Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Asa, Jósafat, Hiskía, Jósía

Þjónaðu Jehóva af öllu hjarta

Þjónaðu Jehóva af öllu hjarta

„Drottinn, minnstu þess, að ég hefi gengið fyrir augliti þínu með trúmennsku og einlægu hjarta.“ – 2. KON. 20:3, Biblían 1981.

SÖNGVAR: 52, 65

1-3. Hvað þýðir það að þjóna Jehóva „af öllu hjarta“? Lýstu með dæmi.

VIÐ erum ófullkomin og þar af leiðandi gerum við oft mistök. Sem betur fer geldur Jehóva okkur ekki „eftir syndum vorum“, svo framarlega sem við iðrumst og leitum auðmjúk til hans í trú á lausnarfórn Jesú. (Sálm. 103:10) En eins og Davíð sagði Salómon þurfum við að þjóna Jehóva „af öllu hjarta“ til að hann hafi velþóknun á tilbeiðslu okkar dag frá degi. (1. Kron. 28:9, Biblían 1981) Hvernig getum við ófullkomnir mennirnir gert það?

2 Til að glöggva okkur á því skulum við bera saman ævi Júdakonunganna Asa og Amasía. Báðir gerðu það sem var rétt í augum Jehóva en um Asa segir að hjarta hans hafi verið „óskipt alla ævi“. (2. Kron. 15:16, 17, Biblían 1981; 25:1, 2, Biblían 1981; Orðskv. 17:3) Báðir konungarnir voru ófullkomnir og gerðu sín mistök. En Asa vék í meginatriðum ekki af vegi Guðs heldur þjónaði honum „af öllu hjarta“. (1. Kron. 28:9, Biblían 1981) Amasía var hins vegar ekki heils hugar gagnvart Jehóva. Eftir að hafa sigrað óvini hans tók hann guði þeirra heim með sér og fór að tilbiðja þá. – 2. Kron. 25:11-16.

3 Að þjóna Guði „af öllu hjarta“ lýsir varanlegri hollustu. Í Biblíunni er orðið „hjarta“ yfirleitt notað til að lýsa hinum innri manni. Það nær yfir langanir mannsins, hugsanir, skaplyndi, viðhorf, hæfileika, hvatir og markmið. Sá sem þjónar Jehóva af öllu hjarta er ekki með neina uppgerð. Hann tilbiður ekki Jehóva aðeins til málamynda. Hvað um okkur? Við þjónum Jehóva af öllu hjarta ef við sýnum honum hræsnislausa hollustu þrátt fyrir að við erum ófullkomin. – 2. Kron. 19:9.

4. Hvað ætlum við að kynna okkur?

4 Við skulum kynna okkur ævi Asa og þriggja annarra Júdakonunga til að átta okkur betur á hvað er fólgið í því að þjóna Guði af öllu hjarta. Allir fjórir, þeir Asa, Jósafat, Hiskía og Jósía, gerðu ýmis mistök en Jehóva hafði samt velþóknun á þeim. Hvers vegna leit hann svo á að þeir þjónuðu honum af öllu hjarta og hvernig getum við líkt eftir þeim?

HJARTA ASA VAR ÓSKIPT GAGNVART JEHÓVA

5. Hvernig gekk Asa einbeittur til verka?

5 Asa var þriðji konungurinn í Júda eftir að Ísrael klofnaði í tvö ríki. Hann útrýmdi skurðgoðadýrkun og rak hofskækjur úr landi. Hann svipti jafnvel Maöku, ömmu sína, „konungsmóðurtign sinni af því að hún hafði látið gera viðurstyggilega mynd af Aséru“. (1. Kon. 15:11-13) Enn fremur hvatti hann þjóðina til að „leita Drottins ... og framfylgja lögmálinu og boðorðunum“. Hann efldi sanna tilbeiðslu. – 2. Kron. 14:3.

6. Hvernig brást Asa við þegar Eþíópíumenn réðust inn í landið?

6 Jehóva veitti Júdaríkinu frið fyrstu tíu árin sem Asa var við völd. Þá réðst Serak frá Eþíópíu gegn Júda með milljón manna her og 300 stríðsvagna. (2. Kron. 13:23; 14:5, 8, 9) Hvernig brást Asa við hættunni? Hann lýsti yfir að hann treysti Jehóva fullkomlega. (Lestu 2. Kroníkubók 14:10.) Jehóva bænheyrði Asa og veitti honum algeran sigur. Asa gereyddi eþíópíska hernum. (2. Kron. 14:11, 12) Jafnvel þótt konungar væru Jehóva ótrúir gat hann veitt þeim sigur yfir óvinum þeirra vegna nafns síns. (1. Kon. 20:13, 26-30) En Asa reiddi sig á Jehóva og var bænheyrður. Hann breytti að vísu óviturlega síðar meir og leitaði til dæmis hjálpar Sýrlandskonungs en ekki Jehóva. (1. Kon. 15:16-22) Jehóva mat það samt svo að ,hjarta Asa hafi verið óskipt gagnvart honum alla ævi‘. Hvernig getum við líkt eftir Asa og gert gott? – 1. Kon. 15:14, Biblían 1981.

7, 8. Hvernig geturðu líkt eftir Asa?

7 Við getum öll litið í eigin barm og kannað hvort við erum Guði trú af öllu hjarta. Spyrðu þig hvort þú sért staðráðinn í að þóknast Jehóva, verja sanna tilbeiðslu og vernda þjóna hans fyrir öllu sem gæti spillt þeim. Asa þurfti að stappa í sig stálinu til að standa uppi í hárinu á Maöku sem var ,konungsmóðir‘ í landinu. Það er ólíklegt að þú þekkir nokkurn sem hegðar sér eins og hún en það geta komið upp aðstæður þar sem þú gætir líkt eftir kappsemi Asa. Segjum til dæmis að náinn vinur eða einhver í fjölskyldunni syndgi, iðrist ekki og það þurfi að víkja honum úr söfnuðinum. Myndirðu taka einarða afstöðu og hætta að umgangast viðkomandi? Hvað myndi hjartað knýja þig til að gera?

8 Þú getur líkt eftir Asa og sýnt að þú þjónir Guði af öllu hjarta með því að reiða þig á hann þegar þú verður fyrir andstöðu, jafnvel þótt hún virðist óviðráðanleg. Er þér strítt í skólanum eða gert grín að þér fyrir að taka afstöðu sem vottur Jehóva? Hæðast vinnufélagarnir að þér fyrir að taka frí til að sinna trúnni eða fyrir að vinna sjaldan yfirvinnu? Þá skaltu biðja til Guðs eins og Asa. Vertu hugrakkur, reiddu þig á Jehóva og stattu fast á því sem þú veist að er rétt og skynsamlegt. Mundu að Guð styrkti Asa og hjálpaði honum, og hann styrkir þig líka.

9. Hvernig getum við sýnt með boðuninni að við þjónum Guði af öllu hjarta?

9 Þjónar Guðs hugsa ekki bara um sjálfa sig. Asa efldi sanna tilbeiðslu. Við hjálpum öðrum að leita Jehóva eins og hann. Það hlýtur að gleðja Jehóva að sjá til okkar þegar við segjum nágrönnum okkar og öðrum frá honum af því að við elskum hann og höfum ósvikinn áhuga á eilífri velferð fólks.

JÓSAFAT LEITAÐI JEHÓVA

10, 11. Hvernig geturðu líkt eftir Jósafat?

10 Jósafat „fetaði í fótspor Asa, föður síns“. (2. Kron. 20:31, 32) Hvernig gerði hann það? Hann hvatti þjóðina til að leita Jehóva líkt og faðir hans hafði gert. Meðal annars stóð hann fyrir fræðsluátaki sem byggt var á „lögmálsbók Drottins“. (2. Kron. 17:7-10) Hann fór jafnvel í leiðangur allt til Efraímsfjalla í Norðurríkinu Ísrael „til að snúa [þjóðinni] aftur til Drottins“. (2. Kron. 19:4) Jósafat konungur „leitaði Drottins af öllu hjarta“. – 2. Kron. 22:9.

11 Við getum öll átt þátt í því mikla fræðsluátaki sem Jehóva stendur fyrir nú á tímum. Hefurðu það markmið í hverjum mánuði að kenna fólki orð Guðs og reyna að hvetja það til að þjóna honum? Með blessun Jehóva og með því að leggja þig fram færðu kannski tækifæri til að hjálpa einhverjum öðrum að kynnast honum. Er þetta markmið sem þú hefur að bænarefni? Ertu tilbúinn til að taka þessari áskorun, jafnvel þó að þú þurfir að fórna til þess tíma sem er almennt álitinn frítími? Jósafat fór allt til Efraíms til að hjálpa fólki að snúa aftur til sannrar tilbeiðslu. Við getum líka reynt að aðstoða þá sem eru orðnir óvirkir. Öldungar safnaðarins reyna auk þess að heimsækja og bjóða aðstoð þeim sem hefur verið vikið úr söfnuðinum en búa á safnaðarsvæðinu og hafa ef til vill snúið baki við fyrri syndum.

12, 13. (a) Hvernig brást Jósafat við þegar ógn steðjaði að þjóðinni? (b) Hvers vegna ættum við að viðurkenna vanmátt okkar líkt og Jósafat gerði?

12 Jósafat sýndi Guði hollustu líkt og Asa, faðir hans, jafnvel þegar öflugur her ógnaði ríkinu. (Lestu 2. Kroníkubók 20:2-4.) Hann varð skelfingu lostinn en ákvað samt „að leita svara hjá Drottni“. Hann viðurkenndi í auðmjúkri bæn að hann og þjóð hans væru „aflvana gegn þessum volduga her“ og vissu ekki hvað þau ættu að gera. Hann reiddi sig algerlega á Jehóva og sagði því: „Þess vegna beinum vér sjónum vorum til þín.“ – 2. Kron. 20:12.

13 Stundum vitum við ekki hvað við eigum að gera og erum jafnvel óttaslegin rétt eins og Jósafat. (2. Kor. 4:8, 9) En munum að Jósafat viðurkenndi í bæn í allra áheyrn hve vanmáttugur hann og þjóð hans væri. (2. Kron. 20:5) Þeir sem fara með forystu í tilbeiðslu fjölskyldunnar geta líkt eftir Jósafat með því að leita leiðsagnar Jehóva og biðja hann um styrk til að takast á við erfiðleika sem fjölskyldan á í. Ekki skammast þín fyrir að láta fjölskylduna heyra slíkar bænir. Hún skynjar að þú treystir Jehóva. Guð hjálpaði Jósafat og hann hjálpar ykkur líka.

HISKÍA GERÐI ÞAÐ SEM VAR RÉTT

14, 15. Hvernig sýndi Hiskía að hann treysti Guði algerlega?

14 Hiskía konungur „hélt sér fast við Drottin“ en ólíkt Jósafat þurfti hann að sporna gegn slæmum áhrifum föður síns sem var skurðgoðadýrkandi. (2. Kon. 18:6, Biblían 1981) Hiskía „afnam fórnarhæðirnar, braut merkisteinana og hjó niður Asérustólpana. Hann braut einnig eirorminn, sem Móse hafði gert,“ en þegar þar var komið sögu voru menn farnir að nota hann sem skurðgoð. Hiskía var fullkomlega trúr Jehóva því að hann „hlýddi boðum þeim sem Drottinn hafði lagt fyrir Móse“. – 2. Kon. 18:1-6.

15 Hiskía treysti fullkomlega á Jehóva, jafnvel þegar Assýría, sem var heimsveldi þess tíma, réðst inn í Júda. Assýringar hótuðu að jafna Jerúsalem við jörðu. Sanheríb, konungur Assýríu, hæddist að Jehóva og reyndi að hræða Hiskía og fá hann til að gefast upp. Hiskía treysti að Jehóva væri nógu máttugur til að bjarga þjóðinni og tjáði honum það í bæn. (Lestu Jesaja 37:14-20.) Jehóva bænheyrði hann og sendi engil á vettvang og hann felldi 185.000 Assýringa. – Jes. 37:36, 37.

16, 17. Hvernig geturðu líkt eftir Hiskía í þjónustunni við Guð?

16 Síðar veiktist Hiskía alvarlega og var að dauða kominn. Hann sárbændi Jehóva að minnast þess hvernig hann hafði breytt fyrir augliti hans. (Lestu 2. Konungabók 20:1-3.) Af Biblíunni má sjá að við getum ekki búist við að Guð lækni okkur með kraftaverki eða lengi líf okkar. Við getum þó öll líkt eftir Hiskía og sagt í bæn til Jehóva: „Ég hef breytt í trúfesti og af einlægni fyrir augliti þínu.“ Trúirðu að Jehóva sé bæði fær um og fús til að styðja þig í veikindum? – Sálm. 41:4.

17 Þegar þú hugleiðir ævi Hiskía gætirðu komið auga á eitthvað sem þú þarft að segja skilið við af því að það skyggir á samband þitt við Jehóva eða beinir athygli þinni frá sannri tilbeiðslu. Við viljum auðvitað ekki líkja eftir fólki á samfélagsmiðlum sem upphefur annað fólk og dýrkar það. Sumum vottum finnst reyndar gott að nota slíka miðla til að eiga samskipti við ættingja eða nána vini. Margir í heiminum nota samfélagsmiðla hins vegar í óhófi og „fylgja“ fólki sem þeir þekkja ekki einu sinni. Sumir eyða miklum tíma í að skoða myndir af þessu fólki eða lesa um það. Það er viss hætta á því að maður láti það sem kalla mætti hégóma gagntaka sig. Þjónn Guðs gæti jafnvel orðið montinn af því hve margir „læka“ færslurnar hans og móðgast ef einhverjir hætta að fylgja honum. Getum við ímyndað okkur Pál postula eða þau Akvílas og Priskillu eyða löngum tíma á hverjum degi í að setja inn myndir á samfélagsmiðla eða fylgja einhverjum utan safnaðarins? Við lesum að Páll hafi ,gefið sig allan að boðun orðsins‘ og Priskilla og Akvílas notuðu tímann vel til að ,skýra Guðs veg‘ fyrir öðrum. (Post. 18:4, 5, 26) Við getum spurt okkur: Varast ég að upphefja annað fólk eða eyða miklum og verðmætum tíma í ómerkilega hluti? – Lestu Efesusbréfið 5:15, 16.

JÓSÍA HÉLT BOÐORÐ JEHÓVA

18, 19. Að hvaða leyti langar þig til að líkja eftir Jósía?

18 Jósía konungur, sonarsonur Hiskía, hélt líka boðorð Jehóva „af öllu hjarta“. (2. Kron. 34:31) Meðan hann var enn unglingur „tók hann að leita svara hjá Guði Davíðs“, og tvítugur að aldri hófst hann handa við að útrýma skurðgoðadýrkun úr Júda. (Lestu 2. Kroníkubók 34:1-3.) Jósía lagði sig enn meira fram við að þóknast Guði en margir konungar Júda. Þegar lögmálsbókin fannst, hugsanlega frumritið sem Móse skrifaði, og var lesin fyrir hann áttaði hann sig á að hann þyrfti að leggja sig enn betur fram við að gera vilja Guðs. Jósía hvatti aðra til að þjóna Jehóva og fyrir vikið fylgdi þjóðin honum meðan Jósía var á lífi. – 2. Kron. 34:27, 33.

19 Það er gott að líkja eftir Jósía og byrja að leita Jehóva á unga aldri. Manasse konungur fræddi kannski Jósía um miskunn Guðs eftir að hann iðraðist. Börn og unglingar, styrkið vináttuböndin við þá sem aldraðir eru í fjölskyldu ykkar og í söfnuðinum og kynnið ykkur hvernig Jehóva hefur reynst þeim góður. Og munið líka að það snerti hjarta Jósía að lesa orð Guðs og það hvatti hann til verka. Að lesa í Biblíunni getur hvatt ykkur til verka, aukið gleði ykkar og styrkt vináttuböndin við Guð, auk þess að vera ykkur hvatning til að hjálpa öðrum að leita Guðs. (Lestu 2. Kroníkubók 34:18, 19.) Með sjálfsnámi í Biblíunni geturðu líka komið auga á leiðir til að þjóna Guði enn betur. Ef það gerist skaltu leggja þig fram eins og Jósía.

ÞJÓNAÐU JEHÓVA AF ÖLLU HJARTA

20, 21. (a) Hvað var sameiginlegt með konungunum fjórum sem við ræddum um? (b) Um hvað er fjallað í næstu grein?

20 Fannst þér gagnlegt að kynna þér hvernig Júdakonungarnir fjórir þjónuðu Jehóva af öllu hjarta? Þeir voru ákveðnir í að þóknast honum og tilbáðu hann alla ævi. Þeir létu ekki einu sinni öfluga óvini aftra sér. Síðast en ekki síst þjónuðu þeir Jehóva af réttum hvötum.

21 Konungarnir fjórir, sem við höfum rætt um, gerðu allir sín mistök eins og fram kemur í næstu grein. En þegar Jehóva rannsakaði hjörtu þeirra sá hann að þeir þjónuðu honum af öllu hjarta. Við erum líka ófullkomin. Hvað sér Jehóva þegar hann rannsakar okkur? Kemst hann að þeirri niðurstöðu að við þjónum honum af öllu hjarta? Við lítum nánar á málið í næstu grein.