Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Alvaldur en þó tillitssamur

Alvaldur en þó tillitssamur

„[Jehóva] þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.“ – SÁLM. 103:14.

SÖNGVAR: 30, 10

1, 2. (a) Hvernig kemur Jehóva fram við aðra, ólíkt valdamiklu fólki? (b) Hvað skoðum við í þessari grein?

VALDAMIKIÐ fólk ,drottnar oft yfir‘ öðrum og kúgar þá jafnvel. (Matt. 20:25; Préd. 8:9) Það gerir Jehóva aldrei. Þó að hann sé alvaldur er hann einstaklega tillitssamur við okkur ófullkomna mennina. Hann er kærleiksríkur og hugulsamur. Hann tekur tillit til tilfinninga okkar og þarfa. „Hann ... minnist þess að vér erum mold“ og ætlast aldrei til meira af okkur en við ráðum við. – Sálm. 103:13, 14.

2 Í Biblíunni höfum við fjölda dæma sem sýna fram á að Jehóva er tillitssamur og hugulsamur við þjóna sína. Í þessari grein beinum við athyglinni að þrem dæmum. Fyrst skoðum við hvernig Jehóva sýndi hinum unga Samúel tillitssemi þegar hann bað hann að flytja Elí æðstapresti dómsboðskap. Síðan skoðum við hvernig Jehóva var þolinmóður þegar Móse reyndi að komast hjá því að leiða Ísraelsþjóðina. Og loks beinum við athyglinni að hugulsemi Jehóva þegar hann leiddi Ísraelsmenn út úr Egyptalandi. Þegar við skoðum þessi dæmi skulum við hugleiða hvað þau segja okkur um Jehóva og hvað við getum lært af þeim.

FÖÐURLEG TILLITSSEMI VIÐ UNGAN DRENG

3. Hvað upplifði hinn ungi Samúel nótt eina, og hvaða spurningu vekur það? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

3 Samúel var mjög ungur þegar hann byrjaði að ,gegna þjónustu við Drottin‘ í tjaldbúðinni. (1. Sam. 3:1) Eina nóttina, þegar Samúel var farinn að sofa, gerðist nokkuð óvenjulegt. * (Lestu 1. Samúelsbók 3:2-10.) Hann heyrði rödd sem kallaði nafn hans. Samúel hélt að það væri Elí æðstiprestur sem kallaði. Hann hljóp þegar í stað til hans og sagði: „Hér er ég, þú kallaðir á mig.“ En Elí neitaði því. Þegar þetta hafði gerst tvisvar í viðbót varð Elí ljóst að það var Guð sem kallaði á Samúel. Hann sagði því drengnum hvernig hann ætti að svara næst og Samúel hlýddi. Af hverju ætli Jehóva hafi ekki látið Samúel vita strax að það var hann sem kallaði? Biblían lætur það ósagt en það kann að vera að hann hafi farið þannig að af umhyggju fyrir hinum unga Samúel. Hvað bendir til þess?

4, 5. (a) Hvernig brást Samúel við þegar Guð bað hann að flytja Elí dómsboðskap og hvað gerðist morguninn eftir? (b) Hvað lærum við um Jehóva af frásögunni?

4 Lestu 1. Samúelsbók 3:11-18Lögmál Jehóva kvað á um að börn ættu að bera virðingu fyrir eldra fólki, sérstaklega þeim sem hefðu ákveðið vald. (2. Mós. 22:27; 3. Mós. 19:32) Það er því erfitt að ímynda sér að ungur drengur eins og Samúel myndi fara til hins aldraða Elí um morguninn og flytja honum blákalt þungan dómsboðskap Guðs. Í frásögunni segir reyndar að Samúel ,hafi ekki þorað að segja Elí frá sýninni‘. Guð sá hins vegar til þess að Elí gerði sér fulla grein fyrir að það var hann sem kallaði á Samúel. Elí fór þess vegna fram á að Samúel segði sér allt af létta. ,Leyndu mig ekki nokkru af því sem hann sagði við þig,‘ fyrirskipaði hann. Samúel hlýddi og ,sagði honum allt‘.

5 Boðskapur Samúels kom Elí ekki alveg á óvart því að hann samræmdist því sem ónefndur „guðsmaður“ hafði áður sagt honum. (1. Sam. 2:27-36) Frásagan af Samúel og Elí sýnir okkur hve tillitssamur og vitur Jehóva er.

6. Hvað lærum við af því hvernig Guð hjálpaði hinum unga Samúel?

6 Ert þú ungmenni? Ef svo er þá skilur Jehóva hvernig þér líður og hvað þú þarft að kljást við. Frásagan af Samúel leiðir það skýrt í ljós. Kannski ertu feiminn og finnst erfitt að tala við fullorðna í boðuninni eða að vera öðruvísi en jafnaldrarnir. Þú getur treyst því að Jehóva vilji hjálpa þér. Úthelltu hjarta þínu fyrir honum í bæn. (Sálm. 62:9) Hugleiddu fordæmi Samúels og annarra ungmenna sem sagt er frá í Biblíunni. Talaðu líka við trúsystkini þín – bæði ung og gömul – sem hafa kannski tekist á við svipuð vandamál og þú glímir við. Þau geta eflaust sagt þér hvernig Jehóva hefur hjálpað þeim, jafnvel á annan hátt en þau bjuggust við.

TILLITSSAMUR VIÐ MÓSE

7, 8. Hvernig var Jehóva einstaklega tillitssamur við Móse?

7 Þegar Móse var áttræður fól Jehóva honum afar erfitt verkefni. Hann átti að frelsa Ísraelsmenn úr þrældómnum í Egyptalandi. (2. Mós. 3:10) Móse hafði verið fjárhirðir í Midíanslandi í 40 ár og var því eflaust furðu lostinn að fá þetta verkefni. „Hver er ég, að ég fari til faraós og leiði Ísraelsmenn út úr Egyptalandi?“ spurði hann. En Guð lofaði honum: „Ég mun vera með þér.“ (2. Mós. 3:11, 12) Hann fullvissaði hann líka um að öldungar Ísraels ,myndu hlusta á hann‘. Þrátt fyrir það svaraði Móse: „En ef þeir ... hlusta ekki á mig?“ (2. Mós. 3:18; 4:1) Hann var í raun að andmæla Jehóva! En Jehóva var þolinmóður. Og ekki nóg með það. Hann gaf Móse líka mátt til að vinna kraftaverk. Þar með varð hann fyrsti maðurinn sem talað er um í Biblíunni að hafi fengið slíkan mátt. – 2. Mós. 4:2-9, 21.

8 Móse reyndi þó enn að afsaka sig og sagðist vera illa máli farinn. En Guð sagði honum: „Ég verð með munni þínum og kenni þér hvað þú átt að segja.“ Var Móse nú loks sannfærður? Augljóslega ekki því að hann bað Guð að senda einhvern annan. Við það reiddist Jehóva réttilega. En hann var ekki ósveigjanlegur. Hann tók enn og aftur tillit til tilfinninga Móse og fól Aroni að tala fyrir hönd bróður síns. – 2. Mós. 4:10-16.

9. Hvernig nýttist það Móse að Jehóva skyldi vera þolinmóður og tillitssamur við hann?

9 Hvað lærum við um Jehóva af þessari frásögu? Þar sem hann er alvaldur Guð hefði hann hæglega getað hrætt Móse til hlýðni. En þess í stað var hann þolinmóður og góður og reyndi að stappa stálinu í auðmjúkan og hógværan þjón sinn. Bar það árangur? Heldur betur. Móse varð framúrskarandi leiðtogi sem reyndi að vera mildur og tillitssamur við aðra líkt og Jehóva hafði verið við hann. – 4. Mós. 12:3.

Líkirðu eftir Jehóva í samskiptum þínum við aðra? (Sjá 10. grein.)

10. Hvaða gagn höfum við af því að líkja eftir Jehóva og vera tillitssöm við aðra?

10 Hvað lærum við? Ertu eiginmaður, foreldri eða safnaðaröldungur? Þá hefurðu visst vald. Þess vegna er gífurlega mikilvægt að þú líkir eftir Jehóva og sért tillitssamur, góður og þolinmóður í samskiptum við konu þína, börn og þá sem eru í söfnuðinum. (Kól. 3:19-21; 1. Pét. 5:1-3) Ef þú leggur þig fram um að líkja eftir Jehóva og Jesú Kristi, hinum meiri Móse, finnst öðrum bæði auðvelt og uppörvandi að leita til þín. (Matt. 11:28, 29) Þannig verðurðu líka góð fyrirmynd. – Hebr. 13:7.

MÁTTUGUR EN HUGULSAMUR BJARGVÆTTUR

11, 12. Hvað gerði Jehóva þegar hann leiddi Ísraelsþjóðina út úr Egyptalandi svo að henni fyndist hún örugg og óhult?

11 Ísraelsmenn voru hugsanlega um þrjár milljónir þegar þeir yfirgáfu Egyptaland árið 1513 f.Kr. Í þeim hópi voru þrír eða jafnvel fjórir ættliðir. Þar voru börn, aldraðir og eflaust einhverjir heilsuveilir eða fatlaðir. Þessi stóri hópur fólks þurfti á skilningsríkum og hugulsömum leiðtoga að halda. Jehóva var einmitt þannig leiðtogi þegar hann lét Móse fara fyrir þjóðinni. Fyrir vikið fundu Ísraelsmenn til öryggis þegar þeir yfirgáfu einu heimkynnin sem þeir þekktu. – Sálm. 78:52, 53.

12 Hvað gerði Jehóva svo að þjóðinni fyndist hún örugg og óhult? Meðal annars leiddi hann hana út úr Egyptalandi í vel skipulagðri „herfylkingu“. (2. Mós. 13:18, NW) Þessi röð og regla fullvissaði Ísraelsmenn um að Guð þeirra væri við stjórnvölinn. Auk þess leiddi Jehóva þá með „skýi um daga og um nætur með lýsandi eldi“ til að minna þá á að hann væri með þeim. (Sálm. 78:14) Hann var í raun að segja: „Óttist ekki. Ég er með ykkur, ég leiðbeini ykkur og vernda.“ Innan skamms átti þeim eftir að reynast nauðsynlegt að treysta þessu loforði.

Hvernig tók Jehóva tillit til Ísraelsmanna við Rauðahafið? (Sjá 13. grein.)

13, 14. (a) Hvernig tók Jehóva tillit til Ísraelsmanna við Rauðahafið? (b) Hvernig sýndi Jehóva að hann var langtum máttugri en Egyptar?

13 Lestu 2. Mósebók 14:19-22. Ímyndaðu þér að þú sért þarna meðal Ísraelsmanna, innikróaður milli Rauðahafsins og hersveita faraós. Skyndilega grípur Guð inn í. Skýstólpinn færist aftur fyrir fylkingu ykkar og í veg fyrir Egypta. Nú eru þeir í niðamyrkri en hjá ykkur er undursamleg birta. Þá sérðu Móse rétta hönd sína út yfir hafið og sterkur austanvindur opnar breiða braut yfir á hinn endann. Þið fjölskyldan gangið út á hafsbotninn ásamt dýrum ykkar og öllu hinu fólkinu. Þú tekur strax eftir nokkru sérkennilegu – hafsbotninn er ekki forugur eða sleipur heldur er hann þurr og þéttur í sér þannig að auðvelt er að ganga á honum. Jafnvel þeir hægustu komast klakklaust yfir á hinn endann.

14 Lestu 2. Mósebók 14:23, 26-30. Á meðan þetta á sér stað æðir hinn stolti og óvitri faraó út á hafsbotninn á eftir ykkur. Aftur réttir Móse hönd sína út yfir hafið. Vatnsveggirnir falla nú eins og flóðbylgjur sem stefna hvor á aðra. Þeir steypast yfir faraó og her hans sem eiga sér enga undankomuleið. – 2. Mós. 15:8-10.

15. Hvað lærum við um Jehóva af þessari frásögu?

15 Af frásögunni sjáum við að Jehóva hefur góða reglu á öllu, og það veitir okkur öryggiskennd. (1. Kor. 14:33) Hann er kærleiksríkur hirðir sem annast þjóna sína á öllum sviðum og ver þá og verndar gegn óvinum. Það er sannarlega hughreystandi til þess að vita nú þegar endir þessa heimskerfis færist óðfluga nær. – Orðskv. 1:33.

16. Hvaða gagn höfum við af því að hugleiða hvernig Jehóva bjargaði Ísraelsþjóðinni?

16 Enn þann dag í dag annast Jehóva þjóna sína sem hóp, bæði andlega og líkamlega. Og hann mun einnig gera það í þrengingunni miklu sem brestur á innan skamms. (Opinb. 7:9, 10) Þá munu þjónar Guðs ekki örvænta eða lamast af ótta, hvort sem þeir eru ungir eða gamlir, heilbrigðir eða fatlaðir. * Þvert á móti munu þeir hafa hugföst orð Jesú Krists: „Réttið úr yður og berið höfuðið hátt því að lausn yðar er í nánd.“ (Lúk. 21:28) Þeir treysta hugrakkir á Jehóva þegar Góg gerir árás, en hann táknar bandalag þjóða sem verður mun öflugra en faraó var. (Esek. 38:2, 14-16) Hvers vegna bera þeir slíkt traust til Jehóva? Þeir vita að hann breytist ekki. Hann mun enn á ný sýna og sanna að hann er umhyggjusamur og hugulsamur bjargvættur. – Jes. 26:3, 20.

17. (a) Hvernig getum við haft gagn af frásögum Biblíunnar um það hvernig Jehóva annast þjóna sína? (b) Hvað skoðum við í næstu grein?

17 Dæmin í þessari grein eru aðeins fáein af mörgum sem sýna hvernig Jehóva annast, leiðbeinir og bjargar þjónum sínum á kærleiksríkan og tillitssaman hátt. Þegar þú hugleiðir slíkar frásögur skaltu reyna að læra eitthvað nýtt um Jehóva með því að rýna í smáatriði sem þú hefur ekki hugsað út í áður. Þannig styrkirðu trúna og kærleikann til Jehóva og fallegir eiginleikar hans hafa áhrif á huga þinn og hjarta. Í næstu grein skoðum við hvernig við getum líkt eftir Jehóva og sýnt tillitssemi í fjölskyldunni, söfnuðinum og boðuninni.

^ gr. 3 Jósefus, sagnaritari Gyðinga, segir að Samúel hafi verið 12 ára þegar þetta gerðist.

^ gr. 16 Það er rökrétt að ætla að sumir þeirra sem lifa af Harmagedón verði fatlaðir. Jesús læknaði fólk af ,hvers kyns veikindum‘ þegar hann var á jörð. Þannig gaf hann okkur forsmekk af því sem hann ætlar gera, ekki fyrir þá sem verða reistir upp heldur fyrir þá sem lifa af Harmagedón. (Matt. 9:35) Hinir upprisnu munu án efa hafa heilan og heilbrigðan líkama.