Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sýnum trú og tökum skynsamlegar ákvarðanir

Sýnum trú og tökum skynsamlegar ákvarðanir

„Hann biðji í trú án þess að efast.“ – JAK. 1:6.

SÖNGVAR: 81, 70

1. Hvað hafði áhrif á ákvörðun Kains og hver var afleiðingin?

KAIN átti um tvennt að velja og þurfti að taka ákvörðun. Hann gat sigrast á syndugum tilhneigingum sínum eða látið tilfinningarnar taka völdin. Hvorn kostinn, sem hann veldi, myndi hann búa við afleiðingarnar það sem eftir var ævinnar. Þú veist hvað Kain kaus að gera. Hann tók slæma ákvörðun. Ákvörðunin og verkin, sem fylgdu, kostuðu Abel, trúfastan bróður hans, lífið. Hún hafði einnig áhrif á samband Kains við skapara sinn. – 1. Mós. 4:3-16.

2. Hve miklu máli skiptir hæfileiki okkar til að taka skynsamlegar ákvarðanir?

2 Við þurfum líka að taka ákvarðanir og eigum um ýmsa kosti að velja. Ákvarðanir okkar snúast ekki allar um líf eða dauða. Margar þeirra geta samt haft djúpstæð áhrif á okkur. Hæfileiki okkar til að taka góðar ákvarðanir getur stuðlað að tiltölulega friðsömu og hnökralausu lífi og komið í veg fyrir að við lifum lífi sem einkennist af óreiðu, ágreiningi og vonbrigðum. – Orðskv. 14:8.

3. (a) Hverju þurfum við að trúa til að geta tekið skynsamlegar ákvarðanir? (b) Hvaða spurningar ræðum við núna?

3 Hvað getur hjálpað okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir? Við þurfum auðvitað að trúa á Guð og megum ekki efast um  að hann bæði vilji og geti hjálpað okkur að vera skynsöm. Við þurfum líka að trúa á orð hans, treysta innblásnum ráðum hans og að hann geri allt á sem bestan hátt. (Lestu Jakobsbréfið 1:5-8.) Því meir sem við nálægjum okkur Jehóva og því meiri ánægju sem við höfum af orði hans því betur treystum við á dómgreind hans. Samfara því temjum við okkur að leita ráða í orði hans áður en við tökum ákvarðanir. En hvernig getum við orðið færari í að taka ákvarðanir? Og ef við höfum tekið ákvörðun, þýðir það að við þurfum að standa við hana sama hvað gerist?

VIÐ ÞURFUM AÐ TAKA ÁKVARÐANIR

4. Hvaða ákvörðun þurfti Adam að taka og hverjar voru afleiðingar þess sem hann valdi að gera?

4 Allt frá upphafi mannkyns hafa karlar og konur þurft að taka mikilvægar ákvarðanir. Adam þurfti að velja milli þess að hlusta annaðhvort á skapara sinn eða Evu. Hann var fús til að taka ákvörðun en hvað finnst þér um ákvörðunina? Konan hans hafði látið afvegaleiðast og fékk hann til að taka einstaklega slæma ákvörðun, en þannig glataðist paradísin og að lokum týndi hann lífi. Þetta var þó bara byrjunin. Við þurfum enn þá að kljást við afleiðingarnar af þeirri ömurlegu ákvörðun sem Adam tók.

5. Hvernig ættum við að líta á það að þurfa að taka ákvarðanir?

5 Sumir hugsa kannski að lífið væri ánægjulegra ef við þyrftum ekki að taka ákvarðanir. Ert þú á þeirri skoðun? Mundu að Jehóva skapaði ekki mennina eins og vélmenni sem geta hvorki hugsað né tekið ákvarðanir. Biblían kennir okkur reyndar að taka skynsamlegar ákvarðanir. Jehóva vill að við tökum ákvarðanir og það er okkur til góðs að gera það. Skoðum dæmi sem sýna fram á það.

6, 7. Hvaða vali stóðu Ísraelsmenn frammi fyrir og hvers vegna var erfitt fyrir þá að taka skynsamlega ákvörðun? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

6 Þegar Ísraelsmenn höfðu sest að í fyrirheitna landinu þurftu þeir að taka ákvörðun um mikilvægt grundvallaratriði: Að tilbiðja Jehóva eða þjóna öðrum guði (eða guðum). (Lestu Jósúabók 24:15.) Þetta virðist kannski hafa verið auðveld ákvörðun. En um líf og dauða var að tefla. Á dómaratímanum tóku Ísraelsmenn óskynsamlegar ákvarðanir aftur og aftur. Þeir sneru baki við Jehóva og tilbáðu falsguði. (Dóm. 2:3, 11-23) Síðar í sögu þjóðar Guðs stóð hún aftur frammi fyrir stórri ákvörðun. Elía spámaður lýsti kostunum skýrt: Þjónið Jehóva eða þjónið falsguðinum Baal. (1. Kon. 18:21) Elía ávítaði fólkið fyrir að vera óákveðið. Líklega finnst þér þetta hafa verið auðveld ákvörðun því að það er alltaf viturlegt og til góðs að þjóna Jehóva. Enginn skynsamur maður hefði átt að laðast að Baal eða vilja tilbiðja hann. Engu að síður ,höltruðu Ísraelsmenn til beggja hliða‘. Elía hvatti þá til að vera skynsamir og velja góða kostinn – að tilbiðja Jehóva.

7 Hvers vegna ætli það hafi verið svona erfitt fyrir Ísraelsmenn að taka skynsamlega ákvörðun? Í fyrsta lagi höfðu þeir nánast glatað trúnni á Jehóva og hlustuðu ekki á hann. Þeir höfðu ekki aflað sér þekkingar eða visku frá Jehóva og treystu honum ekki. Ef þeir hefðu búið yfir nákvæmri þekkingu hefði það hjálpað þeim að taka skynsamlegar ákvarðanir. (Sálm. 25:12) Í öðru lagi höfðu þeir leyft öðrum að hafa áhrif á sig eða jafnvel að taka ákvarðanir fyrir sig. Íbúar landsins tilbáðu  ekki Jehóva og höfðu áhrif á hugsunarhátt Ísraelsmanna. Það varð til þess að Ísraelsmenn fóru að fylgja fjöldanum og tilbiðja falsguði. Jehóva hafði löngu áður varað þá við þessari hættu. – 2. Mós. 23:2.

ÆTTU AÐRIR AÐ TAKA ÁKVARÐANIR FYRIR OKKUR?

8. Hvaða mikilvæga lærdóm getum við dregið af sögu Ísraelsmanna um að taka ákvarðanir?

8 Við getum dregið mikilvægan lærdóm af dæmunum hér að ofan. Hvert og eitt okkar þarf að taka eigin ákvarðanir, en góðar og skynsamlegar ákvarðanir eru byggðar á biblíuþekkingu. Í Galatabréfinu 6:5 segir: „Sérhver mun verða að bera sína byrði.“ Við ættum ekki að fela öðrum þá ábyrgð að taka ákvarðanir fyrir okkur. Við ættum öllu heldur að komast að því sjálf hvað Jehóva telur rétt og fara síðan eftir því.

9. Hvers vegna getur verið hættulegt að láta aðra taka ákvarðanir fyrir okkur?

9 Hvernig gætum við fallið í þá gryfju að láta aðra taka ákvarðanir fyrir okkur? Hópþrýstingur gæti valdið því að við tökum slæma ákvörðun. (Orðskv. 1:10, 15) Það er þó alltaf ábyrgð okkar að fylgja biblíufræddri samvisku okkar, sama hvernig aðrir reyna að beita okkur þrýstingi. Ef við leyfum öðrum að taka ákvarðanir fyrir okkur erum við að mörgu leyti að ,ganga á vegi þeirra‘. Það er okkar val hvort við gerum það en það getur endað með ósköpum.

10. Við hverju þurfti Páll að vara Galatamenn?

10 Páll postuli varaði Galatamenn við hættunni að láta aðra taka ákvarðanir fyrir þá. (Lestu Galatabréfið 4:17.) Sumir í söfnuðinum reyndu að taka ákvarðanir fyrir aðra í þeim tilgangi að einangra þá frá postulunum. Hvers vegna? Þeir voru eigingjarnir og sóttust eftir upphefð. Þeir fóru langt yfir strikið og virtu ekki ábyrgð trúsystkina sinna að taka eigin ákvarðanir.

11. Hvernig getum við hjálpað öðrum þegar þeir taka ákvarðanir?

11 Páll var okkur góð fyrirmynd með því að virða frjálsan vilja trúsystkina sinna og rétt þeirra til að taka ákvarðanir. (Lestu 2. Korintubréf 1:24.) Öldungar ættu að  fylgja fordæmi hans þegar þeir veita ráð í málum sem snúast um persónulegar ákvarðanir. Þeir eru fúsir til að benda trúsystkinum á hvað Biblían hefur um málið að segja. Þeir passa sig samt að leyfa þeim að taka eigin ákvarðanir. Það er rökrétt þar sem þau þurfa hvert og eitt að taka afleiðingunum af ákvörðunum sínum. Höfum þetta mikilvæga atriði í huga: Við getum hjálpað öðrum með því að benda á meginreglur Biblíunnar og ráð hennar. En þeir hafa rétt til að taka eigin ákvarðanir og bera ábyrgð á þeim. Ef þeir taka skynsamlegar ákvarðanir er það þeim til góðs. Það er greinilegt að við ættum aldrei að telja okkur hafa rétt til að taka ákvarðanir fyrir trúsystkini okkar.

Kærleiksríkir öldungar sýna öðrum hvernig þeir geta tekið eigin ákvarðanir. (Sjá 11. grein.)

LÁTUM EKKI TILFINNINGARNAR RÁÐA FERÐINNI

12, 13. Hvers vegna er hættulegt að fylgja hjartanu ef við erum reið eða niðurdregin?

12 Oft er sagt: Fylgdu hjartanu. En það getur verið hættulegt og að vissu leyti er það líka óbiblíulegt. Biblían varar okkur við því að láta ófullkomið hjarta okkar eða tilfinningarnar ráða ferðinni þegar við tökum ákvarðanir. (Orðskv. 28:26) Frásögur Biblíunnar benda líka á slæmar afleiðingar þess að fylgja hjartanu. Kjarni málsins er sá að hjá ófullkomnum mönnum er ,hjartað svikult framar öllu öðru og forhert‘. (Jer. 3:17; 13:10; 17:9; 1. Kon. 11:9, Biblían 1981) Hvað gæti gerst ef við létum hjartað ráða ferðinni?

13 Það skiptir máli hvar hjarta okkar er því að Jehóva hefur sagt okkur að við eigum að elska hann af öllu hjarta og elska náungann eins og sjálf okkur. (Matt. 22:37-39) Versin, sem vísað var í í greininni á undan, draga hins vegar fram hve hættulegt er að láta tilfinningarnar stjórna hugsunum sínum og verkum. Hvað gæti til dæmis gerst ef við tökum ákvarðanir þegar við erum reið? Við vitum svarið ef við höfum einhvern tíma gert það. (Orðskv. 14:17; 29:22) Eða er líklegt að við tökum skynsamlegar ákvarðanir þegar við erum niðurdregin? (4. Mós. 32:6-12; Orðskv. 24:10) Höfum í huga að orð Guðs sýnir fram á viskuna í því að láta ,lögmál Guðs‘ stjórna hugsunum okkar. (Rómv. 7:24) Við gætum auðveldlega blekkt sjálf okkur ef við látum stjórnast af tilfinningunum þegar við tökum mikilvægar ákvarðanir.

ÞEGAR VIÐ ÞURFUM AÐ BREYTA ÁKVÖRÐUN

14. Hvernig vitum við að það getur verið rétt að breyta ákvörðunum sínum?

14 Við þurfum að taka skynsamlegar ákvarðanir. En það þýðir ekki að við ættum aldrei að breyta ákvörðun sem við höfum tekið. Stundum getum við þurft að skoða mál upp á nýtt og ef til vill breyta ákvörðun okkar. Tökum eftir hvað Jehóva gerði fyrir Nínívebúa á dögum Jónasar. „Guð sá hvað fólkið gerði, að það hafði látið af sinni illu breytni. Þá snerist honum hugur og hann ákvað að valda fólkinu ekki þeirri ógæfu sem hann hafði boðað og refsa því ekki.“ (Jónas 3:10) Þegar Jehóva sá að Nínívebúar höfðu iðrast og látið af slæmri breytni sinni breytti hann ákvörðuninni sem hann hafði tekið. Þannig sýndi hann sanngirni, auðmýkt og meðaumkun. Þar fyrir utan tekur hann ekki ákvarðanir í einhverju reiðikasti eins og menn eiga það til að gera.

15. Hvað gæti valdið því að við breyttum ákvörðun okkar?

15 Stundum getur verið skynsamlegt að endurskoða ákvörðun sem við höfum  tekið. Það getur átt við þegar aðstæður breytast. Jehóva skipti stundum um skoðun út af breyttum aðstæðum. (1. Kon. 21:20, 21, 27-29; 2. Kon. 20:1-5) Það getur líka gerst að við fáum nýjar upplýsingar sem kalla á að við breytum ákvörðun okkar. Davíð konungur fékk eitt sinn rangar upplýsingar um Mefíbóset, sonarson Sáls. Þegar hann fékk síðar að vita hið rétta breytti hann fyrri ákvörðun í samræmi við það. (2. Sam. 16:3, 4; 19:25-30) Stundum getur verið skynsamlegt af okkur að gera slíkt hið sama.

16. (a) Nefndu nokkrar tillögur sem geta hjálpað okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir. (b) Hvers vegna ættum við stundum að endurskoða ákvarðanir okkar og hvernig getum við gert það?

16 Í orði Guðs er okkur ráðlagt að vera ekki fljótfær þegar við þurfum að taka mikilvæga ákvörðun. (Orðskv. 21:5) Okkur gengur líklega betur ef við tökum okkur tíma til að skoða allar hliðar málsins vandlega áður en við tökum ákvörðun. (1. Þess. 5:21) Þeir sem fara með forystu í fjölskyldu ættu að lesa sér til í Biblíunni og ritum safnaðarins áður en þeir taka ákvörðun. Þeir ættu einnig að taka mið af skoðunum annarra í fjölskyldunni. Mundu að Guð hvatti Abraham til að hlusta á konuna sína. (1. Mós. 21:9-12) Öldungar ættu líka að taka sér tíma til að skoða vandlega ákveðin mál. Og ef þeir eru sanngjarnir og hógværir óttast þeir ekki að þeir missi virðingu annarra ef þeir fá nýjar upplýsingar sem kalla á að þeir endurskoði fyrri ákvörðun. Þeir ættu að vera fúsir til að breyta ákvörðunum sínum þegar það á við, og við ættum öll að líkja eftir þeim að þessu leyti. Það getur stuðlað að friði og einingu í söfnuðinum. – Post. 6:1-4.

STATTU VIÐ ÁKVARÐANIR ÞÍNAR

17. Hvað getur hjálpað okkur að taka góðar ákvarðanir?

17 Sumar ákvarðanir vega þyngra en aðrar. Alvarlegar ákvarðanir kalla á að við hugleiðum málið vel og biðjum mikið, og það getur tekið tíma. Sumir þjónar Guðs þurfa að ákveða hvort þeir ætli að giftast og þá hverjum. Önnur mikilvæg ákvörðun, sem getur veitt okkur mikla blessun, er hvernig og hvenær við byrjum að þjóna Jehóva í fullu starfi. Á þessum sviðum er mikilvægt að við treystum algerlega að Jehóva geti veitt okkur skynsamlegar leiðbeiningar og að hann geri það. (Orðskv. 1:5) Jehóva hefur gefið okkur bestu ráðin í orði sínu, Biblíunni. Við þurfum því að leita ráða í henni og biðja hann um leiðsögn. Höfum líka í huga að Jehóva getur gætt okkur þeim eiginleikum sem við þurfum til að taka ákvarðanir í samræmi við vilja hans. Þegar við tökum mikilvægar ákvarðanir ættum við að venja okkur á að spyrja: Sýnir þessi ákvörðun að ég elska Jehóva? Stuðlar hún að friði og hamingju í fjölskyldunni? Og gefur hún til kynna að ég sé þolinmóður og góðviljaður?

18. Hvers vegna ætlast Jehóva til að við tökum okkar eigin ákvarðanir?

18 Jehóva þvingar okkur ekki til að elska sig og þjóna. Það er okkar val. Hann hefur gefið okkur frjálsan vilja og felur okkur ábyrgðina að kjósa hvort við ætlum að þjóna honum, en hann virðir líka val okkar. (Jós. 24:15; Préd. 5:3) Hann ætlast þó til að við stöndum við þær ákvarðanir sem við tökum í samræmi við orð hans. Ef við treystum á leiðsögn Jehóva og meginreglurnar sem hann veitir okkur í kærleika sínum getum við tekið skynsamlegar ákvarðanir og staðið stöðug í öllu sem við gerum. – Jak. 1:5-8; 4:8.