Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 NÁMSGREIN 13

Sýnum hluttekningu í boðuninni

Sýnum hluttekningu í boðuninni

„Hann kenndi í brjósti um þá ... Og hann kenndi þeim margt.“ – MARK. 6:34.

SÖNGUR 70 Leitum að hinum verðugu

YFIRLIT *

1. Hvað er sérstaklega aðlaðandi í fari Jesú? Skýrðu svarið.

EITT af því sem er sérstaklega aðlaðandi í fari Jesú er geta hans til að skilja þá erfiðleika sem við ófullkomnir mennirnir þurfum að glíma við. Þegar Jesús var á jörð ,fagnaði hann með fagnendum‘ og ,grét með grátendum‘. (Rómv. 12:15) Til dæmis fylltist hann „fagnandi gleði heilags anda“ þegar 70 lærisveinar hans sneru aftur alsælir eftir vel heppnaða boðunarferð. (Lúk. 10:17-21) Við annað tækifæri „komst hann við, varð djúpt hrærður“ þegar hann sá hvaða áhrif dauði Lasarusar hafði á ástvini hans. – Jóh. 11:33.

2. Hvað gerði Jesú kleift að sýna fólki hluttekningu?

2 Hvað gerði þessum fullkomna manni kleift að vera svona miskunnsamur og umhyggjusamur í garð syndugra manna? Í fyrsta lagi elskaði Jesús fólk. Eins og minnst var á í greininni á undan hafði hann sérstakt ,yndi af mannanna börnum‘. (Orðskv. 8:31, Biblían 1981) Kærleikur til fólks var honum hvatning til að kynnast hugsunarhætti þess. Jóhannes postuli segir: „Hann vissi sjálfur hvað í manni býr.“ (Jóh. 2:25) Jesús bar umhyggju fyrir öðrum. Fólk skynjaði þennan kærleika og brást vel við boðskapnum um ríkið. Því betur sem við þroskum með okkur slíka umhyggju því betri skil getum við gert þjónustu okkar. – 2. Tím. 4:5.

3-4. (a) Hvernig lítum við á boðunina ef við berum umhyggju fyrir fólki? (b) Hvað er rætt í þessari grein?

3 Páll postuli vissi að honum bar skylda til að boða fagnaðarerindið, og það á líka við um okkur. (1. Kor. 9:16) En ef við berum umhyggju fyrir fólki lítum við ekki bara á  boðunina sem skyldu. Við viljum sanna að okkur sé annt um fólk og að okkur langi til að hjálpa því eftir fremsta megni. Við vitum að „sælla er að gefa en þiggja“. (Post. 20:35) Ef við höfum það skýrt í huga verður boðunin ánægjulegri.

4 Í þessari grein ræðum við hvernig við getum sýnt hluttekningu í boðuninni. Fyrst skoðum við hvernig Jesús leit á fólk og hvað við getum lært af því. Síðan könnum við á hvaða fjóra vegu við getum líkt eftir honum. – 1. Pét. 2:21.

JESÚS SÝNDI HLUTTEKNINGU Í BOÐUNINNI

Jesús flutti fólki hughreystandi boðskap af því að hann fann til með því. (Sjá 5. og 6. grein.)

5-6. (a) Hverjum sýndi Jesús hluttekningu? (b) Af hverju kenndi Jesús í brjósti um fólkið sem hann boðaði fagnaðarerindið, eins og spáð var í Jesaja 61:1, 2?

5 Hvernig sýndi Jesús hluttekningu? Eitt sinn voru hann og lærisveinarnir þreyttir eftir að hafa boðað fagnaðarerindið sleitulaust. Þeir höfðu ekki einu sinni haft „næði til að matast“. Jesús fór því með lærisveinunum á óbyggðan stað svo að þeir gætu verið einir og hvílt sig aðeins. En stór hópur manna hljóp á undan þangað sem þeir ætluðu. Hvernig brást Jesús við þegar hann kom á staðinn? „Hann kenndi í brjósti um þá * því að þeir voru sem sauðir er engan hirði hafa. Og hann kenndi þeim margt.“ – Mark. 6:30-34.

6 Af hverju kenndi Jesús í brjósti um fólkið? Hann sá að það var „sem sauðir er engan hirði hafa“. Kannski sá Jesús að sumir voru fátækir og unnu baki brotnu til að sjá fyrir fjölskyldunni. Og ef til vill voru einhverjir að takast á við ástvinamissi. Ef sú var raunin hefur Jesús líklega getað sett sig í spor þeirra. Eins og rætt var í greininni á undan hafði hann væntanlega sjálfur upplifað suma þessara erfiðleika. Honum var annt um fólk og hann fann sig knúinn til að flytja því hughreystandi boðskap. – Lestu Jesaja 61:1, 2.

7. Hvernig getum við líkt eftir Jesú?

 7 Hvað lærum við af fordæmi Jesú? Við erum líka umkringd fólki sem er eins og „sauðir er engan hirði hafa“ og glímir við ýmsa erfiðleika. Við höfum það sem fólk þarf á að halda – boðskapinn um ríki Guðs. (Opinb. 14:6) Við líkjum eftir meistara okkar og boðum fagnaðarerindið vegna þess að við kennum í brjósti um „bágstadda og snauða“. (Sálm. 72:13) Við finnum til með fólki og viljum gera eitthvað til að hjálpa því.

HVERNIG GETUM VIÐ SÝNT HLUTTEKNINGU?

Hugsaðu um þarfir hvers og eins. (Sjá 8. og 9. grein.)

8. Hver er ein leið til að sýna hluttekningu í boðuninni? Lýstu með dæmi.

8 Hvað getur hjálpað okkur að sýna þeim hluttekningu sem við hittum í boðuninni? Við viljum setja okkur í spor þeirra og koma fram við þá eins og við viljum að komið sé fram við okkur. * (Matt. 7:12) Skoðum á hvaða fjóra vegu við getum gert það. Í fyrsta lagi þurfum við að hafa þarfir hvers og eins í huga. Þegar við boðum fagnaðarerindið höfum við svipað hlutverk og læknir. Góður læknir hugsar um þarfir hvers sjúklings fyrir sig. Hann spyr spurninga og hlustar vandlega á sjúklinginn lýsa líðan sinni og einkennum. Hann mælir ekki með fyrstu meðferðinni sem honum kemur til hugar heldur gefur sér tíma til að fylgjast með einkennum sjúklingsins. Þannig getur hann ráðlagt sjúklingnum rétta meðferð. Að sama skapi ættum við ekki alltaf að nota sömu aðferðina í boðuninni. Við ættum öllu heldur að taka mið af aðstæðum og skoðunum hvers og eins.

9. Hverju ættum við ekki að gera ráð fyrir? Skýrðu svarið.

9 Þegar þú hittir einhvern í boðuninni skaltu ekki gera ráð fyrir að þú þekkir aðstæður hans eða vitir hverju hann trúir og af hverju hann trúir því. (Orðskv. 18:13) Spyrðu hann nærgætinna spurninga til að draga fram skoðanir hans. (Orðskv. 20:5) Ef það er viðeigandi þar sem þú býrð gætirðu spurt um vinnuna hans, fjölskyldu, bakgrunn og viðhorf. Þegar við gefum fólki tækifæri til að tjá sig skiljum við betur hvers vegna það þarf á fagnaðarerindinu að halda. Þannig getum við sýnt því hluttekningu og brugðist við í samræmi við þarfir þess, rétt eins og Jesús gerði. – Samanber 1. Korintubréf 9:19-23.

Reyndu að ímynda þér aðstæður þeirra sem þú hittir. (Sjá 10. og 11. grein.)

10-11. Á hvaða aðra vegu getum við sýnt hluttekningu, samanber 2. Korintubréf 4:7, 8? Lýstu með dæmi.

10 Í öðru lagi skulum við reyna að ímynda okkur hvernig líf þeirra sé. Við getum skilið aðstæður þeirra að einhverju  leyti enda erum við ekki ónæm fyrir þeim erfiðleikum sem allt ófullkomið fólk þarf að glíma við. (1. Kor. 10:13) Við vitum að lífið í þessum heimi getur verið mjög erfitt. Við getum aðeins haldið út með hjálp Jehóva. (Lestu 2. Korintubréf 4:7, 8.) En hugsaðu um alla þá sem eiga ekki Jehóva að vini. Það hlýtur að vera mjög erfitt að lifa í þessum heimi án hans hjálpar. Við finnum til með þeim líkt og Jesús og við finnum okkur knúin til að færa þeim „gleðitíðindin“. – Jes. 52:7.

11 Tökum sem dæmi bróður að nafni Sergej. Áður en hann kynntist sannleikanum var hann mjög feiminn og átti erfitt með að tjá sig. Dag einn þáði hann biblíunámskeið. „Í námi mínu lærði ég að kristnum mönnum ber skylda til að segja öðrum frá trú sinni,“ segir Sergej. „Ég var alveg viss um að ég gæti það aldrei.“ En hann hugsaði til þeirra sem höfðu ekki enn kynnst sannleikanum og hann gat rétt ímyndað sér hvernig líf þeirra væri án Jehóva. „Það sem ég lærði veitti mér mikla gleði og innri frið,“ segir hann. „Ég vissi að fleiri þyrftu að heyra þessi sannindi.“ Sergej fann sífellt meira til með fólki og það veitti honum hugrekki til að boða fagnaðarerindið. Hann segir: „Mér til mikillar undrunar veitti það mér meira sjálfsöryggi að segja öðrum frá Biblíunni. Það styrkti líka mína eigin trú.“ *

Það gæti tekið suma tíma að taka framförum í trúnni. (Sjá 12. og 13. grein.)

12-13. Hvers vegna þurfum við að vera þolinmóð við þá sem við kennum í boðuninni? Lýstu með dæmi.

12 Í þriðja lagi skulum við vera þolinmóð við þá sem við kennum. Höfum í huga að þeir hafa kannski aldrei hugleitt sum þeirra biblíusanninda sem við þekkjum mjög vel. Og mörgum er ákaflega annt um þá trú sem þeir hafa. Þeir líta kannski svo á að trúarskoðanir þeirra  séu stór hluti af menningu þeirra og samfélagi og að þær bindi fjölskylduna einingarböndum. Hvernig getum við hjálpað þeim?

13 Hugsum um eftirfarandi samlíkingu: Hvað er gert þegar skipta þarf út gamalli og óstöðugri brú? Yfirleitt er byggð ný brú meðan gamla brúin er enn í notkun. Þegar nýja brúin er tilbúin er hægt að rífa gömlu brúna niður. Áður en fólk segir skilið við „gamlar“ trúarskoðanir sem eru því hjartfólgnar gætum við sömuleiðis fyrst þurft að hjálpa því að meta að verðleikum „ný“ sannindi – kenningar Biblíunnar sem það þekkti ekki áður. Þá er það fyrst reiðubúið að segja skilið við fyrri skoðanir. Það getur tekið tíma að hjálpa fólki að gera slíkar breytingar. – Rómv. 12:2.

14-15. Hvernig getum við hjálpað þeim sem vita lítið eða ekkert um vonina um eilíft líf í paradís á jörð? Nefndu dæmi.

14 Ef við erum þolinmóð við þá sem við hittum í boðuninni gerum við ekki ráð fyrir að þeir skilji eða taki við sannleika Biblíunnar í fyrsta sinn sem þeir heyra hann. Hluttekning er okkur hvatning til að gefa þeim tíma til að hugsa vandlega um það sem Biblían segir. Hvernig getum við til að mynda hjálpað fólki að skilja vonina um eilíft líf í paradís á jörð? Margir vita lítið eða ekkert um þessa kenningu Biblíunnar. Þeir trúa kannski að dauðinn sé endir alls. Eða kannski halda þeir að allt gott fólk fari til himna. Hvernig getum við hjálpað þeim?

15 Tökum eftir hvaða áhrifaríku aðferð bróðir nokkur notar. Fyrst les hann 1. Mósebók 1:28. Síðan spyr hann húsráðandann hvar og við hvaða aðstæður Guð vildi að fólk byggi. Flestir svara: „Á jörðinni við góðar aðstæður.“ Síðan les bróðirinn Jesaja 55:11 og spyr hvort fyrirætlun Guðs hafi breyst. Oft svarar húsráðandinn neitandi. Að lokum les bróðirinn Sálm 37:10 og 11 og spyr hvernig framtíð mannanna verði. Með því að nota Biblíuna á þennan hátt hefur hann leitt mörgum fyrir sjónir að það sé enn þá vilji Guðs að gott fólk lifi að eilífu í paradís á jörð.

Lítið góðverk, eins og að senda uppörvandi bréf, getur haft mikil áhrif. (Sjá 16. og 17. grein.)

16-17. Hvernig getum við farið eftir ráðinu í Orðskviðunum 3:27 og sýnt hluttekningu? Nefndu dæmi.

16 Í fjórða lagi skulum við leita leiða til að sýna umhyggju. Bönkuðum við til dæmis upp á hjá húsráðanda á óhentugum tíma? Við getum beðist afsökunar og boðist til að koma aftur þegar betur stendur á. Þarf húsráðandi aðstoð við eitthvað smávægilegt? Eða á hann ekki heimangengt og þarf einhvern til að sendast fyrir sig? Við slík tækifæri gætum við rétt fram hjálparhönd. – Lestu Orðskviðina 3:27.

 17 Systir ein gerði góðverk sem virtist kannski smávægilegt en hafði þó mikil áhrif. Hluttekning knúði hana til að skrifa bréf til fjölskyldu sem hafði misst barnið sitt. Í bréfinu voru nokkur hughreystandi biblíuvers. Hvernig brást fjölskyldan við? „Mér leið hræðilega í gær,“ skrifaði syrgjandi móðirin. „Þú getur ekki ímyndað þér hve mikil áhrif bréfið hafði á okkur. Ég get ekki þakkað þér nægilega eða lýst því hversu mikils virði það var okkur. Ég hlýt að hafa lesið bréfið oftar en 20 sinnum í gær. Ég átti ekki orð yfir hve fallegt, kærleiksríkt og uppörvandi það var. Þakka þér innilega fyrir.“ Það hefur án efa góð áhrif þegar við setjum okkur í spor þeirra sem þjást og gerum eitthvað til að hjálpa þeim.

SJÁÐU HLUTVERK ÞITT Í RÉTTU LJÓSI

18. Með hliðsjón af 1. Korintubréfi 3:6, 7, hvernig ættum við að líta á hlutverk okkar í boðuninni og hvers vegna?

18 Við viljum auðvitað sjá hlutverk okkar í boðuninni í réttu ljósi. Við getum átt þátt í að hjálpa öðrum að kynnast Guði. En það sem við gerum er ekki það sem skiptir mestu máli. (Lestu 1. Korintubréf 3:6, 7.) Það er Jehóva sem dregur fólk að sannleikanum. (Jóh. 6:44) Þegar öllu er á botninn hvolft er það hjartalag hvers og eins sem ræður því hvernig hann bregst við fagnaðarerindinu. (Matt. 13:4-8) Höfum í huga að fæstir brugðust vel við boðskap Jesú – og hann var besti kennari sem uppi hefur verið. Við ættum því ekki að missa móðinn þótt fáir þeirra sem við reynum að hjálpa gefi boðskapnum gaum.

19. Hvað hlýst af því að sýna hluttekningu í boðuninni?

19 Það hefur góð áhrif að sýna hluttekningu í boðuninni. Þannig höfum við meiri ánægju af henni og finnum að sælla er að gefa en þiggja. Og þá auðveldum við þeim sem ,hneigjast til eilífs lífs‘ að taka við fagnaðarerindinu. (Post. 13:48, NW) „Þess vegna skulum við, meðan tími er til, gera öllum gott.“ (Gal. 6:10) Þá njótum við gleðinnar sem hlýst af því að heiðra föður okkar á himnum. – Matt. 5:16.

SÖNGUR 64 Vinnum glöð að uppskerunni

^ gr. 5 Við höfum meiri ánægju af boðuninni þegar við sýnum hluttekningu og þá er líklegra að fólk verði móttækilegt fyrir boðskapnum. Hvers vegna? Í þessari grein skoðum við það sem við getum lært af Jesú. Við ræðum einnig á hvaða fjóra vegu við getum sýnt hluttekningu þeim sem við hittum í boðuninni.

^ gr. 5 ORÐASKÝRING: Að kenna í brjósti um einhvern merkir að bera umhyggju fyrir einhverjum sem þjáist eða hefur sætt illri meðferð. Slíkar tilfinningar geta knúið okkur til að gera allt sem við getum til að hjálpa öðrum.

^ gr. 8 Sjá greinina „Fylgjum gullnu reglunni í boðunarstarfinu“ í Varðturninum 15. maí 2014.

^ gr. 11 Sjá myndskeiðið „Misstu aldrei vonina! – Sergej Botankín“. Farðu inn á Sjónvarp Votta Jehóva og veldu VIÐTÖL OG FRÁSÖGUR > SANNLEIKURINN BREYTIR LÍFI FÓLKS.