Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Þér vitið þetta og þér eruð sælir ef þér breytið eftir því“

„Þér vitið þetta og þér eruð sælir ef þér breytið eftir því“

„Minn matur er að gera vilja þess sem sendi mig og fullna verk hans.“ – JÓH. 4:34.

SÖNGVAR: 80, 35

1. Hvaða áhrif getur sjálfselska heimsins haft á auðmýkt okkar?

HVERS vegna er hægara sagt en gert að fara eftir því sem við lærum í orði Guðs? Ein ástæða er sú að það krefst auðmýktar að gera það sem er rétt. Á þessum „síðustu dögum“ reynir stöðugt á auðmýkt okkar því að margir eru „sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, illmálgir“ og „taumlausir“. (2. Tím. 3:1-3) Við sem þjónum Guði vitum að þess konar hegðun er slæm. En stundum lítur út fyrir að þeim vegni vel sem hegða sér þannig og að þeir lifi góðu lífi. (Sálm. 37:1; 73:3) Við gætum jafnvel velt fyrir okkur hvort það sé þess virði að setja hag annarra framar okkar eigin. Við hugsum kannski með okkur að fólk missi virðingu fyrir okkur ef við sýnum auðmýkt. (Lúk. 9:48) Ef við látum sjálfselsku heimsins hafa áhrif á okkur gæti það skaðað vináttuna við trúsystkini okkar og við gætum glatað því sem einkennir okkur sem kristna menn. En við hljótum umbun þegar við kynnum okkur þær góðu fyrirmyndir sem sagt er frá í Biblíunni og líkjum eftir þeim.

2. Hvað getum við lært af trúföstum þjónum Guðs til forna?

 2 Ef við viljum taka okkur trúfast fólk til fyrirmyndar þurfum við að kynna okkur hvað gerði því kleift að vera trúfast. Hvernig eignaðist það vináttusamband við Guð? Hvernig gat það notið velþóknunar hans og fengið kraft til að gera vilja hans? Að leita svara við slíkum spurningum er nauðsynlegur þáttur í að nærast andlega.

ANDLEG FÆÐA – MEIRA EN BARA UPPLÝSINGAR

3, 4. (a) Hvar fáum við andlega fræðslu? (b) Hvers vegna er ekki nóg að afla sér þekkingar til að nærast andlega?

3 Við fáum frábæra kennslu og mörg góð ráð í Biblíunni, ritum okkar, Sjónvarpi safnaðarins, á vefsetri okkar og á samkomum og mótum. En eins og orð Jesú í Jóhannesi 4:34 bera með sér fáum við ekki andlega fæðu með því einu að afla okkur þekkingar. Hvað annað þurfum við að gera? Jesús sagði: „Minn matur er að gera vilja þess sem sendi mig og fullna verk hans.“

4 Fyrir Jesú var það eins og matur að fylgja leiðbeiningum föður síns. Við styrkjum trúna þegar við gerum vilja Guðs, rétt eins og við nærum og styrkjum líkamann þegar við borðum góða máltíð. Hversu oft hefurðu komið heim úr boðuninni glaður og endurnærður þótt þú hafir mætt illa upplagður í samansöfnun?

5. Hvað hlýst af því að sýna visku?

5 Við sýnum visku með því að fara eftir leiðbeiningum Guðs. (Jak. 3:13) Slík viska hefur margt gott í för með sér. „Allir dýrgripir þínir jafnast ekki á við hana ... Hún er tré lífsins þeim sem höndla hana og sæll er hver sá er heldur fast í hana.“ (Orðskv. 3:13-18) Jesús sagði: „Þér vitið þetta og þér eruð sælir ef þér breytið eftir því.“ (Jóh. 13:17) Hamingja lærisveinanna var undir því komin að þeir fylgdu fyrirmælum hans og fordæmi. Þeir létu sér ekki nægja að gera það í eitt skipti heldur gerðu það að lífsstíl sínum.

6. Af hverju þurfum við stöðugt að fara eftir því sem við lærum?

6 Við þurfum líka að fara eftir því sem við vitum að er rétt. Hugsum okkur til dæmis vélvirkja sem hefur verkfæri, efnivið og þekkingu. Það kemur honum að engu gagni nema hann nýti sér það. Hann gæti verið með margra ára reynslu en til að vera fær í sínu fagi þarf hann stöðugt að halda sér við og nota það sem hann hefur lært. Að sama skapi vorum við mjög ánægð þegar við kynntumst sannleikanum því að þá byrjuðum við að fara eftir því sem við lærðum í Biblíunni. Til að hljóta varanlega hamingju þurfum við hins vegar að fara auðmjúk eftir leiðsögn Jehóva á hverjum degi.

7. Hvað getum við lært af frásögum Biblíunnar?

7 Skoðum nokkrar aðstæður sem geta reynt á auðmýkt okkar og sjáum hvernig trúfastir þjónar Guðs til forna gátu verið auðmjúkir í svipuðum aðstæðum. Það er þó ekki nóg að skoða staðreyndir til að byggja upp sterka trú. Við þurfum líka að velta fyrir okkur hvernig við getum farið eftir því sem við lærum.

 LÍTUM Á AÐRA SEM JAFNINGJA

8, 9. Hvernig gefa atburðirnir í Postulasögunni 14:8-15 til kynna að Páll hafi verið auðmjúkur? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

8 Guð vill að „allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum“. (1. Tím. 2:4) Hvernig líturðu á þá sem hafa enn ekki kynnst sannleikanum? Páll postuli leitaði í samkunduhúsum að fólki sem hafði þegar þekkingu á Guði. En boðun hans einskorðaðist ekki við Gyðinga því að hann reyndi líka að ná til fólks sem tilbað falsguði. Viðbrögð þess áttu eftir að reyna á auðmýkt hans.

9 Í fyrstu boðunarferð Páls fór hann ásamt Barnabasi til Lýstru. Lýkaóníumenn, sem bjuggu þar, töldu þá vera ofurmannlega – Seif og Hermes í líki manna. Nutu Páll og Barnabas þess að vera í sviðsljósinu? Fannst þeim það hressandi tilbreyting frá ofsóknunum í síðustu tveim borgum? Héldu þeir að vinsældir þeirra myndu auðvelda þeim að boða fagnaðarerindið? Þvert á móti. Þeir rifu klæði sín, stukku inn í mannþröngina og hrópuðu: „Menn, hví gerið þið þetta? Við erum menn eins og þið.“ – Post. 14:8-15.

10. Að hvaða leyti töldu Páll og Barnabas sig vera jafningja Lýkaóníumanna?

10 Páll og Barnabas viðurkenndu að þeir væru ófullkomnir eins og aðrir menn. Þeir áttu þó ekki við að tilbeiðsla sín væri eins og þeirra sem tilbáðu falsguði. Hafði Guð ekki falið Páli og Barnabasi það sérstaka verkefni að vera trúboðar? (Post. 13:2) Voru þeir ekki smurðir heilögum anda og höfðu dýrlega von? Jú, en þeir vissu vel að Lýkaóníumenn gætu hlotið sömu blessun ef þeir tækju við fagnaðarerindinu.

11. Hvernig getum við líkt eftir auðmýkt Páls þegar við boðum trúna?

11 Hvernig getum við líkt eftir auðmýkt Páls? Í fyrsta lagi megum við ekki freistast til að líta stórt á sjálf okkur fyrir það sem Jehóva gerir okkur kleift að áorka. Við ættum öll að spyrja okkur: Hvernig lít ég á þá sem ég hitti í boðuninni? Gæti verið að ég hafi fordóma fyrir vissu fólki sem almennt er litið niður á í samfélaginu? Það er hrósvert að Vottar Jehóva um heim allan reyna markvisst að finna hvern þann sem vill hlusta á fagnaðarerindið. Sumir hafa lagt það á sig að læra nýtt tungumál og kynna sér siðvenjur þeirra sem samfélagið almennt lítur hornauga. En þeim ætti aldrei að finnast þeir betri en fólkið á svæðinu. Þeir reyna öllu heldur að setja sig í spor hvers og eins svo að fagnaðarerindið geti náð til hjartans.

NEFNUM AÐRA Á NAFN Í BÆNUM OKKAR

12. Hvernig sýndi Epafras óeigingjarna umhyggju fyrir öðrum?

12 Við fylgjum líka auðmjúk leiðsögn Guðs með því að biðja fyrir þeim sem hafa hlotið „sömu dýrmætu trú“ og við. (2. Pét. 1:1) Það gerði Epafras. Hann er aðeins nefndur þrisvar sinnum í Biblíunni – öll skiptin í innblásnum bréfum Páls. Þegar Páll var í stofufangelsi í Róm skrifaði hann kristnum mönnum í Kólossu að Epafras ,berðist jafnan fyrir þeim í bænum sínum‘. (Kól. 4:12) Epafras þekkti trúsystkini sín vel og honum þótti innilega vænt um þau. Þótt hann væri fangi eins og Páll var honum umhugað um andlegar þarfir annarra og sýndi það í  verki. (Fílem. 23) Ber það ekki merki um óeigingjarna umhyggju? Það hefur mikil áhrif að biðja markvissra bæna fyrir trúsystkinum okkar, til dæmis með því að nefna þau með nafni. – 2. Kor. 1:11; Jak. 5:16.

13. Hvernig geturðu líkt eftir Epafrasi þegar þú biður til Jehóva?

13 Veltu fyrir þér hverja þú getur nefnt á nafn í bænum þínum. Margir bræður og systur líkja eftir Epafrasi og biðja fyrir trúsystkinum sínum. Þú gætir beðið fyrir fjölskyldum sem hafa margt á sinni könnu eða þeim sem standa frammi fyrir erfiðum ákvörðunum eða freistingum. Margir biðja fyrir þeim sem nefndir eru í greininni „Jehovah’s Witnesses Imprisoned for Their Faith“ á jw.org á ensku. (Veldu NEWSROOM > LEGAL DEVELOPMENTS.) Auk þess er gott að biðja fyrir þeim sem hafa misst ástvini, þeim sem hafa nýlega lifað af hörmungar og stríð og þeim sem glíma við fjárhagserfiðleika. Það er augljóst að mörg trúsystkini hafa þörf á bænum okkar og geta notið góðs af þeim. Þegar við biðjum fyrir þeim sýnum við að við hugsum ekki aðeins um eigin hag heldur einnig hag annarra. (Fil. 2:4) Jehóva heyrir slíkar bænir.

,VERUM FLJÓT TIL AÐ HEYRA‘

14. Hvernig er Jehóva besta fyrirmyndin um að hlusta á aðra?

14 Önnur leið til að sýna auðmýkt er að vera fús til að hlusta á aðra. Í Jakobsbréfinu 1:19 segir að við eigum að vera ,fljót til að heyra‘. Jehóva er besta fyrirmyndin á því sviði. (1. Mós. 18:32; Jós. 10:14) Tökum sem dæmi samskipti hans við Móse í 2. Mósebók 32:11-14. (Lestu.) Jehóva hefði ekki þurft að gefa Móse tækifæri til að tjá tilfinningar sínar en hann gerði það samt. Myndir þú hlusta af athygli á einhvern sem hefur haft rangt fyrir sér og fara síðan eftir því sem hann segir? Jehóva hlustar þolinmóður á þá sem biðja til hans í trú.

15. Hvernig getum við líkt eftir Jehóva og sýnt öðrum virðingu?

15 Jehóva sýndi þá auðmýkt að hlusta á Abraham, Rakel, Móse, Jósúa, Manóa, Elía og Hiskía. Og hann hlustar líka á þjóna sína nú á dögum. Hvert og eitt okkar ætti því að spyrja sig: Gæti ég sýnt trúsystkinum mínum meiri virðingu með því að hlusta á hugmyndir þeirra og fylgja þeim jafnvel eftir? Þarf einhver í söfnuðinum eða fjölskyldunni á athygli minni að halda? Hvað ætti ég að gera í því? Hvað ætla ég að gera? – 1. Mós. 30:6; Dóm. 13:9; 1. Kon. 17:22; 2. Kron. 30:20.

„EF TIL VILL SÉR DROTTINN EYMD MÍNA“

Davíð sagði Abísaí að halda aftur af sér. Hvað hefðir þú gert? (Sjá 16. og 17. grein.)

16. Hvernig brást Davíð konungur við þegar Símeí ögraði honum?

16 Í fjórða lagi hjálpar auðmýkt okkur að sýna sjálfstjórn þegar okkur er ögrað. (Ef. 4:2) Frábært dæmi um það er að finna í 2. Samúelsbók 16:5-13. (Lestu.) Símeí, frændi Sáls konungs, veittist að Davíð og þjónum hans og formælti þeim. Davíð lét það yfir sig ganga þó að hann hefði vald til að binda enda á það. Hvernig gat hann sýnt slíka sjálfstjórn? Sálmur 3 veitir okkur innsýn í það.

17. Hvað gerði Davíð kleift að sýna sjálfstjórn og hvernig getum við líkt eftir honum?

17 Yfirskriftin í Sálmi 3 gefur til  kynna að hann hafi verið saminn þegar Davíð „flýði fyrir Absalon syni sínum“. Vers 2 og 3 koma heim og saman við atburðina í 16. kafla Síðari Samúelsbókar. Af Sálmi 3:5 sjáum við að Davíð treysti Jehóva. Þar segir: „Ég hrópa hátt til Drottins og hann svarar af sínu heilaga fjalli.“ Við getum einnig beðið til Jehóva þegar við sætum illri meðferð. Þá gefur hann okkur af heilögum anda sínum sem getur hjálpað okkur að halda út. Gætir þú þurft að sýna meiri sjálfstjórn eða verið fúsari til að fyrirgefa þegar einhver kemur illa fram við þig? Ertu sannfærður um að Jehóva skilji aðstæður þínar og blessi þig?

„VISKA ER FYRIR ÖLLU“

18. Hvernig er það okkur til góðs að fylgja leiðbeiningum Jehóva?

18 Það hefur ríkulega blessun í för með sér að gera það sem við vitum að er rétt. Það er því engin furða að í Orðskviðunum 4:7 segir að ,viska sé fyrir öllu‘. Viska byggist á þekkingu. En hún snýst ekki aðeins um að skilja staðreyndir heldur felst hún fyrst og fremst í því að taka góðar ákvarðanir. Jafnvel maurar sýna visku með því að afla sér forða á sumrin. Þetta gera þeir af eðlishvöt. (Orðskv. 30:24, 25) Kristur, sem er kallaður „speki Guðs“, gerir alltaf það sem er velþóknanlegt í augum föður síns. (1. Kor. 1:24; Jóh. 8:29) Guð veit muninn á því að taka rétta ákvörðun og að fylgja henni eftir. Hann umbunar þeim sem þolgóðir sýna auðmýkt og gera það sem þeir vita að er rétt. (Lestu Matteus 7:21-23.) Leggjum okkur því fram um að gera söfnuðinn að stað þar sem allir geta þjónað Jehóva af auðmýkt. Það kostar tíma og þolinmæði að gera það sem við vitum að er rétt. En þannig sýnum við auðmýkt og það stuðlar að hamingju okkar nú og að eilífu.