Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 NÁMSGREIN 47

Það sem við getum lært af 3. Mósebók

Það sem við getum lært af 3. Mósebók

„Öll Ritningin er innblásin af Guði og gagnleg.“ – 2. TÍM. 3:16.

SÖNGUR 98 Ritningin er innblásin

YFIRLIT *

1, 2. Hvers vegna ættu kristnir menn nú á dögum að hafa áhuga á 3. Mósebók?

PÁLL postuli sagði við Tímóteus, ungan vin sinn: „Öll Ritningin er innblásin af Guði og gagnleg.“ (2. Tím. 3:16) Þar á meðal er 3. Mósebók. Hvernig lítur þú á þessa biblíubók? Sumir álíta hana kannski fulla af reglum sem eiga ekki við á okkar dögum. En sannkristnir menn líta ekki þannig á hana.

2 Þriðja Mósebók var skrifuð fyrir um 3.500 árum en Jehóva lét varðveita það sem var skrifað „til að við gætum lært af því“. (Rómv. 15:4) Okkur ætti að langa til að rannsaka 3. Mósebók vegna þess að hún varpar ljósi á hugsunarhátt Jehóva. Við getum í rauninni lært margt af þessari innblásnu bók. Lítum á fernt.

HVERNIG ÖÐLUMST VIÐ VELÞÓKNUN JEHÓVA?

3. Hvers vegna voru bornar fram fórnir á árlega friðþægingardeginum?

3 Það fyrsta sem við lærum: Við verðum að hafa velþóknun Jehóva til að hann taki við fórnum okkar. Á árlega friðþægingardeginum kom Ísraelsþjóðin saman og æðstipresturinn færði dýrafórnir. Fórnirnar minntu Ísraelsmenn á að það þyrfti að hreinsa þá af synd. En æðstipresturinn þurfti að vinna annað verk áður en hann kæmi með fórnarblóð inn í hið allra helgasta, verk sem var í raun mikilvægara en fyrirgefning fyrir syndir þjóðarinnar.

(Sjá 4. grein.) *

4. Hvað gerði æðstipresturinn í fyrsta skiptið sem hann fór inn í hið allra helgasta á friðþægingardeginum eins og fram kemur í 3. Mósebók 16:12, 13? (Sjá mynd á forsíðu.)

 4 Lestu 3. Mósebók 16:12, 13Sjáðu fyrir þér hvað fór fram á friðþægingardeginum. Æðstipresturinn fer inn í tjaldbúðina. Þetta er fyrsta skiptið af þrem sem hann á að fara inn í hið allra helgasta á þessum degi. Hann heldur á íláti fullu af ilmandi reykelsi í annarri hendinni og í hinni er hann með gyllt glóðarker fullt af glóandi kolum. * Hann stoppar fyrir framan fortjaldið að hinu allra helgasta. Í djúpri virðingu gengur hann inn í hið allra helgasta og stendur frammi fyrir sáttmálsörkinni. Táknrænt séð stendur hann frammi fyrir sjálfum Jehóva Guði. Nú hellir presturinn heilaga reykelsinu varlega yfir glóandi kolinn og herbergið fyllist sætum ilmi. * Seinna fer hann aftur inn í hið allra helgasta með blóð syndafórnanna. Taktu eftir að hann brennir reykelsið áður en hann ber fram blóð syndafórnanna.

5. Hvað lærum við af því hvernig reykelsi var notað á friðþægingardeginum?

5 Hvað lærum við af því hvernig reykelsi var notað á friðþægingardeginum? Í Biblíunni er bent á að bænir trúfastra þjóna Jehóva séu eins og reykelsi. (Sálm. 141:2; Opinb. 5:8) Æðstipresturinn bar reykelsið fram fyrir Jehóva með djúpri virðingu. Þegar við leitum til Jehóva í bæn gerum við það einnig með djúpri virðingu. Við berum lotningu fyrir honum. Við erum innilega þakklát fyrir að skapari alheims skuli leyfa okkur að leita til sín og nálgast sig eins og barn nálgast föður sinn. (Jak. 4:8) Jehóva leyfir okkur að vera vinir sínir. (Orðskv. 3:32) Við erum svo þakklát fyrir það að við myndum aldrei vilja valda honum vonbrigðum.

6. Hvað lærum við af því að æðstipresturinn brenndi reykelsið áður en hann bar fram fórnirnar?

6 Hafðu í huga að æðstipresturinn þurfti að brenna reykelsið áður en hann bar fram fórnirnar. Þannig gat hann verið viss um að hann hefði velþóknun Jehóva þegar hann bæri þær fram. Hvað lærum við af því? Þegar Jesús var hér á jörð þurfti hann að gera nokkuð mikilvægt áður en hann gat gefið líf sitt að fórn. Það var mikilvægara en að frelsa mannkynið. Hann þurfti að hlýða Jehóva trúfastlega alla ævi sína á jörðinni til að Jehóva gæti tekið við fórn hans. Þannig myndi Jesús sanna að það væri rétt að lifa eins og Jehóva vildi. Jesús myndi sýna fram á að faðir hans væri réttmætur drottinn alheims, eða sanna að stjórnarfar hans væri rétt og réttlátt.

7. Hvers vegna hafði Jehóva miklar mætur á lífsstefnu Jesú?

7 Jesús hlýddi Jehóva í einu og öllu á meðan hann var hér á jörð. Engin freisting eða prófraun gat veikt löngun hans til að sanna að stjórnarfar Jehóva væri það besta, ekki einu sinni vitneskjan um að hann ætti eftir að þola kvalafullan dauðdaga. (Fil. 2:8) Jesús bað „með áköllum og tárum“ þegar  hann stóð frammi fyrir prófraunum. (Hebr. 5:7) Innilegar bænir hans sýndu að hann var Jehóva trúr og gerðu hann enn ákveðnari í að vera hlýðinn. Bænir Jesú voru eins og sætur reykelsisilmur fyrir Jehóva. Lífsstefna Jesú sannaði að Jehóva væri réttmætur drottinn alheims og Jehóva hafði miklar mætur á henni.

8. Hvernig getum við líkt eftir Jesú?

8 Við getum líkt eftir Jesú með því að gera okkar besta til að hlýða Jehóva og vera honum trú. Þegar við stöndum frammi fyrir prófraunum sárbænum við Jehóva um hjálp vegna þess að við viljum þóknast honum. Þannig sýnum við að við styðjum stjórnarfar hans. Við gerum okkur grein fyrir að Jehóva tekur ekki við bænum okkar ef við gerum það sem hann fordæmir. En ef við lifum í samræmi við vilja hans megum við vera viss um að einlægar bænir okkar verði eins og sætur reykelsisilmur fyrir Jehóva. Og við getum verið viss um að ráðvendni okkar, trúfesti og hlýðni gleðji himneskan föður okkar. – Orðskv. 27:11.

VIÐ ÞJÓNUM JEHÓVA AF ÞAKKLÆTI OG KÆRLEIKA

(Sjá 9. grein.) *

9. Hvers vegna voru færðar heillafórnir?

9 Annað sem við lærum: Við þjónum Jehóva vegna þess að við erum honum þakklát. Heillafórnir undirstrika það. Þær voru annar mikilvægur þáttur í sannri tilbeiðslu í Ísrael til forna. * Í 3. Mósebók kemur fram að Ísraelsmaður gat fært heillafórn „sem þakkarfórn“. (3. Mós. 7:11–13, 16–18) Hann færði þessa fórn af  því að hann langaði til þess, ekki af því að hann þurfti þess. Þetta var því sjálfviljafórn sem hann færði vegna þess að hann elskaði Jehóva Guð. Sá sem færði fórnina, fjölskylda hans og prestarnir borðuðu kjötið af dýrinu. En ákveðnir hlutar af dýrafórninni voru bornir fram aðeins fyrir Jehóva. Hvaða hlutar voru það?

(Sjá 10. grein.) *

10. Hvað lærum við um hvöt Jesú til að gera vilja föður síns af því sem segir um heillafórnir í 3. Mósebók 3:6, 12, 14–16?

10 Það þriðja sem við lærum: Við gefum Jehóva það besta vegna þess að við elskum hann. Jehóva leit á mörinn sem það besta af dýrinu. Hann tók líka fram að mikilvæg líffæri, þar á meðal nýrun, hefðu sérstakt gildi. (Lestu 3. Mósebók 3:6, 12, 14–16.) Jehóva var því sérstaklega ánægður þegar Ísraelsmaður færði honum fúslega mikilvæg líffæri og mörinn að fórn. Ísraelsmaður sem færði slíka fórn sýndi að hann hafði einlæga löngun til að gefa Jehóva það besta. Jesús gaf Jehóva einnig það besta með því að þjóna honum af heilum hug vegna þess að hann elskaði hann. (Jóh. 14:31) Jesús hafði yndi af að gera vilja Guðs og hann elskaði lögmál hans. (Sálm. 40:9) Það hlýtur að hafa glatt Jehóva mikið að sjá hversu fús Jesús var að þjóna honum.

Við gefum Jehóva það besta vegna þess að við elskum hann. (Sjá 11. og 12. grein.) *

11. Hvernig er þjónusta okkar eins og heillafórnirnar og hvernig hughreystir það okkur?

11 Þjónusta okkar við Jehóva er eins og þessar heillafórnir vegna þess að með henni sýnum við hug okkar til Jehóva. Við gefum Jehóva það besta vegna þess að við elskum hann af öllu hjarta. Það hlýtur að gleðja Jehóva mikið að sjá milljónir manna þjóna honum fúslega af kærleika til hans og siðferðisstaðla hans. Það er hughreystandi að muna að Jehóva sér og kann að meta bæði það sem við gerum og af hvaða hvötum við gerum það. Ef þú ert orðinn aldraður og getur ekki lengur gert eins mikið og þú myndir vilja máttu vera viss um að Jehóva þekkir takmörk þín. Þér finnst kannski að þú getir ekki gert mikið en Jehóva sér kærleikann sem fær þig til að gera það sem þú getur. Hann tekur glaður á móti því besta sem þú getur gefið.

12. Hvað fullvissa viðbrögð Jehóva við heillafórnunum okkur um?

12 Hvað lærum við af heillafórnunum? Þegar eldurinn brenndi það besta af dýrinu lagði reyk upp af fórninni og það gladdi Jehóva. Þú mátt því vera viss um að Jehóva sé ánægður þegar þú þjónar honum fúslega og af heilum huga. (Kól. 3:23) Hugsaðu þér hvað hann er ánægður með þig. Hann lítur á allt sem þú leggur á þig í þjónustunni, hvort sem það er mikið eða lítið, sem fjársjóð sem hann á eftir að muna eftir og kunna að meta að eilífu. – Matt. 6:20; Hebr. 6:10.

JEHÓVA BLESSAR SÖFNUÐ SINN

13. Hvernig sýndi Jehóva að hann hafði velþóknun á prestastéttinni eins og sjá má af 3. Mósebók 9:23, 24?

13 Það fjórða sem við lærum: Jehóva blessar jarðneskan hluta safnaðar síns. Hugsaðu um það sem gerðist árið 1512 f.Kr. þegar tjaldbúðin var reist við rætur Sínaífjalls. (2. Mós. 40:17) Móse stýrði athöfn þar sem Aron og synir hans voru settir í prestsembætti. Ísraelsþjóðin safnaðist saman til að fylgjast með prestunum færa dýrafórn í fyrsta sinn. (3. Mós. 9:1–5) Hvernig sýndi Jehóva að hann hafði velþóknun á nýju  prestastéttinni? Á meðan Aron og Móse blessuðu fólkið lét Jehóva eld brenna fórnina á altarinu upp til agna. – Lestu 3. Mósebók 9:23, 24.

14. Hvers vegna er velþóknun Jehóva á prestunum af ætt Arons mikilvæg fyrir okkur?

14 Hvað sannaði eldurinn frá himni? Jehóva sýndi með honum að hann veitti prestunum af ætt Arons fullan stuðning. Ísraelsmenn höfðu góða ástæðu til að veita prestunum stuðning sinn þegar þeir sáu skýra sönnun fyrir því að Jehóva stæði með þeim. Hefur þetta þýðingu fyrir okkur? Já. Prestastéttin í Ísrael var aðeins skuggi mun mikilvægari prestsþjónustu. Jesús er hinn meiri æðstiprestur og 144.000 konunglegir prestar munu þjóna með honum á himni. – Hebr. 4:14; 8:3–5; 10:1.

Jehóva leiðbeinir og blessar söfnuð sinn. Við styðjum hann heilshugar. (Sjá 15.–17. grein.) *

15, 16. Hvernig hefur Jehóva sýnt að „hinn trúi og skynsami þjónn“ hefur velþóknun hans?

15 Árið 1919 útnefndi Jesús lítinn hóp andasmurðra bræðra sem er kallaður „hinn trúi og skynsami þjónn“. Þessi þjónn fer með forystuna í boðuninni og gefur fylgjendum Krists „mat á réttum tíma“. (Matt. 24:45) Sjáum við skýra sönnun fyrir því að Guð hafi velþóknun á trúa og skynsama þjóninum?

16 Satan og heimur hans hafa reynt margt til að gera starf trúa þjónsins erfitt eða jafnvel ómögulegt frá mannlegum bæjardyrum séð. Trúi og skynsami þjónninn hefur haldið áfram að sjá fylgjendum Krists á jörð fyrir andlegri fæðu þrátt fyrir afleiðingar tveggja heimsstyrjalda, vægðarlausar ofsóknir, fjárhagserfiðleika á heimsvísu og óréttláta  meðferð. Hugsaðu þér hvað við höfum mikið af ókeypis andlegri fæðu á meira en 900 tungumálum. Það er óumdeilanleg sönnun fyrir stuðningi Guðs. Boðunin er einnig sönnun fyrir blessun Jehóva. Fagnaðarboðskapurinn er sannarlega boðaður „um alla jörðina“. (Matt. 24:14) Það er greinilegt að Jehóva leiðbeinir og blessar söfnuð sinn nú á dögum.

17. Hvernig getum við sýnt að við styðjum söfnuð Jehóva?

17 Það er gott að spyrja sig: Er ég þakklátur fyrir að tilheyra jarðneskum hluta safnaðar Jehóva? Jehóva hefur gefið okkur sannanir sem eru jafn sannfærandi og eldurinn frá himni á dögum Móse og Arons. Við höfum sannarlega góða ástæðu til að vera þakklát. (1. Þess. 5:18, 19) Hvernig getum við sýnt að við styðjum söfnuð Jehóva? Með því að fylgja leiðbeiningum byggðum á Biblíunni sem við fáum í ritum okkar, á samkomum og á mótum. Við getum auk þess sýnt stuðning okkar með því að taka eins mikinn þátt og við getum í að boða trúna og kenna. – 1. Kor. 15:58.

18. Hvað ert þú staðráðinn í að gera?

18 Verum staðráðin í að fara eftir því sem við lærum af 3. Mósebók. Við viljum öðlast velþóknun Jehóva til að hann taki við fórnum okkar. Við þjónum Jehóva vegna þess að við erum honum þakklát. Við höldum áfram að gefa Jehóva það besta vegna þess að við elskum hann af öllu hjarta. Og við styðjum heilshugar söfnuðinn sem hann blessar nú á dögum. Með því að gera þetta sýnum við Jehóva að við kunnum að meta þann heiður að fá að þjóna honum sem vottar hans.

SÖNGUR 96 Bók Guðs er fjársjóður

^ gr. 5 Í 3. Mósebók er að finna lög sem Jehóva gaf Ísraelsmönnum til forna. Við sem erum kristin erum ekki bundin af þessum lögum en við getum samt haft gagn af þeim. Í þessari grein skoðum við hvað við getum lært af 3. Mósebók.

^ gr. 4 Í 3. Mósebók 16:12, 13 í íslensku biblíunni frá 2010 er talað um að æðstipresturinn hafi verið með reykelsi í báðum lófum þegar hann fór inn í hið allra helgasta. En samkvæmt hebreska frumtextanum tók hann með sér tvær lúkur af ilmandi reykelsi í íláti.

^ gr. 4 Reykelsið sem var brennt í tjaldbúðinni var talið heilagt og í Ísrael til forna var það aðeins notað í tilbeiðslunni á Jehóva. (2. Mós. 30:34–38) Ekkert bendir til að kristnir menn á fyrstu öld hafi brennt reykelsi í trúarlegum tilgangi.

^ gr. 9 Hægt er að fá frekari upplýsingar um heillafórnir í Insight on the Scriptures, 2. bindi, bls. 526.

^ gr. 55 MYND: Á friðþægingardaginn fór æðstiprestur Ísraelsmanna með reykelsi og glóandi kol inn í hið allra helgasta. Við það fylltist hið allra helgasta sætum ilm. Síðar fór hann aftur þangað inn og bar fram blóð syndafórnanna.

^ gr. 57 MYND: Ísraelsmaður færir presti sauðkind í heillafórn til að tjá Jehóva þakklæti fjölskyldu sinnar.

^ gr. 59 MYND: Þegar Jesús var hér á jörð sýndi hann að hann elskaði Jehóva innilega með því að fylgja boðum hans og hjálpa fylgjendum sínum að gera það líka.

^ gr. 61 MYND: Eldri systir gefur Jehóva það besta þrátt fyrir heilsubrest með því að boða trúna með bréfaskriftum.

^ gr. 63 MYND: Bróðir Gerrit Lösch úr stjórnandi ráði tilkynnti endurskoðaða útgáfu Nýheimsþýðingarinnar á þýsku í febrúar 2019. Áheyrendur voru þakklátir og yfir sig hrifnir. Núna eru boðberar í Þýskalandi, eins og þessar tvær systur, ánægðir að geta notað nýja útgáfu Biblíunnar í boðuninni.