Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Varðveittu sambandið við Jehóva ef þú starfar í erlendum söfnuði

Varðveittu sambandið við Jehóva ef þú starfar í erlendum söfnuði

„Ég geymi orð þín í hjarta mínu.“ – SÁLM. 119:11.

SÖNGVAR: 142, 92

1-3. (a) Að hverju þurfum við að huga óháð aðstæðum okkar? (b) Hvað þurfa þeir sem læra nýtt tungumál að takast á við og hvaða spurningar vekur það? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

ÞÚSUNDIR votta Jehóva nú á tímum taka virkan þátt í að uppfylla spádóminn um að boða fagnaðarboðskapinn „sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð“. (Opinb. 14:6) Ert þú ef til vill að læra nýtt tungumál? Þjónarðu sem trúboði á erlendri grund eða þar sem mikil þörf er á boðberum? Eða sækirðu samkomur sem eru haldnar á erlendu tungumáli í heimalandi þínu?

2 Allir þjónar Jehóva þurfa að huga vel að sambandi sínu við hann og hjálpa öðrum í fjölskyldunni að gera það líka. (Matt. 5:3) Stundum getur þó verið erfitt að finna tíma til að stunda innihaldsríkt sjálfsnám. En þeir sem starfa í erlendum söfnuðum þurfa að takast á við fleiri áskoranir.

3 Þeir sem starfa í erlendum söfnuðum þurfa bæði að læra nýtt tungumál og næra hjarta sitt reglulega á staðgóðri andlegri fæðu. (1. Kor. 2:10) Hvernig geta þeir það ef þeir skilja ekki til hlítar tungumálið sem talað er í söfnuðinum? Og hvers vegna þurfa kristnir foreldrar að fullvissa sig um að orð Guðs nái til hjartna barnanna?

 ÞAÐ SEM GETUR STOFNAÐ SAMBANDINU VIÐ JEHÓVA Í HÆTTU

4. Hvað getur stofnað sambandi okkar við Jehóva í hættu? Lýstu með dæmi.

4 Samband okkar við Jehóva getur verið í hættu ef við skiljum ekki orð Guðs á því máli sem talað er í söfnuðinum. Nehemía var illa brugðið þegar hann sneri aftur til Jerúsalem á fimmtu öld f.Kr. Sum börn Gyðinga kunnu ekki hebresku. (Lestu Nehemíabók 13:23, 24.) Þau höfðu ekki myndað sterk tengsl við Jehóva og þjóð hans vegna þess að þau skildu ekki orð hans fyllilega. – Neh. 8:2, 8.

5, 6. Hvað hafa sumir foreldrar uppgötvað og hver er orsök vandans?

5 Sumir foreldrar, sem starfa í erlendum söfnuðum, hafa uppgötvað að áhugi barnanna á sannleikanum hefur dvínað. Ef börnin skilja ekki fyllilega það sem fram fer á samkomum hefur það takmörkuð áhrif á þau. Pedro [1] flutti með fjölskyldunni frá Suður-Ameríku til Ástralíu. Hann segir: „Maður ætti að virkja hjartað og tilfinningarnar þegar andleg mál eru til umræðu.“ – Lúk. 24:32.

6 Þegar við lesum rit á erlendu máli er óvíst að það snerti okkur eins og værum við að lesa móðurmál okkar. Auk þess getur verið mjög lýjandi að geta ekki tjáð sig almennilega á öðru tungumáli og það getur sett mark sitt á tilbeiðslu okkar. Það er ekki nóg að löngunin til að þjóna Jehóva á erlendu málsvæði sé sterk heldur verður sambandið við hann að vera það líka. – Matt. 4:4.

ÞEIR VARÐVEITTU SAMBANDIÐ VIÐ JEHÓVA

7. Hvernig reyndu Babýloníumenn að þvinga Daníel til að samlagast trú þeirra og menningu?

7 Þegar Daníel og félagar voru leiddir í útlegð til Babýlonar reyndu Babýloníumenn að þvinga þá til að samlagast menningu sinni með því að kenna þeim „mál Kaldea“. Hirðmaður konungs, sem sá um að fræða þá, gaf þeim auk þess babýlonsk nöfn. (Dan. 1:3-7) Daníel var gefið nafn sem var dregið af Bel, helsta guði Babýloníumanna. Nebúkadnesar konungur vildi líklega hnykkja á því að Jehóva, Guð Daníels, hefði beðið lægri hlut fyrir guði Babýlonar. – Dan. 4:8.

8. Hvernig gat Daníel varðveitt sambandið við Jehóva þótt hann byggi í framandi landi?

8 Daníel var boðið að borða krásir af borðum konungs. En hann einsetti sér að saurga sig ekki. (Dan. 1:8) Hann var iðinn við að rannsaka ritningarnar á móðurmáli sínu og varðveitti því sambandið við Jehóva þótt hann byggi í framandi landi. (Dan. 9:2) Eftir að hafa búið í 70 ár í Babýlon var hann enn þekktur undir hebresku nafni sínu. – Dan. 5:13.

9. Hvaða áhrif hafði orð Guðs á þjón hans sem orti Sálm 119?

9 Þjónn Guðs, sem orti Sálm 119, mátti þola það að sumir í konungshirðinni litu niður á hann. En hann sótti styrk í orð Guðs og það gaf honum kraft til að skera sig úr fjöldanum. (Sálm. 119:23, 61) Hann lét orð Guðs hafa sterk áhrif á sig. – Lestu Sálm 119:11, 46.

VARÐVEITTU SAMBANDIÐ VIÐ JEHÓVA

10, 11. (a) Hvert ætti að vera markmið okkar með biblíunámi? (b) Hvernig getum við náð þessu markmiði? Lýstu með dæmi.

10 Við þurfum öll að gefa okkur tíma til sjálfsnáms og fjölskyldunáms þótt við höfum mörgum skyldum að gegna í söfnuðinum og vinnunni. (Ef. 5:15, 16) Markmiðið ætti þó ekki aðeins að vera að komast yfir ákveðinn blaðsíðufjölda eða  búa okkur undir að svara á samkomum. Við þurfum að láta orð Guðs snerta okkur og styrkja trúna.

11 Til að ná þessu markmiði þurfum við að finna rétta jafnvægið. Þegar við lesum og hugleiðum biblíutengt efni er ekki nóg að íhuga hvernig aðrir geta haft gagn af því. Við þurfum líka að koma auga á hvernig það styrkir sjálf okkur. (Fil. 1:9, 10) Þegar við undirbúum okkur fyrir boðunina og samkomur og semjum ræður er ekki sjálfgefið að við látum efnið ná til hjartans. Lýsum þessu með dæmi: Kokkur þarf að smakka réttina áður en hann ber þá fram fyrir gesti. En hann lifir ekki bara á því að smakka á réttunum. Hann þarf að elda næringarríkan mat handa sjálfum sér til að halda heilsu. Við þurfum sömuleiðis að næra okkar innri mann á andlegri fæðu sem fullnægir okkar eigin þörfum.

12, 13. Hvers vegna finnst mörgum sem starfa í erlendum söfnuðum gagnlegt að lesa og hugleiða biblíutengt efni á móðurmáli sínu?

12 Mörgum sem starfa í erlendum söfnuðum hefur reynst vel að lesa reglulega í Biblíunni og hugleiða efnið á móðurmáli sínu. (Post. 2:8) Trúboðar vita að þeir geta ekki látið sér nægja það sem þeir skilja á samkomum ef þeir eiga að halda út á erlenda svæðinu þar sem þeir starfa.

13 Alain byrjaði að læra persnesku fyrir átta árum. Hann viðurkennir: „Þegar ég bý mig undir samkomur á persnesku hættir mér til að hugsa að mestu um tungumálið. Þar sem ég þarf að beita huganum til að skilja málið er ekki sjálfgefið að andlega fæðan nái til hjartans og hreyfi við mér. Þess vegna tek ég reglulega frá tíma til að lesa í Biblíunni og biblíunámsritum á móðurmáli mínu.“

 NÁÐU TIL HJARTNA BARNA ÞINNA

14. Hvað þurfa foreldrar að gera og hvers vegna?

14 Kristnir foreldrar þurfa að sjá til þess að orð Guðs nái til huga og hjartna barnanna. Serge og Muriel störfuðu með erlendum söfnuði í meira en þrjú ár. Þau tóku eftir að sautján ára sonur þeirra hafði ekki ánægju af boðuninni og samkomum. „Honum leiddist að boða fagnaðarerindið á erlendu máli en áður hafði hann notið þess að gera það á móðurmáli sínu, frönsku,“ segir Muriel. Serge bætir við: „Þegar við gerðum okkur grein fyrir að þetta stóð í vegi fyrir að hann tæki framförum í trúnni ákváðum við að flytja aftur í gamla söfnuðinn okkar.“

Gerið það sem þið getið til að láta orð Guðs ná til hjartna barnanna. (Sjá 14. og 15. grein.)

15. (a) Hvað getur hjálpað foreldrum að ákveða hvort þeir eigi að flytja til baka til safnaðar þar sem móðurmál barnanna er talað? (b) Hvaða hvatningu fá foreldrar í 5. Mósebók 6:5-7?

15 Hvað getur hjálpað foreldrum að ákveða hvort það er skynsamlegt að flytja aftur í söfnuð þar sem móðurmál barnanna er talað? Í fyrsta lagi þurfa þau að spyrja sig hvort þau hafi tíma og krafta til að hjálpa börnunum að byggja upp samband við Jehóva og læra að elska hann, jafnhliða því að kenna þeim erlent tungumál. Í öðru lagi sjá þau kannski að börnin hafa takmarkaðan áhuga á að boða trúna, fara á samkomur eða vera með í því sem erlendi söfnuðurinn gerir. Ef málum er þannig háttað gætu foreldrarnir ákveðið að flytja aftur til safnaðar þar sem móðurmál barnanna er talað. Eftir að börnin hafa tekið skýra afstöðu með sannleikanum gæti fjölskyldan hugsanlega flutt aftur í erlendan söfnuð. – Lestu 5. Mósebók 6:5-7.

16, 17. Hvað hafa sumir foreldrar gert til að kenna börnunum á meðan þau starfa með erlendum söfnuði?

16 Sumir foreldrar hafa þó fundið leiðir til að kenna börnunum á móðurmáli þeirra jafnhliða því að sækja samkomur hjá erlendum hópi eða söfnuði. Charles á þrjár dætur á aldrinum 9 til 13 ára. Fjölskyldan starfar með hópi sem talar lingala. Hann segir: „Við tókum þá ákvörðun að kenna börnunum og halda tilbeiðslustund fjölskyldunnar á móðurmáli okkar. En við fléttum inn í það leikjum og æfingum sem fara fram á lingala þannig að þau hafi gaman af því að læra tungumálið.“

Leggið ykkur fram um að læra tungumál heimamanna og taka þátt í samkomunum. (Sjá 16. og 17. grein.)

17 Kevin á tvær dætur, fimm og átta ára. Hann leggur mikið á sig til að kenna þeim sannleikann þar sem þær skilja ekki að fullu erlenda tungumálið sem talað er á samkomunum. Hann segir: „Við hjónin kennum stelpunum hvorri í sínu lagi á móðurmáli þeirra, frönsku. Við reynum líka að sækja franska samkomu einu sinni í mánuði, og notum fríin okkar til að fara á mót sem haldin eru á móðurmáli okkar.“

18. (a) Hvernig getur meginreglan í Rómverjabréfinu 15:1, 2 hjálpað ykkur foreldrum að ákveða hvað er best fyrir börnin? (b) Nefndu dæmi um tillögur frá öðrum foreldrum. (Sjá aftanmálsgrein.)

18 Foreldrar þurfa auðvitað sjálfir að ákveða hvað er best fyrir börnin svo að þau nái fótfestu í sannleikanum. [2] (Gal. 6:5) Muriel, sem vitnað var í fyrr í greininni, segir að þau hjónin hafi þurft að taka hagsmuni sonar síns fram yfir sína eigin svo að hann gæti styrkt tengslin við Jehóva. (Lestu Rómverjabréfið 15:1, 2.) Serge veit að þau tóku rétta ákvörðun og segir: „Sonur okkar byrjaði að blómstra í sannleikanum og lét skírast eftir að við fluttum aftur  í frönskumælandi söfnuð. Núna er hann brautryðjandi og hugleiðir jafnvel að starfa með erlendum hópi á nýjan leik.“

LÁTTU ORÐ GUÐS SNERTA HJARTA ÞITT

19, 20. Hvernig getum við sýnt og sannað að við elskum orð Guðs?

19 Jehóva vill að „allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum“. (1. Tím. 2:4) Hann hefur því sýnt okkur þann kærleika að gera orð sitt, Biblíuna, aðgengilegt á hundruðum tungumála. Hann veit að við eigum auðveldara með að næra okkar andlega mann ef við lesum orð hans á tungumálinu sem stendur hjartanu næst.

20 Öll ættum við að vera ákveðin í að næra hjarta okkar á fastri andlegri fæðu hverjar sem aðstæður okkar eru. Þannig hjálpum við fjölskyldu okkar að vera heilbrigð í trúnni og eiga náið samband við Jehóva. Og við sýnum að við elskum orð Guðs ef við lesum það og hugleiðum reglulega á tungumálinu sem við skiljum best. – Sálm. 119:11.

^ [1] (5. grein.) Nöfnum er breytt.

^ [2] (18. grein.) Í greininni „Raising Children in a Foreign Land – The Challenges and the Rewards“ er að finna biblíuleg ráð sem geta hjálpað fjölskyldunni. Hún birtist í Varðturninum 15. október 2002.