Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

,Vertu hughraustur – nú skaltu hefjast handa‘

,Vertu hughraustur – nú skaltu hefjast handa‘

„Vertu djarfur og hughraustur. Nú skaltu hefjast handa. Óttastu ekki og hikaðu ekki því að Drottinn ... er með þér.“ – 1. KRON. 28:20.

SÖNGVAR: 38, 34

1, 2. (a) Hvaða mikilvæga verkefni fékk Salómon? (b) Hvers vegna hafði Davíð áhyggjur af því hvernig Salómon tækist til?

SALÓMON var falið að hafa umsjón með einum mikilvægustu byggingarframkvæmdum allra tíma – byggingu musterisins í Jerúsalem. Musterið átti að verða „mikið og stórfenglegt og vekja aðdáun um öll lönd“. En það sem meira máli skipti var að það átti að verða hús Jehóva, hins sanna Guðs. Jehóva skipaði Salómon umsjónarmann yfir þessum framkvæmdum. – 1. Kron. 22:1, 5, 9-11.

2 Davíð konungur treysti að Guð myndi styðja Salómon þó að hann væri „ungur og óreyndur“. Var hann nógu hugrakkur til að taka að sér byggingu musterisins? Myndi það gera honum erfitt fyrir hve ungur og óreyndur hann var? Til að vel færi þurfti Salómon að vera hugrakkur og hefjast handa.

3. Hvað gat Salómon lært um hugrekki af föður sínum?

3 Salómon lærði eflaust margt um hugrekki af föður sínum. Á sínum yngri árum barðist Davíð við villidýr sem réðust á lömb föður hans. (1. Sam. 17:34, 35) Hann sýndi geysilegt hugrekki þegar hann réðst gegn stríðsvönum risa. Já, með hjálp Guðs og einni steinvölu sigraði Davíð Golíat. – 1. Sam. 17:45, 49, 50.

4. Hvers vegna þurfti Salómon að vera hugrakkur?

 4 Það var vel við hæfi að Davíð skyldi hvetja Salómon til að vera hugrakkur og byggja musterið. (Lestu 1. Kroníkubók 28:20.) Salómon gæti lamast af ótta ef hann sýndi ekki hugrekki, en aðgerðarleysi væri verra en að mistakast.

5. Af hverju þurfum við að vera hugrökk?

5 Rétt eins og Salómon þurfum við á hjálp Jehóva að halda til að vera hugrökk og gera verkefnum okkar góð skil. Við sjáum það þegar við skoðum nokkur dæmi um hugrakka karla og konur til forna. Það fær okkur líka til að hugsa um hvernig við getum sýnt hugrekki og gengið ákveðið til verks.

ÞAU SÝNDU HUGREKKI

6. Hvers vegna þurfti Jósef að sýna mikið hugrekki?

6 Jósef sýndi mikið hugrekki þegar kona Pótífars reyndi að fá hann til að fremja kynferðislegt siðleysi. Hann hefur eflaust vitað að það gæti haft alvarlegar afleiðingar að segja nei við hana. Hann lét samt ekki undan. Hann var hugrakkur og ákvað að forða sér. – 1. Mós. 39:10, 12.

7. Lýstu hvernig Rahab sýndi hugrekki. (Sjá mynd í upphafi greinar.)

7 Rahab er önnur góð fyrirmynd um hugrekki. Þegar ísraelskir njósnarar komu heim til hennar í Jeríkó hefði hún getað látið óttann ná tökum á sér og vísað þeim burt. En hún var hugrökk og treysti á Jehóva, faldi mennina tvo og hjálpaði þeim að komast undan heilir á húfi. (Jós. 2:4, 5, 9, 12-16) Rahab viðurkenndi að Jehóva væri hinn sanni Guð og treysti að hann myndi með einhverjum hætti gefa Ísraelsmönnum landið. Hún lét ekki ótta við menn, svo sem konunginn í Jeríkó og menn hans, slá sig út af laginu. Hún gerði öllu heldur það sem varð henni og fjölskyldu hennar að lokum til lífs. – Jós. 6:22, 23.

8. Hvaða áhrif hafði hugrekki Jesú á postulana?

8 Trúfastir postular Jesú settu okkur einnig gott fordæmi um hugrekki. Þeir höfðu séð hve hugrakkur Jesús var. (Matt. 8:28-32; Jóh. 2:13-17; 18:3-5) Fordæmi hans hjálpaði þeim að byggja upp hugrekki. Þó að þeir mættu andstöðu af hendi saddúkeanna hættu þeir ekki að kenna í nafni Jesú. – Post. 5:17, 18, 27-29.

9. Hvaðan fáum við hugrekki, samanber 2. Tímóteusarbréf 1:7?

9 Jósef, Rahab, Jesús og postularnir sýndu innri styrk sem knúði þau til góðra verka. Hugrekki þeirra stafaði þó ekki af oftrú á eigin getu. Það stafaði af því að þau treystu á Jehóva. Við lendum líka í aðstæðum sem útheimta hugrekki. Í stað þess að treysta á sjálf okkur verðum við að treysta á Jehóva. (Lestu 2. Tímóteusarbréf 1:7.) Lítum nú á tvö svið í lífinu þar sem við þurfum að vera hugrökk: í fjölskyldunni og í söfnuðinum.

AÐSTÆÐUR SEM ÚTHEIMTA HUGREKKI

10. Hvers vegna þarf ungt fólk í söfnuðinum að sýna hugrekki?

10 Ungt fólk í söfnuðinum þarf oft að sýna hugrekki til að þjóna Jehóva. Það getur lært af fordæmi Salómons sem sýndi hugrekki og tók viturlegar ákvarðanir til að ljúka við byggingu musterisins. Þetta unga fólk getur leitað leiðsagnar foreldra sinna og ætti líka að gera það, en það þarf samt sjálft að taka ýmsar mikilvægar ákvarðanir. (Orðskv. 27:11) Það útheimtir hugrekki að taka skynsamlegar ákvarðanir varðandi félagsskap, afþreyingu, siðferði og skírn. Ástæðan er sú að þannig taka þau afstöðu gegn Satan sem smánar Guð.

11, 12. (a) Hvernig sýndi Móse hugrekki? (b) Hvernig getur ungt fólk líkt eftir Móse?

 11 Ein mikilvæg ákvörðun, sem unglingar þurfa að taka, snýr að markmiðum þeirra. Í sumum löndum er þrýst á ungt fólk að setja sér markmið sem snúast um að afla sér æðri menntunar og fá vel launaða vinnu. Efnahagsástandið í öðrum löndum veldur því að ungu fólki finnst það þurfa að hugsa fyrst og fremst um að sjá fyrir efnislegum þörfum fjölskyldunnar. Ef þú ert í öðrum hvorum þessara aðstæðna skaltu hugleiða fordæmi Móse. Hann var alinn upp af dóttur faraós og hefði getað stefnt á frama eða fjárhagslegt öryggi. Egypsk fjölskylda hans, kennarar og ráðgjafar hafa eflaust beitt hann miklum þrýstingi. En hann lét ekki undan heldur sýndi hugrekki og tók afstöðu með sannri tilbeiðslu. Þegar Móse hafði sagt skilið við auðæfi Egyptalands setti hann hugrakkur traust sitt á Jehóva. (Hebr. 11:24-26) Fyrir það hlaut hann blessun Jehóva þá, og hans bíður án efa enn meiri blessun í framtíðinni.

12 Jehóva blessar að sama skapi ungt fólk sem sýnir hugrekki með því að vinna að andlegum markmiðum og setja ríki Guðs í fyrsta sæti. Hann hjálpar þeim að sjá fyrir þörfum fjölskyldu sinnar. Hinn ungi Tímóteus, sem var uppi á fyrstu öld, einbeitti sér að andlegum markmiðum, og þú getur gert það líka. * – Lestu Filippíbréfið 2:19-22.

Ertu staðráðinn í að sýna hugrekki á öllum sviðum lífsins? (Sjá 13.-17. grein.)

13. Af hverju þurfti systir ein að vera hugrökk til að geta náð markmiðum sínum?

13 Systir ein í Alabama í Bandaríkjunum þurfti að byggja upp hugrekki til að geta sett sér markmið í þjónustu Jehóva. Hún skrifar: „Ég var mjög feimin þegar ég var ung. Ég gat varla talað við fólk á samkomum, hvað þá bankað upp á hjá bláókunnugu fólki.“ Með hjálp foreldra sinna og annarra í söfnuðinum náði þessi unga systir samt því markmiði sínu að verða brautryðjandi. Hún segir: „Heimur Satans ýtir undir það hugarfar að æðri menntun, frægð og frami og það að sanka að sér peningum og efnislegum eigum séu góð markmið. Oft tekst mönnum ekki að ná þessum markmiðum og þau valda þeim aðeins kvíða og vonbrigðum. Að þjóna Jehóva hefur hins vegar veitt mér ómælda hamingju og mér finnst ég hafa áorkað einhverju.“

14. Nefndu dæmi um aðstæður þar sem kristnir foreldrar þurfa að vera hugrakkir.

14 Kristnir foreldrar þurfa líka að vera hugrakkir. Yfirmaður þinn biður þig kannski oft um að vinna yfirvinnu á kvöldin og um helgar – á tímum sem þú hefur tekið frá fyrir tilbeiðslustund fjölskyldunnar, boðunina og samkomur. Það krefst hugrekkis að segja nei við slík tækifæri og setja börnum þínum gott fordæmi. Eða segjum sem svo að einhverjir foreldrar í söfnuðinum leyfi börnunum sínum að gera hluti sem þú vilt ekki að barnið þitt geri. Þeir spyrja þig kannski hvers vegna þú leyfir barninu þínu ekki að vera með. Geturðu þá verið hugrakkur og útskýrt ákvörðun þína af háttvísi?

15. Hvernig geta Sálmur 37:25 og Hebreabréfið 13:5 hjálpað foreldrum?

15 Við sýnum hugrekki þegar við hjálpum börnum okkar að setja sér andleg markmið og ná þeim. Sumir foreldrar hika kannski við að hvetja barnið sitt til að stefna á brautryðjandastarf, starfa þar sem mikil þörf er á boðberum, starfa á Betel eða vinna við byggingarframkvæmdir á vegum safnaðarins. Foreldrarnir  óttast ef til vill að barnið geti ekki séð um þá þegar þeir eldast. Skynsamir foreldrar sýna þó hugrekki og treysta að Jehóva standi við loforð sín. (Lestu Sálm 37:25; Hebreabréfið 13:5.) Ef þú ert hugrakkur og treystir á Jehóva hveturðu auk þess börnin þín til að gera slíkt hið sama. – 1. Sam. 1:27, 28; 2. Tím. 3:14, 15.

16. Hvernig hafa sumir foreldrar hjálpað börnum sínum að setja sér andleg markmið, og hvernig hefur það verið til góðs?

16 Hjón í Bandaríkjunum hjálpuðu börnum sínum að setja sér andleg markmið. Eiginmaðurinn útskýrir: „Áður en börnin okkar lærðu að tala og ganga töluðum við við þau um gleðina sem fylgir brautryðjandastarfi og því að þjóna söfnuðinum. Nú hafa þau það að markmiði. Að hafa markmið í þjónustu Jehóva og ná þeim hjálpar börnum okkar að sporna gegn þrýstingnum frá heimi Satans og að einbeita sér að því sem er raunverulegt – að Jehóva.“ Bróðir, sem er tveggja barna faðir, skrifar: „Margir foreldrar leggja mikið á sig til að hjálpa börnum sínum að ná markmiðum á sviði íþrótta, afþreyingar, menntunar og öðru slíku. Það er mun skynsamlegra að leggja sig fram um að hjálpa börnunum að ná markmiðum sem stuðla að góðu sambandi við Jehóva. Það hefur veitt okkur ómælda ánægju bæði að sjá börnin okkar ná markmiðum sínum í þjónustu Jehóva og að hafa fengið að styðja við bakið á þeim.“ Þú mátt vera viss um að Guð blessar foreldra sem hjálpa börnum sínum að setja sér andleg markmið og ná þeim.

HUGREKKI Í SÖFNUÐINUM

17. Nefndu dæmi um hvernig við getum þurft að sýna hugrekki í söfnuðinum.

17 Það er líka þörf á að sýna hugrekki í söfnuðinum. Öldungar þurfa til dæmis að vera hugrakkir þegar þeir taka á dómnefndarmálum eða aðstoða þá sem eru í lífshættu vegna veikinda eða slysa. Sumir öldungar heimsækja fangelsi til að sinna andlegum þörfum fanga. Hvað með einhleypar systur? Þeim standa til  boða mörg tækifæri til að auka þjónustuna. Þær geta gerst brautryðjendur, flust þangað sem þörfin er mikil, unnið á vegum hönnunar- og byggingardeildarinnar og sótt um í Skólanum fyrir boðbera Guðsríkis. Sumar fá jafnvel boð um að sækja Gíleaðskólann.

18. Hvernig geta eldri systur sýnt hugrekki?

18 Eldri systur eru söfnuðinum til blessunar. Okkur þykir ákaflega vænt um þær. Sumar þeirra geta ekki gert eins mikið og áður í þjónustunni við Guð en þær geta samt verið hugrakkar og lagt sitt af mörkum. (Lestu Títusarbréfið 2:3-5.) Eldri systir þarf til dæmis hugrekki ef hún er beðin um að ræða við yngri systur um að klæða sig á látlausan hátt. Hún skammar hana ekki fyrir klæðaburð hennar en hún gæti hvatt hana til að hugleiða hvaða áhrif fataval hennar getur haft á aðra. (1. Tím. 2:9, 10) Eldri systur geta haft góð áhrif með því að sýna slíka umhyggju.

19. (a) Hvernig geta skírðir bræður sýnt hugrekki? (b) Hvernig getur Filippíbréfið 2:13 og 4:13 hjálpað bræðrum að byggja upp hugrekki?

19 Skírðir bræður eru einnig í hópi þeirra sem þurfa að vera hugrakkir og hefjast handa. Hugrakkir menn, sem eru fúsir til að taka á sig aukna ábyrgð, eru söfnuðinum til blessunar. (1. Tím. 3:1) Sumir gætu þó haldið aftur af sér. Bróður finnst hann kannski ekki vera þess verður að vera safnaðarþjónn eða öldungur vegna mistaka sem hann hefur gert í fortíðinni. Sumum gæti líka fundist þeir óhæfir til að sinna ákveðnu verkefni. Ef þér er þannig innanbrjósts getur Jehóva hjálpað þér að byggja upp hugrekki. (Lestu Filippíbréfið 2:13; 4:13.) Mundu að eitt sinn fannst Móse hann ekki hæfur til að taka að sér verkefni. (2. Mós. 3:11) En Jehóva hjálpaði honum og með tímanum jókst honum kjarkur til að sinna verkinu. Skírður bróðir getur byggt upp sams konar hugrekki með því að biðja einlæglega til Guðs um hjálp og lesa daglega í Biblíunni. Það hjálpar líka að hugleiða frásögur af hugrökkum körlum og konum í Biblíunni. Bróðirinn getur auðmjúkur beðið öldungana um þjálfun og boðið sig fram til að hjálpa til hvar sem þess er þörf. Við hvetjum alla skírða bræður til að vera hugrakkir og leggja hart að sér í þágu safnaðarins.

JEHÓVA ER MEÐ ÞÉR

20, 21. (a) Um hvað fullvissaði Davíð Salómon? (b) Hverju getum við treyst?

20 Davíð konungur minnti Salómon á að Jehóva yrði með honum þar til byggingu musterisins lyki. (1. Kron. 28:20) Salómon hefur eflaust geymt orð föður síns í huga sér og hjarta, og hann lét það ekki hindra sig að hann skyldi vera ungur og óreyndur. Hann sýndi mikið hugrekki, hófst handa og með hjálp Jehóva lauk hann við byggingu hins mikilfenglega musteris á sjö og hálfu ári.

21 Jehóva hjálpaði Salómon og hann getur líka hjálpað okkur að vera hugrökk og sinna verkefnum okkar vel, bæði í fjölskyldunni og í söfnuðinum. (Jes. 41:10, 13) Ef við sýnum hugrekki í tilbeiðslunni á Jehóva getum við treyst því að hann blessar okkur, bæði núna og í framtíðinni. Við skulum því ,vera hughraust og hefjast handa‘.

^ gr. 12 Í greininni „Unglingar – takið þið framförum í trúnni?“ í Varðturninum 1. maí 2003 er bent á ýmis góð ráð um að setja sér andleg markmið.