Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Varðveitir þú visku?

Varðveitir þú visku?

EINU sinni bjó fátækur drengur í afskekktu þorpi. Þorpsbúar töldu hann ekki stíga í vitið og hlógu oft að honum. Þegar gesti bar að garði áttu þorpsbúar það til að henda gaman að honum í augsýn vina sinna. Einn þeirra brá þá upp tveim peningum. Annar var stór silfurpeningur en hinn lítill gullpeningur, og var sá helmingi verðmætari en silfurpeningurinn. „Þú mátt velja,“ sagði maðurinn við hann. Drengurinn valdi silfurpeninginn og tók svo til fótanna.

Dag nokkurn var maður gestkomandi í þorpinu og spurði drenginn: „Veistu ekki að gullpeningurinn er helmingi verðmætari en silfurpeningurinn?“ Litli drengurinn brosti íbygginn. „Ég veit,“ sagði hann. „Hvers vegna velurðu þá silfurpeninginn?“ spurði gesturinn. „Þú færð helmingi meiri peninga ef þú velur gullpeninginn!“ „En ef ég vel gullpeninginn hættir fólk að reyna að spila með mig,“ svaraði drengurinn. „Veistu hvað ég er búinn að safna mörgum silfurpeningum?“ Litli drengurinn í sögunni bjó yfir eiginleika sem margir fullorðnir mættu tileinka sér. Hann bjó yfir visku.

Í Biblíunni segir: „Varðveittu visku og gætni ... þá muntu ganga veg þinn óhultur og ekki hrasa.“ (Orðskv. 3:21, 23) Viskan stuðlar sem sagt að því að við séum óhult og örugg í spori. Hún kemur í veg fyrir að við hrösum á vegi trúarinnar. En hvað er viska og hvernig eigum við að beita henni?

HVAÐ ER VISKA?

Viska er ekki það sama og þekking og skilningur. Sá sem býr yfir þekkingu hefur viðað að sér upplýsingum og staðreyndum. Sá sem býr yfir skilningi áttar sig á hvernig staðreyndir tengjast innbyrðis. En sá sem býr yfir visku er fær um að beita þekkingu sinni og skilningi til góðs.

Tökum dæmi: Sumir geta verið fljótir að lesa bókina Hvað kennir Biblían? og skilja efnið. Þeir geta svarað spurningunum rétt á biblíunámskeiðinu. Þeir fara kannski að sækja samkomur og svara vel. Þetta getur bent til þess að þeir séu að þroska sinn andlega mann, en er þá sjálfgefið að þeir búi yfir visku? Það er ekki víst. Kannski eiga þeir bara auðvelt með að læra. En þegar þeir fara að lifa eftir sannleikanum og nota þekkinguna og skilninginn á réttan hátt ber það vitni um visku. Ef ákvarðanir þeirra eru til góðs og endurspegla framsýni og fyrirhyggju er ljóst að þeir búa yfir visku.

Í Matteusi 7:24-27 er að finna dæmisögu Jesú um tvo menn sem báðir reistu sér hús. Annar þeirra er sagður hafa verið ,hygginn‘. Hann sá fyrir hvað gæti hugsanlega gerst í framtíðinni og byggði því hús sitt á bjargi. Hann var skynsamur og forsjáll. Hann hugsaði ekki sem svo að það væri ódýrara og fljótlegra að byggja húsið á sandi. Hann sýndi þá visku að hugleiða hvaða afleiðingar ákvarðanir hans gætu haft til langs tíma litið. Þegar stormur skall á stóð húsið á traustum grunni. En hvernig getum við tileinkað okkur þennan verðmæta eiginleika?

HVERNIG GETUM VIÐ TILEINKAÐ OKKUR VISKU?

Í fyrsta lagi skulum við taka eftir því sem stendur í Míka 6:9: „Vitur er sá sem óttast nafn hans,“ það er að segja nafn Guðs. Að óttast nafn Jehóva  merkir að virða hann. Það merkir að bera heilnæma lotningu fyrir því sem nafn hans stendur fyrir, þar á meðal meginreglum hans. Til að virða einhvern þurfum við að vita hvernig hann hugsar. Þá getum við treyst honum, lært af honum og líkt eftir því góða sem hann gerir. Við öflum okkur visku ef við hugleiðum hvaða áhrif það sem við gerum hefur á samband okkar við Jehóva og byggjum ákvarðanir okkar á meginreglum hans.

Í öðru lagi stendur í Orðskviðunum 18:1: „Sérlyndur maður [„Sá sem einangrar sig“, NW] fer að eigin geðþótta og hafnar hverju hollráði,“ það er að segja viskunni. Ef við gætum okkar ekki er hætta á að við fjarlægjumst Jehóva og söfnuðinn. Við megum ekki einangra okkur heldur þurfum við að umgangast aðra sem óttast nafn Guðs og virða meginreglur hans. Við þurfum að sækja samkomur í ríkissalnum ef við höfum tök á og hafa reglulega félagsskap við trúsystkini. Á samkomunum þurfum við að opna huga okkar og hjarta fyrir því sem verið er að kenna svo að það hreyfi við okkur.

Síðast en ekki síst styrkjum við tengslin við Jehóva ef við úthellum hjarta okkar fyrir honum í bæn. (Orðskv. 3:5, 6) Þegar við lesum í Biblíunni og ritunum frá hinum trúa og hyggna þjóni fáum við innsýn í þau áhrif sem verk okkar hafa til langs tíma litið og getum hegðað okkur  samkvæmt því. Við þurfum líka að vera opin fyrir hollum ráðum frá þroskuðum trúsystkinum. (Orðskv. 19:20) Þá styrkjum við þann mikilvæga eiginleika sem viskan er.

HVERNIG ER VISKA TIL GÓÐS FYRIR FJÖLSKYLDUNA?

Viska getur verið fjölskyldunni til verndar. Eiginkona er til dæmis hvött í Biblíunni til að bera djúpa virðingu fyrir manni sínum. (Ef. 5:33) Hvernig getur eiginmaður hlotið virðingu konu sinnar? Ef hann heimtar með þjósti að honum sé sýnd virðing fær hann hana um stutta stund. Eiginkonan sýnir honum líklega vissa virðingu meðan hann er nærstaddur til að forðast árekstra. En ætli hún virði hann mikils þegar hann er ekki nærri? Sennilega ekki. Hann þarf að íhuga hvernig hann getur notið virðingar til langs tíma litið. Hann ávinnur sér djúpa virðingu með því að bera ávöxt andans, meðal annars kærleika og góðvild. En kristin kona á auðvitað að sýna eiginmanni sínum virðingu hvort sem hann verðskuldar hana eða ekki. – Gal. 5:22, 23.

Í Biblíunni segir enn fremur að maður eigi að elska eiginkonu sína. (Ef. 5:28, 33) Segjum að kona hugsi sem svo að hún geti tryggt sér ást eiginmannsins með því að fela fyrir honum óþægilegar staðreyndir sem hann á þó rétt á að vita. En ber það vott um visku? Hvað ætli gerist þegar hann kemst að raun um að hún hélt einhverju leyndu fyrir honum? Ætli ást hans á henni vaxi við það? Það er ólíklegt. En ef hún velur heppilega stund til að segja honum rólega frá óþægilegum staðreyndum eru góðar líkur á að hann meti heiðarleika hennar við hana. Og þá vex ást hans.

Hugleiddu hvernig þú agar börnin. Það hefur áhrif á samband ykkar seinna.

Börn eiga að hlýða foreldrum sínum og búa við hæfilegan aga og fræðslu um Jehóva. (Ef. 6:1, 4) Þýðir það að foreldrar eigi að setja börnunum ógrynni af boðum og bönnum? Það er ekki nóg að börnin þekki húsreglurnar og viti að þeim verður refsað ef þau hegða sér illa. Vitrir foreldrar leiða börnunum fyrir sjónir hvers vegna þau eiga að vera hlýðin.

Setjum sem svo að barn sé með dónaskap við foreldra sína. Það getur verið niðurlægjandi fyrir barnið að svara því með hörku eða refsa í hita augnabliksins. Barnið verður ef til vill þögult en innra með því ólgar gremja og það fjarlægist foreldrana.

Vitrir foreldrar hugleiða hvernig er best að aga börnin og hvaða áhrif ögunin hefur á þau til langs tíma litið. Foreldrar mega ekki missa stjórn á skapi sínu ef börnin setja þá úr jafnvægi. Kannski geta þau rætt við barnið í einrúmi, rólega og með ástúð, og bent á að Jehóva ætlist til að börn sýni foreldrum sínum virðingu. Þá skilur barnið að það heiðrar Jehóva með því að virða foreldra sína og að það er sjálfu því til eilífrar blessunar. (Ef. 6:2, 3) Þessi góðvild getur snortið hjarta barnsins. Það skynjar væntumþykju foreldra sinna og öðlast meiri virðingu fyrir þeim. Þannig hafa foreldrarnir gert sitt besta til að barnið eigi auðvelt með að leita til þeirra seinna þegar það á erfitt.

Sumir foreldrar forðast í lengstu lög að leiðrétta börnin af ótta við að særa tilfinningar þeirra. En hvað gerist þegar börnin vaxa úr grasi? Ætli þau óttist Jehóva og viðurkenni að það sé viturlegt að virða meginreglur hans? Ætli þau hneigist til að opna huga sinn og hjarta fyrir honum eða ætli þau einangri sig frá honum? – Orðskv. 13:1; 29:21.

Góður myndhöggvari sér fyrir sér hvað hann vill búa til úr þeim efniviði sem hann hefur. Hann heggur ekki bara af kappi og vonar hið besta. Vitrir foreldrar nota ómældan tíma í að læra meginreglur Jehóva og beita þeim. Þeir óttast nafn hans. Þeir afla sér visku með því að einangra sig ekki frá Jehóva og söfnuði hans, og nota viskuna fjölskyldunni til uppbyggingar.

Við þurfum daglega að taka ákvarðanir sem geta haft áhrif á líf okkar um ókomin ár. Er ekki betra að staldra við og hugsa málið en að taka vanhugsaða skyndiákvörðun? Hugleiddu afleiðingarnar. Leitaðu leiðsagnar Jehóva og fylgdu viturlegum ráðum hans. Þá hefurðu ,varðveitt visku‘ og hún verður þér til lífs. – Orðskv. 3:21, 22.