Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 NÁMSGREIN 38

„Komið til mín ... og ég mun veita yður hvíld“

„Komið til mín ... og ég mun veita yður hvíld“

„Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld.“ – MATT. 11:28.

SÖNGUR 17 „Ég vil“

YFIRLIT *

1. Hvaða loforð gaf Jesús eins og fram kemur í Matteusi 11:28–30?

JESÚS gaf hópi fólks sem hlustaði á hann dásamlegt loforð. „Komið til mín,“ sagði hann, „og ég mun veita yður hvíld.“ (Lestu Matteus 11:28–30.) Þetta voru ekki orðin tóm. Það má sjá af því sem hann gerði fyrir konu sem þjáðist af hræðilegum sjúkdómi.

2. Hvað gerði Jesús fyrir veika konu?

2 Konan þurfti sárlega á hjálp að halda. Hún hafði leitað til margra lækna í von um að ná bata. Eftir að hafa þjáðst í 12 ár hafði hún ekki enn fengið lækningu. Samkvæmt lögmálinu var hún óhrein. (3. Mós. 15:25) Hún frétti að Jesús gæti læknað veika svo að hún fór að leita hans. Þegar hún fann hann snerti hún kögrið á yfirhöfn hans og læknaðist um leið. En Jesús læknaði hana ekki bara líkamlega – hún endurheimti líka reisn sína. Hann sýndi henni til dæmis hlýju og virðingu þegar hann ávarpaði hana: „dóttir“. Henni hefur örugglega fundist það endurnærandi. – Lúk. 8:43–48.

3. Hvaða spurningum fáum við svör við?

3 Tökum eftir að konan fór til Jesú. Hún tók frumkvæðið. Eins þurfum við að leggja eitthvað á okkur til að koma til Jesú. Hann læknar ekki þá sem koma til hans fyrir kraftaverk eins og er en býður okkur þó: „Komið til mín ... og ég mun veita yður hvíld.“ Í þessari grein fáum við svör við fimm spurningum. Hvernig getum við komið til  Jesú? Hvað átti Jesús við þegar hann sagði: „Takið á yður mitt ok“? Hvað getum við lært af honum? Hvers vegna er endurnærandi að vinna það starf sem hann hefur falið okkur? Og hvernig getum við stöðugt fengið endurnæringu undir oki hans?

„KOMIÐ TIL MÍN“

4, 5. Hvernig getum við „komið til“ Jesú?

4 Við komum til Jesú þegar við lærum eins mikið og við getum um það sem hann sagði og gerði. (Lúk. 1:1–4) Enginn annar getur gert það fyrir okkur. Við verðum sjálf að kynna okkur það sem Biblían segir um hann. Við komum líka til Jesú með því að taka þá ákvörðun að láta skírast og gerast lærisveinar hans.

5 Önnur leið til að koma til Jesú er að leita til safnaðaröldunganna ef við þurfum á hjálp að halda. Jesús gaf þessa menn að gjöf til að annast sauði sína. (Ef. 4:7, 8, 11; Jóh. 21:16; 1. Pét. 5:1–3) Við verðum að taka frumkvæðið og biðja um hjálp. Öldungarnir geta ekki lesið hugsanir okkar og vitað hvers við þörfnumst. Hugleiðum það sem bróðir að nafni Julian sagði: „Ég þurfti að hætta á Betel af heilsufarsástæðum. Einn vinur minn hvatti mig til að biðja öldungana um heimsókn. Í fyrstu hélt ég að ég þyrfti ekki á því að halda. En síðar bað ég um hjálp og heimsóknin reyndist ein besta gjöfin sem ég hef nokkurn tíma fengið.“ Trúfastir öldungar, eins og þeir sem heimsóttu Julian, geta hjálpað okkur að þekkja „huga Krists“, það er að segja að skilja hugsunarhátt hans og viðhorf og líkja eftir því. (1. Kor. 2:16; 1. Pét. 2:21) Það er með dýrmætustu gjöfum sem þeir geta gefið okkur.

„TAKIÐ Á YÐUR MITT OK“

6. Hvað átti Jesús við þegar hann sagði: „Takið á yður mitt ok“?

6 Þegar Jesús sagði: „Takið á yður mitt ok“ má vera að það hafi verið í merkingunni „viðurkennið vald mitt“ eða „komið undir okið með mér og vinnum saman fyrir Jehóva“. Hvort heldur sem er felur það í sér vinnu að taka á sig okið.

7. Í hvaða starfi fáum við að taka þátt og hvað megum við vera viss um, samanber Matteus 28:18–20?

7 Við þiggjum boð Jesú þegar við vígjum Jehóva líf okkar og skírumst. Það stendur öllum til boða. Jesús hafnar engum sem einlæglega vill þjóna Guði. (Jóh. 6:37, 38) Allir fylgjendur Krists hafa fengið þann heiður að taka þátt í því starfi sem Jehóva hefur falið Jesú. Við megum vera viss um að Jesús verði alltaf til staðar til að hjálpa okkur að sinna því. – Lestu Matteus 28:18–20.

„LÆRIÐ AF MÉR“

Endurnærðu aðra líkt og Jesús (Sjá 8.–11. grein.) *

8, 9. Hvers vegna laðaðist auðmjúkt fólk að Jesú og hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur?

8 Auðmjúkt fólk laðaðist að Jesú. (Matt. 19:13, 14; Lúk. 7:37, 38) Hvers vegna? Hugsum um muninn á faríseunum og Jesú. Þessir trúarleiðtogar voru kaldlyndir og hrokafullir. (Matt. 12:9–14) Jesús var hlýlegur og auðmjúkur. Farísearnir voru framagjarnir og stoltir af hárri stöðu sinni í samfélaginu. Það var andstætt kennslu Jesú. Hann kenndi lærisveinum sínum að vera auðmjúkir og þjóna öðrum. (Matt. 23:2, 6–11) Farísearnir drottnuðu yfir öðrum með því að vekja með þeim ótta. (Jóh. 9:13, 22) Jesús hressti aðra með því að sýna þeim kærleika og vera vingjarnlegur í tali.

 9 Hvað hefur þú lært af Jesú? Spyrðu sjálfan þig: Er ég þekktur fyrir að vera mildur og auðmjúkur? Er ég fús að vinna lítilmótleg verk til að þjóna öðrum? Er ég vingjarnlegur við aðra?

10. Hvernig var að vinna með Jesú?

10 Jesús kom þannig fram að þeim sem unnu með honum leið vel í návist hans og hann hafði ánægju af að þjálfa þá. Hann skapaði friðsamlegt andrúmsloft. (Lúk. 10:1, 19–21) Hann hvatti lærisveina sína til að spyrja spurninga og vildi heyra álit þeirra. (Matt. 16:13–16) Lærisveinar hans blómstruðu líkt og plöntur í gróðurhúsi. Þeir drukku í sig kennslu Jesú og báru ávöxt í formi góðra verka.

Vertu viðmótsgóður og vingjarnlegur

Vertu ötull og kappsamur

Vertu auðmjúkur og vinnusamur *

11. Hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur?

11 Ferðu með visst yfirráð? Þá skaltu spyrja þig: Hvers konar andrúmsloft skapa ég í vinnunni eða heima við? Stuðla ég að friði þar? Geri ég öðrum auðvelt fyrir að spyrja spurninga? Og er ég fús til að hlusta á skoðanir þeirra? Við viljum ekki vera eins og farísearnir en þeir reiddust þeim sem véfengdu þá og ofsóttu þá sem voru þeim ósammála. – Mark. 3:1–6; Jóh. 9:29–34.

,ÞÉR MUNUÐ FINNA HVÍLD‘

12–14. Hvers vegna er endurnærandi að sinna því starfi sem Jesús hefur falið okkur?

12 Hvers vegna finnum við hvíld, eða endurnærumst, þegar við sinnum því starfi sem Jesús hefur falið okkur? Fyrir því eru margar ástæður en skoðum fáeinar.

13 Við höfum bestu forystuna. Enginn fer með umsjón eins og Jehóva og hann er ekki vanþakklátur harðstjóri. Hann kann að meta það sem við leggjum á okkur. (Hebr. 6:10) Og hann gefur okkur þann kraft sem við þurfum til að axla þá ábyrgð sem við höfum fengið. (2. Kor. 4:7; Gal. 6:5) Jesús konungur okkar er okkur góð fyrirmynd með því hvernig hann beitir valdi sínu. (Jóh. 13:15) Og öldungarnir sem annast okkur leitast við að líkja eftir Jesú, ,hinum mikla hirði‘. (Hebr. 13:20; 1. Pét. 5:2) Þeir leggja sig fram um að vera vingjarnlegir, hvetjandi og hugrakkir þegar þeir næra okkur og vernda.

14 Við höfum besta félagsskapinn. Það finnast ekki kærleiksríkari vinir og meira gefandi starf en okkar. Við vinnum til dæmis með bræðrum og systrum sem hafa siðferði í hæsta gæðaflokki, en þeim finnst þau ekki betri en aðrir. Þau hafa ýmsa hæfileika en eru hógvær og meta aðra meira en sig sjálf. Þau líta á okkur sem vini en ekki aðeins samstarfsmenn. Þessi kærleikur er það sterkur að þau eru fús til að fórna lífi sínu fyrir okkur.

15. Hvernig ættum við að líta á starf okkar?

15 Við höfum besta starfið. Við kennum fólki sannleikann um Jehóva og afhjúpum lygar djöfulsins. (Jóh. 8:44) Satan íþyngir fólki með byrðum sem það getur ekki borið. Hann vill til að mynda telja okkur trú um að Jehóva fyrirgefi ekki syndir okkar og að enginn geti elskað okkur. Hvílík byrði og hræðileg lygi! Við fáum syndir okkar fyrirgefnar þegar við komum til Krists. Og sannleikurinn er sá að Jehóva elskar okkur öll innilega. (Rómv. 8:32, 38, 39) Það veitir okkur mikla gleði að hjálpa fólki að treysta Jehóva og sjá það breyta lífi sínu til hins betra.

 HÖLDUM ÁFRAM AÐ ENDURNÆRAST UNDIR OKI JESÚ

16. Hvernig er ábyrgðin sem Jesús hefur falið okkur frábrugðin öðrum skyldum sem við þurfum að gegna?

16 Ábyrgðin sem Jesús hefur falið okkur er frábrugðin öðrum skyldum sem við þurfum að gegna. Margir eru úrvinda í lok vinnudags og jafnvel óánægðir. Við erum á hinn bóginn mjög ánægð þegar við þjónum Jehóva og Jesú. Við gætum verið uppgefin í lok vinnudags og þurft að beita okkur hörðu til að fara á samkomu um kvöldið. En við komum yfirleitt heim aftur hress og endurnærð. Það á líka við þegar við leggjum eitthvað á okkur til að boða trúna og stunda sjálfsnám. Umbunin vegur langtum meira en það sem við leggjum á okkur.

17. Hvers vegna verðum við að vera raunsæ og skynsöm?

17 Við verðum að vera raunsæ. Ekkert okkar býr yfir takmarkalausri orku. Við verðum því að vera skynsöm þegar við ákveðum hvað við tökum okkur fyrir hendur. Við gætum til dæmis sóað kröftum í að reyna að sanka að okkur efnislegum hlutum. Tökum eftir hvað Jesús sagði við auðugan ungan mann sem spurði: „Hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“ Ungi maðurinn fór eftir lögmálinu. Hann hlýtur að hafa verið góður maður vegna þess að Markús guðspjallaritari tók sérstaklega fram að Jesús „horfði á hann með ástúð“. Jesús bauð manninum: „Far þú, sel allt sem þú átt ... Kom síðan og fylg mér.“ Maðurinn var tvístígandi, en svo virðist sem hann hafi ekki getað sagt skilið við miklar eigur sínar. (Mark. 10:17–25) Fyrir vikið hafnaði hann okinu sem Jesús bauð honum og hélt áfram að ,þjóna mammón‘. (Matt. 6:24) Hvað hefðir þú gert?

18. Hvað ættum við að gera af og til og hvers vegna?

18 Það er gott að endurskoða af og til hvernig við forgangsröðum. Þannig getum við gengið úr skugga um að við notum krafta okkar skynsamlega. Ungur maður sem heitir Mark segir: „Í mörg ár hélt ég að ég lifði einföldu lífi. Ég var brautryðjandi en hugsaði stöðugt um peninga og hvernig ég gæti gert líf mitt þægilegra. Ég velti fyrir mér hvers vegna líf mitt var orðið svona erfitt. Þá áttaði ég mig á því að ég hugsaði fyrst og fremst um eigin hag og gaf Jehóva þann tíma og orku sem ég átti afgangs.“ Mark breytti hugarfari sínu og lífsstíl svo að hann gæti gert meira í þjónustunni við Jehóva. „Ég hef stundum áhyggjur,“ segir Mark, „en með hjálp Jehóva og stuðningi Jesú get ég einbeitt mér að þjónustunni.“

19. Hvers vegna er mikilvægt að líta hlutina réttum augum?

19 Við höldum áfram að endurnærast undir oki Jesú ef við gerum þrennt. Í fyrsta lagi skulum við líta hlutina réttum augum. Við vinnum verk Jehóva og verðum því að gera það eins og hann vill. Hann er stjórnandinn og við verkamennirnir. (Lúk. 17:10) Við gerum okkur erfitt fyrir ef við reynum að vinna verk hans eftir okkar eigin höfði. Jafnvel kröftugt naut er líklegt til að þreytast og skaða sjálft sig ef það reynir sífellt að fara sínar eigin leiðir og berjast á móti okinu sem eigandi þess stýrir. Ef við fylgjum hins vegar leiðsögn Jehóva getum við gert ýmislegt sem við héldum að við gætum  ekki og yfirstigið hvaða hindrun sem er. Munum að enginn getur komið í veg fyrir að vilji hans nái fram að ganga. – Rómv. 8:31; 1. Jóh. 4:4.

20.  Af hvaða hvötum ættum við að gangast undir ok Jesú?

20 Í öðru lagi skulum við vinna verkið af réttum hvötum. Markmið okkar er að vera Jehóva, kærleiksríkum föður okkar, til heiðurs. Fólk á dögum Jesú sem lét stjórnast af græðgi og hugsaði fyrst og fremst um eigin hag varð fljótlega óánægt og sagði skilið við ok hans. (Jóh. 6:25–27, 51, 60, 66; Fil. 3:18, 19) En þeir sem voru knúnir af óeigingjörnum kærleika til Guðs og náungans báru okið með gleði alla ævi og áttu von um að þjóna með Kristi á himni. Við varðveitum líka gleði okkar þegar við berum ok Jesú af réttum hvötum.

21. Hvers getum við vænst af Jehóva eins og fram kemur í Matteusi 6:31–33?

21 Í þriðja lagi ættum við að hafa raunhæfar væntingar. Við höfum kosið líf sem útheimtir fórnfýsi og vinnusemi. Jesús sagði að við yrðum fyrir ofsóknum. En við getum vænst þess að Jehóva gefi okkur kraft til að þola allar raunir. Við verðum sterkari eftir því sem við þolum meira. (Jak. 1:2–4) Við getum líka treyst að Jehóva sjái vel fyrir okkur, að Jesús annist okkur og að trúsystkini okkar hvetji okkur. (Lestu Matteus 6:31–33; Jóh. 10:14; 1. Þess. 5:11) Þurfum við eitthvað meira?

22. Fyrir hvað megum við vera þakklát?

22 Konan sem Jesús læknaði endurnærðist þegar hún fékk lækningu. En hún hlyti varanlega endurnæringu aðeins með því að verða trúfastur lærisveinn Krists. Hvað heldurðu að hún hafi gert? Hugsaðu þér launin ef hún ákvað að ganga undir ok Jesú – að fá að þjóna með honum á himni. Allar fórnir sem hún færði til að fylgja Kristi hafa bliknað í samanburði við þá blessun. Hvort sem von okkar er að lifa að eilífu á himni eða á jörð erum við innilega þakklát fyrir að hafa þegið boð Jesú: „Komið til mín.“

SÖNGUR 13 Kristur, fyrirmynd okkar

^ gr. 5 Jesús býður okkur að koma til sín. Hvað felur það í sér að þiggja boð hans? Því er svarað í greininni. Við erum líka minnt á hvernig það getur verið endurnærandi að vinna með Jesú.

^ gr. 60 MYND: Jesús endurnærði aðra á marga vegu.

^ gr. 66 MYND: Bróðir líkir eftir Jesú og endurnærir aðra á ýmsa vegu.