Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Góðvild – hvernig geturðu tamið þér hana?

Góðvild – hvernig geturðu tamið þér hana?

ÖLL viljum við vera talin góðar manneskjur. En það er hægara sagt en gert að sýna góðvild í heimi nútímans. Margir eru „andsnúnir öllu góðu“. (2. Tím. 3:3) Þeir setja sér eigin mælikvarða á rétt og rangt og „kalla hið illa gott og hið góða illt“. (Jes. 5:20) Það getur líka verið erfitt að sýna góðvild ef við höfum orðið fyrir slæmri reynslu og þar að auki erum við öll ófullkomin. Okkur gæti liðið eins og systur nokkurri sem hefur þjónað Jehóva áratugum saman en viðurkennir samt: „Ég á erfitt með að trúa að ég geti verið góð manneskja.“

Sem betur fer getum við öll tamið okkur góðvild. Góðvild er hluti af ávexti heilags anda Guðs, en andi hans er kröftugri en nokkur innri eða ytri áhrif sem gætu gert okkur erfitt fyrir að sýna þennan eiginleika. Lítum nánar á hvað góðvild er og hvernig við getum sýnt hana í ríkari mæli.

HVAÐ ER GÓÐVILD?

Í stuttu máli sagt er góðvild það að vera góður. Það felur í sér að hafa góða siðferðiskennd og vera laus við illsku og tilgerð. Sá sem er góðviljaður leitast alltaf við að hjálpa öðrum og gera þeim gott.

Þú hefur ábyggilega tekið eftir að sumir eru boðnir og búnir að gera góðverk fyrir fjölskyldu sína og vini. En við ættum ekki að láta þar við sitja. Auðvitað getur ekkert okkar sýnt fullkomna góðvild öllum stundum enda segir í Biblíunni: „Enginn réttlátur maður er til á jörðinni sem gert hefur gott eitt og aldrei syndgað.“ (Préd. 7:20) Páll postuli viðurkenndi í hreinskilni: „Ég veit að ekki býr neitt gott í mér, það er í spilltu eðli mínu.“ (Rómv. 7:18) Það er því rökrétt að við leitum til skapara okkar, uppsprettu góðvildarinnar, ef við viljum tileinka okkur þennan eiginleika.

JEHÓVA ER GÓÐUR

Jehóva Guð setur mælikvarðann á hvað er gott. Í Biblíunni segir um hann: „Þú ert góður og gerir vel, kenn mér lög þín.“ (Sálm. 119:68) Í versinu er minnst á tvær hliðar á góðvild Jehóva. Skoðum þær nánar.

Jehóva er góður. Góðvild er óaðskiljanlegur hluti af persónuleika Jehóva. Sjáum hvað gerðist þegar Jehóva sagði við Móse: „Ég mun sjálfur láta allan ljóma minn [alla góðvild mína, NW] líða fram hjá þér.“ Jehóva sýndi Móse dýrð sína, þar á meðal góðvild sína. Móse heyrði þá rödd sem lýsti Jehóva á þennan hátt: „Drottinn, Drottinn er miskunnsamur og náðugur Guð, seinn til reiði, gæskuríkur og trúfastur. Hann sýnir þúsundum gæsku, fyrirgefur misgjörðir, afbrot og syndir en lætur hinum seka ekki óhegnt.“ (2. Mós. 33:19; 34:6, 7) Af þessu er ljóst að Jehóva er góður á allan hátt. Þótt Jesús hafi verið eins góður og nokkur maður getur verið sagði hann: „Enginn er góður nema Guð einn.“ – Lúk. 18:19.

Sköpunarverkið ber vitni um góðvild Jehóva.

Verk Jehóva eru góð. Allt sem Jehóva gerir sýnir að hann er góður. „Drottinn er öllum góður og miskunn hans hvílir yfir allri sköpun hans.“ (Sálm. 145:9) Þar sem Jehóva er góður  og óhlutdrægur gefur hann öllum mönnum líf og það sem þeir þurfa til að viðhalda því. (Post. 14:17) Hann sýnir líka góðvild með því að fyrirgefa okkur. Sálmaskáldið skrifaði: „Þú, Drottinn, ert góður og fús til að fyrirgefa.“ (Sálm. 86:5) Við getum treyst því að Jehóva „synjar þeim engra gæða sem ganga í grandvarleik“. – Sálm. 84:12.

„LÆRIÐ AÐ GERA GOTT“

Við erum sköpuð eftir Guðs mynd. Það þýðir að við erum fær um að vera góð og gera gott. (1. Mós. 1:27) Í orði Guðs eru þjónar hans engu að síður hvattir til að ,læra að gera gott‘. (Jes. 1:17) Hvernig getum við tamið okkur þennan aðlaðandi eiginleika? Skoðum þrjár leiðir til þess.

Í fyrsta lagi getum við beðið um heilagan anda en hann getur hjálpað okkur að sýna ósvikna góðvild. (Gal. 5:22) Já, andi Guðs getur hjálpað okkur að elska það sem er gott og hafna því sem er illt. (Rómv. 12:9) Biblían bendir reyndar á að Jehóva geti styrkt okkur „í sérhverju góðu verki og orði“. – 2. Þess. 2:16, 17.

Í öðru lagi ættum við að lesa innblásið orð Guðs. Þannig getur Jehóva kennt okkur „sérhverja braut hins góða“ og gert okkur hæf „til sérhvers góðs verks“. (Orðskv. 2:9; 2. Tím. 3:17) Það mætti líkja hjarta okkar við fjársjóðskistu. Þegar við lesum í Biblíunni og hugleiðum efnið fyllum við hjarta okkar af því sem er gott, rétt eins og við værum að fylla fjársjóðskistu af verðmætum sem gagnast okkur síðar meir. – Lúk. 6:45; Ef. 5:9.

Í þriðja lagi gerum við okkar besta til að ,líkja eftir því sem gott er‘. (3. Jóh. 11) Við höfum góðar fyrirmyndir í Biblíunni til að líkja eftir. Jehóva og Jesús eru að sjálfsögðu bestu fyrirmyndir okkar. En við getum líka hugleitt fordæmi annarra sem voru þekktir fyrir að sýna góðvild. Tabíþa og Barnabas eru dæmi um það. (Post. 9:36; 11:22-24) Það getur verið gott að skoða það sem er sagt um þau í Biblíunni. Taktu sérstaklega eftir hvað þau gerðu til að hjálpa öðrum. Hugleiddu hvað þú getur gert til að hjálpa einhverjum í fjölskyldunni eða söfnuðinum. Taktu líka eftir hvaða blessun þau hlutu fyrir góðvild sína. Þú getur einnig notið góðs af því að sýna góðvild.

Við getum líka hugleitt fordæmi þeirra sem sýna góðvild nú á dögum. Hugsaðu til dæmis um öldungana í söfnuðinum sem leggja hart að sér og elska það sem er gott. Ekki má heldur gleyma trúföstum systrum sem  ,kenna gott‘ með orðum sínum og verkum. (Tít. 1:8; 2:3, Biblían 1981) Systir að nafni Roslyn segir: „Vinkona mín gerir sér far um að aðstoða og hvetja aðra í söfnuðinum. Hún hugsar um aðstæður þeirra og gefur þeim oft litlar gjafir eða hjálpar þeim á aðra vegu. Mér finnst hún virkilega góð manneskja.“

Jehóva hvetur þjóna sína til að ,leita hins góða‘. (Amos 5:14) Að gera það auðveldar okkur ekki aðeins að elska mælikvarða hans á það sem er gott heldur er það okkur líka hvatning til að gera það sem er gott.

Við reynum að vera góð og gera gott

Við ættum ekki að hugsa sem svo að við þurfum að gera eitthvað stórkostlegt eða færa miklar fórnir til að sýna góðvild. Listamaður málar ekki andlitsmynd með einni eða tveim stórum pensilstrokum. Öllu heldur notar hann margar smáar strokur. Að sama skapi birtist góðvild okkar í mörgum litlum góðverkum.

Í Biblíunni erum við hvött til að vera „reiðubúin“ til að gera öðrum gott. (Tít. 3:1) Með því að vera vakandi fyrir þörfum náungans getum við komið auga á leiðir til að gera „það sem honum er til góðs og til uppbyggingar“. (Rómv. 15:2) Það getur falið í sér að gefa af því sem við eigum. (Orðskv. 3:27) Við gætum boðið einhverjum heim í einfalda máltíð eða til að njóta uppbyggilegs félagsskapar. Ef við vitum að einhver er veikur getum við sent honum kort, heimsótt hann eða slegið á þráðinn. Já, við getum komið auga á mörg tækifæri til að segja það sem er „gott til uppbyggingar, þar sem þörf gerist, til þess að það verði til góðs þeim sem heyra“. – Ef. 4:29.

Líkt og Jehóva leggjum við okkur fram um að gera öllum gott. Þess vegna förum við ekki í manngreinarálit. Ein besta leiðin til að sýna það er að boða öllum fagnaðarerindið um ríkið. Við leitumst jafnvel við að gera þeim gott sem virðast hata okkur, eins og Jesús sagði okkur að gera. (Lúk. 6:27) Það er aldrei rangt að vera vingjarnleg og góð við aðra því að gegn slíku eru engin lög. (Gal. 5:22, 23) Við heiðrum Guð með góðri hegðun okkar þrátt fyrir mótlæti eða raunir, og þannig gætum við laðað aðra að sannleikanum. – 1. Pét. 3:16, 17.

ÞAÐ VEITIR UMBUN AÐ SÝNA GÓÐVILD

,Góður maður mettast af verkum sínum.‘ (Orðskv. 14:14, Biblían 1981) Hvernig þá? Þegar við erum góð við aðra er líklegra að þeir komi vel fram við okkur á móti. (Orðskv. 14:22) Og þó að þeir geri það ekki ættum við að halda áfram að gera þeim gott. Þá má vera að við náum að „bræða“ hjörtu þeirra þannig að viðhorf þeirra og framkoma breytist til hins betra. – Rómv. 12:20, NW, neðanmáls.

Við höfum líka sjálf gagn af því að segja skilið við ranga breytni og gera það sem er gott. Margir geta staðfest það. Tökum Nancy sem dæmi. „Á uppvaxtarárunum var ég stjórnlaus, siðlaus og ósvífin,“ viðurkennir hún. „En ég varð hamingjusamari þegar ég kynntist mælikvarða Guðs á það sem er gott og fór að lifa í samræmi við hann. Nú hef ég sjálfsvirðingu og get borið höfuðið hátt.“

Mikilvægasta ástæðan fyrir því að temja sér góðvild er sú að það gleður Jehóva. Hann sér það sem við gerum þótt aðrir taki kannski ekki eftir því. Hann tekur eftir öllum góðum verkum okkar og hugsunum. (Ef. 6:7, 8) Hvað hlýst af því? „Hinn góði hlýtur velþóknun Drottins.“ (Orðskv. 12:2) Temjum okkur því góðvild. „Vegsemd, heiður og frið hlýtur hver sá er gerir hið góða,“ lofar Jehóva. – Rómv. 2:10.