Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Varðveitum innri frið þegar aðstæður breytast

Varðveitum innri frið þegar aðstæður breytast

„Ég hef róað og sefað sál mína.“ – SÁLM. 131:2.

SÖNGVAR: 128, 129

1, 2. (a) Hvaða áhrif geta óvæntar breytingar haft á okkur? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hvað getur hjálpað okkur að varðveita innri frið, samkvæmt því sem segir í Sálmi 131?

HJÓNIN Lloyd og Alexandra voru beðin að hætta á Betel og einbeita sér að boðuninni. Þau voru mjög leið yfir því í fyrstu enda höfðu þau verið á Betel í meira en 25 ár. Lloyd segir: „Mér fannst Betel og verkefni mitt þar vera stór hluti af mér. Í huganum skildi ég ástæðurnar fyrir breytingunni en ég upplifði oft höfnunartilfinningu vikurnar og mánuðina á eftir. Þetta var tilfinningalegur rússíbani. Eina stundina var ég jákvæður en þá næstu niðurdreginn.“

2 Stundum tekur lífið óvænta stefnu. Þá geta breytingarnar, sem við þurfum að takast á við, valdið okkur kvíða og tilfinningalegu álagi. (Orðskv. 12:25) Okkur gæti jafnvel fundist erfitt að sætta okkur við þær. Hvernig getum við ,róað og sefað sál okkar‘ við slíkar aðstæður? (Lestu Sálm 131:1-3.) Skoðum hvernig þjónar Jehóva á biblíutímanum og í nútímanum gátu varðveitt innri frið þrátt fyrir breyttar aðstæður.

 „FRIÐUR GUÐS“ HJÁLPAR OKKUR

3. Í hverju lenti Jósef?

3 Jósef var um 17 ára þegar bræður hans seldu hann í þrældóm. Þeir öfunduðu hann af því að hann var í uppáhaldi hjá Jakobi, föður þeirra. (1. Mós. 37:2-4, 23-28) Í 13 ár þurfti hann margt að þola í Egyptalandi, langt frá föður sínum. Í fyrstu var hann þræll og síðan þurfti hann að dúsa í fangelsi. Hvað hjálpaði honum að verða ekki bitur og örvæntingarfullur?

4. (a) Að hverju einbeitti Jósef sér meðan hann var í fangelsi? (b) Hvernig svaraði Jehóva bænum Jósefs?

4 Þegar Jósef sat í fangelsinu hefur hann eflaust einbeitt sér að því hvernig Jehóva blessaði hann. (1. Mós. 39:21; Sálm. 105:17-19) Spádómlegu draumarnir, sem hann dreymdi þegar hann var yngri, hljóta líka að hafa fullvissað hann um að Jehóva hefði velþóknun á honum. (1. Mós. 37:5-11) Líklega úthellti hann oft hjarta sínu fyrir honum. (Sálm. 145:18) Jehóva svaraði innilegum bænum hans með því að fullvissa hann um að hann ,yrði með honum‘ í öllum raunum hans. – Post. 7:9, 10. *

5. Hvaða áhrif hefur „friður Guðs“ á framför okkar í trúnni?

5 Við getum, líkt og Jósef, hlotið ,frið Guðs‘ sem varðveitir hugsanir okkar og veitir okkur hugarró, sama hversu erfiðar aðstæður okkar eru. (Lestu Filippíbréfið 4:6, 7.) Þegar okkur finnst áhyggjurnar yfirþyrmandi getur „friður Guðs“ veitt okkur styrk til að taka framförum í trúnni og gefast ekki upp. Skoðum nokkur nútímadæmi sem sýna fram á það.

LEITUM TIL JEHÓVA TIL AÐ HLJÓTA INNRI FRIÐ

6, 7. Hvernig geta markvissar bænir hjálpað okkur að hljóta innri frið? Lýstu með dæmi.

6 Ryan og Juliette hafði verið falið að þjóna tímabundið sem sérbrautryðjendur. Þau voru miður sín þegar þeim var tilkynnt að nú væri því verkefni lokið. „Við lögðum málið strax fyrir Jehóva í bæn,“ segir Ryan. „Við vissum að þetta væri einstakt tækifæri til að sýna að við treystum honum. Margir í söfnuðinum okkar voru nýir í sannleikanum. Við báðum því Jehóva að hjálpa okkur að setja gott fordæmi með trú okkar.“

7 Hvernig svaraði Jehóva bæn þeirra? Ryan segir: „Um leið og við höfðum farið með bænina hurfu neikvæðu tilfinningarnar og áhyggjurnar sem við vorum með í upphafi. Friður Guðs varðveitti hjörtu okkar og hugsanir. Við gerðum okkur grein fyrir að við gætum enn komið að gagni í þjónustu Jehóva ef við hefðum rétta hugarfarið.“

8-10. (a) Hvernig getur andi Guðs hjálpað okkur að takast á við áhyggjur? (b) Hvernig getur Jehóva hjálpað okkur þegar við einbeitum okkur að því að þjóna honum?

8 Auk þess að veita okkur hugarró getur andi Guðs beint athygli okkar að biblíuversum sem hjálpa okkur að forgangsraða rétt. (Lestu Jóhannes 14:26, 27.) Tökum hjónin Philip og Mary sem dæmi, en þau höfðu verið á Betel í nær 25 ár. Á innan við fjórum mánuðum dóu mæður þeirra beggja og annar ættingi og þau þurftu að annast föður Mary sem var með heilabilun.

9 Philip segir: „Mér fannst mér ganga vel að vissu marki en það var eitthvað  sem vantaði upp á. Þá rakst ég á Kólossubréfið 1:11 í námsgrein í Varðturninum. Ég hélt vissulega út en ekki í fyllsta skilningi. Ég þurfti að halda út með þolgæði og gleði. Versið minnti mig á að hamingja mín er ekki háð aðstæðum mínum. Hún er öllu heldur undir því komin að andi Guðs starfi í lífi mínu.“

10 Jehóva blessaði Philip og Mary á ýmsa vegu fyrir að leggja sig fram um að þjóna honum sem best þau gátu. Fljótlega eftir að þau höfðu hætt á Betel fóru þau að aðstoða fólk við biblíunám. Nemendurnir tóku miklum framförum og vildu hafa fleiri en eina námsstund í viku. Mary segir þegar hún lítur um öxl: „Þeir veittu okkur gleði. Jehóva var að segja okkur að allt myndi fara vel.“

GEFUM JEHÓVA EITTHVAÐ TIL AÐ BLESSA

Hvernig getum við líkt eftir Jósef, óháð aðstæðum okkar? (Sjá 11.-13. grein.)

11, 12. (a) Hvernig gaf Jósef Jehóva eitthvað til að blessa? (b) Hvaða blessun hlaut Jósef fyrir þolgæði sitt?

11 Þegar lífið tekur óvænta stefnu gætu áhyggjur um framtíðina dregið úr okkur allan þrótt. Það hefði getað hent Jósef. En í staðinn ákvað hann að nýta aðstæður sínar sem best og gefa Jehóva þannig eitthvað til að blessa. Þótt hann væri í fangelsi lagði hann sig allan fram um að sinna vel þeim verkefnum sem fangelsisstjórinn fól honum, rétt eins og hann gerði þegar hann vann fyrir Pótífar. – 1. Mós. 39:21-23.

12 Dag einn var Jósef falið að sjá um tvo menn sem höfðu gegnt hárri stöðu við hirð faraós. Jósef var vingjarnlegur við þá og þeir skynjuðu að þeim væri óhætt að treysta honum fyrir áhyggjum sínum og sérkennilegum draumum sem þá dreymdi nóttina áður. (1. Mós. 40:5-8) Jósef vissi það ekki þá en þessar samræður áttu eftir að hafa mikla blessun í för með sér. Tveim árum síðar var hann látinn laus og sama dag voru honum falin mikil völd í Egyptalandi. Aðeins faraó var valdameiri. – 1. Mós. 41:1, 14-16, 39-41.

13. Hvernig getum við gefið Jehóva eitthvað til að blessa, óháð aðstæðum okkar?

13 Við gætum, líkt og Jósef, lent í aðstæðum sem við höfum litla eða enga stjórn á. Við gefum Jehóva hins vegar eitthvað til að blessa ef við erum þolinmóð og leggjum okkur fram um að nýta aðstæður okkar sem best. (Sálm. 37:5) Stundum gætum við vissulega orðið ,efablandin‘ en við munum aldrei ,örvænta‘, eins og Páll postuli orðaði það. (2. Kor. 4:8) Jehóva verður með okkur, sérstaklega ef við einbeitum okkur að þjónustunni við hann.

 EINBEITUM OKKUR AÐ BOÐUNINNI

14-16. Hvernig einbeitti Filippus trúboði sér að boðuninni þrátt fyrir breyttar aðstæður?

14 Filippus trúboði er gott dæmi um mann sem einbeitti sér að boðuninni þrátt fyrir breyttar aðstæður. Miklar ofsóknir brutust út í Jerúsalem eftir píslarvættisdauða Stefáns. * Á þeim tíma hafði Filippus fengið nýtt þjónustuverkefni. (Post. 6:1-6) En þegar fylgjendur Krists flúðu Jerúsalem gat Filippus ekki setið aðgerðarlaus. Hann fór í trúboðsferð til Samaríu þar sem mjög fáir höfðu heyrt fagnaðarerindið. – Matt. 10:5; Post. 8:1, 5.

15 Filippus var fús til að fara hvert sem andi Guðs leiddi hann. Jehóva lét hann því ryðja brautina á svæðum þar sem fólk hafði ekki enn heyrt fagnaðarerindið. Filippus var fordómalaus og það var líklega uppörvandi fyrir Samverja því að margir Gyðingar litu niður á þá. Það er ekki að undra að menn hlustuðu á hann „með athygli“. – Post. 8:6-8.

16 Næst beindi andi Guðs Filippusi til Asdód og Sesareu, borga þar sem margir heiðingjar bjuggu. (Post. 8:39, 40) Um 20 árum eftir að Filippus hafði fyrst boðað trúna í Samaríu höfðu aðstæður hans enn á ný breyst. Nú var hann orðinn fjölskyldufaðir og hafði sest að á starfssvæði sínu. Filippus hætti ekki að einbeita sér að boðuninni þrátt fyrir breyttar aðstæður. Fyrir vikið blessaði Jehóva hann og fjölskyldu hans ríkulega. – Post. 21:8, 9.

17, 18. Af hverju er gott að einbeita sér að boðuninni þegar aðstæður okkar breytast?

17 Að einbeita sér að boðuninni hjálpar manni að halda jafnvægi þegar aðstæður breytast. Það geta margir sem þjóna Jehóva í fullu starfi staðfest. Tökum sem dæmi suðurafrísku hjónin Osborne og Polite. Þegar þau hættu á Betel bjuggust þau við að finna fljótt hlutastarf og húsnæði. „Því miður fengum við ekki vinnu eins fljótt og við höfðum vonast til,“ segir Osborne. Polite, konan hans, segir: „Í þrjá mánuði fundum við enga vinnu og áttum ekkert sparifé. Það var mjög erfitt.“

18 Hvað hjálpaði þeim að takast á við þessar aðstæður? Osborne lýsir því þannig: „Að starfa með söfnuðinum  hjálpaði okkur að vera einbeitt og jákvæð. Við ákváðum að vera upptekin af boðuninni í stað þess að sitja heima og hafa áhyggjur. Það veitti okkur mikla gleði. Eftir að hafa leitað út um allt fengum við að lokum vinnu.“

BÍÐUM ÞOLINMÓÐ EFTIR JEHÓVA

19-21. (a) Hvað hjálpar okkur að varðveita innri frið? (b) Hvernig er það okkur til góðs að laga okkur að nýjum aðstæðum?

19 Þessi dæmi sýna að við varðveitum innri frið þegar við nýtum aðstæður okkar sem best og treystum algerlega á Jehóva. (Lestu Míka 7:7.) Við gætum jafnvel áttað okkur á að trú okkar hafi styrkst við það að við löguðum okkur að nýjum aðstæðum. Polite, sem vitnað var í fyrr í greininni, lýsir reynslu sinni svona: „Að fá nýtt þjónustuverkefni hefur hjálpað mér að skilja hvað það þýðir að reiða sig alveg á Jehóva, líka þegar fátt virðist ganga upp. Nú er sambandið við hann orðið sterkara.“

20 Mary, sem sagt er frá fyrr í greininni, annast enn þá aldraðan föður sinn samhliða því að vera brautryðjandi. Hún segir: „Ég hef komist að raun um að þegar ég verð áhyggjufull þarf ég að hætta því sem ég er að gera, biðja til Jehóva og slaka síðan á. Eitt það mikilvægasta, sem ég hef lært, er að leggja allt í hendurnar á Jehóva, en það verður enn þá mikilvægara í framtíðinni.“

21 Lloyd og Alexandra, sem sagt er frá í byrjun greinar, viðurkenna að það hafi komið þeim á óvart hvernig breytingarnar reyndu á trú þeirra. En þau bæta við: „Þegar reynir á trúna kemur í ljós hvort hún sé sönn og hvort hún sé nógu sterk til að veita huggun á erfiðum tímum. Maður verður betri manneskja fyrir vikið.“

Óvæntar breytingar geta haft óvænta blessun í för með sér. (Sjá 19.-21. grein.)

22. Hverju getum við treyst ef við nýtum aðstæður okkar sem best?

22 Ef lífið tekur óvænta stefnu – hvort sem það snertir heilsuna, fjölskylduábyrgð eða þjónustuna við Jehóva – máttu vera viss um að Jehóva er annt um þig og hann hjálpar þér á réttum tíma. (Hebr. 4:16; 1. Pét. 5:6, 7) Þangað til skaltu nýta aðstæður þínar sem best. Styrktu sambandið við himneskan föður þinn með því að biðja til hans og lærðu að reiða þig algerlega á hann. Þannig geturðu varðveitt innri frið þótt aðstæður þínar breytist.

^ gr. 4 Nokkrum árum eftir að Jósef var sleppt úr fangelsi eignaðist hann son. Hann nefndi þennan frumburð sinn Manasse, „því að Guð hefur látið mig gleyma ... þjáningum mínum“, sagði hann. Jósef vissi að Jehóva hefði gefið honum son til að hughreysta hann. – 1. Mós. 41:51.

^ gr. 14 Sjá greinina „Vissir þú?“ í þessu tölublaði.