Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Esekíel lék fúslega umsátur um Jerúsalem.

Höfum sama hugarfar og spámennirnir

Höfum sama hugarfar og spámennirnir

ÁTT þú eitthvað sameiginlegt með spámönnum fortíðar? Í orðaskýringunum í Nýheimsþýðingunni á ensku, útgáfunni frá 2013, er skýringin á spámanni þessi: „Maður sem Guð notar til að kunngera fyrirætlanir sínar. Spámenn voru talsmenn Guðs. Þeir fluttu ekki aðeins spádóma heldur komu einnig á framfæri kennslu Jehóva, fyrirmælum hans og dómum.“ Þó að þú berir ekki fram spádóma talarðu fyrir hönd Guðs og boðar það sem er að finna í orði hans. – Matt. 24:14.

Við höfum fengið það ánægjulega verkefni að segja öðrum frá Jehóva, Guði okkar, og kenna þeim hver vilji hans er með mennina. Við tökum þátt í þessu starfi ásamt ,englinum sem flýgur um háhvolf himins‘. (Opinb. 14:6) En við þurfum kannski að glíma við áskoranir sem geta orðið til þess að við gleymum hve mikill heiður þetta starf er. Hvers konar áskoranir geta það verið? Við gætum orðið úrvinda, niðurdregin eða fundist við einskis verð. Trúfastir spámenn fortíðar fundu líka fyrir því en þeir gáfust ekki upp. Og Jehóva hjálpaði þeim að inna verkefni sín af hendi. Skoðum dæmi um nokkra þeirra og könnum hvernig við getum líkt eftir þeim.

ÞEIR LÖGÐU SIG FRAM AF KAPPI

Daglegt amstur gerir okkur stundum þreytt og þá höfum við ef til vill ekki löngun til að taka þátt í boðuninni. Við þurfum auðvitað á hvíld að halda – meira að segja Jesús og postularnir hvíldust. (Mark. 6:31) En hugsaðu um Esekíel þegar hann var í Babýlon ásamt öðrum Ísraelsmönnum sem höfðu verið herleiddir frá Jerúsalem. Eitt sinn sagði Guð honum að taka tígulstein og rista á hann Jerúsalemborg. Síðan átti hann að setja upp táknrænt umsátur um eftirmynd borgarinnar með því að liggja á vinstri hliðinni í 390 daga og síðan á hægri hliðinni í 40 daga. Jehóva  sagði við Esekíel: „Ég legg á þig bönd svo að þú getir ekki snúið þér af annarri hliðinni á hina fyrr en umsáturstímanum er lokið.“ (Esek. 4:1-8) Þetta hlýtur að hafa vakið athygli hinna útlægu Ísraelsmanna. Esekíel átti að leggja á sig þetta lýjandi verkefni í meira en ár. Hvernig gat spámaðurinn gert verkefninu skil?

Esekíel skildi hvers vegna hann var sendur sem spámaður. Guð hafði sagt þegar hann sendi hann: „Hvort sem [Ísraelsmenn] hlusta eða neita að hlusta ... skulu þeir játa að spámaður hefur verið á meðal þeirra.“ (Esek. 2:5) Esekíel hafði skýrt í huga tilganginn með því sem honum var falið að gera. Af fúsum vilja lék hann því hið táknræna umsátur um Jerúsalem. Hann reyndist sannur spámaður. Honum og hinum útlögunum barst að lokum eftirfarandi fregn: „Borgin er unnin.“ Ísraelsmönnum varð ljóst að spámaður hafði verið á meðal þeirra. – Esek. 33:21, 33.

Nú á dögum vörum við fólk við yfirvofandi eyðingu heimskerfis Satans. Við notum krafta okkar til að boða orð Guðs, fara í endurheimsóknir og halda biblíunámskeið þó að við séum kannski þreytt. Spádómar um endalok þessa heimskerfis eru að rætast og við gleðjumst yfir því að tilheyra hópi þeirra „sem Guð notar til að kunngera fyrirætlanir sínar“.

ÞEIR TÓKUST Á VIÐ KJARKLEYSI

Við leggjum okkur fram af kappi með hjálp anda Jehóva. Viðbrögð fólks við boðskapnum gætu þó stundum dregið úr okkur kjarkinn. Þá er gott að muna eftir fordæmi Jeremía spámanns. Hann þurfti að þola háð og spott vegna þess að hann flutti Ísraelsmönnum boðskap Guðs. Eitt sinn sagði hann jafnvel: „Ég vil ekki hugsa um hann lengur og ekki tala í hans nafni.“ Jeremía var maður með svipaðar tilfinningar og við. Engu að síður hélt hann áfram að flytja boðskap Guðs. Hvers vegna? Hann bætti við: „Mér [fannst] eldur loga í hjarta mér, brenna í beinum mínum. Ég örmagnaðist við áreynsluna, hún varð mér um megn.“ – Jer. 20:7-9.

Hvað getum við gert ef við finnum fyrir kjarkleysi líkt og Jeremía vegna viðbragða fólks við boðskapnum? Við getum barist gegn þeirri tilfinningu með því að hugleiða boðskapinn sem við flytjum. Þá getur okkur liðið eins og ,eldur brenni í beinum okkar‘. Með því að venja okkur á að lesa daglega í Biblíunni getum við haldið eldinum logandi innra með okkur.

ÞEIR SIGRUÐUST Á NEIKVÆÐUM TILFINNINGUM

Sumir þjónar Guðs hafa verið ráðvilltir eftir að hafa fengið verkefni sem þeir skildu ekki til fulls. Hósea spámanni gæti hafa liðið þannig. Jehóva sagði honum: „Farðu og gakktu að eiga hórkonu og eignastu hórbörn.“ (Hós. 1:2) Ímyndaðu þér hvernig þér liði ef þú værir að fara að gifta þig en Guð segði þér að tilvonandi eiginkona þín yrði hórkona! Hósea tók verkefnið að sér. Hann tók sér Gómer að konu og hún ól honum son. Síðar eignaðist hún dóttur og svo annan son. Síðari tvö börnin voru, að því er virðist, afleiðing af framhjáhaldi hennar. Jehóva sagði Hósea að tilvonandi eiginkona hans myndi „elta ástmenn sína“. Taktu eftir að orðið „ástmenn“ er í fleirtölu. Síðan myndi hún reyna að snúa aftur til Hósea. Hefðir þú tekið við eiginkonu þinni aftur ef þú værir Hósea? Það var einmitt það sem Jehóva sagði honum að gera. Spámaðurinn keypti hana meira að segja aftur fyrir talsverða upphæð. – Hós. 2:7; 3:1-5.

Hósea velti því ef til vill fyrir sér hvað hlytist af því að hann sinnti þessu verkefni. En aðstæður hans hjálpa okkur að skilja sársaukann sem almáttugur Guð hlýtur að hafa fundið fyrir þegar Ísraelsmenn höfnuðu honum. Og staðreyndin er sú að sumir hjartahreinir Ísraelsmenn sneru aftur til Guðs.

Guð segir engum á okkar dögum að ,ganga að eiga hórkonu‘. En getum við lært eitthvað af því að Hósea skyldi vera fús til að taka að sér slíkt verkefni? Eitt sem við getum lært er að við þurfum að vera fús til að boða fagnaðarerindið um ríki Guðs „opinberlega og í heimahúsum“, jafnvel þótt okkur  finnist það erfitt. (Post. 20:20) Það má vel vera að þér finnist ekki allir þættir boðunarinnar auðveldir. Margir sem hafa kynnt sér Biblíuna með vottum Jehóva hafa sagt að þeir hafi gaman af biblíunáminu en jafnframt að þeir myndu aldrei boða trúna hús úr húsi. Þrátt fyrir það hafa margir þeirra seinna byrjað að gera það sem þeir héldu eitt sinn að væri þeim ómögulegt. Sérðu hvaða lærdóm má draga af því?

Við getum dregið annan lærdóm af því að Hósea skyldi vera reiðubúinn að taka að sér erfitt verkefni. Hann hefði getað reynt að komast hjá því að taka þátt í þeim táknræna sjónleik sem hjónaband hans var. Hverjir hefðu vitað af verkefninu sem Hósea fékk ef hann hefði ekki skrifað frásögn sína? Við gætum líka lent í aðstæðum þar sem við höfum tækifæri til að segja frá Jehóva, tækifæri sem enginn annar veit af. Anna, sem er í framhaldsskóla í Bandaríkjunum, fékk einmitt slíkt tækifæri. Kennarinn hennar bað nemendurna að skrifa ritgerð um málefni sem þeir höfðu sterka skoðun á og síðan reyna að sannfæra bekkinn. Anna hefði getað hunsað þetta tækifæri til að segja frá trú sinni. En hún leit á það sem tækifæri frá Guði. Þar sem hún áttaði sig á hver viðbrögðin gætu orðið bað hún til Jehóva og fékk þá sterka löngun til að grípa tækifærið. Hún skrifaði ritgerð sem hét „Þróunarkenningin – á hún við rök að styðjast?“

Unga fólkið í söfnuðinum líkir eftir spámönnunum – það ver af hugrekki trú sína á Jehóva sem skapara alls.

Þegar Anna kynnti ritgerðina fyrir bekknum lét stelpa, sem trúði á þróunarkenninguna, rigna yfir hana spurningum. Anna varði afstöðu sína með góðum árangri. Kennarinn var mjög hrifinn og veitti Önnu verðlaun fyrir mest sannfærandi ritgerðina. Síðan þá hefur Anna rætt meira um sköpun við stelpuna sem spurði hana allra spurninganna. Eftir að hafa tekist á við þetta „verkefni“ frá Jehóva segir Anna: „Núna get ég boðað fagnaðarerindið óttalaust.“

Við erum ekki spámenn í orðsins fyllstu merkingu. En með því að líkja eftir fórnfýsi spámanna á borð við Esekíel, Jeremía og Hósea getum við líka gert það sem Jehóva ætlast til af okkur nú á dögum. Hvernig væri að lesa um fleiri spámenn fortíðar í tilbeiðslustund fjölskyldunnar eða sjálfsnámi þínu og hugleiða hvernig þú getur líkt eftir fordæmi þeirra?