Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 NÁMSGREIN 19

Kærleikur og réttlæti andspænis vondum heimi

Kærleikur og réttlæti andspænis vondum heimi

„Þú ert ekki guð sem gleðst yfir ranglæti, því geta vondir menn ekki leitað skjóls hjá þér.“ – SÁLM. 5:5.

SÖNGUR 142 Höldum fast í vonina

YFIRLIT *

1-3. (a) Hvað finnst Jehóva um illsku, samanber Sálm 5:5-7? (b) Hvers vegna getum við fullyrt að kynferðisofbeldi gegn börnum sé í mótsögn við „lögmál Krists“?

JEHÓVA GUÐ hatar alla illsku. (Lestu Sálm 5:5-7.) Hann hlýtur því að hafa andstyggð á kynferðisofbeldi gegn börnum – en það er viðbjóðslegt illskuverk. Við sem erum vottar Jehóva líkjum eftir honum og höfum andstyggð á kynferðisofbeldi gegn börnum og látum það ekki viðgangast í söfnuðinum. – Rómv. 12:9; Hebr. 12:15, 16.

2 Kynferðisofbeldi gegn börnum er í hrópandi mótsögn við „lögmál Krists“. (Gal. 6:2) Hvers vegna getum við fullyrt það? Eins og við lærðum í greininni á undan felur lögmál Krists í sér allt sem Jesús kenndi bæði í orði og verki. Lögmál Krists er byggt á kærleika og stuðlar að réttlæti. Vottar Jehóva fara eftir þessu lögmáli og koma þess vegna fram við börn þannig að þau finni fyrir væntumþykju og öryggi. En kynferðisofbeldi gegn barni er verknaður sem stýrist af sjálfselsku og ranglæti. Hann veldur því að barninu finnst það ekki elskað og að enginn verndi það.

3 Því miður er kynferðisofbeldi gegn börnum orðið að faraldri um allan heim og það hefur jafnvel átt sér stað innan safnaða votta Jehóva. Hvers vegna? „Vondir menn og svikarar“ eru alls staðar til og sumir þeirra reyna að komast inn í söfnuðinn. (2. Tím. 3:13) Auk þess hafa sumir sem segjast þjóna Jehóva látið undan siðspilltum löngunum og beitt börn kynferðisofbeldi. Skoðum núna hvers vegna kynferðisofbeldi gegn börnum er grafalvarleg synd. Síðan skoðum við hvernig öldungar taka á alvarlegum syndum,  þar á meðal kynferðisofbeldi gegn börnum, og hvernig foreldrar geta verndað börn sín. *

GRAFALVARLEG SYND

4-5. Hvernig syndgar ofbeldismaðurinn gegn fórnarlambinu?

4 Kynferðisofbeldi gegn börnum hefur langvarandi afleiðingar. Það hefur áhrif á fórnarlömbin og þá sem er annt um þau – fjölskyldur þeirra og trúsystkini. Kynferðisofbeldi gegn börnum er grafalvarleg synd.

5 Synd gegn fórnarlambinu. * Það er synd að valda öðrum þjáningum og kvöl. Eins og fram kemur í næstu grein veldur ofbeldismaðurinn barninu gífurlegum skaða. Hann bregst trausti barnsins og rænir það örygginu. Börn þurfa að fá vernd fyrir slíkum illskuverkum. Og börn sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi þurfa á huggun og hjálp að halda. – 1. Þess. 5:14.

6-7. Hvernig syndgar ofbeldismaðurinn gegn söfnuðinum og yfirvöldum?

6 Synd gegn söfnuðinum. Ef einhver í söfnuðinum beitir barn kynferðisofbeldi kastar hann rýrð á söfnuðinn. (Matt. 5:16; 1. Pét. 2:12) Það er mjög ósanngjarnt gagnvart milljónum trúfastra þjóna Guðs sem ,berjast fyrir trúnni‘. (Júd. 3) Söfnuður Jehóva getur ekki liðið þá sem fremja illskuverk iðrunarlaust og kasta rýrð á gott mannorð safnaðarins.

7 Synd gegn yfirvöldum. Kristnir menn eiga að ,hlýða þeim yfirvöldum sem eru yfir þá sett‘. (Rómv. 13:1) Við sýnum hlýðni með því að virða landslög og fara eftir þeim. Ef einhver í söfnuðinum gerist sekur um að brjóta hegningarlög, eins og að beita barn kynferðisofbeldi, syndgar hann gegn yfirvöldum. (Samanber Postulasöguna 25:8.) Öldungar hafa ekki umboð til að framfylgja landslögum en þeir vernda ekki þann sem hefur beitt barn kynferðisofbeldi fyrir lagalegum afleiðingum syndarinnar. (Rómv. 13:4) Syndarinn uppsker það sem hann sáir. – Gal. 6:7.

8. Hvernig lítur Jehóva á syndir gegn mönnum?

8 Kynferðisofbeldi gegn börnum er fyrst og fremst synd gegn Guði. (2. Sam. 12:13) Maður sem syndgar gegn öðrum manni syndgar einnig gegn Jehóva. Skoðum dæmi úr lögmálinu sem Guð gaf Ísraelsmönnum. Í lögmálinu sagði að maður sem stæli eða okraði á landa sínum ,brygðist Drottni‘. (3. Mós. 5:21-23) Ef einhver í söfnuðinum beitir barn kynferðisofbeldi og rænir barnið þannig örygginu hefur hann vissulega brugðist Guði. Ofbeldismaðurinn svertir nafn Jehóva. Við eigum því að fordæma kynferðisofbeldi gegn börnum vegna þess að það er andstyggileg synd gegn Guði.

9. Hvaða biblíutengda efni hefur söfnuður Jehóva gefið út í gegnum tíðina og hvers vegna?

9 Söfnuður Jehóva hefur í gegnum tíðina gefið út mikið af biblíutengdu efni sem fjallar um kynferðisofbeldi gegn börnum. Til dæmis hafa verið birtar greinar í Varðturninum og Vaknið! sem fjalla um hvernig þeir sem hafa verið beittir  kynferðisofbeldi geta tekist á við tilfinningasárin, hvernig aðrir geta hjálpað þeim og hughreyst þá og hvernig foreldrar geta verndað börn sín. Öldungar hafa fengið nákvæmar leiðbeiningar byggðar á Biblíunni um hvernig taka eigi á málum þegar barn er beitt kynferðisofbeldi. Söfnuður Votta Jehóva fer reglulega yfir það hvernig tekið er á þeirri synd að beita barn kynferðisofbeldi. Þetta er gert til að ganga úr skugga um að tekið sé á málum í samræmi við lögmál Krists.

HVERNIG ER TEKIÐ Á ALVARLEGUM SYNDUM?

10-12. (a) Hvað hafa öldungarnir í huga þegar þeir taka á alvarlegum syndum af hvaða tagi sem er og hvað er þeim umhugað um? (b) Hvað leitast öldungarnir við að gera samkvæmt Jakobsbréfinu 5:14, 15?

10 Þegar öldungarnir taka á alvarlegum syndum af hvaða tagi sem er minnast þeir þess að lögmál Krists ætlast til að þeir annist hjörðina af kærleika, breyti réttlátlega og geri það sem er rétt í augum Guðs. Þegar þeir komast að því að einhver hefur gerst sekur um alvarlega synd þurfa þeir því að huga vandlega að mörgu. Öldungunum er fyrst og fremst umhugað um að heiðra Jehóva og verja nafn hans. (3. Mós. 22:31, 32; Matt. 6:9) Þeim er einnig mjög umhugað um samband bræðra og systra við Jehóva og vilja hjálpa hverjum þeim sem hefur orðið fyrir barðinu á illskuverkum.

11 Ef hinn brotlegi tilheyrir söfnuðinum er öldungunum auk þess umhugað um að hjálpa honum að endurheimta samband sitt við Jehóva ef það er hægt. (Lestu Jakobsbréfið 5:14, 15.) Vottur sem lætur undan röngum löngunum og drýgir alvarlega synd er veikur í trúnni. Það þýðir að hann á ekki lengur gott samband við Jehóva. * Hægt er að líkja öldungunum við lækna. Þeir leitast við að „gera hinn sjúka [í þessu tilfelli hinn brotlega] heilan“. Þeir gefa honum ráð frá Biblíunni til að hjálpa honum að endurheimta samband sitt við Guð. En það er aðeins hægt ef hann iðrast í einlægni. – Post. 3:19, 20; 2. Kor. 2:5-10.

12 Það hvílir greinilega mikil ábyrgð á öldungunum. Þeim er innilega annt um hjörðina sem Guð hefur falið þeim. (1. Pét. 5:1-3) Þeir vilja að bræður og systur finni til öryggis innan safnaðarins. Þess vegna bregðast þeir fljótt við þegar þeir frétta af alvarlegri synd, meðal annars kynferðisofbeldi gegn barni. Ræðum núna spurningarnar í byrjun  13.,  15. og  17. greinar.

13-14. Hlýða öldungar lögum varðandi það að tilkynna ásakanir um kynferðisofbeldi gegn börnum? Skýrðu svarið.

 13 Hlýða öldungar lögum varðandi það að tilkynna yfirvöldum ásakanir um kynferðisofbeldi gegn börnum? Já. Öldungar láta yfirvöld vita af ásökunum um kynferðisofbeldi gegn barni þar sem slík lög eru í gildi. (Rómv. 13:1) Slík lög stangast ekki á við lög Guðs. (Post. 5:28, 29) Öldungar leita því strax leiðsagnar um hvernig þeir geti hlýtt landslögum þegar þeim berst ásökun um kynferðisofbeldi gegn barni.

14 Öldungar fullvissa fórnarlambið, foreldra þess og aðra sem vita af málinu að þeim sé frjálst að tilkynna yfirvöldum ásakanir um kynferðisofbeldi. En hvað ef tilkynningin er um einhvern í söfnuðinum  og málið verður þekkt í samfélaginu? Ætti þeim sem tilkynnti málið að finnast hann hafa kastað rýrð á nafn Guðs? Nei. Það er ofbeldismaðurinn sem kastaði rýrð á nafn Guðs.

15-16. (a) Hvers vegna þarf í það minnsta tvö vitni áður en öldungarnir skipa dómnefnd, samanber 1. Tímóteusarbréf 5:19? (b) Hvað gera öldungarnir þegar þeim berst ásökun um að einhver í söfnuðinum hafi beitt barn kynferðisofbeldi?

 15 Hvers vegna er nauðsynlegt að hafa í það minnsta tvö vitni áður en öldungarnir skipa dómnefnd? Þessi krafa er hluti af háleitum réttlætismælikvarða Biblíunnar. Þegar einhver er ásakaður um synd sem hann neitar að hafa drýgt þurfa tvö vitni að staðfesta ásökunina áður en öldungarnir skipa dómnefnd. (5. Mós. 19:15; Matt. 18:16; lestu 1. Tímóteusarbréf 5:19.) Þýðir þetta að það þurfi tvö vitni áður en yfirvöldum er tilkynnt ásökun um kynferðisofbeldi gegn barni? Nei. Þessi krafa á ekki við um það hvort öldungar eða aðrir tilkynna ásökun um glæp.

16 Þegar öldungunum berst ásökun um að einhver í söfnuðinum hafi beitt barn kynferðisofbeldi fylgja þeir lögum yfirvalda um að tilkynna málið. Síðan rannsaka þeir málið og taka ákvörðun í samræmi Biblíuna um hvort þeir skipi dómnefnd. Ef sá sem er ásakaður neitar sök vinna öldungarnir úr því sem vitnin segja. Skipuð er dómnefnd ef tvö vitni staðfesta ásökunina – sá sem bar fram ásökunina og einhver annar sem getur staðfest verknaðinn eða annan sambærilegan verkanað hins ásakaða. * Þótt það vanti annað vitni þýðir það ekki að sá sem ber fram ásökunina sé ósannsögull. Þó að það séu ekki tvö vitni til að staðfesta að einstaklingur hafi beitt barn kynferðisofbeldi gera öldungarnir sér grein fyrir að hann gæti hafa gert eitthvað mjög slæmt sem hefur sært aðra mikið. Öldungarnir halda áfram að veita þeim sem hafa verið særðir stuðning og huggun. Auk þess fylgjast þeir vel með þeim sem er ásakaður til að vernda söfnuðinn fyrir mögulegum hættum. – Post. 20:28.

17-18. Útskýrðu hlutverk dómnefndarinnar.

 17 Hvert er hlutverk dómnefndar? Orðið „dómnefnd“ merkir ekki að öldungarnir dæmi um, eða úrskurði, hvort yfirvöld ættu að refsa ofbeldismanninum fyrir að brjóta lögin. Öldungarnir skipta sér ekki af löggæslu. Þeir láta yfirvöld um að taka á sakamálum. (Rómv. 13:2-4; Tít. 3:1) Þess í stað dæma öldungarnir um hvort einstaklingurinn geti tilheyrt söfnuðinum áfram.

18 Þegar öldungar skipa dómnefnd dæma þeir aðeins í trúarlegum málum, eða málum sem snerta sambandið við Jehóva. Þeir nota Biblíuna til að hjálpa sér að sjá hvort ofbeldismaðurinn iðrast eða ekki. Ef hann iðrast ekki er honum vikið úr söfnuðinum og tilkynnt er á samkomu að hann sé ekki lengur vottur Jehóva. (1. Kor. 5:11-13) Ef hann iðrast getur hann fengið að vera áfram í söfnuðinum. En öldungarnir láta hann vita að hann verði kannski aldrei hæfur til að taka að sér sérstök verkefni eða ábyrgðarstörf í söfnuðinum. Öldungunum er innilega annt um börnin og því gætu þeir sagt foreldrum barna í söfnuðinum frá því að þeir þurfi að fylgjast vel með börnum sínum þegar þau umgangast þennan einstakling.  Þegar öldungarnir gera það gæta þeir þess að segja ekki frá því hvaða barn einstaklingurinn beitti kynferðisofbeldi.

HVERNIG GETA FORELDRAR VERNDAÐ BÖRN SÍN?

Foreldrar vernda börnin sín fyrir kynferðisofbeldi með því að veita þeim viðeigandi fræðslu um kynlíf. Til þess nota foreldrarnir efni frá söfnuði Guðs. (Sjá 19.-22. grein.)

19-22. Hvað geta foreldrar gert til að vernda börn sín? (Sjá mynd á forsíðu.)

19 Hverjir bera meginábyrgð á að vernda börn gegn skaða? Það gera foreldrar. * Börn ykkar eru verðmæt „gjöf frá Drottni“. (Sálm. 127:3) Jehóva hefur falið ykkur þá ábyrgð að vernda börn ykkar. Hvað getið þið gert til að vernda börnin gegn kynferðisofbeldi?

20 Í fyrsta lagi skaltu afla þér þekkingar á kynferðisofbeldi. Kynntu þér hvers konar fólk beitir börn kynferðisofbeldi og hvernig það reynir að tæla þau. Vertu á varðbergi gagnvart mögulegum hættum. (Orðskv. 22:3; 24:3) Hafðu í huga að yfirleitt er ofbeldismaðurinn einhver sem barnið þekkir nú þegar og treystir.

21 Í öðru lagi skaltu viðhalda góðum tjáskiptum við börn þín. (5. Mós. 6:6, 7) Það þýðir að þú þarft að vera góður hlustandi. (Jak. 1:19) Hafðu í huga að börn sem hafa verið beitt kynferðisofbeldi hika oft við að segja frá því. Þau óttast kannski að þeim verði ekki trúað eða kannski hefur ofbeldismaðurinn hótað að gera þeim eitthvað ef þau segja frá. Ef þú skynjar að eitthvað sé að skaltu spyrja barnið nærgætinna spurninga og hlusta þolinmóður á svör þess.

22 Í þriðja lagi skaltu fræða börn þín. Fræddu þau um kynferðismál miðað við aldur þeirra. Kenndu þeim hvað þau eigi að segja og gera ef einhver reynir að snerta þau á óviðeigandi hátt. Notfærðu þér efni sem söfnuðurinn hefur gefið út um hvernig þú getir verndað börnin. – Sjá rammann „ Aflaðu þér þekkingar og fræddu börn þín“.

23. Hvernig lítum við á kynferðisofbeldi gegn börnum og hvaða spurningu er svarað í næstu grein?

23 Við sem erum vottar Jehóva lítum á kynferðisofbeldi gegn börnum sem illskuverk og andstyggilega synd. Við lútum lögmáli Krists og hlífum ekki þeim sem beita börn kynferðisofbeldi við afleiðingum gerða sinna. En hvað getum við gert til að hjálpa fórnarlömbum kynferðisofbeldis? Þeirri spurningu er svarað í næstu grein.

SÖNGUR 103 Hirðarnir eru gjafir frá Guði

^ gr. 5 Í þessari grein er fjallað um hvernig hægt er að vernda börn gegn kynferðisofbeldi. Við ræðum um hvernig öldungar standa vörð um söfnuðinn og hvernig foreldrar geta verndað börn sín.

^ gr. 3 ORÐASKÝRINGAR: Kynferðisofbeldi gegn barni á sér stað þegar fullorðinn einstaklingur notar barn til að fullnægja kynferðislöngunum sínum. Það geta meðal annars verið kynmök, munn- eða endaþarmsmök, að gæla við kynfæri, brjóst eða rass eða annar afbrigðilegur verknaður. Þó að flest fórnarlömb séu stelpur verða margir strákar einnig fyrir kynferðisofbeldi. Og þó að flestir ofbeldismenn séu karlmenn eru einnig til konur sem beita börn kynferðisofbeldi.

^ gr. 5 ORÐASKÝRING: Í þessari grein og þeirri næstu á orðið „fórnarlamb“ við þann sem var beittur kynferðisofbeldi sem barn. Við notum þetta orð til að koma því skýrt til skila að barnið er saklaust og að það hafi verið sært og misnotað.

^ gr. 11 Að vera veikur í trúnni er engin afsökun fyrir því að drýgja alvarlega synd. Hinn brotlegi ber fulla ábyrgð á röngum ákvörðunum sínum og gerðum og er einnig ábyrgur frammi fyrir Jehóva. – Rómv. 14:12.

^ gr. 16 Þess er aldrei krafist að barn sé viðstatt þegar öldungarnir tala við þann sem er ásakaður um að hafa beitt það kynferðisofbeldi. Foreldri eða annar trúnaðarvinur getur sagt öldungunum frá ásökuninni til að hlífa barninu við frekari hugarkvöl.

^ gr. 19 Það sem sagt er um foreldra á líka við um lagalega forráðamenn og aðra sem bera foreldraábyrgð á börnum.