Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 NÁMSGREIN 43

Sýnum Jehóva óskipta hollustu

Sýnum Jehóva óskipta hollustu

„Jehóva er Guð sem krefst óskiptrar hollustu.“ – NAH. 1:2, NW.

SÖNGUR 51 Við erum vígð Jehóva

YFIRLIT *

1. Hvers vegna á Jehóva skilið að við sýnum honum óskipta hollustu?

JEHÓVA á skilið að við sýnum honum óskipta hollustu því að hann er skaparinn og gaf okkur lífið. (Opinb. 4:11) En okkur er ákveðin hætta búin. Þó að við elskum Jehóva og virðum hann gæti ýmislegt hindrað okkur í að sýna honum óskipta hollustu, eins og hann á skilið. Við þurfum að gera okkur grein fyrir hvernig það getur gerst. En skoðum fyrst hvað óskipt hollusta felur í sér.

2. Hvað gerum við ef við sýnum Jehóva óskipta hollustu, samkvæmt 2. Mósebók 34:14?

2 Í Biblíunni gefur hollusta við Jehóva til kynna að við elskum hann heitt. Ef við sýnum Jehóva óskipta hollustu tilbiðjum við hann einan og leyfum engu öðru að taka það sæti sem hann á í hjarta okkar. – Lestu 2. Mósebók 34:14. *

3. Hvers vegna höfum við góða ástæðu til að sýna Jehóva hollustu?

3 Við sýnum Jehóva ekki hollustu í blindni. Hollustan byggist á því sem við vitum um hann. Við höfum lært að meta góða og fagra eiginleika hans. Við vitum hvað honum líkar og hvað honum mislíkar og erum sama sinnis. Við vitum hvaða fyrirætlun hann  hefur með mannkynið og styðjum hana. Við teljum það heiður að hann skuli leyfa okkur að vera vinir sínir. (Sálm. 25:14) Allt sem við lærum um skaparann nálægir okkur honum. – Jak. 4:8.

4. (a) Hvernig reynir djöfullinn að spilla hollustu okkar við Jehóva? (b) Hvað skoðum við í þessari grein?

4 Djöfullinn stjórnar þessu heimskerfi og notar það til að höfða til eðlilegra langana okkar og veikleika holdsins. (Ef. 2:1–3; 1. Jóh. 5:19) Markmið hans er að fá okkur til að elska það margt að við sýnum Jehóva ekki óskipta hollustu. Skoðum tvennt sem hann notar til þess. Í fyrsta lagi reynir hann að fá okkur til að elska peninga. Og í öðru lagi reynir hann að fá okkur til að taka slæmar ákvarðanir þegar við veljum okkur afþreyingu.

GÆTUM ÞESS AÐ ELSKA EKKI PENINGA

5. Hvers vegna verðum við að gæta þess að fara ekki að elska peninga?

5 Auðvitað viljum við eiga nóg að borða, hentug föt og gott heimili. En við verðum að gæta þess að fara ekki að elska peninga. Margir í heimi Satans eru „fégjarnir“ og elska það sem hægt er að kaupa fyrir peninga. (2. Tím. 3:2) Jesús vissi að fylgjendur hans gætu freistast til að elska peninga. Hann sagði: „Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.“ (Matt. 6:24) Sá sem tilbiður Jehóva en ver jafnframt óhóflega miklum tíma og kröftum í að verða auðugur í þessum heimi er í raun og veru að reyna að þjóna tveimur herrum. Hann sýnir Jehóva ekki óskipta hollustu.

Svona litu sumir í Laódíkeu á sig ... en svona litu Jehóva og Jesús á þá. (Sjá 6. grein.)

6. Hvað getum við lært af því sem Jesús sagði við söfnuðinn í Laódíkeu?

 6 Undir lok fyrstu aldar stærðu safnaðarmenn í borginni Laódíkeu sig af ríkidæmi sínu. Söfnuðurinn sagði: „Ég er ríkur og orðinn auðugur og þarfnast einskis.“ En í augum Jehóva og Jesú var hann „vesalingur og aumingi, fátækur, blindur og nakinn“. Jesús gaf söfnuðinum ráðleggingar, ekki vegna þess að söfnuðurinn var auðugur heldur vegna þess að safnaðarmenn elskuðu auðinn og það hafði slæm áhrif á samband þeirra við Jehóva. (Opinb. 3:14–17) Ef við verðum þess vör að löngun í ríkidæmi hefur kviknað innra með okkur verðum við að bregðast fljótt við og leiðrétta hugarfarið. (1. Tím. 6:7, 8) Annars verður hjarta okkar tvískipt og Jehóva hefur ekki velþóknun á tilbeiðslu okkar. Hann „krefst óskiptrar hollustu“. (5. Mós. 4:24, NW) Hvernig gætu peningar orðið okkur of mikilvægir?

7–9. Hvað lærðir þú af reynslu öldungs að nafni David?

7 Tökum sem dæmi David, sem er duglegur öldungur í Bandaríkjunum. Hann segist hafa verið kappsamur starfsmaður. Hann fékk stöðuhækkun í fyrirtækinu sem hann vann hjá og fékk meira að segja viðurkenningu frá ríkinu fyrir að vera með þeim bestu á sínu sviði. „Ég hélt á þeim tíma að velgengni mín væri merki um blessun Jehóva,“ segir David. En var það svo?

8 David gerði sér smám saman ljóst að vinnan var farin að hafa neikvæð áhrif á samband hans við Jehóva. „Á samkomum og jafnvel í boðuninni stóð ég mig að því að vera að hugsa um vandamál í  vinnunni,“ segir hann. „Ég þénaði mikið en var undir stöðugt meira álagi og hjónabandið var farið að líða fyrir það.“

9 David sá að hann þurfti að skoða hvernig hann forgangsraðaði. „Ég var ákveðinn í að bæta ástandið,“ segir hann. Hann vildi breyta vinnutímanum og sagði vinnuveitandanum hvað hann vildi gera. Fyrir vikið missti hann vinnuna. Hvað gerði hann þá? „Strax næsta dag sótti ég um að vera reglulegur aðstoðarbrautryðjandi,“ segir hann. David og konan hans fóru að vinna við ræstingar til að sjá fyrir sér. Með tímanum gerðist hann brautryðjandi og síðar varð konan hans brautryðjandi líka. Þessi hjón völdu vinnu sem margir líta niður á. En það skiptir þau ekki mestu máli hvers konar vinnu þau hafa. Þó að launin hafi hrapað niður í einn tíunda af því sem þau þénuðu áður geta þau látið enda ná saman. Þau vilja láta Jehóva hafa forgang og hafa lært af eigin reynslu að hann sér fyrir þeim sem leita fyrst ríkis hans. – Matt. 6:31–33.

10. Hvernig getum við verndað hjartað?

10 Við þurfum að vernda hjartað hvort sem við erum efnuð eða höfum úr litlu að spila. Hvernig getum við gert það? Með því að varast að rækta með okkur ást á peningum og gæta þess að veraldleg vinna gangi ekki fyrir þjónustunni við Jehóva. Hvernig geturðu verið á varðbergi? Þú getur spurt þig spurninga eins og: Hugsa ég oft um vinnuna þegar ég er á samkomu eða í boðuninni? Hef ég stöðugar áhyggjur af fjárhagslegu öryggi mínu í framtíðinni? Valda peningar og efnislegar eigur erfiðleikum í hjónabandinu? Væri ég fús til að sinna starfi sem aðrir líta niður á ef það gerði mér fært að verja meiri tíma í þjónustunni við Jehóva? (1. Tím. 6:9–12) Þegar við veltum þessum spurningum fyrir okkur skulum við muna að Jehóva er annt um okkur og gefur þeim sem sýna honum hollustu þetta loforð: „Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“ Þess vegna skrifaði Páll postuli: „Verið ekki fégráðug.“ – Hebr. 13:5, 6.

VÖNDUM VALIÐ Á AFÞREYINGU

11. Hvaða áhrif getur afþreying haft á fólk?

11 Jehóva vill að við njótum lífsins og afþreying getur hjálpað okkur til þess. Hann segir í orði sínu: „Ekkert hugnast  mönnum betur en að matast og drekka og láta sál sína njóta fagnaðar af striti sínu.“ (Préd. 2:24) En margt af afþreyingarefni heimsins getur haft skaðleg áhrif á okkur. Það spillir siðferði fólks og fær það til að umbera – eða jafnvel elska – það sem orð Guðs fordæmir.

Hver útbýr afþreyingarefni þitt? (Sjá 11.–14. grein.) *

12. Hvers vegna ættum við að vanda val okkar á afþreyingu, samanber 1. Korintubréf 10:21, 22?

12 Við viljum sýna Jehóva óskipta hollustu og getum því ekki „tekið þátt í borðhaldi Drottins og borðhaldi illra anda“. (Lestu 1. Korintubréf 10:21, 22.) Að borða með einhverjum er gjarnan merki um vináttu. Ef við veljum okkur afþreyingu sem ýtir undir ofbeldi, dulspeki, siðleysi eða aðrar holdlegar langanir og viðhorf má segja að við séum að borða mat með óvinum Guðs sem þeir hafa útbúið. Það gerir ekki aðeins okkur sjálfum illt heldur skaðar líka vináttu okkar við Jehóva.

13, 14. Hvers vegna verðum við að gæta þess að ala ekki á röngum löngunum í ljósi þess sem segir í Jakobsbréfinu 1:14, 15? Lýstu með dæmi.

13 Hvað er líkt með afþreyingu og mat? Við getum stjórnað því hverju við stingum upp í okkur þegar við borðum. En þegar við erum búin að kyngja tekur við sjálfvirkt ferli og næringarefnin í matnum samlagast líkamanum. Hollur matur getur bætt heilsu okkar en óhollur matur skaðar heilsuna. Afleiðingarnar koma kannski ekki í ljós strax, en þær gera það með tímanum.

14 Eins getum við stjórnað því hverju við hleypum inn í hugann þegar við veljum okkur afþreyingu. En eftir það tekur við sjálfvirkt ferli og afþreyingin hefur áhrif á huga okkar og hjarta. Góð afþreying getur gert okkur gott en óheilnæm afþreying skaðar okkur. (Lestu Jakobsbréfið 1:14, 15.) Afleiðingarnar af slæmri afþreyingu koma kannski ekki í ljós strax, en þær gera það með tímanum. Þess vegna fáum við þessa viðvörun í Biblíunni: „Villist ekki. Guð lætur ekki að sér hæða. Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera. Sá sem sáir í hold sjálfs sín mun af holdinu uppskera glötun.“ (Gal. 6:7, 8) Það er afar mikilvægt að við höfnum allri afþreyingu sem ýtir undir það sem Jehóva hatar. – Sálm. 97:10.

15. Hvaða gjöf hefur Jehóva látið útbúa handa okkur?

15 Margir þjónar Jehóva hafa gaman af að horfa á Sjónvarp Votta Jehóva sem er uppbyggileg netsjónvarpsstöð. Systir sem heitir Marilyn sagði: „Sjónvarp Votta Jehóva hefur gert mig jákvæðari og ég þarf ekki að útiloka neitt efni. Ef ég verð einmana eða niðurdregin horfi ég á hvetjandi ræðu eða umræðu um dagstextann. Mér finnst það nálægja mig Jehóva og söfnuði hans. Sjónvarp Votta Jehóva hefur gerbreytt lífi mínu.“ Nýtur þú góðs af þessari gjöf Jehóva? Í Sjónvarpi Votta Jehóva koma nýir þættir í hverjum mánuði og þar eru einnig hljóðupptökur, myndbönd og söngvar sem hægt er að horfa og hlusta á hvenær sem maður vill.

16, 17. Hvers vegna verðum við að gæta vel að því hve miklum tíma við verjum í afþreyingu, og hvernig getum við gert það?

16 Við þurfum ekki aðeins að gæta vel að því hvers konar afþreyingu við veljum heldur líka tímanum sem við verjum í hana. Annars gætum við varið meiri tíma í afþreyingu en í að þjóna Jehóva. Mörgum finnst erfitt að hafa stjórn á  tímanum sem þeir verja í afþreyingu. Abigail er 18 ára systir. Hún segir: „Eftir langan dag á ég auðvelt með að slaka á með því að horfa á sjónvarpið. En ef ég passa mig ekki get ég setið tímunum saman við að horfa.“ Ungur bróðir sem heitir Samuel segir: „Ég hef staðið mig að því að horfa á ótal myndskeið á netinu. Ég byrja á að horfa á eitt myndskeið og áður en ég veit af eru liðnir þrír eða fjórir klukkutímar.“

17 Hvernig geturðu haft stjórn á tímanum sem fer í afþreyingu? Byrjaðu á að komast að því hve mikinn tíma þú notar í hana núna. Þú gætir til dæmis fylgst með því í eina viku. Skrifaðu niður hve marga klukkutíma þú notar í að horfa á sjónvarpið, vafra um á netinu og spila tölvuleiki. Ef þér finnst þú nota of mikinn tíma í það skaltu reyna að búa til áætlun. Taktu fyrst frá tíma fyrir það sem skiptir meira máli og áætlaðu síðan hve miklum tíma þú getur varið í afþreyingu. Biddu Jehóva þar næst að hjálpa þér að halda þig við áætlunina. Þannig færðu nægan tíma og orku í sjálfsnám, tilbeiðslustund fjölskyldunnar, samkomur og að þjóna Jehóva í boðuninni. Sennilega hefurðu þá líka betri samvisku þegar þú verð tíma í afþreyingu.

HÖLDUM ÁFRAM AÐ SÝNA JEHÓVA ÓSKIPTA HOLLUSTU

18, 19. Hvernig sýnum við Jehóva óskipta hollustu?

18 Þegar Pétur postuli hafði skrifað um endalok heimskerfis Satans og komandi nýjan heim skrifaði hann: „Með því að þið nú, þið elskuðu, væntið slíkra hluta, þá kappkostið að lifa í friði frammi fyrir honum, flekklaus og vammlaus.“ (2. Pét. 3:14) Við sýnum Jehóva óskipta hollustu með því að fara eftir þessu ráði og reyna eftir fremsta megni að vera andlega og siðferðislega hrein.

19 Satan og heimskerfi hans munu halda áfram að freista okkar til að taka annað fram yfir Jehóva. (Lúk. 4:13) En við látum ekkert taka þann sess sem Jehóva á í hjörtum okkar. Við erum staðráðin í að gefa Jehóva það sem honum einum ber – óskipta hollustu okkar.

SÖNGUR 30 Guð er vinur minn og faðir

^ gr. 5 Við höfum miklar mætur á þjónustunni við Jehóva. En sýnum við honum óskipta hollustu? Ákvarðanir sem við tökum leiða það í ljós. Skoðum tvö svið lífsins sem geta hjálpað okkur að sjá hvort hollusta okkar við Jehóva sé óskipt.

^ gr. 2 2. Mósebók 34:14 (NW): „Þú skalt ekki krjúpa fyrir öðrum guði því að Jehóva krefst óskiptrar hollustu. Já, hann er Guð sem krefst óskiptrar hollustu.“

^ gr. 54 MYND: Við myndum ekki vilja borða mat sem búið er að spilla í óhreinu eldhúsi. Hvers vegna ættum við þá að vilja horfa á afþreyingarefni sem er spillt af ofbeldi, dulspeki eða siðleysi?