Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

,Ég geng í sannleika þínum‘

,Ég geng í sannleika þínum‘

„Vísa mér veg þinn, Drottinn, að ég gangi í sannleika þínum.“ – SÁLM. 86:11.

SÖNGVAR: 31, 72

1-3. (a) Hvernig ættum við að líta á sannleika Biblíunnar? Lýstu með dæmi. (Sjá myndir í upphafi greinar.) (b) Hvað ætlum við að skoða í þessari grein?

ALGENGT er að fólk skili vörum sem það kaupir. Áætlað er að í sumum löndum skili fólk næstum 9 prósentum af því sem það kaupir í verslunum og meira en 30 prósentum af því sem það kaupir á Netinu. Kannski stóðst varan ekki væntingar, var gölluð eða fólki líkaði hreinlega ekki við hana. Þar af leiðandi skipti það vörunni eða bað um endurgreiðslu.

2 Við biðjum kannski um endurgreiðslu fyrir efnislega hluti en við myndum aldrei vilja skipta eða ,selja‘ nákvæma þekkingu okkar á sannleika Biblíunnar sem við höfum ,keypt‘. (Lestu Orðskviðina 23:23; 1. Tím. 2:4) Eins og rætt var í síðustu grein keyptum við sannleikann með því að nota mikinn tíma til að kynna okkur hann. Við fórnuðum kannski vel launaðri vinnu, þurftum að takast á við breytingar í samskiptum við vini og ættingja, breyttum hugarfari okkar og hegðun eða sögðum skilið við óbiblíulega siði og venjur. En það sem við greiddum fyrir sannleikann er smávægilegt miðað við þá blessun sem við höfum hlotið.

3 Jesús sagði eitt sinn dæmisögu um kaupmann sem leitaði að fögrum perlum. Þegar kaupmaðurinn fann eina perlu sem  var mjög verðmæt seldi hann þegar í stað allt sem hann átti svo að hann gæti keypt hana. Perlan táknar sannleikann um ríki Guðs og með dæmisögunni lýsti Jesús hve verðmætur sannleikurinn er þeim sem finna hann. (Matt. 13:45, 46) Þegar við kynntumst sannleikanum, það er að segja sannleikanum um ríki Guðs og öllum dýrmætu sannindunum í orði hans, vorum við að sama skapi fús til að fórna hverju sem var til að eignast hann. Svo framarlega sem við metum sannleikann að verðleikum munum við aldrei ,selja hann‘. Því miður hafa þó sumir þjónar Guðs misst sjónar á verðmæti sannleikans – og jafnvel selt hann. Látum það aldrei henda okkur. Við verðum að fylgja hvatningu Biblíunnar að ,hlýða sannleikanum‘. (Lestu 3. Jóhannesarbréf 2-4.) Þannig sýnum við hve mikils við metum hann og að við myndum aldrei selja hann. Að hlýða sannleikanum felur í sér að við setjum hann í forgang í lífinu og lifum í samræmi við hann. Skoðum eftirfarandi spurningar: Hvernig gætu sumir ,selt‘ sannleikann og hvers vegna? Hvernig getum við forðast að gera þau sorglegu mistök? Og hvernig getum við verið enn ákveðnari í að ,ganga í sannleikanum‘?

HVERNIG ,SELJA‘ SUMIR SANNLEIKANN OG HVERS VEGNA?

4. Hvers vegna „seldu“ sumir sannleikann á dögum Jesú?

4 Á dögum Jesú brugðust sumir vel við kennslu hans í fyrstu en hættu síðan að ganga í sannleikanum. Eftir að Jesús hafði gefið stórum hópi fólks að borða fyrir kraftaverk elti hópurinn hann yfir á hinn enda Galíleuvatns. Þar sagði Jesús nokkuð sem gerði fólki bilt við. Hann sagði: „Ef þér etið ekki hold Mannssonarins og drekkið blóð hans þá er ekki líf í yður.“ Í stað þess að biðja Jesú að útskýra mál sitt hneykslaðist fólkið og sagði: „Þung er þessi ræða. Hver getur hlustað á hana?“ Fyrir vikið „hurfu margir af lærisveinum hans frá og voru ekki framar með honum“. – Jóh. 6:53-66.

5, 6. (a) Hvers vegna hafa sumir yfirgefið sannleikann á okkar dögum? (b) Hvernig gæti maður smám saman fjarlægst sannleikann?

5 Því miður hafa sumir nú til dags yfirgefið sannleikann. Einhverjir hafa verið ósammála breyttum skilningi á biblíuversi eða hneykslast á einhverju sem þekktur bróðir sagði eða gerði. Sumir hafa móðgast þegar þeim voru gefnar leiðbeiningar byggðar á Biblíunni og aðrir hafa fallið frá sannleikanum vegna ósættis við trúsystkini. Enn aðrir hafa tekið afstöðu með fráhvarfsmönnum eða öðrum sem eru mótfallnir trú okkar. Þannig hafa sumir vísvitandi látið ,bægja sér frá‘ Jehóva og söfnuðinum. (Hebr. 3:12-14) Það hefði verið miklu betra fyrir þá að halda í trúna og treysta á Jesú líkt og Pétur postuli gerði. Þegar Jesús spurði postulana hvort þeir ætluðu líka að yfirgefa sig svaraði Pétur um hæl: „Drottinn, til hvers ættum við að fara? Þú hefur orð eilífs lífs.“ – Jóh. 6:67-69.

6 Aðrir hafa yfirgefið sannleikann smám saman, jafnvel án þess að átta sig á í hvað stefndi. Sá sem yfirgefur sannleikann smátt og smátt er eins og bátur sem rekur hægt og rólega burt frá árbakkanum. Biblían líkir þessu hæga ferli við að ,berast afleiðis‘. (Hebr. 2:1) Sá sem berst afleiðis fjarlægist sannleikann óafvitandi, ólíkt þeim sem fer vísvitandi frá sannleikanum. En hann skaðar samband sitt við Jehóva og gæti átt á hættu  að missa það. Hvernig getum við komið í veg fyrir að það hendi okkur?

HVERNIG GETUM VIÐ FORÐAST AÐ ,SELJA‘ SANNLEIKANN?

7. Hvernig getum við forðast að selja sannleikann?

7 Til að ganga í sannleikanum verðum við að taka við öllu sem Jehóva segir og hlýða því. Við þurfum að setja sannleikann í fyrsta sæti og lifa í samræmi við meginreglur Biblíunnar. Davíð konungur sagði í bæn til Jehóva: „Vísa mér veg þinn, Drottinn, að ég gangi í sannleika þínum.“ (Sálm. 86:11) Davíð var staðráðinn í að ganga í sannleika Guðs og við verðum að vera það sömuleiðis. Ef við erum það ekki gætum við farið að hugsa um það sem við höfum sagt skilið við og freistast til að taka til baka hluta af því sem við greiddum. Við þurfum að gæta þess að halda fast við allan sannleikann. Við getum ekki valið að taka aðeins sum biblíusannindi til okkar en hunsa önnur. Við verðum að ganga í ,öllum sannleikanum‘. (Jóh. 16:13) Í síðustu grein ræddum við um á hvaða fimm vegu við gætum hafa fórnað einhverju til að kaupa sannleikann. Skoðum nú hvernig við getum verið staðráðin í að selja hann ekki fyrir nokkuð af því sem við létum af hendi. – Matt. 6:19.

8. Hvers vegna þurfum við að nota tíma okkar skynsamlega svo að við fjarlægjumst ekki sannleikann? Nefndu dæmi.

8 Tími. Við þurfum að nota tíma okkar skynsamlega svo að við fjarlægjumst ekki sannleikann. Ef við gætum okkar ekki er hætta á að við förum að verja óhóflega miklum tíma í afþreyingu og áhugamál, sjónvarpsgláp eða að vafra um Netið. Þótt ekkert af þessu sé rangt í sjálfu sér getur það komið niður á tímanum sem við notum í sjálfsnám og önnur andleg mál. Það henti systur sem heitir Emma. * Hún hafði mikið dálæti á hestum allt frá unga aldri og fór á hestbak hvenær sem tækifæri gafst. Þegar fram liðu stundir fór hún að fá samviskubit yfir því hve miklum tíma hún varði í áhugamál sitt. Hún ákvað að gera eitthvað í málinu og tókst að lokum að koma jafnvægi á afþreyinguna. Henni fannst líka uppörvandi að heyra sögu Cory Wells sem vann við að leika listir sínar á kúrekasýningum. * Emma notar nú meiri tíma í þjónustunni við Jehóva og með fjölskyldu sinni og vinum sem þjóna honum líka. Samband hennar við Jehóva er orðið sterkara og hún er ánægð að vita að hún notar tíma sinn skynsamlega.

9. Hvernig gætu efnislegir hlutir farið að skipta okkur meira máli en þjónustan við Jehóva?

9 Efnisleg þægindi. Við verðum að hafa rétt viðhorf til efnislegra hluta ef við viljum halda áfram að ganga í sannleikanum. Þegar við kynntumst sannleikanum gerðum við okkur grein fyrir að þjónustan við Jehóva skiptir meira máli en efnislegir hlutir. Við vorum meira en fús til að fórna efnislegum þægindum til að geta gengið í sannleikanum. En eftir því sem tíminn líður sjáum við kannski aðra kaupa sér nýjustu tæki og tól eða njóta annarra efnislegra þæginda. Okkur gæti fundist við fara á mis við eitthvað. Ef við erum ekki ánægð með það sem við höfum gætum við farið að sækjast eftir efnislegum hlutum í stað þess að einbeita okkur að þjónustunni við Jehóva. Það minnir okkur á Demas. „Hann elskaði þennan heim“ og fyrir vikið sagði  hann skilið við þjónustuverkefnið sem hann sinnti með Páli. (2. Tím. 4:10) Hvers vegna yfirgaf Demas Pál? Kannski elskaði hann efnislega hluti meira en þjónustuna við Jehóva eða kannski var hann ekki lengur fús til að fórna eigin þægindum til að geta unnið með Páli. Við viljum svo sannarlega ekki endurvekja löngun okkar í efnislega hluti og láta það verða til þess að við hættum að elska sannleikann.

10. Hvaða þrýsting verðum við að standast ef við viljum halda áfram að ganga í sannleikanum?

10 Vinir og ættingjar. Ef við viljum ganga í sannleikanum megum við ekki láta undan þrýstingi frá öðrum. Samband okkar við fjölskylduna og aðra sem eru ekki vottar breyttist þegar við kynntumst sannleikanum. Kannski voru sumir umburðarlyndir en aðrir algerlega á móti trú okkar. (1. Pét. 4:4) Við reynum auðvitað okkar besta til að eiga gott samband við alla í fjölskyldunni og koma vel fram við þá en við verðum að gæta þess að hvika ekki frá sannleikanum til að þóknast þeim. Eins og við lærum af 1. Korintubréfi 15:33 eigum við aðeins að eiga náinn vinskap við þá sem elska Jehóva.

11. Hvernig getum við forðast óhreinar hugsanir og verk?

11 Óhreinar hugsanir og verk. Allir sem ganga í sannleikanum verða að vera heilagir. (Jes. 35:8; lestu 1. Pétursbréf 1:14-16.) Þegar við tókum við sannleikanum þurftum við öll að gera breytingar á lífi okkar til að laga okkur að mælikvarða Biblíunnar. Sumir hafa þurft að gera gríðarlegar breytingar. En hvernig sem því er farið megum við aldrei skipta á hreinu og heilögu lífi okkar fyrir siðlausan óþverra þessa heims. Hvernig getum við forðast að leiðast út í siðleysi? Hugsum um hve hátt verð Jehóva greiddi til að við gætum verið heilög – dýrmætt blóð sonar síns, Jesú Krists. (1. Pét. 1:18, 19) Til að vera hrein frammi fyrir Jehóva verðum við stöðugt að hafa í huga hversu verðmæt lausnarfórn Jesú er.

12, 13. (a) Hvers vegna er mikilvægt að við lítum hátíðir og hátíðisdaga sömu augum og Jehóva? (b) Hvað skoðum við næst?

12 Óbiblíulegir siðir og venjur. Fjölskyldan, vinnufélagar og skólafélagar gætu reynt að fá okkur til að taka þátt í hátíðahöldum. Hvernig getum við verið staðföst þegar þrýst er á okkur til að taka þátt í siðum og hátíðum sem eru ekki Jehóva til lofs? Það getum við með því að hafa hugfast hvernig Jehóva lítur á slíka siði. Einnig getur verið gagnlegt að skoða efni í ritunum okkar þar sem fjallað er um uppruna vinsælla hátíða og hátíðisdaga. Þegar við minnum okkur á biblíuleg rök fyrir því að við tökum ekki þátt í slíkum hátíðum verðum við enn sannfærðari um að við göngum á þeim vegi sem „Drottni þóknast“. (Ef. 5:10) Ef við treystum á Jehóva og sannleiksorð hans óttumst við ekki álit annarra. – Orðskv. 29:25.

13 Við vonumst til að geta gengið í sannleikanum um alla eilífð. Hvernig getum við verið enn ákveðnari í að ganga í sannleikanum? Skoðum þrennt sem við getum gert.

VERTU ENN ÁKVEÐNARI Í AÐ GANGA Í SANNLEIKANUM

14. (a) Hvernig getur reglulegt biblíunám gert okkur enn ákveðnari í að selja aldrei sannleikann? (b) Hvers vegna þurfum við visku, aga og skilning?

14 Í fyrsta lagi skaltu halda áfram að rannsaka dýrmæt sannindi Biblíunnar og hugleiða það sem þú lest. Kauptu sannleika með því að gefa þér reglulega  tíma til að nærast á dýrmætum sannindum í orði Guðs. Þannig eykurðu þakklæti þitt fyrir sannleikann og verður enn ákveðnari í að selja hann aldrei. Í Orðskviðunum 23:23 er okkur sagt að kaupa sannleika. En þar segir líka að við eigum að kaupa „visku, fræðslu [aga, Biblían 1981] og skilning“. Það er ekki nóg að hafa þekkingu. Við þurfum að láta sannleikann endurspeglast í lífi okkar. Með skilningi getum við áttað okkur á hvernig allt sem Jehóva segir helst í hendur. Viska knýr okkur til að sýna þekkingu okkar í verki. Og stundum agar sannleikurinn okkur með því að leiða okkur fyrir sjónir hvar við þurfum að gera breytingar. Megum við ávallt vera móttækileg fyrir slíkri leiðsögn. Hún er mun verðmætari en silfur. – Orðskv. 8:10.

15. Hvernig verndar sannleikurinn okkur eins og belti?

15 Í öðru lagi skaltu vera staðráðinn í að lifa í samræmi við sannleikann alla daga. Hafðu belti sannleikans gyrt um mittið. (Ef. 6:14) Hermaður á biblíutímanum var gyrtur belti sem varði hann um mittið og veitti honum stuðning. En beltið þurfti að vera vel hert til að vernda hann. Ef það var laust veitti það lítinn stuðning. Hvernig verndar sannleikurinn okkur eins og belti? Þegar við bindum sannleikann tryggilega um okkur verndar hann okkur gegn röngu hugarfari og hjálpar okkur að taka góðar ákvarðanir. Sannleikur Biblíunnar hjálpar okkur að vera ákveðin í að gera það sem er rétt þegar við lendum í raunum eða okkur er freistað. Hermanni hefði aldrei dottið í hug að fara í bardaga án beltis. Eins verðum við að vera staðráðin í að losa aldrei um eða fjarlægja belti sannleikans. Öllu heldur skulum við gera allt sem við getum til að hafa það þéttingsfast um okkur með því að lifa í samræmi við sannleikann. Hermaður hengdi líka sverð sitt í beltið. Það leiðir okkur að þriðja atriðinu sem hjálpar okkur að vera enn ákveðnari í að ganga í sannleikanum.

16. Hvernig verðum við ákveðnari í að ganga í sannleikanum þegar við segjum öðrum frá honum?

16 Í þriðja lagi skaltu gera þitt ýtrasta til að kenna öðrum sannleika Biblíunnar. Þannig hefurðu gott tak á orði Guðs, andlegu sverði okkar. (Ef. 6:17) Öll viljum við ,fara rétt með orð sannleikans‘ og verða færari kennarar. (2. Tím. 2:15) Þegar við hjálpum öðrum að kaupa sannleika og hafna falskenningum festum við orð Guðs í huga okkar og hjarta og verðum enn ákveðnari í að ganga í sannleikanum.

17. Hvers vegna finnst þér sannleikurinn verðmætur?

17 Sannleikurinn er verðmæt gjöf frá Jehóva. Vegna hennar höfum við eignast það dýrmætasta sem við eigum, náið samband við himneskan föður okkar. Það sem hann hefur kennt okkur hingað til er aðeins forsmekkurinn af því sem við eigum í vændum. Guð hefur lofað okkur eilífðinni til að bæta við þann sannleika sem við höfum þegar keypt. Láttu þér því annt um sannleikann eins og um fagra perlu. Haltu áfram að ,kaupa sannleika, og seldu hann ekki‘. Þá geturðu, líkt og Davíð, haldið loforðið sem þú gafst Jehóva, ,að ganga í sannleika hans‘. – Sálm. 86:11.

^ gr. 8 Nafninu er breytt.

^ gr. 8 Farðu inn á Sjónvarp Votta Jehóva og leitaðu undir VIÐTÖL OG FRÁSÖGUR > SANNLEIKURINN BREYTIR LÍFI FÓLKS.