Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að vera vinur þegar vináttan er í hættu

Að vera vinur þegar vináttan er í hættu

Gianni og Maurizio eiga að baki um 50 ára vináttu. Um tíma var þó vinátta þeirra í hættu. „Á erfiðu tímabili varð mér alvarlega á og það varð til þess að við fjarlægðumst hvor annan,“ útskýrir Maurizio. Gianni bætir við: „Maurizio var biblíukennarinn minn þegar ég var í biblíunámi. Hann var lærifaðir minn í trúnni. Ég átti því erfitt með að trúa því upp á hann sem hann gerði. Mér fannst heimurinn hrynja í kringum mig því að ég vissi að leiðir okkar myndu skilja. Mér fannst ég vera yfirgefinn.“

ÞAÐ er verðmætt að eiga góða vini en langvarandi vinátta kemur ekki af sjálfu sér. Hvað er hægt að gera til að varðveita vináttuböndin ef vináttan er í hættu? Við getum lært margt af nokkrum mönnum sem sagt er frá í Biblíunni. Þeir voru sannir vinir en á tímabili reyndi á vináttuna.

ÞEGAR VINI VERÐUR Á

Fjárhirðirinn og konungurinn Davíð átti sannarlega góða vini. Ef til vill kemur Jónatan upp í huga okkar. (1. Sam. 18:1) En Davíð átti fleiri vini, eins og Natan spámann. Ekki er sagt frá því í Biblíunni hvenær þeir kynntust en á einhverjum tímapunkti treysti Davíð Natan fyrir hlutum sem maður myndi aðeins treysta góðum vini fyrir. Davíð langaði til að reisa hús handa Jehóva. Konungurinn hefur eflaust kunnað að meta skoðun Natans á málinu þar sem þeir voru góðir vinir og andi Jehóva var með honum. – 2. Sam. 7:2, 3.

Ákveðinn atburður stefndi þó vináttu þeirra í hættu. Davíð konungur framdi hjúskaparbrot með Batsebu og sá síðan til þess að Úría, eiginmaður hennar, félli í bardaga.  (2. Sam. 11:2-21) Davíð hafði verið Jehóva trúfastur um margra ára skeið og haldið uppi réttlæti. En síðan framdi hann þessa hræðilegu synd. Hvað hafði eiginlega gerst hjá þessum góða konungi? Áttaði hann sig ekki á alvarleika málsins? Hélt hann að hann gæti falið þetta fyrir Guði?

Hvað átti Natan að gera? Myndi hann láta einhvern annan ræða málið við konunginn? Fleiri vissu að Davíð hafði komið því í kring að Úría félli í bardaga. Hvers vegna átti þá Natan að blanda sér í málið og eiga á hættu að spilla vináttu þeirra til margra ára? Natan gæti jafnvel stofnað lífi sínu í hættu með því að vekja máls á þessu. Davíð var þegar búinn að láta drepa Úría, saklausan mann.

En Natan var talsmaður Guðs. Hann vissi að samband hans við Davíð yrði aldrei hið sama þótt hann þegði og auk þess myndi samviskan plaga hann. Vinur hans var kominn út á slæma braut sem Jehóva hafði vanþóknun á. Konungurinn þurfti bráðnauðsynlega að fá hjálp til að komast aftur á rétta braut. Já, Davíð þurfti á sönnum vini að halda og Natan reyndist vera það. Hann kaus að taka á málinu og reyndi að snerta hjarta þessa fyrrverandi fjárhirðis með því að segja honum dæmisögu. Natan kom boðskap Guðs til skila en gerði það með slíkum hætti að Davíð skildi alvarleika málsins og fann sig knúinn til að bregðast rétt við. – 2. Sam. 12:1-14.

Hvað myndirðu gera ef þú ættir vin sem yrði eitthvað mikið á eða gerði sig sekan um alvarlega synd? Það gæti verið auðvelt að hugsa að það myndi spilla vináttunni að benda á það ranga sem hann gerði. Þér gæti líka fundist þú vera að svíkja vin þinn ef þú segðir öldungunum frá, jafnvel þótt þeir gætu hjálpað honum að komast á réttan kjöl. Hvað myndirðu gera?

Gianni, sem nefndur var fyrr í greininni, segir: „Ég áttaði mig á að eitthvað hafði breyst. Maurizio var ekki jafn opinn við mig og áður. Ég ákvað að tala við hann þótt það væri mér verulega erfitt. Ég hugsaði: Hvað get ég sagt honum sem hann veit ekki nú þegar? Hann bregst kannski hræðilega við. En ég minnti mig á allt það sem við höfðum lesið saman í biblíunáminu og fékk þannig kjark til að tala við hann. Maurizio hafði talað við mig þegar ég þurfti á hjálp að halda. Ég vildi ekki glata vináttunni en ég vildi hjálpa honum því að mér var annt um hann.“

Maurizio bætir við: „Gianni var einlægur – og hann hafði rétt fyrir sér. Ég vissi að afleiðingarnar af slæmum ákvörðunum mínum voru ekki honum að kenna og ekki heldur Jehóva. Ég tók því við aganum og með tímanum endurheimti ég sambandið við Jehóva.“

ÞEGAR VINUR ER Í VANDA STADDUR

Davíð átti líka aðra félaga sem studdu hann dyggilega á erfiðum tímum. Einn þeirra var Húsaí en Biblían talar um hann sem ,vin Davíðs‘. (2. Sam. 16:16; 1. Kron. 27:33) Hann gæti hafa verið hirðmaður, góður vinur konungs sem framfylgdi stundum leynilegum skipunum hans.

Þegar Absalon, sonur Davíðs, rændi völdum tóku margir Ísraelsmenn afstöðu með honum, en Húsaí gerði það hins vegar ekki. Meðan Davíð var á flótta kom Húsaí til hans. Davíð var mjög sár yfir því að hans eigin sonur og menn, sem hann treysti, skyldu hafa svikið hann. Húsaí var honum þó trúr og hætti jafnvel lífinu í sendiför sem myndi gera samsærið að engu. Hann gerði þetta ekki bara af skyldurækni eða vegna þess að hann var hirðmaður. Hann reyndist vera traustur vinur. – 2. Sam. 15:13-17, 32-37; 16:15 – 17:16.

Það er mjög ánægjulegt að sjá að einingin, sem ríkir meðal bræðra og systra nú á dögum, er ekki bundin við ákveðin hlutverk eða verkefni í söfnuðinum. Með verkum sínum segja þau í raun: Ég er vinur þinn, ekki vegna  þess að ég á að vera það heldur vegna þess að þú skiptir mig máli.

Bróðir, sem heitir Federico, fann vel fyrir því. Hann komst í gegnum erfitt tímabil í lífinu með aðstoð Antonios, góðs vinar síns. Federico segir svo frá: „Þegar Antonio fluttist í söfnuðinn okkar urðum við fljótlega vinir. Við vorum báðir safnaðarþjónar og nutum þess að vinna saman. Stuttu síðar var hann útnefndur öldungur. Hann var mér bæði vinur og fyrirmynd í trúnni.“ Federico varð þó eitt sinn alvarlega á. Hann leitaði strax aðstoðar öldunganna en var ekki lengur hæfur til að vera brautryðjandi né safnaðarþjónn. Hvernig brást Antonio við?

Þegar Federico átti í erfiðleikum hlustaði Antonio, vinur hans, á hann og uppörvaði hann.

Federico hugsar til baka og segir: „Ég áttaði mig á að Antonio fann til með mér. Hann reyndi eftir bestu getu að hjálpa mér tilfinningalega. Honum var innilega umhugað um að ég næði mér á strik í trúnni og yfirgaf mig aldrei. Hann hvatti mig til að styrkja sambandið við Jehóva og gefast aldrei upp.“ Antonio segir: „Ég varði meiri tíma með Federico. Ég vildi að honum fyndist hann geta talað við mig um hvað sem er, jafnvel um vanlíðan sína.“ Federico náði sér sem betur fer með tímanum og varð brautryðjandi og safnaðarþjónn á ný. Antonio segir að lokum: „Við erum ekki lengur í sama söfnuði en við erum samt nánari vinir en nokkru sinni fyrr.“

FYNDIST ÞÉR ÞÚ HAFA VERIÐ SVIKINN?

Hvernig heldurðu að þér liði ef náinn vinur sneri við þér baki þegar þú þyrftir sem mest á honum að halda? Trúlega er fátt eins særandi og það. Gætirðu fyrirgefið honum? Yrði samband ykkar nokkurn tíma eins gott og það var áður?

Veltu fyrir þér því sem kom fyrir Jesú síðustu dagana fyrir dauða hans. Hann hafði varið miklum tíma með trúföstum postulum sínum og þeir tengdust mjög sterkum böndum. Jesús kallaði þá réttilega vini sína. (Jóh. 15:15) En hvað gerðist þegar hann var handtekinn? Postularnir flýðu. Pétur hafði lýst því  yfir að hann myndi aldrei yfirgefa herra sinn en á þeirri sömu nóttu neitaði hann að hann þekkti hann. – Matt. 26:31-33, 56, 69-75.

Jesús vissi að hann þurfti að mæta lokaprófrauninni einn síns liðs. Hann hafði þó ástæðu til að vera vonsvikinn og jafnvel sár. En samskipti hans við lærisveinana fáeinum dögum eftir að hann reis upp frá dauðum bera ekki minnsta vott um að hann hafi verið vonsvikinn, bitur eða sæi eftir einhverju. Jesús hafði enga þörf fyrir að telja upp mistök lærisveinanna og minntist ekki einu orði á það sem þeir gerðu nóttina sem hann var handtekinn.

Jesús hughreysti öllu heldur Pétur og hina postulana. Hann staðfesti að hann treysti þeim með því að fela þeim að vinna mikilvægasta fræðslustarf í sögu mannkyns. Í augum Jesú voru postularnir enn þá vinir hans. Kærleikur hans hafði djúpstæð og langvarandi áhrif á þá. Þeir lögðu sig alla fram um að valda herra sínum aldrei vonbrigðum framar. Þeir inntu verkefnið, sem hann fól fylgjendum sínum, vel af hendi. – Post. 1:8; Kól. 1:23.

Systir, sem heitir Elvira, man vel eftir ósætti sem kom upp milli hennar og Giuliönu, góðrar vinkonu hennar. Hún segir: „Mér leið ömurlega þegar hún sagði mér að sér hefði sárnað út af því sem ég gerði. Hún hafði fulla ástæðu til að vera reið. En það sem mér fannst merkilegt var að henni var fyrst og fremst umhugað um mig og hvaða áhrif hegðun mín myndi hafa. Ég er henni svo þakklát fyrir að hún einblíndi ekki á það ranga sem ég hafði gert henni heldur á það hvernig ég væri að skaða sjálfa mig. Ég þakkaði Jehóva fyrir að eiga vinkonu sem tók velferð mína fram yfir eigin tilfinningar.“

Hvernig bregst þá góður vinur við þegar vináttan er í hættu? Hann er fús til að tala vingjarnlega en opinskátt við viðkomandi þegar þess er þörf. Slíkur vinur er eins og Natan og Húsaí sem reyndust tryggir, jafnvel á erfiðum tímum, og eins og Jesús sem fyrirgaf fúslega. Ert þú þess konar vinur?