Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 ÆVISAGA

Samneyti við vitra menn hefur verið mér til góðs

Samneyti við vitra menn hefur verið mér til góðs

KULDINN lá í loftinu þennan morgun í Brookings í Suður-Dakóta í Bandaríkjunum. Það minnti mig á að frostið tæki brátt völdin á svæðinu. Það kemur þér kannski á óvart að þennan dag stóð ég skjálfandi ásamt nokkrum öðrum í óupphitaðri hlöðu. Við stóðum við vatnsþró sem var venjulega notuð til að brynna skepnunum, en hún var hálffull af köldu vatni. Ég skal segja ykkur aðeins frá sjálfum mér til að þið skiljið hvers vegna við vorum þar.

ÆSKUÁRIN

Alfred frændi og pabbi.

Ég fæddist 7. mars 1936, yngstur fjögurra barna. Við bjuggum á litlum búgarði í austurhluta Suður-Dakóta. Búskapur var mikilvægur hluti af lífi fjölskyldunnar en ekki sá mikilvægasti. Foreldrar mínir skírðust sem vottar Jehóva árið 1934. Þeir höfðu vígt sig Jehóva, himneskum föður okkar, og að gera vilja hans var því í fyrsta sæti hjá þeim. Clarence, pabbi minn, og síðar Alfred, föðurbróðir minn, voru safnaðarþjónar (nú kallast þeir umsjónarmenn öldungaráðsins) í litla söfnuðinum okkar í Conde í Suður-Dakóta.

Að sækja samkomur og fara hús úr húsi til að segja fólki frá dásamlegri framtíðarvon Biblíunnar var fastur liður hjá okkur fjölskyldunni. Fordæmi pabba og mömmu og kennslan, sem þau veittu okkur, hafði góð og djúpstæð áhrif á okkur börnin. Við Dorothy systir urðum boðberar sex ára gömul. Ég byrjaði í Boðunarskólanum árið 1943, en hann var þá nýr liður í samkomunum.

Í brautryðjandastarfinu 1952.

Mót voru mikilvægur hluti af lífi okkar. Bróðir Grant Suiter var gestkomandi ræðumaður á móti í Sioux Falls í Suður-Dakóta árið 1949. Ég man enn eftir ræðu hans, „Endirinn er nær en þú heldur“. Hann lagði áherslu á að allir vígðir  þjónar Guðs þyrftu að nota krafta sína til hins ýtrasta til að boða fagnaðarerindið um stofnsett ríki Guðs. Það var mér hvatning til að vígjast Jehóva. Á næsta svæðismóti, sem var haldið í Brookings, stóð ég þarna í kaldri hlöðunni eins og ég minntist á og beið þess að láta skírast. Stálþróin var „skírnarlaug“ okkar fjögurra sem skírðust þar 12. nóvember 1949.

Ég setti mér það markmið að gerast brautryðjandi. Ég hóf brautryðjandastarf 1. janúar 1952, 15 ára gamall. Í Biblíunni segir: „Eigðu samneyti við vitra menn, þá verður þú vitur,“ og í fjölskyldunni voru margir vitrir sem studdu ákvörðun mína að gerast brautryðjandi. (Orðskv. 13:20) Julius frændi, sem var 60 ára, varð brautryðjandafélagi minn. Við áttum mjög góðar stundir saman í boðuninni þrátt fyrir aldursmuninn. Ég lærði svo margt af honum og lífsreynslu hans sem átti eftir nýtast mér vel. Ekki leið á löngu þar til Dorothy varð brautryðjandi líka.

FARANDHIRÐAR SÝNDU MÉR ÁHUGA

Á æskuárunum buðu foreldrar mínir mörgum farandhirðum og eiginkonum þeirra að gista hjá okkur. Jesse og Lynn Cantwell voru hjón sem hjálpuðu mér mikið. Að hluta til var það hvatningu þeirra að þakka að ég ákvað að gerast brautryðjandi. Persónulegur áhugi þeirra kveikti með mér sterka löngun til að setja mér markmið í þjónustunni við Jehóva. Stundum þegar þau heimsóttu söfnuði í grenndinni buðu þau mér að koma með sér í boðunina. Það var svo ánægjulegt og hvetjandi!

Næsti farandhirðir okkar var Bud Miller. Ég var 18 ára þegar hann og Joan, eiginkona hans, heimsóttu söfnuðinn okkar, en á þeim tíma stóð ég frammi fyrir því að vera kvaddur í herinn. Herkvaðningarstofan vildi að ég sinnti vinnu sem mér fannst ekki samræmast fyrirmælum Jesú til fylgjenda sinna um að vera hlutlausir í stjórnmálum. Auk þess vildi ég boða fagnaðarerindið um ríkið. (Jóh. 15:19) Ég sótti því um hjá herkvaðningarstofunni að fá undanþágu sem trúboði.

Bud bauðst til að fara með mér á fund herkvaðningarstofunnar og það hafði sterk áhrif á mig. Hann var ófeiminn að eðlisfari og lét ekki auðveldlega hræða úr sér kjarkinn. Hann var  sterkur í trúnni og það veitti mér mikið öryggi að hafa slíkan mann mér við hlið. Eftir þennan fund, síðsumars 1954, samþykkti herkvaðningarstofan mig sem trúboða. Þannig opnaðist leiðin fyrir mig til að ná öðru markmiði í þjónustunni við Jehóva.

Við pallbíl þegar ég var nýbyrjaður á búgarðinum á Betel.

Um þetta leyti fékk ég boð um að starfa á Betel, á Varðturnsbúgarðinum, eins og hann hét í þá daga, á Staten Island í New York. Ég fékk að starfa þar í um það bil þrjú ár. Þar kynntist ég og vann með mörgum vitrum trúsystkinum og upplifði því margt sem var mér mjög verðmætt.

BETELÞJÓNUSTA

Við útvarpsstöðina WBBR með bróður Franz.

Útvarpsstöðin WBBR var staðsett á búgarðinum á Staten Island. Vottar Jehóva starfræktu hana á árunum 1924 til 1957. Aðeins 15 til 20 Betelítum var falið að starfa á búgarðinum. Flest okkar voru ung og frekar óreynd en í hópnum var líka Eldon Woodworth, eldri bróðir sem var andasmurður. Hann var sannarlega vitur. Hann var okkur sem faðir og kenndi okkur margt. Af og til reyndist okkur erfitt að umbera ófullkomleika annarra, en þá átti hann það til að segja: „Það er ótrúlegt hverju Drottinn hefur áorkað með því sem hann hefur til að vinna úr.“

Harry Peterson var með eindæmum kappsamur boðberi.

Við nutum þess heiðurs að hafa bróður Frederick W. Franz í hópi okkar líka. Viska hans og framúrskarandi biblíuþekking hafði góð áhrif á okkur öll, og hann sýndi okkur hverju og einu persónulegan áhuga. Harry Peterson var kokkurinn okkar, en það var auðveldara fyrir okkur að nota það eftirnafn en raunverulegt eftirnafn hans, Papargyropoulos. Hann var líka andasmurður og var með eindæmum kappsamur boðberi. Harry sinnti störfum sínum á Betel vel en vanrækti aldrei boðunina og dreifði hundruðum blaða í hverjum mánuði. Hann bjó einnig yfir mikilli biblíuþekkingu og gat svarað mörgum spurningum okkar.

ÉG LÆRI AF VITRUM SYSTRUM

Ávextirnir og grænmetið, sem við ræktuðum, var soðið niður í verksmiðju á búgarðinum. Á hverju ári voru um 42.600 lítrar soðnir niður fyrir alla Betelfjölskylduna. Ég fékk að vinna að því með Ettu Huth sem var sannarlega vitur systir.  Hún bar ábyrgð á uppskriftunum sem við notuðum við niðursuðuna. Systur, sem bjuggu í nágrenninu, komu til að aðstoða þegar niðursuðan hófst og Etta átti þátt í að skipuleggja vinnuna. Hún gegndi lykilhlutverki í öllu sem tengdist niðursuðunni en hún virti alltaf bræðurna sem fóru með umsjón á búgarðinum. Með því að vera undirgefin og virða þá sem fóru með forystu var hún okkur öllum góð fyrirmynd.

Með Angelu og Ettu Huth.

Angela Romano var ein af ungu systrunum sem komu til að aðstoða við niðursuðuna, en Etta hafði aðstoðað hana þegar hún tók við sannleikanum. Þannig kynntist ég annarri viturri systur meðan ég var á Betel. Hún hefur nú verið lífsförunautur minn í 58 ár. Við Angie giftum okkur í apríl 1958 og höfum notið þess að þjóna Jehóva saman allar götur síðan. Óbilandi hollusta hennar við Jehóva hefur verið hjónabandinu til styrktar öll þessi ár. Ég get alltaf reitt mig á hana, sama hvaða erfiðleikum við mætum.

TRÚBOÐAR OG Í FARANDSTARFI

Eftir að húsnæði WBBR á Staten Island var selt árið 1957 starfaði ég á Betel í Brooklyn um stuttan tíma. Ég hætti þar þegar við Angie giftum okkur og í þrjú ár vorum við brautryðjendur á Staten Island. Um tíma vann ég meira að segja fyrir nýja eigendur útvarpsstöðvarinnar, en hún var kölluð WPOW.

Við Angie vorum staðráðin í að lifa áfram einföldu lífi þannig að við værum tilbúin til að þjóna Jehóva hvar sem okkar væri þörf. Fyrir vikið vorum við í aðstöðu til að þiggja boð snemma árs 1961 um að verða sérbrautryðjendur í Falls City í Nebraska. Við vorum ekki fyrr komin þangað en okkur var boðið að sækja Ríkisþjónustuskólann sem þá var eins mánaðar námskeið í South Lansing í New York. Við nutum þess að sækja skólann og bjuggumst við að fara aftur til Nebraska að honum loknum. Það kom okkur því á óvart að við skyldum fá nýtt verkefni – að vera trúboðar í Kambódíu! Í þessu fallega landi í Suðaustur-Asíu kynntumst við landslagi, hljóðum og ilmi sem var ólíkur öllu sem við höfðum nokkurn tíma upplifað. Okkur langaði mikið til að boða fagnaðarerindið þar.

En stjórnmálaástandið í landinu breyttist og við neyddumst til að flytjast til Suður-Víetnam. Ekki voru liðin tvö ár frá því að við komum þangað þegar ég veiktist alvarlega og við þurftum að snúa aftur heim til Bandaríkjanna. Það tók sinn tíma að ná kröftum á ný en þegar ég hresstist gerðumst við brautryðjendur aftur.

Með Angelu árið 1975 fyrir sjónvarpsviðtal.

Í mars 1965 var okkur falið að heimsækja söfnuði í farandstarfi. Við Angie sinntum bæði farand- og umdæmisstarfi í 33 ár en í því fólst meðal annars umtalsverð vinna við mótin og undirbúning þeirra. Mér hefur alltaf fundist spennandi að fara á mót og því hafði ég mikla ánægju af að hjálpa til við að skipuleggja þau. Við vorum í nokkur ár í New York-borg og nágrenni og mörg mótanna þar voru haldin á Yankee Stadium.

AFTUR Á BETEL OG Í SKÓLA Á VEGUM SAFNAÐARINS

Spennandi og krefjandi verkefni biðu okkar Angie, eins og raunin er hjá mörgum sem eru í sérstakri þjónustu í fullu starfi. Árið 1995 var ég  beðinn um að kenna í Þjónustuþjálfunarskólanum. Þrem árum síðar var okkur boðið að starfa á Betel. Það var mér mikil ánægja að snúa aftur þangað sem ég hafði hafið sérstaka þjónustu í fullu starfi rúmum fjórum áratugum áður. Um tíma starfaði ég í þjónustudeildinni og sem leiðbeinandi í ýmsum skólum. Árið 2007 setti hið stjórnandi ráð skólana, sem haldnir eru á Betel, undir hina nýstofnuðu skólaskrifstofu og ég fékk það verkefni að vera umsjónarmaður hennar í nokkur ár.

Á undanförnum árum hafa verið gerðar margar stórar breytingar á skólum safnaðarins. Skólanum fyrir safnaðaröldunga var komið á fót árið 2008 og næstu tvö árin hlutu meira en 12.000 öldungar kennslu á Betel í Patterson og Brooklyn. Skólinn er nú haldinn á ýmsum öðrum stöðum. Árið 2010 var nafni Þjónustuþjálfunarskólans breytt í Biblíuskólann fyrir einhleypa bræður og nýr skóli var stofnaður, Biblíuskólinn fyrir hjón.

Þessir tveir skólar voru sameinaðir í byrjun þjónustuárs 2015 og urðu að Skólanum fyrir boðbera Guðsríkis. Skólinn er ætlaður bæði hjónum og einhleypum bræðrum og systrum. Það gladdi marga víðs vegar um heiminn að heyra að þessi skóli yrði haldinn við margar deildarskrifstofur. Það er spennandi að sjá fleiri fá tækifæri til að sækja skóla á vegum safnaðarins og ég er svo þakklátur fyrir að hafa kynnst mörgum sem hafa hagað lífi sínu þannig að þeir geti hlotið þessa kennslu.

Þegar ég lít um öxl yfir líf mitt allt frá því áður en ég skírðist í vatnsþrónni þakka ég Jehóva fyrir að hafa kynnst öllu þessu vitra fólki sem hjálpaði mér að feta veg sannleikans. Sumir voru yngri en ég og aðrir eldri. Og margir voru frá öðrum menningarheimum. En þetta var andlega sinnað fólk. Það elskaði Jehóva heitt og það var augljóst af verkum þess og viðhorfum. Í söfnuði hans er mikið af vitru fólki sem við getum átt samneyti við. Það hef ég gert og það hefur sannarlega verið mér til góðs.

Ég hef ánægju af að kynnast nemendum hvaðanæva úr heiminum.