Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Hlýðið á aga, svo að þér verðið vitrir“

„Hlýðið á aga, svo að þér verðið vitrir“

„Þér yngismenn ... Hlýðið á aga, svo að þér verðið vitrir.“ – ORÐSKV. 8:32, 33, Biblían 1981.

SÖNGVAR: 56, 89

1. Hvernig öflum við okkur visku og hvernig njótum við góðs af því?

JEHÓVA er uppspretta visku og hann deilir henni örlátlega með öðrum. Í Jakobsbréfinu 1:5 segir: „Ef einhvern mann í ykkar hópi brestur visku, þá biðji hann Guð sem gefur öllum örlátlega og átölulaust.“ Við öflum okkur visku frá Guði meðal annars með því að þiggja ögun hans. Þessi viska getur verndað okkur siðferðilega og í trúnni. (Orðskv. 2:10-12) Þannig ,látum við kærleika Guðs varðveita okkur‘ og getum haft von um eilíft líf. – Júd. 21.

2. Hvernig getum við lært að meta aga Guðs?

2 Vegna syndugra tilhneiginga okkar, uppeldis og annarra ástæðna eigum við þó erfitt með að þiggja aga og sjá hann í réttu ljósi. Við lærum betur að meta aga þegar við finnum fyrir gagninu af honum en þannig fáum við staðfestingu á því hve heitt Guð elskar okkur. Í Orðskviðunum 3:11, 12 segir: „Sonur minn, hafnaðu ekki leiðsögn Drottins ... Drottinn agar þann sem hann elskar.“ Gleymum aldrei að Jehóva ber hag okkar fyrir brjósti. (Lestu Hebreabréfið 12:5-11.) Þar sem Guð gerþekkir okkur er aginn, sem hann veitir okkur, alltaf viðeigandi og í réttum mæli. Skoðum nú fjórar hliðar agans: (1) sjálfsaga, (2) aga sem foreldrar veita, (3) aga innan safnaðarins  og (4) nokkuð sem er verra en sársaukinn sem hlýst af aga.

SJÁLFSAGI ER MERKI UM VISKU

3. Hvernig getur barn þroskað með sér sjálfsaga? Lýstu með dæmi.

3 Sjálfsagi felur í sér að hafa stjórn á sjálfum sér og bæta þannig hegðun sína og hugsun. Sjálfsagi er ekki meðfæddur. Við þurfum að tileinka okkur hann. Lýsum því með dæmi: Þegar barn lærir að hjóla styður foreldri þess yfirleitt við hjólið til að halda því stöðugu. Eftir því sem barnið nær betra jafnvægi sleppir foreldrið takinu smátt og smátt. Foreldrið sleppir síðan alveg þegar barnið getur sjálft haldið jafnvægi. Þegar foreldrar sýna stöðugleika og þolinmæði og ala börn sín upp „með aga og umvöndun Drottins“ hjálpa þeir börnunum að sama skapi að þroska með sér sjálfsaga og visku. – Ef. 6:4, Biblían 1981.

4, 5. (a) Hvers vegna er sjálfsagi mikilvægur hluti af „hinum nýja manni“? (b) Hvers vegna ættum við ekki að gefast upp á sjálfum okkur, jafnvel þótt við ,föllum sjö sinnum‘?

4 Hið sama á við um þá sem kynnast Jehóva á fullorðinsaldri. Þeir gætu að vísu nú þegar hafa þroskað með sér sjálfsaga að vissu marki. En hvað andlegu málin varðar eru þeir óþroskaðir fyrst um sinn. Þeir geta þó jafnt og þétt tekið út þroska jafnhliða því að íklæðast „hinum nýja manni“ og reyna að líkja eftir Kristi. (Ef. 4:23, 24) Sjálfsagi er mikilvægur þáttur í því ferli. Þannig lærir maður að „afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum“. – Tít. 2:12.

5 Okkur hættir samt öllum til að syndga. (Préd. 7:20) En þó að okkur verði eitthvað á þýðir það ekki endilega að við séum alveg vonlaus eða að okkur skorti allan sjálfsaga. „Sjö sinnum fellur hinn réttláti og stendur upp aftur,“ segir í Orðskviðunum 24:16. Hvað gerir okkur kleift að ,standa upp aftur‘? Við gerum það ekki í eigin mætti, heldur þurfum við á anda Guðs að halda. (Lestu Filippíbréfið 4:13.) Sjálfsagi er einmitt hluti af ávexti andans.

6. Hvernig getum við orðið duglegri biblíunemendur? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

6 Innilegar bænir, biblíunám og hugleiðing eru líka mikilvægir liðir í að þroska með sér sjálfsaga. En hvað ef þér finnst erfitt að stunda biblíunám? Þér finnst þú kannski ekki vera mikill námshestur. Hafðu þá í huga að Jehóva hjálpar þér ef þú leyfir honum það. Hann getur hjálpað þér að glæða með þér löngun til að sækja í orð hans. (1. Pét. 2:2) Byrjaðu á því að biðja Jehóva um sjálfsaga til að stunda biblíunám. Breyttu síðan í samræmi við bænir þínar. Fyrst um sinn gætirðu haft námsstundirnar frekar stuttar. Með tímanum verður námið bæði auðveldara og ánægjulegra. Þú lærir að hafa yndi af að hugleiða dýrmætar hugsanir Jehóva í ró og næði. – 1. Tím. 4:15.

7. Hvernig getur sjálfsagi hjálpað okkur að ná andlegu markmiði?

7 Sjálfsagi hjálpar okkur að ná andlegum markmiðum. Tökum sem dæmi fjölskyldumann sem fann að eldmóðurinn í þjónustu Jehóva fór dvínandi. Hann ákvað að setja sér það markmið að gerast brautryðjandi. Hann las greinar um það í blöðunum okkar og gerði það að bænarefni en það styrkti samband hans við Jehóva. Hann sótti líka um aðstoðarbrautryðjandastarf þegar hann gat. Hver var árangurinn? Þrátt fyrir ýmsar hindranir tókst honum að einbeita sér að markmiði sínu og varð að lokum brautryðjandi.

 ÖLUM BÖRNIN UPP MEÐ AGA JEHÓVA

Börn fæðast ekki með visku til að greina rétt frá röngu. Þau þurfa að læra það. (Sjá 8. grein.)

8-10. Hvað getur hjálpað kristnum foreldrum að ala börn sín upp þannig að þau vilji þjóna Jehóva? Lýstu með dæmi.

8 Jehóva hefur falið foreldrum dýrmætt verkefni – að ala börnin sín upp „með aga og umvöndun Drottins“. (Ef. 6:4) Það er krefjandi verkefni, sérstaklega í heimi nútímans. (2. Tím. 3:1-5) Börn fæðast auðvitað ekki með visku til að greina rétt frá röngu. Samviskan er meðfædd en hana þarf að þroska eða aga. (Rómv. 2:14, 15) Biblíuskýringarrit bendir á að gríska orðið, sem þýtt er „agi“, megi einnig þýða „barnauppeldi“.

9 Börnum, sem fá kærleiksríkan aga, finnst þau yfirleitt vera örugg. Þau læra að frelsinu eru takmörk sett og að ákvörðunum og hegðun fylgja afleiðingar, annaðhvort góðar eða slæmar. Það er því ákaflega mikilvægt að kristnir foreldrar leiti leiðsagnar Jehóva. Gleymum ekki að hugmyndir manna um barnauppeldi eru mismunandi milli menningarheima og frá einni kynslóð til annarrar. Þegar foreldrar reiða sig á visku Guðs þurfa þeir hvorki að geta sér til um hvað þeir eiga að gera né treysta á reynslu eða hugmyndir manna.

10 Við getum dregið lærdóm af fordæmi Nóa. Nói gat ekki reitt sig á fyrri reynslu þegar Jehóva fól honum að smíða örkina. Hann hafði aldrei áður smíðað örk. Hann þurfti því að reiða sig á Jehóva og ,gera allt eins og hann bauð honum‘. (1. Mós. 6:22) Hver var útkoman? Nóa tókst vel til í fyrstu tilraun, og þannig þurfti það líka að vera. Honum tókst líka vel til í fjölskyldulífinu og í raun var það af sömu ástæðu – hann treysti á visku Guðs. Hann var duglegur að kenna börnum sínum og setti þeim gott fordæmi, en það var síður en svo auðvelt í þeim illa heimi sem var við lýði fyrir flóðið. – 1. Mós. 6:5.

11. Hve miklu máli skiptir að foreldrar leggi sig alla fram við barnauppeldið?

11 Hvernig getið þið foreldrar ,gert allt eins og Guð býður ykkur‘? Hlustið á hann. Látið hann leiðbeina ykkur í barnauppeldinu með orði sínu og leiðbeiningunum sem við fáum fyrir milligöngu safnaðar hans. Þegar fram líða stundir eiga börnin eflaust eftir að þakka ykkur fyrir að hafa gert það. Bróðir nokkur skrifaði: „Ég er fullur þakklætis fyrir það hvernig foreldrar mínir ólu mig upp. Þau gerðu sitt besta til að ná til hjartans. Þau eiga stóran þátt í því að ég skyldi taka framförum í trúnni.“ En sum börn yfirgefa Jehóva þó að foreldrarnir leggi sig alla fram. Foreldrar, sem hafa reynt sitt besta til að láta sannleikann ná til hjartna barnanna, geta engu að síður haft góða samvisku. Þeir geta líka vonað að barnið, sem hefur villst af leið, snúi einn daginn aftur „heim“ til Jehóva.

12, 13. (a) Hvernig geta kristnir foreldrar verið hlýðnir Guði ef barni þeirra er vikið úr söfnuðinum? (b) Hvernig var það fjölskyldu nokkurri til góðs að foreldrarnir skyldu vera Jehóva hlýðnir?

 12 Eitt af því sem reynir hvað mest á hlýðni sumra foreldra snýst um samband þeirra við barn sem hefur verið vikið úr söfnuðinum. Dóttur hjóna nokkurra var vikið úr söfnuðinum og flutti að heiman. Móðirin viðurkennir: „Ég reyndi að finna afsakanir í ritunum okkar fyrir því að geta varið tíma með dóttur minni og dótturdóttur.“ Hún bætir við: „En maðurinn minn leiddi mér vingjarnlega fyrir sjónir að dóttir okkar væri ekki lengur í okkar höndum og að við ættum ekki að reyna að breyta því.“

13 Nokkrum árum síðar var dóttirin tekin inn í söfnuðinn á ný. „Nú hringir hún eða sendir mér skilaboð næstum á hverjum degi,“ segir móðirin. „Og hún ber mikla virðingu fyrir okkur hjónunum því að hún veit að við hlýddum Guði. Við eigum yndislegt samband.“ Ef þú átt barn, sem hefur verið vikið úr söfnuðinum, ,treystirðu þá Drottni af öllu hjarta‘ í stað þess að ,reiða þig á eigið hyggjuvit‘? (Orðskv. 3:5, 6) Mundu að ögun Jehóva endurspeglar óviðjafnanlega visku hans og kærleik. Gleymdu aldrei að hann gaf son sinn í þágu allra, þar á meðal barnsins þíns. Guð vill ekki að neinn glatist. (Lestu 2. Pétursbréf 3:9.) Foreldrar, treystið því á ögun Jehóva og leiðsögn, jafnvel þegar það er sárt að gera eins og hann segir. Já, styðjið ögun Guðs í stað þess að streitast á móti henni.

Í SÖFNUÐINUM

14. Hvaða gagn höfum við af leiðbeiningum Jehóva sem hann veitir fyrir milligöngu ,trúa ráðsmannsins‘?

14 Jehóva hefur lofað að annast og vernda söfnuðinn og leiðbeina honum. Það gerir hann með ýmsum hætti. Meðal annars hefur hann falið syni sínum að annast söfnuðinn en sonurinn hefur útnefnt ,trúan ráðsmann‘ til að sjá fyrir andlegri fæðu á réttum tíma. (Lúk. 12:42) Henni er útbýtt á ýmsa vegu og með henni fáum við verðmætar leiðbeiningar eða aga. Spyrðu þig: Hversu oft hefur ræða eða grein í tímaritunum okkar verið mér hvatning til að breyta hugarfari mínu eða hegðun? Þú getur verið ánægður ef þú hefur farið eftir því. Þannig læturðu Jehóva móta þig eða aga þér til góðs. – Orðskv. 2:1-5.

15, 16. (a) Hvernig getum við notið góðs af starfi öldunganna? (b) Hvernig getum við lagt okkar af mörkum til að öldungarnir hafi meiri ánægju af starfi sínu?

15 Kristur hefur einnig gefið söfnuðinum menn að gjöf – öldunga til að vera hirðar hjarðar Guðs. (Ef. 4:8, 11-13) Hvernig getum við notið góðs af þessari dýrmætu gjöf? Meðal annars með því að líkja eftir trú öldunganna og góðu fordæmi þeirra, og með því að fara eftir biblíulegum leiðbeiningum þeirra. (Lestu Hebreabréfið 13:7, 17.) Munum að öldungunum þykir ákaflega vænt um okkur og þeir vilja að við döfnum í trúnni. Þeir eru eflaust fljótir að koma okkur til hjálpar, til dæmis ef þeir taka eftir að við missum af samkomum eða að eldmóður okkar er að dvína. Þeir hlusta á okkur og reyna síðan að byggja okkur upp með því að uppörva okkur hlýlega og benda okkur á viðeigandi ráð í Biblíunni. Líturðu á slíka hjálp sem merki um að Jehóva elskar þig?

16 Höfum í huga að öldungunum finnst kannski ekki auðvelt að snúa sér til okkar og gefa okkur leiðbeiningar sem við þurfum á að halda. Ímyndaðu þér hve erfitt það hlýtur að hafa verið fyrir Natan spámann að tala við Davíð konung  eftir að hinn síðarnefndi reyndi að hylma yfir alvarlega synd sína. (2. Sam. 12:1-14) Eins hefur Páll postuli áreiðanlega þurft að telja í sig kjark þegar hann þurfti að leiðrétta Pétur, einn af postulunum 12, fyrir að taka trúsystkini af hópi Gyðinga fram yfir aðra í söfnuðinum. (Gal. 2:11-14) Hvernig geturðu létt undir með öldungunum í söfnuðinum þínum? Vertu auðmjúkur, viðmótsgóður og þakklátur. Líttu á hjálp þeirra sem merki um að Guð elskar þig. Það er ekki aðeins sjálfum þér til góðs því að þannig hafa öldungarnir líka meiri ánægju af starfi sínu.

17. Hvernig naut systir nokkur góðs af kærleiksríkri aðstoð öldunganna?

17 Systur einni fannst erfitt að elska Jehóva vegna slæmrar reynslu í fortíðinni. Hún segir: „Ég vissi að ég þurfti að tala við öldungana þegar fortíðin og ýmis önnur vandamál drógu úr mér allan kraft. Þeir skömmuðu mig ekki né gagnrýndu heldur uppörvuðu mig og styrktu. Eftir hverja samkomu spurði að minnsta kosti einn þeirra hvernig ég hefði það, sama hversu uppteknir þeir voru. Vegna fortíðar minnar átti ég erfitt með að trúa að ég verðskuldaði kærleika Guðs. En Jehóva hefur notað söfnuðinn og öldungana aftur og aftur til að staðfesta að hann elskar mig. Ég bið hann um hjálp til að sleppa aldrei af honum takinu.“

HVAÐ ER VERRA EN SÁRSAUKINN SEM AGI VELDUR?

18, 19. Hvað er verra en sársaukinn sem getur hlotist af aga? Lýstu með dæmi.

18 Agi getur verið sársaukafullur en það er annað sem er enn þá verra – afleiðingar þess að hafna aga. (Hebr. 12:11) Þeir Kain og Sedekía konungur eru dæmi um það. Þegar Guð sá að Kain hataði bróður sinn og vildi drepa hann varaði hann Kain við og sagði: „Hví reiðist þú og ert þungur á brún? Er ekki svo að þú getur verið upplitsdjarfur ef þú gerir rétt, en gerir þú rangt þá liggur syndin við dyrnar? Hún girnist þig en þú getur sigrast á henni.“ (1. Mós. 4:6, 7) Kain hlustaði ekki og syndin náði tökum á honum. Hann uppskar sársauka og miklar þjáningar fyrir vikið. (1. Mós. 4:11, 12) Sársaukinn af því að hljóta ögun frá Jehóva hefði verið lítið mál miðað við það.

19 Sedekía var illur og kjarklaus konungur sem réð ríkjum á myrkum tímum í sögu Jerúsalem. Jeremía spámaður hvatti konunginn ítrekað til að snúa af rangri braut en hann neitaði að taka við aganum. Afleiðingarnar voru hörmulegar. (Jer. 52:8-11) Jehóva vill gjarnan hlífa okkur við óþörfum þjáningum af þessu tagi. – Lestu Jesaja 48:17, 18.

20. Hvað verður um þá sem þiggja ögun Guðs og um þá sem gera það ekki?

20 Í heimi nútímans er oft gert lítið úr aga, þar með talið sjálfsaga. En þetta heimskulega viðhorf á fljótlega eftir að koma óguðlegum mönnum í koll. (Orðskv. 1:24-31) Við skulum því ,hlýða á aga, svo að við verðum vitur‘. Í Orðskviðunum 4:13 er tekið í sama streng en þar segir: „Haltu fast í agann, slepptu honum ekki, varðveittu hann, því að hann er líf þitt.“ – Biblían 1981.