Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 ÆVISAGA

Jehóva blessaði ákvörðun mína ríkulega

Jehóva blessaði ákvörðun mína ríkulega

Það var farið að birta af degi þegar við lukum við að stinga smáritum undir síðustu dyrnar á svæðinu sem okkur hafði verið úthlutað. Árið var 1939 og við höfðum farið á fætur um miðja nótt til að keyra í rúma klukkustund til Joplin, lítillar borgar í suðvestanverðu Missouri í Bandaríkjunum. Um leið og við höfðum hljóðlátlega lokið við verkefni okkar hröðuðum við okkur inn í bíl og keyrðum til móts við hina hópana. Þér er kannski spurn hvers vegna við fórum í boðunina fyrir allar aldir og yfirgáfum svæðið síðan í snatri. Ég útskýri það seinna.

FORELDRAR mínir, þau Fred og Edna Molohan, höfðu verið kappsamir biblíunemendur (vottar Jehóva) í 20 ár þegar ég fæddist árið 1934. Ég er þakklátur að þau skyldu kenna mér að elska Jehóva. Við bjuggum í Parsons, litlum bæ í suðausturhluta Kansas, og tilheyrðum söfnuðinum þar. Næstum allir í söfnuðinum voru andasmurðir. Við fjölskyldan vorum dugleg að sækja samkomur og boða fólki sannleikann um orð Guðs. Síðdegis á laugardögum fórum við yfirleitt í götustarf eins og boðunin meðal almennings var kölluð í þá daga. Það var stundum lýjandi en pabbi gladdi okkur alltaf með því að bjóða okkur upp á ís eftir á.

Litli söfnuðurinn okkar var með stórt starfssvæði með nokkrum smábæjum og mörgum bóndabæjum í sýslunum í kring. Þegar við heimsóttum bændurna létum við oft rit í skiptum fyrir heimaræktað grænmeti, ný egg (beint úr hreiðrinu) eða jafnvel lifandi hænsni. Þetta hjálpaði okkur að hafa nóg að borða þar sem pabbi lagði út fyrir ritunum fyrir fram.

BOÐUNARHERFERÐIR

Pabbi og mamma fengu grammófón sem þau notuðu í boðuninni. Ég var of lítill til að nota hann en mér fannst gaman að hjálpa til þegar þau spiluðu ræður bróður Rutherfords í endurheimsóknum og á biblíunámskeiðum.

Með pabba og mömmu fyrir framan hátalarabílinn okkar.

Pabbi átti Ford árgerð 1936 sem hann breytti í hátalarabíl með því að setja stóran hátalara á þakið. Bíllinn kom að mjög góðum notum í boðuninni. Við vorum vön að ná athygli fólks með því að spila tónlist fyrst og síðan skiptum við yfir á biblíufyrirlestur. Þegar platan hafði verið spiluð buðum við áhugasömum rit.

 Sunnudag nokkurn í smábænum Cherryvale í Kansas sagði lögreglan pabba að hann mætti ekki leggja hátalarabílnum í almenningsgarðinum því að þar væru margir að slaka á. Hann mátti þó vera fyrir utan garðinn. Pabbi færði því bílinn í götuna við hliðina á garðinum án þess að mótmæla og hélt áfram að spila plöturnar þannig að fólkið gæti enn heyrt boðskapinn auðveldlega. Það var alltaf spennandi að vera með pabba og Jerry, eldri bróður mínum, við tækifæri sem þessi.

Seint á fjórða áratugnum fórum við í sérstakar „leifturherferðir“ til að komast hratt yfir svæði þar sem margir voru andsnúnir okkur. Við vöknuðum um miðja nótt – eins og þegar við fórum til Joplin í Missouri – og smeygðum smáritum og bæklingum hljóðlega undir dyrnar hjá fólki. Síðan hittumst við fyrir utan borgina til að sjá hvort lögreglan hefði handtekið einhvern.

Önnur spennandi boðunaraðferð, sem við notuðum á þessum tíma, var það sem við kölluðum upplýsingagöngu. Við settum á okkur skilti og gengum fylktu liði um borgirnar til að auglýsa ríki Guðs. Ég man eftir einni slíkri göngu í bænum okkar þegar bræður og systur voru með skilti sem á stóð: „Trúarbrögð eru snara og svikamylla.“ Þau byrjuðu heima hjá okkur og gengu svo einn og hálfan kílómetra um bæinn áður en þau komu aftur heim til okkar. Sem betur fer urðu þau ekki fyrir neinni andstöðu í göngunni en mörgum lék forvitni á að vita hvað væri um að vera.

MÓT Á ÆSKUÁRUNUM

Við fjölskyldan ferðuðumst oft frá Kansas til Texas til að fara á mót. Pabbi vann hjá lestarfyrirtæki þannig að við gátum tekið lestina ókeypis til að heimsækja ættingja og sækja saman mót. Fred Wismar, eldri bróðir mömmu, bjó ásamt Eulalie, konunni sinni, í Temple í Texas. Fred frændi kynntist sannleikanum í byrjun 20. aldar, lét skírast og sagði systkinum sínum frá því sem hann lærði, þar á meðal mömmu. Hann var þekktur meðal vottanna í Mið-Texas því að þar var hann einu sinni farandhirðir. Hann var vinalegur og glaðlyndur maður og það var alltaf gaman að vera í kringum hann. Hann hafði mikil áhrif á mig í æsku enda var sannleikurinn honum kappsmál.

Árið 1941 tókum við fjölskyldan lest til St. Louis í Missouri til að sækja stórt mót. Öllu unga fólkinu, 15.000 að tölu, var boðið að sitja saman á sérstöku svæði á leikvanginum til að hlusta á ræðu bróður Rutherfords sem hét „Börn konungsins“. Undir lok ræðunnar fengum við óvæntan glaðning. Bróðir Rutherford og aðstoðarmenn hans afhentu okkur hverju og einu eintak af nýrri bók sem bar heitið Börn. Það var sannkölluð blessun.

 Í apríl 1943 sóttum við lítið en merkilegt mót í Coffeyville í Kansas. Stef mótsins var „Hvatning til verka“. Þar var tilkynnt að Boðunarskólinn ætti að hefja göngu sína í öllum söfnuðum og við fengum bækling með 52 þjálfunarliðum til að nota í skólanum. Ég flutti fyrstu nemendaræðuna mína síðar þetta sama ár. Þetta mót var mér líka minnisstætt vegna þess að þá lét ég skírast ásamt tveim öðrum í kaldri tjörn við nálægan bóndabæ.

DRAUMASTARFIÐ – BETELÞJÓNUSTA

Ég lauk skólaskyldunni árið 1951 og þurfti þá að taka ákvarðanir sem myndu marka framtíð mína. Mig langaði innilega til að starfa á Betel eins og Jerry hafði gert, og sendi því inn umsókn til skrifstofunnar í Brooklyn. Þessi ákvörðun reyndist mér til mikillar blessunar í þjónustu Jehóva. Stuttu síðar var umsóknin samþykkt og mér var boðið að byrja á Betel 10. mars 1952.

Ég vonaðist til að fá að vinna í prentsmiðjunni svo að ég gæti hjálpað til við útgáfu blaðanna og annarra rita. Ég fékk hins vegar það verkefni að vera þjónn og síðar að starfa í eldhúsinu. Mér fannst það gaman og ég lærði margt. Ég fékk aldrei að vinna í prentsmiðjunni en eldhúsvaktirnar komu sér vel því að inn á milli gafst mér tími fyrir sjálfsnám á bókasafninu á Betel. Það hjálpaði mér að styrkja trúna og sambandið við Jehóva. Það gerði mig líka enn ákveðnari í að þjóna Jehóva á Betel eins lengi og ég gæti. Jerry hafði hætt á Betel árið 1949 og kvænst Patriciu, en þau bjuggu skammt frá í Brooklyn. Þau hjálpuðu mér mikið og hvöttu mig stöðugt áfram fyrstu árin sem ég var á Betel.

Stuttu eftir að ég kom á Betel voru haldnar prufur til að kanna hvort hægt væri að bæta fleiri bræðrum á listann yfir Betelræðumenn. Bræðrum á listanum var falið að heimsækja söfnuði í allt að 320 kílómetra fjarlægð frá Brooklyn til að flytja opinberan fyrirlestur og starfa með söfnuðinum í boðuninni. Mér fannst mikill heiður að vera settur á listann. Í fyrstu tók það á taugarnar að flytja þessa fyrirlestra sem þá voru klukkutíma langir. Yfirleitt ferðaðist ég til safnaðanna með lest. Ég man vel eftir einum sunnudegi veturinn 1954. Síðdegis steig ég um borð í lest á leið til New York og samkvæmt áætlun átti ég að koma á Betel fyrrihluta kvölds. En þá skall á blindbylur. Skammhlaup varð í rafmagnsvélum lestarinnar og þær drápu á sér. Ég var ekki kominn á lestarstöðina í New-York-borg fyrr en klukkan fimm á mánudagsmorgni. Þaðan tók ég neðanjarðarlest til Brooklyn og fór beint að vinna í eldhúsinu – heldur seinn og dauðþreyttur þar sem ég hafði ekkert sofið í bilaðri lestinni. En slík óþægindi bliknuðu í samanburði við ánægjuna af að þjóna söfnuðunum og hitta svona marga bræður og systur þessar sérstöku helgar.

Að búa okkur undir útsendingu í hljóðveri WBBR.

Fyrstu árin mín á Betel var mér boðið að taka þátt í útsendingum á útvarpsstöðinni WBBR. Hljóðverin voru þá á annarri hæð við Columbia Heights 124. Ég lék persónu í sviðsettu biblíunámskeiði sem var á dagskrá vikulega. Bróðir A. H. Macmillan, gamalreyndur Betelíti, tók reglulega þátt í þessum útsendingum. Bróðir Mac, eins og við kölluðum hann, var okkur yngri Betelítunum frábær fyrirmynd um þolgæði í þjónustu Jehóva.

Við dreifðum auglýsingamiðum í boðuninni til að vekja áhuga fólks á útvarpsstöðinni.

Árið 1958 fékk ég það verkefni að aðstoða nemendur í Gíleaðskólanum. Ég hjálpaði þessum duglegu bræðrum og systrum að útvega vegabréfsáritanir og skipulagði ferð þeirra á nýja trúboðssvæðið þangað sem þau voru send. Flugferðir voru mjög kostnaðarsamar í þá daga þannig að aðeins fáeinir útskriftarnemanna ferðuðust flugleiðis. Flestir sem voru sendir til Afríku og Asíu fóru þangað með flutningaskipum. Þegar farþegaflugin komu til  sögunnar snarlækkuðu flugfargjöld og fljótlega fóru flestir trúboðanna með flugi.

Ég geri viðurkenningarskjöl tilbúin fyrir Gíleaðútskrift.

MÓTSFERÐALÖG

Árið 1960 skipulagði ég leiguflug frá Bandaríkjunum til Evrópu fyrir alþjóðamótin 1961. Ég fór með einu slíku flugi á mótið í Hamborg í Þýskalandi. Eftir mótið leigði ég bíl ásamt þrem öðrum Betelítum og við ókum í gegnum Þýskaland til Ítalíu þar sem við heimsóttum deildarskrifstofuna í Róm. Þaðan fórum við til Frakklands og síðan yfir Pýreneafjöll til Spánar en þar var starfsemi Vottanna bönnuð. Við gátum gefið bræðrunum í Barcelona rit sem við höfðum pakkað inn í gjafapappír til að láta þau líta út eins og gjafir. Það var ógleymanlegt að hitta þá! Síðan ókum við til Amsterdam og flugum aftur til New York.

Árið 1963 voru haldin sérstök alþjóðamót sem báru stefið „Eilífur fagnaðarboðskapur“. Mér hafði verið falið að skipuleggja ferðir svo að 583 bræður og systur gætu sótt þessi mót víðs vegar um heim. Þau fóru til Evrópu, Asíu og Suður-Kyrrahafs og enduðu ferðina í Honolulu á Hawaii og Pasadena í Kaliforníu. Þau komu líka við í Líbanon og Jórdan þar sem þau fóru í sérstakar skoðunarferðir um söguslóðir Biblíunnar. Deildin okkar á Betel sá um að bóka flugferðirnar og hótelgistingu auk þess að útvega allar nauðsynlegar vegabréfsáritanir.

NÝR FERÐAFÉLAGI

Árið 1963 var einnig þýðingarmikið fyrir mig af annarri ástæðu. Hinn 29. júní kvæntist ég Lilu Rogers frá Missouri en hún hafði byrjað á Betel þrem árum áður. Viku eftir brúðkaupið slógumst við Lila í för með mótsferðalöngunum og ferðuðumst til Grikklands, Egyptalands og Líbanons. Við tókum stutt flug frá Beirút til lítils flugvallar í Jórdan. Hömlur voru á starfsemi okkar í Jórdan og okkur hafði verið sagt að vottar Jehóva fengju ekki vegabréfsáritun til að komast inn í landið. Við vorum því ekki viss hvað myndi gerast þegar við lentum. Þú getur rétt ímyndað þér hve glöð við vorum að sjá hóp bræðra og systra standa á þaki flugstöðvarinnar með borða sem á stóð: „Velkomnir, vottar Jehóva!“ Það var líka spennandi að sjá söguslóðir Biblíunnar með eigin augum. Við heimsóttum staði þar sem ættfeðurnir bjuggu, þar sem Jesús og postularnir boðuðu trúna og þar sem kristnin byrjaði að dreifast „allt til endimarka jarðar“. – Post. 13:47.

Í 55 ár hefur Lila verið dyggur félagi minn í öllum þjónustuverkefnum okkar. Við heimsóttum Spán og Portúgal nokkrum sinnum þegar starfið þar var bannað. Við gátum uppörvað trúsystkinin og fært þeim rit og annað sem þau vantaði. Við gátum jafnvel heimsótt suma bræður okkar sem sátu í fangelsi í gömlu virki  í Cádiz á Spáni. Það gladdi mig ósegjanlega að geta hughreyst þá með biblíufyrirlestri.

Með Patriciu og Jerry Molohan á leið á mótið „Friður á jörð“ árið 1969.

Síðan 1963 hef ég átt þátt í að skipuleggja ferðir á alþjóðamót í Afríku, Austurlöndum fjær, Ástralíu, Evrópu, Hawaii, Mið- og Suður-Ameríku, Nýja-Sjálandi og Púertó Ríkó. Við Lila höfum sótt mörg ógleymanleg mót saman, þar á meðal í Varsjá í Póllandi árið 1989. Mörg rússnesk trúsystkini gátu sótt það mót – fyrsta mótið sitt! Sum þeirra höfðu verið í fangelsi í Sovétríkjunum um árabil vegna trúar sinnar.

Það hefur verið mjög ánægjulegt og mikill heiður að fá að heimsækja deildarskrifstofur um heim allan til að uppörva Betelfjölskyldur og trúboða. Í síðustu heimsókn okkar fórum við til Suður-Kóreu. Þar hittum við 50 bræður okkar í fangelsi í Suwon. Þeir voru allir jákvæðir og hlökkuðu til að geta þjónað Jehóva hömlulaust á nýjan leik. Það var ákaflega uppörvandi að hitta þá. – Rómv. 1:11, 12.

ÞAÐ ER ÁNÆGJULEGT AÐ SJÁ AUKNINGUNA

Ég hef séð hvernig Jehóva hefur blessað fólk sitt í áranna rás. Þegar ég skírðist árið 1943 voru um 100.000 boðberar en nú eru þeir meira en 8.000.000 í 240 löndum. Þeir sem hafa sótt Gíleaðskólann eiga stóran þátt í þessari aukningu. Það hefur veitt mér mikla gleði að vinna náið með mörgum þessara trúboða um árabil og hjálpa þeim að komast á trúboðssvæði sitt.

Ég er þakklátur fyrir að hafa tekið þá ákvörðun snemma á lífsleiðinni að auka þjónustu mína með því að sækja um á Betel. Jehóva hefur blessað mig ríkulega öll þessi ár. Auk þeirrar ánægju sem við Lila höfum af Betelþjónustunni nutum við þess að boða trúna með söfnuðum í Brooklyn í meira en 50 ár þar sem við eignuðumst marga lífstíðarvini.

Ég starfa enn á Betel þar sem ég nýt stuðnings Lilu á hverjum degi. Ég get enn komið að gagni þó að ég sé orðinn 84 ára. Nú aðstoða ég við meðhöndlun bréfa.

Nýleg mynd af okkur Lilu.

Það er einstök ánægja að tilheyra stórkostlegum söfnuði Jehóva og sjá hve mikill munur er á þeim sem þjóna honum og þeim sem þjóna honum ekki. Við skiljum betur en nokkru sinni fyrr það sem stendur í Malakí 3:18: „Þá munuð þið enn einu sinni sjá muninn á réttlátum og ranglátum, á þeim sem þjóna Guði og þeim sem þjóna honum ekki.“ Með hverjum degi sem líður sjáum við heimskerfi Satans liðast sífellt meira í sundur. Fólk hefur enga von og er óhamingjusamt. En þeir sem elska Jehóva og þjóna honum hafa örugga framtíðarvon og lifa hamingjuríku lífi þrátt fyrir þá erfiðu tíma sem við lifum á. Það er einstakur heiður að fá að boða fólki fagnaðarerindið um ríki Guðs! (Matt. 24:14) Við þráum að sjá þann dag renna upp þegar ríki Guðs bindur enda á þennan gamla heim. Þá verður paradís á jörð þar sem trúfastir þjónar Jehóva munu vera við fullkomna heilsu og njóta lífsins að eilífu.