Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vissir þú?

Vissir þú?

Hvernig gat lærisveinninn Stefán verið jafn yfirvegaður og raun bar vitni þegar hann var ofsóttur?

STEFÁN stóð frammi fyrir hópi manna sem var mikið í nöp við hann. Mennirnir, 71 að tölu, voru dómarar í Æðstaráði Gyðinga, æðsta dómstóls Ísraels, og voru því meðal valdamestu manna þjóðarinnar. Kaífas æðstiprestur hafði kallað þá saman, en hann var yfir dómstólnum sem dæmdi Jesú til dauða fáeinum mánuðum áður. (Matt. 26:57, 59; Post. 6:8-12) Þegar hver ljúgvotturinn á fætur öðrum var leiddur fram tóku menn eftir nokkru sérstöku við Stefán – andlit hans var „sem engils ásjóna“. – Post. 6:13-15.

Hvernig gat Stefán haft hugarfrið og haldið ró sinni við svona ógnvekjandi aðstæður? Hann hafði verið önnum kafinn við þjónustu sína áður en hann var dreginn fyrir Æðstaráðið og notið öflugrar hjálpar anda Guðs. (Post. 6:3-7) Þessi sami andi verkaði í honum við réttarhöldin, veitti honum hughreystingu og minnti hann á það sem hann hafði áður lært. (Jóh. 14:16) Heilagur andi hjálpaði honum að muna á þriðja tug ritningargreina úr Hebresku ritningunum þegar hann djarfmannlega flutti varnarræðu sína sem er skráð í 7. kafla Postulasögunnar. (Jóh. 14:26) Trú Stefáns styrktist enn frekar þegar Jesús birtist honum í sýn standandi Guði til hægri handar. – Post. 7:54-56, 59, 60.

Við gætum líka orðið fyrir ofsóknum og okkur verið ógnað. (Jóh. 15:20) Leyfum anda Jehóva að hafa áhrif á okkur með því að nærast reglulega á orði hans og taka virkan þátt í boðuninni. Þannig fáum við styrk til að standast andstöðu og varðveita hugarfrið okkar. – 1. Pét. 4:12-14.