Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 NÁMSGREIN 11

Hvernig geturðu sótt styrk í Biblíuna?

Hvernig geturðu sótt styrk í Biblíuna?

„Guð ... veitir þolgæði.“ – RÓMV. 15:5.

SÖNGUR 94 Þakklát fyrir orð Guðs

YFIRLIT *

1. Hvers konar prófraunir gætu þjónar Jehóva þurft að takast á við?

ERTU að glíma við erfiða prófraun? Hefur einhver í söfnuðinum sært þig? (Jak. 3:2) Gera vinnufélagarnir eða skólafélagarnir grín að þér fyrir að þjóna Jehóva? (1. Pét. 4:3, 4) Eða reynir fjölskylda þín að fá þig til að hætta að sækja samkomur eða að tala við aðra um trú þína? (Matt. 10:35, 36) Ef prófraun reynir verulega á gæti þig langað til að gefast upp. En þú mátt vera viss um að Jehóva gefur þér visku og styrk til að takast á við hvaða prófraun sem er.

2. Hvaða áhrif getur lestur í orði Guðs haft á okkur samkvæmt Rómverjabréfinu 15:4?

2 Jehóva lét skrá í orð sitt frásögur af ófullkomnum einstaklingum sem tókust á við erfiðar raunir. Hann gerði það til að við gætum lært af þeim. Jehóva innblés Páli postula að benda á þetta í bréfi sínu til Rómverja. (Lestu Rómverjabréfið 15:4.) Það getur veitt okkur hughreystingu og von að lesa þessar frásögur. En til að hafa gagn af þeim er ekki nóg aðeins að lesa í Biblíunni. Við verðum að láta Biblíuna móta hugann og snerta hjartað. Hvað getum við gert ef okkur vantar leiðbeiningar um hvernig við getum tekist á við ákveðið vandamál? Við getum fylgt eftirfarandi aðferð sem er í fjórum skrefum: (1) Biðjum, (2) ímyndum okkur, (3) hugleiðum og (4) notum. Skoðum hvað hvert og eitt þessara skrefa felur í sér. * Síðan notum við þessa námsaðferð til að skoða atvik í lífi Davíðs konungs og Páls postula og hvað við getum lært af þeim.

1. BIÐJUM

Áður en þú byrjar að lesa í Biblíunni skaltu biðja Jehóva að hjálpa þér að koma auga á það sem getur komið þér að gagni. (Sjá 3. grein.)

3. Hvað ættirðu að gera áður en þú byrjar að lesa í Biblíunni og hvers vegna?

 3 (1) Biðjum. Áður en þú byrjar að lesa í Biblíunni skaltu biðja Jehóva að hjálpa þér að sjá hvaða gagn þú getur haft af því sem þú lest. Ef þú ert til dæmis að leita að leiðbeiningum um það hvernig þú getur tekist á við vandamál skaltu biðja Jehóva að hjálpa þér að finna meginreglur í Biblíunni sem geta leiðbeint þér. – Fil. 4:6, 7; Jak. 1:5.

2. ÍMYNDUM OKKUR

Reyndu að sjá sjálfan þig í sporum aðalpersónunnar í biblíusögunni. (Sjá 4. grein.)

4. Hvað getur hjálpað þér að gera frásögu í Biblíunni lifandi?

4 (2) Ímyndum okkur. Jehóva hefur gefið okkur ímyndunaraflið, sem er stórkostlegur hæfileiki. Til að hjálpa þér að gera biblíusöguna lifandi skaltu sjá hana fyrir þér með sjálfan þig í lykilhlutverkinu. Reyndu að sjá fyrir þér það sem aðalpersónan sá og ímynda þér hvernig henni leið.

3. HUGLEIÐUM

Hugsaðu vandlega um það sem þú lest og hvernig efnið á við um þig. (Sjá 5. grein.)

5. Hvað er hugleiðing og hvernig geturðu hugleitt?

5 (3) Hugleiðum. Að hugleiða þýðir að hugsa vandlega um það sem maður les og heimfæra það upp á sjálfan sig. Það hjálpar manni að tengja saman hugmyndir og fá dýpri skilning á efninu. Að lesa Biblíuna án þess að hugleiða er eins og að horfa á bitana í púsluspili án þess að raða þeim saman. Að hugleiða er eins og að raða bitunum saman til þess að sjá alla myndina. Þú getur spurt þig eftirfarandi spurninga til að hjálpa þér að hugleiða efnið: Hvernig leysti sögupersónan vandamálið? Hvernig hjálpaði Jehóva henni? Hvernig get ég notað það sem ég hef lært til að halda út í prófraunum?

4. NOTUM

Notaðu það sem þú lærir til að taka skynsamlegri ákvarðanir, öðlast meiri frið og styrkja trú þína. (Sjá 6. grein.)

6. Af hverju þurfum við að nota það sem við lærum?

6 (4) Notum. Jesús sagði að við værum eins og maður sem byggir hús sitt á sandi ef við notum ekki það sem við lærum. Hann vinnur hörðum höndum – en til einskis. Þegar flóð og stormur bylur á húsinu hrynur það. (Matt. 7:24–27) Á sama hátt er erfiði okkar til einskis ef við biðjum, beitum ímyndunaraflinu og hugleiðum en notum ekki það sem við lærum. Trú okkar verður þá ekki nógu sterk til að standast prófraunir eða ofsóknir. Ef við notum hins vegar það sem við lærum tökum við skynsamlegri ákvarðanir, við njótum meiri friðar og trú okkar verður sterkari. (Jes. 48:17, 18) Skoðum hvað við getum lært af atviki í lífi Davíðs konungs með því að nota þessi fjögur skref sem við höfum rætt um.

HVAÐ LÆRUM VIÐ AF DAVÍÐ KONUNGI?

7. Hvaða frásögu Biblíunnar ætlum við nú að skoða?

7 Hefur vinur þinn eða einhver í fjölskyldunni sært þig? Ef svo er væri gott fyrir þig að skoða söguna af því þegar Absalon, sonur Davíðs konungs, sveik föður sinn og reyndi að stela af honum konungdómnum. – 2. Sam. 15:5–14, 31; 18:6–14.

8. Hvað geturðu gert til að fá hjálp frá Jehóva?

8 (1) Biðjum. Með frásöguna í huga skaltu segja Jehóva frá því hvernig þér líður út af því hvernig komið var fram við þig. (Sálm. 6:7–10) Vertu nákvæmur í bæninni. Síðan skaltu biðja Jehóva að hjálpa þér að koma auga á meginreglur sem geta sýnt þér hvernig þú getur tekist á við þessar erfiðu aðstæður.

9. Lýstu í stuttu máli frásögunni af Davíð og Absalon.

9 (2) Ímyndum okkur. Sjáðu atburðina fyrir þér og reyndu að ímynda þér hvernig Davíð konungi hefur liðið. Absalon  sonur hans var búinn að vinna að því árum saman að fá þjóðina á sitt band. (2. Sam. 15:7) Þegar honum finnst hentugur tími til þess sendir hann njósnara um allan Ísrael til að búa fólkið undir að taka við honum sem konungi. Hann fær jafnvel Akítófel, náinn vin og ráðgjafa Davíðs, til að taka þátt í uppreisninni. Absalon lýsir yfir að hann sé konungur og reynir síðan að handsama og drepa Davíð, sem var ef til vill alvarlega veikur. (Sálm. 41:2–10) Davíð fréttir af því sem Absalon ætlar að gera og flýr frá Jerúsalem. Að lokum berst her Absalons við her Davíðs. Uppreisnarherinn tapar orustunni og Absalon sonur Davíðs er drepinn.

10. Hvernig hefði Davíð konungur getað brugðist við því sem henti hann?

10 Reyndu nú að ímynda þér hvernig Davíð hefur liðið þegar allt þetta gekk á. Hann elskaði Absalon og treysti Akítófel. En þeir sviku hann báðir. Þeir særðu tilfinningar hans og reyndu jafnvel að drepa hann. Davíð hefði getað grunað aðra vini sína um að hafa gengið í lið með Absalon og hætt að treysta þeim. Hann hefði getað hugsað aðeins um sjálfan sig og reynt að flýja landið einn. Og hann hefði getað misst móðinn. En Davíð gerði það ekki heldur sigraðist á þessum erfiðleikum. Hvernig gat hann það?

11. Hvernig brást Davíð við vandanum?

11 (3) Hugleiðum. Hvaða meginreglur komum við auga á í þessari frásögu? Tókstu eftir hvernig Davíð brást við vandanum? Hann var ekki gripinn skelfingu eða tók ákvarðanir í fljótfærni. Hann varð heldur ekki svo hræddur að hann gæti ekki ákveðið hvað hann ætti að gera. Davíð bað öllu heldur Jehóva að hjálpa sér. Hann leitaði líka hjálpar hjá vinum sínum. Og hann var fljótur að koma því í verk sem hann hafði ákveðið. Þótt hann væri sár varð hann ekki tortrygginn og bitur. Davíð hélt áfram að treysta Jehóva og vinum sínum.

12. Hvað gerði Jehóva til að hjálpa Davíð?

12 Hvernig hjálpaði Jehóva Davíð? Með því að kanna málið sjáum við að Jehóva gaf Davíð þann styrk sem hann þurfti til að halda út í erfiðleikunum. (Sálm. 3:1–9) Jehóva blessaði ákvarðanir Davíðs. Og hann studdi trúa vini hans þegar þeir börðust til að verja konung sinn.

13. Hvernig geturðu líkt eftir Davíð ef einhver sármóðgar þig? (Matteus 18:15–17)

13 (4) Notum. Spyrðu þig hvernig þú getir líkt eftir Davíð. Þú þarft að bregðast fljótt við til að leysa vandann. Þú getur fylgt ráðum Jesú í Matteusi kafla 18, beint eða óbeint eftir því sem við á. (Lestu Matteus 18:15–17.) En þú ættir ekki að taka ákvarðanir í fljótfærni þegar þú ert í uppnámi. Biddu Jehóva að hjálpa þér að halda rónni og að gefa þér þá visku sem þú þarft til að takast á við málið. Haltu áfram að treysta vinum þínum og þiggðu hjálp þeirra. (Orðskv. 17:17) En það sem mestu máli skiptir er að þú fylgir ráðunum sem Jehóva gefur þér í orði sínu. – Orðskv. 3:5, 6.

HVAÐ LÆRUM VIÐ AF PÁLI?

14. Í hvaða aðstæðum gæti 2. Tímóteusarbréf 1:12–16, 4:6–11 og 17–22 uppörvað þig?

14 Þarftu að þola andstöðu frá fjölskyldunni? Eða býrðu í landi þar sem starfsemi Votta Jehóva er bönnuð eða sætir verulegum hömlum? Ef svo er gæti verið uppörvandi fyrir þig að  lesa 2. Tímóteusarbréf 1:12–16, 4:6–11 og 17–22. * Páll var í fangelsi þegar hann skrifaði þennan hluta Biblíunnar.

15. Hvað geturðu beðið Jehóva um?

15 (1) Biðjum. Áður er þú lest þessi vers skaltu segja Jehóva frá vandamáli þínu og hvernig þér líður. Vertu nákvæmur í bæninni. Síðan skaltu biðja Jehóva að hjálpa þér að koma auga á meginreglur í frásögn Páls af erfiðleikum sínum sem geta sýnt þér hvernig þú getur tekist á við vandamál þitt.

16. Lýstu aðstæðum Páls í stuttu máli.

16 (2) Ímyndum okkur. Ímyndaðu þér að þú sért í sömu aðstæðum og Páll. Hann er í hlekkjum í fangelsi í Róm. Hann hefur áður verið í fangelsi en í þetta sinn veit hann að hann verður tekinn af lífi. Sumir félaga hans hafa yfirgefið hann og hann er líkamlega úrvinda. – 2. Tím. 1:15.

17. Hvernig hefði Páll getað brugðist við því sem henti hann?

17 Páll hefði getað einblínt á það sem var liðið og hugsað að hann hefði kannski ekki verið handtekinn ef hann hefði tekið öðruvísi ákvarðanir. Hann hefði getað orðið reiður út í mennina í skattlandinu Asíu sem yfirgáfu hann og tortrygginn í garð annarra vina sinna. En hann gerði það ekki. Hvernig gat hann haldið áfram að treysta vinum sínum og vona á Jehóva?

18. Hvernig brást Páll við prófraununum sem hann varð fyrir?

18 (3) Hugleiðum. Hugsaðu um hvernig Páll brást við prófraununum. Þó að hann vissi að hann ætti stutt eftir ólifað missti hann ekki sjónar á því sem mestu máli skiptir – að lofa Jehóva. Og hann hélt áfram að hugsa um hvernig hann gæti uppörvað aðra. Hann reiddi sig á Jehóva með því að biðja oft til hans. (2. Tím. 1:3) Í stað þess að hugsa of mikið um þá sem höfðu yfirgefið hann tjáði hann innilegt þakklæti sitt fyrir kærleiksríkan stuðning vina sinna sem hjálpuðu honum á ýmsan hátt. Páll hélt auk þess áfram að lesa og hugleiða orð Guðs. (2. Tím. 3:16, 17; 4:13) Og það sem mestu máli skipti var að hann hafði fullt traust á að Jehóva og Jesús elskuðu hann. Þeir höfðu ekki yfirgefið hann og hann var viss um að þeir myndu launa honum fyrir trúa þjónustu sína.

19. Hvernig hjálpaði Jehóva Páli?

19 Jehóva hafði varað Pál við að hann yrði ofsóttur vegna þess að hann var kristinn. (Post. 21:11–13) Hvernig hjálpaði Jehóva Páli? Hann bænheyrði Pál og gaf honum kraft. (2. Tím. 4:17) Páll var fullvissaður um að hann myndi fá launin sem hann hafði lagt svo mikið á sig til að fá. Jehóva fékk líka trúa vini Páls til að aðstoða hann.

20. Hvernig getum við líkt eftir trausti Páls eins og því er lýst í Rómverjabréfinu 8:38, 39?

20 (4) Notum. Spyrðu þig hvernig þú getir líkt eftir Páli. Rétt eins og Páll ættum við að reikna með að vera ofsótt vegna trúar okkar. (Mark. 10:29, 30) Við þurfum að treysta á Jehóva með því að leita til hans í bæn og viðhalda góðum námsvenjum til að geta verið trúföst í prófraunum. Og við megum aldrei gleyma að eitt af því mikilvægasta sem við getum gert er að lofa Jehóva. Við megum treysta því að Jehóva yfirgefi okkur aldrei og að enginn geti gert neitt til að koma í veg fyrir að hann elski okkur.  Lestu Rómverjabréfið 8:38, 39; Hebr. 13:5, 6.

LÆRUM AF ÖÐRUM BIBLÍUPERSÓNUM

21. Hvað hjálpaði Ayu og Hectori að sigrast á hindrunum?

21 Frásögur úr Biblíunni geta gefið okkur styrk í hvaða aðstæðum sem við erum. Aya, sem er brautryðjandasystir í Japan, segir að frásagan af Jónasi hafi til dæmis hjálpað sér að sigrast á óttanum við að boða trúna meðal almennings. Hector er unglingur í Indónesíu og foreldrar hans þjóna ekki Jehóva. Hann segir að frásagan af Rut hvetji sig til að vilja kynnast Jehóva og þjóna honum.

22. Hvernig geturðu haft sem mest gagn af kvikmyndum um biblíupersónur eða greinaröðinni „Líkjum eftir trú þeirra“?

22 Hvar getum við fundið frásögur af biblíupersónum til að styrkja trú okkar? Myndböndin okkar, „Leiklesnir biblíutextar“ og greinaröðin „Líkjum eftir trú þeirra“ geta blásið lífi í frásögur Biblíunnar. * Biddu Jehóva að hjálpa þér að koma auga á sérstök atriði sem þú getur nýtt þér áður en þú horfir á, hlustar á eða lest þetta vandaða efni. Sjáðu sjálfan þig í sporum aðalpersónunnar. Veltu fyrir þér því sem þessir trúföstu þjónar Jehóva gerðu og hvernig hann hjálpaði þeim að sigrast á erfiðleikum. Notaðu svo það sem þú lærir í þínum aðstæðum. Þakkaðu Jehóva fyrir þá hjálp sem hann veitir þér nú þegar. Og sýndu að þú kunnir að meta þá hjálp sem þú færð með því að leita leiða til að styðja og hvetja aðra.

23. Hvað lofar Jehóva að gera fyrir okkur í Jesaja 41:10, 13?

23 Líf okkar getur stundum verið erfitt í þessum heimi sem Satan stjórnar, jafnvel þannig að við vitum ekki hvað við eigum að gera. (2. Tím. 3:1) En við þurfum ekki að vera kvíðin eða hrædd. Jehóva veit hvað við erum að ganga í gegnum. Hann lofar að styðja okkur með sterkri hendi sinni þegar við hrösum. (Lestu Jesaja 41:10, 13) Við erum fullviss um að hann hjálpi okkur og við getum sótt styrk í Biblíuna til að sigrast á hvaða erfiðleikum sem er.

SÖNGUR 96 Bók Guðs er fjársjóður

^ gr. 5 Margar frásögur Biblíunnar sanna að Jehóva er annt um þjóna sína og hjálpar þeim í gegnum hvaða erfiðleika sem er. Í þessari grein er rætt um hvernig þú getur haft meira gagn af frásögum Biblíunnar sem þú lest í sjálfsnámi þínu.

^ gr. 2 Námsaðferðin sem bent er á hér er aðeins ein af mörgum. Aðrar tillögur að biblíunámsaðferðum er að finna í Efnislykli að ritum Votta Jehóva undir viðfangsefninu „Biblían“ og millifyrirsögninni „Að lesa og skilja það sem stendur í Biblíunni“.

^ gr. 14 Ekki ætti að lesa þessi vers í Varðturnsnámi safnaðarins.

^ gr. 22 Sjá „Líkjum eftir trú þeirra – menn og konur í Biblíunni“ á jw.org. (Farðu inn á BIBLÍAN OG LÍFIÐ > TRÚ Á GUÐ.)