Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Líkjum eftir Jehóva og sýnum meðaumkun

Líkjum eftir Jehóva og sýnum meðaumkun

„Drottinn, Drottinn er miskunnsamur og náðugur Guð.“ – 2. MÓS. 34:6.

SÖNGVAR: 57, 147

1. Á hvað lagði Jehóva áherslu þegar hann vitraðist Móse og hvers vegna skiptir það máli?

GUÐ vitraðist Móse einu sinni með því að nefna nafn sitt og eiginleika. Fyrstu eiginleikarnir, sem hann nefndi, voru miskunnsemi og náð, eða meðaumkun eins og sumar biblíur orða það. (Lestu 2. Mósebók 34:5-7.) Jehóva hefði getað bent á mátt sinn og visku. En Móse vildi fullvissa sig um að Jehóva myndi styðja sig og Jehóva lagði þá frekar áherslu á eiginleika sem sýndu fram á hve fús hann væri til að hjálpa þjónum sínum. (2. Mós. 33:13) Er ekki gott til þess að hugsa að Guð skuli hafa nefnt þessa hlýlegu eiginleika fyrst af öllu? Í þessari grein er fjallað um meðaumkun sem er samúðarfull vitund um þjáningar eða raunir annarra samfara löngun til að lina þær.

2, 3. (a) Hvað bendir til þess að það sé í eðli mannsins að sýna meðaumkun? (b) Af hverju ættum við að hafa áhuga á því sem Biblían segir um meðaumkun?

2 Mennirnir voru skapaðir eftir mynd Guðs. Þar sem Jehóva sýnir meðaumkun er því eðlilegt fyrir okkur mennina að vera umhugað um velferð annarra. Jafnvel þeir sem þekkja ekki hinn sanna Guð sýna oft meðaumkun. (1. Mós. 1:27) Í mörgum  af frásögum Biblíunnar er sagt frá fólki sem sýndi meðaumkun. Við munum eftir vændiskonunum tveim sem rifust frammi fyrir Salómon um það hvor þeirra væri móðir barns nokkurs. Þegar Salómon reyndi þær með því að skipa svo fyrir að barnið yrði höggvið í tvennt fann raunveruleg móðir þess til mikillar meðaumkunar með því. Hún brást skjótt við og var jafnvel tilbúin til að leyfa hinni konunni að eiga barnið. (1. Kon. 3:23-27) Hugsum líka um dóttur faraós sem bjargaði lífi Móse þegar hann var kornabarn. Hún áttaði sig á að drengurinn, sem hún hafði fundið, væri hebreskur og að það ætti að taka hann af lífi en „hún vorkenndi honum“ og ákvað að ala hann upp sem sinn eigin son. – 2. Mós. 2:5, 6.

3 Af hverju ættum við að vilja læra meira um meðaumkun? Af því að Biblían hvetur okkur til að líkja eftir Jehóva. (Ef. 5:1) En þó að það sé í eðli mannsins að sýna meðaumkun erum við ófullkomnir afkomendur Adams og eigum það til að vera eigingjörn. Það er ekki alltaf auðvelt að ákveða hvort við ætlum að hjálpa öðrum eða hugsa um sjálf okkur. Það getur verið mikil barátta hjá sumum að finna rétta jafnvægið. Hvað getur hjálpað okkur að sýna meðaumkun þegar við á? Lítum fyrst á hvernig Jehóva hefur sýnt meðaumkun og hvernig aðrir hafa sýnt þennan eiginleika. Síðan skoðum við hvernig við getum líkt eftir Guði og hvernig það er okkur til góðs.

JEHÓVA ER FULLKOMIN FYRIRMYND UM AÐ SÝNA MEÐAUMKUN

4. (a) Hvers vegna sendi Jehóva engla til Sódómu? (b) Hvað lærum við af frásögunni af Lot og dætrum hans?

4 Við sjáum mörg dæmi um það í Biblíunni að Jehóva sýndi meðaumkun. Hugsum um það sem hann gerði fyrir Lot. Það reyndi verulega á þennan réttláta mann að horfa upp á svívirðilegan lifnað íbúanna í Sódómu og Gómorru. Guð ákvað að þetta siðlausa fólk ætti skilið að deyja. (2. Pét. 2:7, 8) Hann sendi þó engla til að bjarga Lot. Þeir sögðu honum og fjölskyldu hans að flýja borgirnar sem Guð hafði dæmt. „En Lot fór hægt að öllu svo að [englarnir] tóku í hönd honum og í hönd konu hans og dætranna beggja, fyrir miskunn Drottins við þau, og leiddu þau í öruggt skjól utan borgar.“ (1. Mós. 19:16) Gefur þetta dæmi ekki til kynna að Jehóva sé fullkunnugt um þær erfiðu aðstæður sem trúir þjónar hans þurfa stundum að takast á við? – Jes. 63:7-9; Jak. 5:11; 2. Pét. 2:9.

5. Hvernig kennir Biblían okkur að sýna meðaumkun? Sjá til dæmis 1. Jóhannesarbréf 3:17.

5 Jehóva hefur ekki bara sýnt meðaumkun sjálfur heldur hefur hann líka kennt þjónum sínum hve mikilvægt það er. Hugsum um lögin sem hann gaf Ísraelsmönnum varðandi það að taka yfirhöfn manns að veði. (Lestu 2. Mósebók 22:25, 26.) Harðbrjósta lánveitandi hefði getað freistast til að taka yfirhöfn þess sem skuldaði honum þannig að hann hefði ekkert til að breiða yfir sig þegar hann færi að sofa. En Jehóva kenndi fólki sínu að forðast slíka miskunnarlausa framkomu. Þjónar hans áttu að sýna meðaumkun. Ætti ekki meginreglan að baki þessum lögum að hvetja okkur til verka? Við viljum ekki horfa fram hjá þörfum og þjáningum trúsystkina okkar. Ef við getum gert eitthvað til að hjálpa þeim skulum við gera það. – Kól. 3:12; Jak. 2:15, 16; lestu 1. Jóhannesarbréf 3:17.

6. Hvað getum við lært af því að Jehóva sýndi Ísraelsmönnum meðaumkun þrátt fyrir syndir þeirra?

 6 Jehóva hafði meðaumkun með Ísraelsmönnum jafnvel þegar þeir syndguðu. Við lesum: „Samt sendi Drottinn, Guð feðra þeirra, sífellt boðskap til þeirra af munni sendiboða sinna því að hann vildi hlífa lýð sínum og bústað sínum.“ (2. Kron. 36:15) Ættum við ekki á svipaðan hátt að finna til með fólki sem lifir syndugu líferni en gæti ef til vill iðrast og hlotið velþóknun Guðs? Jehóva vill ekki að neinn glatist í hinum komandi dómi. (2. Pét. 3:9) Meðan tími er til ættum við því að halda áfram að vara fólk við og hjálpa eins mörgum og við getum að njóta góðs af meðaumkun Guðs.

7, 8. Hvers vegna fannst fjölskyldu einni Jehóva sýna sér meðaumkun?

7 Við sjáum líka mörg dæmi nú á dögum um meðaumkun Guðs. Skoðum hvað kom fyrir fjölskyldu 12 ára drengs sem við skulum kalla Milan. Snemma á tíunda áratugnum stóðu yfir miklar þjóðernisdeilur. Milan, bróðir hans og foreldrar voru í ferð með rútu frá Bosníu til Serbíu ásamt öðrum vottum. Þau voru á leiðinni á mót þar sem foreldrar Milans ætluðu að láta skírast. Við landamærin stoppuðu hermenn fjölskylduna vegna þjóðernis. Rútan með vottunum fékk hins vegar að halda áfram. Eftir að þau fjölskyldan höfðu verið í haldi í tvo daga hringdi herforinginn í yfirmann sinn og spurði hvað hann ætti að gera við þau. Þar sem foringinn stóð beint fyrir framan fjölskylduna heyrðu þau öll svarið: „Farið með þau út og skjótið þau!“

8 Á meðan herforinginn talaði við menn sína birtust tveir ókunnugir menn sem hvísluðu að fjölskyldunni að þeir væru vottar. Þeir höfðu frétt frá öðrum í rútunni hvað hafði gerst. Vottarnir tveir sögðu Milan og bróður hans að setjast inn í bíl þeirra til að þeir gætu farið yfir landamærin en persónuskilríki barna voru ekki skoðuð. Þeir sögðu síðan foreldrunum að ganga aftur fyrir eftirlitsskýlið og hitta sig hinum megin. Milan vissi ekki hvort hann átti að gráta eða hlæja. „Haldið þið að þeir leyfi okkur bara að ganga í burtu?“ spurðu foreldrarnir. En þegar þau gengu burt var eins og hermennirnir störðu beint í gegnum þau. Foreldrarnir hittu drengina sína svo aftur hinum megin landamæranna. Þau héldu ferðinni áfram til borgarinnar þar sem mótið var haldið, sannfærð um að Jehóva hefði svarað örvæntingarfullum bænum þeirra um hjálp. Við höfum lært af Biblíunni að Jehóva grípur ekki alltaf inn í með slíkum hætti til að vernda þjóna sína. (Post. 7:58-60) En Milan segir hvernig hann upplifði þetta: „Mér fannst eins og englarnir hefðu blindað augu hermannanna og að Jehóva hefði bjargað okkur.“ – Sálm. 97:10.

9. Hvernig brást Jesús við þegar hann sá ástand fólksins sem fylgdi honum? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

9 Við getum lært mikið af Jesú. Hann hafði meðaumkun með fólkinu sem hann hitti því að það ,var hrjáð og umkomulaust eins og sauðir er engan hirði hafa‘. Hvernig brást hann við? Hann tók að ,kenna því margt‘. (Matt. 9:36; lestu Markús 6:34.) Viðhorf hans til fólksins var með öllu ólíkt því hvernig farísearnir hugsuðu en þeir höfðu enga löngun til að hjálpa almúganum. (Matt. 12:9-14; 23:4; Jóh. 7:49) Þráir þú ekki að fræða andlega hungrað fólk um Jehóva eins og Jesús gerði?

10, 11. Er alltaf viðeigandi að sýna meðaumkun? Skýrðu málið.

10 Það þýðir ekki að við eigum að sýna meðaumkun við allar aðstæður. Í þeim  dæmum Biblíunnar, sem rætt hefur verið um, var viðeigandi að Guð sýndi meðaumkun. Sál konungur óhlýðnaðist hins vegar Guði þegar hann taldi sig ef til vill vera að sýna meðaumkun. Agag var óvinur þjóðar Guðs en Sál þyrmdi lífi hans og vænstu dýrum hans. Fyrir vikið hafnaði Jehóva Sál sem konungi Ísraels. (1. Sam. 15:3, 9, 15) Jehóva er auðvitað réttlátur dómari. Hann getur lesið hjörtu fólks og veit hvenær það á ekki rétt á sér að sýna meðaumkun. (Harmlj. 2:17; Esek. 5:11) Sá tími nálgast að hann fullnægir dómi yfir öllum sem neita að hlýða honum. (2. Þess. 1:6-10) Þá verður ekki rétti tíminn fyrir Jehóva að sýna þeim meðaumkun sem hann hefur dæmt illvirkja. Öllu heldur sýnir hann hinum réttlátu, sem hann varðveitir, viðeigandi meðaumkun með því að eyða hinum illu.

11 Það er auðvitað ekki okkar hlutverk að dæma um það hvort fólki verði eytt eða það fái að lifa. Við þurfum hins vegar að gera allt sem við getum til að hjálpa því. Hvernig getum við þá sýnt öðrum viðeigandi meðaumkun í verki? Skoðum nú nokkrar tillögur.

HVERNIG GETUM VIÐ SÝNT MEÐAUMKUN?

12. Hvernig geturðu sýnt meðaumkun og hjálpað öðrum?

12 Vertu hjálpfús við dagleg verk. Jehóva ætlast til þess að kristnir menn sýni náunga sínum og trúsystkinum kærleika. (Jóh. 13:34, 35; 1. Pét. 3:8) Meðaumkun getur falið í sér að þjást með þeim sem þjást. Sá sem sýnir meðaumkun vill lina þjáningar annarra, ef til vill með því að hjálpa þeim út úr erfiðleikum þeirra. Leitaðu að tækifærum til að gera það. Gætirðu til dæmis boðist til að hjálpa einhverjum við hversdagsleg verk eins og að sendast eftir einhverju eða versla? – Matt. 7:12.

Sýndu meðaumkun með því að hjálpa öðrum. (Sjá 12. grein.)

13. Hvaða eiginleikar koma sérstaklega vel í ljós hjá þjónum Guðs eftir náttúruhamfarir?

13 Taktu þátt í hjálparstarfi. Þegar við sjáum fólk þjást vegna hamfara fyllumst við meðaumkun og viljum hjálpa því. Þjónar Jehóva eru þekktir fyrir að bjóða fram aðstoð sína við slíkar aðstæður. (1. Pét. 2:17) Systir í Japan bjó á svæði sem varð illa úti þegar jarðskjálfti og flóðbylgja reið yfir árið 2011. Hún segir  að hún hafi fengið „mikla uppörvun og huggun“ þar sem margir sjálfboðaliðar lögðu sig fram um að hjálpa þeim. Þeir komu bæði frá öðrum landshlutum og frá öðrum löndum til að gera við skemmdir og endurbyggja heimili og ríkissali. Hún skrifar: „Þessi reynsla varð til þess að ég áttaði mig á að bæði Jehóva og trúsystkinum okkar er annt um okkur. Bræður og systur um allan heim biðja fyrir okkur.“

14. Hvernig geturðu aðstoðað veika og aldraða?

14 Aðstoðaðu þá sem eru veikir og aldraðir. Þegar við sjáum aðra takast á við áhrifin af synd Adams fyllumst við meðaumkun. Við þráum að endi verði bundinn á öldrun og sjúkdóma. Við biðjum því að ríki Guðs komi. Þangað til gerum við það sem við getum til að hjálpa þeim sem eru hjálparþurfi. Hugsum um það sem rithöfundur nokkur skrifaði um aldraða móður sína sem var með alzheimers-sjúkdóm. Dag einn náði hún ekki að komast á salernið í tæka tíð. Meðan hún var að reyna að þrífa sig hringdi dyrabjallan. Gestirnir voru tveir vottar sem heimsóttu konuna reglulega. Systurnar spurðu hvort þær gætu aðstoðað hana með einhverjum hætti. „Ég skammast mín fyrir að segja já,“ svaraði konan. Systurnar hjálpuðu henni að þrífa sig. Síðan löguðu þær tebolla handa henni og spjölluðu við hana um stund. Sonur konunnar var mjög þakklátur. „Ég tek ofan fyrir þessum vottum,“ skrifaði hann. „Þeir fara eftir því sem þeir kenna.“ Fær meðaumkun fyrir veikum og öldruðum þig til að gera allt sem þú getur til að hjálpa þeim? – Fil. 2:3, 4.

15. Hvernig er boðunin öðrum til góðs?

15 Hjálpaðu fólki að kynnast Jehóva. Að horfa upp á erfiðleika fólks og áhyggjur vekur með okkur löngun til að hjálpa því. Besta leiðin til þess er að fræða það um Guð og það sem ríki hans mun gera fyrir mannkynið. Við getum líka sýnt fólki fram á hve skynsamlegt það er að lifa í samræmi við meginreglur Guðs. (Jes. 48:17, 18) Boðunin er frábær leið til að heiðra Jehóva og sýna að við höfum meðaumkun með öðrum. Geturðu aukið þátt þinn í henni? – 1. Tím. 2:3, 4.

ÞAÐ ER ÞÉR TIL GÓÐS AÐ SÝNA MEÐAUMKUN

16. Hvernig er það sjálfum okkur til góðs að sýna meðaumkun?

16 Sálfræðingar benda á að það geti bætt heilsuna, vellíðan og sambönd við aðra að sýna meðaumkun. Þegar maður linar þjáningar annarra líður manni sjálfum betur, verður jákvæðari og ekki eins einmana, og líkurnar minnka á að maður hugsi neikvætt. Já, það er þér til góðs að sýna meðaumkun. (Ef. 4:31, 32) Þjónar Guðs, sem reyna að hjálpa öðrum, hafa góða samvisku þar sem þeir vita að þeir lifa eftir meginreglum hans. Meðaumkun hjálpar okkur að vera umhyggjusamari foreldrar, betri makar og betri vinir. Þeir sem eru gjarnir á að sýna meðaumkun fá líka yfirleitt stuðning og aðstoð þegar þeir þurfa sjálfir á því að halda. – Lestu Matteus 5:7; Lúkas 6:38.

17. Hvers vegna vilt þú temja þér meðaumkun?

17 Aðalástæðan fyrir að vilja glæða með sér meðaumkun ætti þó ekki að vera sú að það er sjálfum okkur til góðs. Ástæðan ætti fyrst og fremst að vera að okkur langar til að líkja eftir og heiðra Jehóva Guð sem er uppspretta kærleika og meðaumkunar. (Orðskv. 14:31) Hann er okkur fullkomin fyrirmynd. Gerum því allt sem við getum til að líkja eftir honum og sýna meðaumkun. Þannig tengjumst við trúsystkinum okkar nánum böndum og stuðlum að góðum samskiptum við náunga okkar. – Gal. 6:10; 1. Jóh. 4:16.