Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Elskum ... í verki og sannleika“

„Elskum ... í verki og sannleika“

„Elskum ekki með tómum orðum heldur í verki og sannleika.“ – 1. JÓH. 3:18.

SÖNGVAR: 106, 100

1. Hver er æðsta mynd kærleikans og hvers vegna má segja það? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

KÆRLEIKUR byggður á réttum meginreglum (agaʹpe) er gjöf frá Jehóva. Jehóva er uppspretta hans. (1. Jóh. 4:7) Þessi mynd kærleikans er æðri öllum öðrum. Agaʹpe getur falið í sér væntumþykju og hlýju en fyrst og fremst einkennist hann af óeigingjörnum verkum í þágu annarra. Hann „þekkist einungis af verkunum sem hann kemur til leiðar,“ segir í orðabók. Þegar við sýnum eða aðrir sýna okkur óeigingjarnan kærleika auðgar það líf okkar. Það veitir okkur gleði og gefur lífinu tilgang.

2, 3. Hvernig hefur Jehóva sýnt mönnunum óeigingjarnan kærleika?

2 Jehóva sýndi mönnunum kærleika jafnvel áður en hann skapaði Adam og Evu. Hann skapaði jörðina til að vera heimili mannanna um ókomna tíð. Þeir áttu ekki aðeins að geta komist af heldur geta notið lífsins til fulls. Jehóva gerði þetta eingöngu okkur til góðs en ekki í eiginhagsmunaskyni. Hann sýndi líka óeigingjarnan kærleika með því að gefa börnum sínum á jörð möguleika á eilífu lífi í paradísinni sem hann hafði útbúið handa þeim.

3 Eftir að Adam og Eva gerðu uppreisn vann Jehóva mesta kærleiksverk allra tíma. Hann áformaði að frelsa ófædda afkomendur uppreisnarseggjanna tveggja, fullviss um að sumir  þeirra myndu bregðast vel við óeigingjörnum kærleika hans. (1. Mós. 3:15; 1. Jóh. 4:10) Jehóva leit reyndar svo á að fórnin hefði þegar verið færð allt frá því að hann gaf loforðið um tilvonandi frelsara. Um 4.000 árum síðar fórnaði hann svo einkasyni sínum í þágu mannkyns jafnvel þótt það hafi kostað hann mikið. (Jóh. 3:16) Erum við ekki innilega þakklát fyrir óeigingjarnan kærleika Jehóva?

4. Hvað gefur til kynna að ófullkomnir menn séu færir um að sýna óeigingjarnan kærleika?

4 Við erum fær um að sýna óeigingjarnan kærleika þar sem Guð skapaði okkur eftir sinni mynd. Vegna erfðasyndarinnar eigum við stundum erfitt með að sýna kærleika en við erum ekki ófær um það. Abel sýndi að hann elskaði Guð með því að fórna því besta sem hann átti. (1. Mós. 4:3, 4) Nói sýndi fólki óeigingjarnan kærleika með því að flytja því boðskap Guðs áratugum saman þrátt fyrir dræm viðbrögð. (2. Pét. 2:5) Abraham setti kærleikann til Guðs framar sínum eigin tilfinningum þegar hann var beðinn um að fórna Ísak, syni sínum. (Jak. 2:21) Við viljum sýna kærleika eins og þessir trúföstu menn þrátt fyrir þá erfiðleika sem mæta okkur.

SANNUR KÆRLEIKUR OG UPPGERÐARÁST

5. Hvernig getum við sýnt sannan kærleika?

5 Biblían bendir á að sannur kærleikur birtist „ekki með tómum orðum heldur í verki og sannleika“. (1. Jóh. 3:18) Þýðir það að við getum ekki sýnt kærleika með orðum? Síður en svo. (1. Þess. 4:18) Það merkir öllu heldur að kærleikur okkar má ekki einskorðast við orð, ekki síst þegar aðstæðurnar kalla á verk. Ef til dæmis trúsystkini okkar skortir brýnustu nauðsynjar þarf meira til en að óska því góðs gengis. (Jak. 2:15, 16) Að sama skapi biðjum við Guð ekki aðeins ,að senda verkamenn til uppskerunnar‘. Kærleikurinn til Jehóva og náungans knýr okkur til að taka heils hugar þátt í boðuninni. – Matt. 9:38.

6, 7. (a) Hvað er ,falslaus kærleikur‘? (b) Nefndu dæmi um uppgerðarást.

6 Jóhannes postuli skrifaði að við þyrftum að elska „í verki og sannleika“. Þar af leiðandi þarf kærleikur okkar að vera ,falslaus‘ eða hræsnislaus. (2. Kor. 6:6; Rómv. 12:9) Það þýðir að við getum ekki sýnt sannan kærleika ef við þykjumst vera eitthvað sem við erum ekki, rétt eins og við værum með grímu. En kannski veltum við fyrir okkur hvort hægt sé að sýna hræsnisfullan kærleika. Svarið er í rauninni nei. Slíkt væri alls ekki kærleikur heldur einskisverð uppgerð.

7 Skoðum nokkur dæmi um uppgerðarást. Í Edengarðinum þóttist Satan bera hag Evu fyrir brjósti en verk hans einkenndust í raun af eigingirni og hræsni. (1. Mós. 3:4, 5) Akítófel reyndist ekki vera sannur vinur Davíðs konungs heldur sveik hann þegar hann taldi það vera sér í hag. (2. Sam. 15:31) Fráhvarfsmenn og aðrir sem valda sundrung í söfnuðinum nota líka ,blíðmæli og fagurgala‘ til að láta sem þeir séu kærleiksríkir en hvatir þeirra eru eigingjarnar. – Rómv. 16:17, 18.

8. Hvaða spurningar ættum við að spyrja okkur?

8 Það er svívirðilegt að sýna hræsnisfullan kærleika því að í rauninni er maður þá að gera sér upp fórnfúsan kærleika. Slík hræsni gæti blekkt menn, en ekki Jehóva. Jesús sagði að þeir sem hegða sér eins og hræsnarar myndu „mæta hörðum refsingum“. (Matt. 24:51, Biblían 1859) Þjónar Jehóva vilja auðvitað aldrei sýna hræsnisfullan kærleika. En það er gott að spyrja sig hvort kærleikur okkar sé alltaf  sannur en ekki litaður af eigingirni eða blekkingum. Skoðum nú hvernig við getum sýnt ,falslausan kærleika‘ á níu mismunandi vegu.

HVERNIG SÝNUM VIÐ KÆRLEIKA „Í VERKI OG SANNLEIKA“?

9. Hvað hvetur sannur kærleikur okkur til að gera?

9 Verum ánægð með að þjóna Jehóva bak við tjöldin. Við ættum að vera fús til að vinna kærleiksverk fyrir trúsystkini okkar „í leynum“, það er að segja fjarri sviðsljósinu, þegar það er hægt. (Lestu Matteus 6:1-4.) Ananías og Saffíra voru ekki fús til þess. Þau sættu sig ekki við að gefa framlög með leynd og sögðust auk þess blygðunarlaust vera örlátari en þau voru í raun og veru. Hræsni þeirra hafði skelfilegar afleiðingar í för með sér. (Post. 5:1-10) Sannur kærleikur er okkur hvöt til að gera okkur ánægð með að þjóna trúsystkinum okkar án þess að vekja athygli á sjálfum okkur eða hljóta viðurkenningu fyrir. Bræðurnir, sem aðstoða hið stjórnandi ráð við að útbúa andlega fæðu, gera það með nafnleynd, svo dæmi sé tekið. Þeir draga hvorki athygli að sjálfum sér né láta í ljós hvaða efni þeir hafa unnið að.

10. Hvernig getum við átt frumkvæðið að því að heiðra aðra?

10 Eigum frumkvæðið að því að heiðra aðra. (Lestu Rómverjabréfið 12:10.) Jesús lét okkur eftir fyrirmynd um að heiðra aðra með því að vinna hin lítilmótlegustu störf. (Jóh. 13:3-5, 12-15) Við gætum þurft að leggja hart að okkur til að temja okkur þá auðmýkt sem þarf til að heiðra aðra á þennan hátt. Postularnir skildu ekki einu sinni til fulls það sem Jesús gerði fyrr en þeir fengu heilagan anda. (Jóh. 13:7) Við getum heiðrað aðra með því að líta ekki of stórt á sjálf okkur vegna menntunar, efnislegra eigna eða verkefna í þjónustunni við Jehóva. (Rómv. 12:3) Við öfundum ekki þá sem fá hrós heldur samgleðjumst þeim, jafnvel þótt okkur finnist við líka eiga skilið að fá heiður fyrir það sem var gert.

11. Hvers vegna verðum við að vera einlæg þegar við hrósum?

11 Hrósum trúsystkinum okkar einlæglega. Við ættum að grípa þau tækifæri sem gefast til að hrósa hvert öðru því að hrós er „gott til uppbyggingar“. (Ef. 4:29) En við verðum þó að vera einlæg. Annars gætum við í raun verið að smjaðra fyrir viðkomandi eða forðast þá ábyrgð að veita nauðsynlegar leiðbeiningar. (Orðskv. 29:5) Það væri hræsni af okkar hálfu að hrósa einhverjum en tala síðan illa um hann þegar hann heyrir ekki til. Páll postuli féll ekki í þá gryfju. Hann sýndi sannan kærleika og hrósaði til dæmis kristnum mönnum í Korintu einlæglega fyrir ákveðin atriði. (1. Kor. 11:2) En hann útskýrði líka skýrt en blíðlega hvers vegna þeir ættu ekki skilið að fá hrós á sumum öðrum sviðum. – 1. Kor. 11:20-22.

Ein leið til að sýna kærleika og gestrisni er að vera gjafmild við trúsystkini sem líða skort. (Sjá 12. grein.)

12. Hvernig getum við sýnt sannan kærleika þegar við sýnum gestrisni?

12 Verum gestrisin. Jehóva segir okkur að við eigum að vera örlát við trúsystkini okkar. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 3:17.) Við verðum þó að hafa hreinar hvatir og forðast alla eigingirni. Við getum spurt okkur hvort við séum aðallega gestrisin við nána vini, þá sem eru áberandi eða þá sem gætu með einhverjum hætti endurgoldið greiðann. Eða leitum við heldur leiða til að vera gestrisin við bræður og systur sem við þekkjum ekki vel eða geta ekki gefið okkur neitt til baka? (Lúk. 14:12-14) Kannski líður trúsystkini okkar skort vegna þess að það hefur ekki farið  vel með peninga eða kannski þakkar það okkur ekki fyrir að hafa sýnt gestrisni. Við slíkar aðstæður ættum við að fylgja þessu ráði: „Verið gestrisin hvert við annað án þess að mögla.“ (1. Pét. 4:9) Ef þú gerir það uppskerðu gleðina sem hlýst af því að gefa af réttum hvötum. – Post. 20:35.

13. (a) Hvenær getur reynt sérstaklega á að hjálpa óstyrkum? (b) Hvað getum við gert til að styðja óstyrka?

13 Styðjum óstyrka. Í Biblíunni segir að við eigum að ,taka að okkur óstyrka og vera þolinmóð við alla‘. (1. Þess. 5:14) Hversu vel við fylgjum þessum fyrirmælum getur leitt í ljós hve einlægur kærleikur okkar er. Margir sem eru óstyrkir í trúnni verða með tímanum styrkir en öðrum þurfum við að sýna þolinmæði og veita áframhaldandi stuðning. Við gætum til dæmis sagt þeim frá einhverju uppörvandi í Biblíunni, boðið þeim með okkur í boðunina eða einfaldlega tekið okkur tíma til að hlusta á þá. Í stað þess að hugsa sem svo að trúsystkini okkar séu annaðhvort „styrk“ eða „óstyrk“ ættum við að viðurkenna að við höfum öll okkar styrkleika og veikleika. Jafnvel Páll postuli viðurkenndi að hann hefði sína veikleika. (2. Kor. 12:9, 10) Við getum því öll notið góðs af stuðningi trúsystkina okkar.

14. Hversu langt ættum við að ganga til að varðveita friðinn við trúsystkini okkar?

14 Stuðlum að friði. Við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að varðveita friðinn við trúsystkini okkar, líka þegar okkur finnst við hafa verið misskilin eða órétti beitt. (Lestu Rómverjabréfið 12:17, 18.) Ef einhver er sár út í okkur getur það hjálpað að biðjast afsökunar, en við verðum að vera einlæg. Í stað þess að segja: „Mér þykir leitt að þér skuli líða þannig,“ geturðu viðurkennt þinn hlut að málinu og sagt: „Fyrirgefðu að ég skyldi særa þig með því sem ég sagði.“ Friður er ekki síst mikilvægur í hjónabandinu. Hjón ættu ekki að þykjast elska hvort annað út á við en vera síðan í fýlu og tala ekki við makann heima fyrir, hreyta fúkyrðum hvort í annað eða beita líkamlegu ofbeldi.

15. Hvernig getum við sýnt að við séum einlæg þegar við fyrirgefum öðrum?

15 Fyrirgefum fúslega. Við fyrirgefum með því að láta af gremju í garð þeirra sem hafa gert eitthvað á hlut okkar. Með því að ,umbera og elska hvert annað og kappkosta að varðveita einingu andans í bandi friðarins‘ getum við fyrirgefið fúslega jafnvel þeim sem vita ekki að þeir hafi móðgað okkur. (Ef. 4:2, 3) Til að fyrirgefningin sé einlæg þurfum við að hafa stjórn á hugsunum okkar þannig að við verðum ekki langrækin. (1. Kor. 13:4, 5) Ef við ölum með okkur gremju eða berum kala til bróður eða systur getur samband okkar bæði við trúsystkinið og við Jehóva hlotið varanlegan skaða af. (Matt. 6:14, 15) Við getum líka sýnt að við séum  einlæg þegar við fyrirgefum með því að biðja fyrir þeim sem gera á hlut okkar. – Lúk. 6:27, 28.

16. Hvernig ættum við að líta á verkefni sem við fáum í þjónustu Jehóva?

16 Látum eigin hagsmuni víkja fyrir hagsmunum annarra. Ef við fáum verkefni í þjónustu Jehóva ættum við ekki að ,hyggja að eigin hag heldur hag annarra‘. Við ættum að líta á það sem tækifæri til að sýna að kærleikur okkar sé einlægur. (1. Kor. 10:24) Svo dæmi sé tekið er salarvörðum á mótunum okkar falið að mæta áður en aðrir mótsgestir ganga í salinn. Í stað þess að líta á það sem tækifæri til að ná bestu sætunum fyrir sig og fjölskyldu sína kjósa margir þessara bræðra að sitja á lakari stað í salnum. Með því að láta hagsmuni annarra ganga fyrir á þennan hátt sýna þeir kærleika sem er laus við alla eigingirni. Hvernig geturðu tekið þér þá til fyrirmyndar?

17. Hvað knýr sannur kærleikur okkur til að gera ef við höfum drýgt alvarlega synd?

17 Viðurkennum leyndar syndir og látum af þeim. Sumir þjónar Guðs, sem hafa drýgt alvarlega synd, reyna að hylma yfir hana til að þurfa ekki að takast á við skömmina eða valda öðrum vonbrigðum. (Orðskv. 28:13) En það er ekki kærleiksríkt þar sem það skaðar bæði þann sem syndgaði og aðra líka. Það getur komið í veg fyrir að andi Guðs starfi óhindrað og ógnað friði alls safnaðarins. (Ef. 4:30) Sannur kærleikur knýr þjóna Guðs sem hafa drýgt alvarlega synd til að tala við öldungana svo að þeir geti fengið þá hjálp sem þeir þurfa. – Jak. 5:14, 15.

18. Hversu mikilvægt er að sýna sannan kærleika?

18 Enginn eiginleiki er kærleikanum æðri. (1. Kor. 13:13) Hann auðkennir okkur sem fylgjendur Jesú og eftirbreytendur Jehóva, uppsprettu kærleikans. (Ef. 5:1, 2) ,Ef ég hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt,‘ skrifaði Páll. (1. Kor. 13:2) Höldum stöðugt áfram að sýna kærleika, ekki aðeins ,með orðum‘ heldur líka „í verki og sannleika“.