylgja ráðum Biblíunnar getur hjálpað þér að eignast trausta vini.