Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Orð Guðs er lifandi.“

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Hvað er „orð Guðs“ sem Hebreabréfið 4:12 segir að sé „lifandi og kröftugt“?

Af samhenginu má sjá að Páll postuli á við boðskap Guðs, það er að segja fyrirætlun hans eins og henni er lýst í Biblíunni.

Oft er vitnað í Hebreabréfið 4:12 í ritum okkar til að sýna fram á að Biblían býr yfir krafti til að breyta lífi fólks, og það á fyllilega rétt á sér að heimfæra versið þannig. En það er gott að sjá Hebreabréfið 4:12 í víðara samhengi. Páll hvatti kristna Hebrea til að starfa í samræmi við fyrirætlun Guðs sem var lýst vel í Heilagri ritningu. Hann tók Ísraelsmenn sem dæmi en Guð hafði frelsað þá frá Egyptalandi. Þeir áttu í vændum að setjast að í landi sem ,flaut í mjólk og hunangi‘ og njóta þar hvíldar. – 2. Mós. 3:8; 5. Mós. 12:9, 10.

Þetta var sú fyrirætlun sem Guð hafði lýst yfir. En Ísraelsmenn forhertust og sýndu ekki trú. Fæstir þeirra fengu því að ganga inn til hvíldarinnar. (4. Mós. 14:30; Jós. 14:6-10) Páll bætti hins vegar við að „fyrirheitið um að ganga inn til hvíldar [Guðs]“ stæði enn. (Hebr. 3:16-19; 4:1) Þetta ,fyrirheit‘ er greinilega þáttur í fyrirætlun Guðs. Við getum lesið um það rétt eins og kristnir Hebrear og starfað í samræmi við það. Páll vitnaði í 1. Mósebók 2:2 og Sálm 95:11 til að leggja áherslu á að þetta fyrirheit væri byggt á Ritningunni.

Það ætti vissulega að snerta okkur að „fyrirheitið um að ganga inn til hvíldar [Guðs] stendur enn“. Við treystum að það sé hægt að ganga inn til hvíldar Guðs eins og segir í Biblíunni. Við höfum gert ráðstafanir til að fá að gera það, ekki þó með því að halda Móselögin eða reyna að ávinna okkur velþóknun Jehóva með öðrum verkum. Í trú höfum við öllu heldur unnið í samræmi við fyrirætlun Guðs sem hann hefur opinberað og við höldum því áfram með glöðu hjarta. Auk þess hefur fólk um allan heim byrjað að kynna sé Biblíuna til að læra um fyrirætlun Guðs. Margir breyta líferni sínu, taka trú og láta skírast sem kristnir menn. Það er augljóst merki þess að ,orð Guðs sé lifandi og kröftugt‘. Fyrirætlun Guðs, sem er lýst í Biblíunni, hefur nú þegar haft sterk áhrif á líf okkar og gerir það áfram.