Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 NÁMSGREIN 3

Þú ert mikils virði í augum Jehóva

Þú ert mikils virði í augum Jehóva

„Hann minntist okkar þegar við vorum langt niðri.“ – SÁLM. 136:23, NW.

SÖNGUR 33 Varpaðu áhyggjum þínum á Jehóva

YFIRLIT *

1, 2. Hvað eru margir þjónar Jehóva að glíma við og hvaða áhrif getur það haft á þá?

SJÁÐU fyrir þér þrennar aðstæður: Ungur bróðir greinist með alvarlegan sjúkdóm. Duglegur bróðir á miðjum aldri missir vinnuna og tekst ekki að finna aðra hvað sem hann reynir. Trúföst eldri systir getur ekki gert eins mikið og áður í þjónustunni við Jehóva.

2 Ef þú ert að ganga í gegnum eitthvað svipað finnst þér kannski að þú komir ekki lengur að gagni. Aðstæður eins og þessar geta rænt mann gleðinni, brotið niður sjálfsmatið og haft neikvæð áhrif á sambandið við aðra.

3. Hvernig líta Satan og þeir sem endurspegla viðhorf hans á mannslíf?

3 Heimurinn endurspeglar viðhorf Satans til lífsins. Mannslíf hafa alltaf verið lítils virði í augum Satans. Hann lofaði Evu blákalt að hún gæti notið meira frelsis þó að hann vissi mætavel að dauðarefsing lægi við því að óhlýðnast Guði. Satan hefur alltaf stjórnað viðskiptaheiminum, stjórnmálakerfinu og trúarbrögðum heimsins. Það kemur því ekki á óvart að margir kaupsýslumenn, stjórnmálamenn og trúarleiðtogar skuli endurspegla virðingarleysi hans fyrir lífi fólks og líðan.

4. Hvað ræðum við um í þessari grein?

4 Jehóva vill hins vegar að við vitum að við erum mikils virði og hann styður okkur í aðstæðum sem gætu brotið  niður sjálfsmat okkar. (Sálm. 136:23; Rómv. 12:3) Í þessari grein er rætt um hvernig Jehóva hjálpar okkur við eftirfarandi aðstæður: (1) í veikindum, (2) í fjárhagserfiðleikum og (3) þegar ellin setur okkur skorður í þjónustu Jehóva svo að okkur finnst við ekki hafa neitt að gefa. En fyrst skulum við skoða hvers vegna við megum treysta því að við séum hvert og eitt mikils virði í augum Jehóva.

VIÐ ERUM MIKILS VIRÐI Í AUGUM JEHÓVA

5. Hvað sýnir þér að mennirnir eru verðmætir í augum Jehóva?

5 Þó að við séum mynduð úr mold jarðarinnar erum við miklu meira virði en moldarköggull. (1. Mós. 2:7) Við vitum að við erum dýrmæt í augum Jehóva. Skoðum nokkur dæmi sem sýna fram á það. Jehóva skapaði manninn með getu til að endurspegla eiginleika hans. (1. Mós. 1:27) Með því gerði hann okkur æðri öllu öðru í efnisheiminum og setti okkur yfir jörðina og dýrin. – Sálm. 8:5–9.

6. Nefndu aðra sönnun fyrir því að ófullkomið fólk er verðmætt í augum Jehóva.

6 Menn héldu áfram að vera mikils virði í augum Jehóva eftir að Adam syndgaði. Hann metur okkur svo mikils að hann gaf Jesú, ástkæran son sinn, sem lausnargjald fyrir syndir okkar. (1. Jóh. 4:9, 10) Jehóva mun nota andvirði lausnarfórnarinnar þegar hann reisir aftur til lífs „bæði réttláta og rangláta“ sem hafa dáið vegna erfðasyndarinnar. (Post. 24:15) Biblían sýnir að við erum verðmæt í augum hans óháð heilsu, fjárhagsstöðu og aldri. – Post. 10:34, 35.

7. Hvað fleira sýnir að Jehóva metur þjóna sína mikils?

7 Fleira sýnir okkur að við erum verðmæt í augum Jehóva. Hann dró okkur til sín og tók eftir hvernig við brugðumst við fagnaðarboðskapnum. (Jóh. 6:44) Þegar við nálægðum okkur Jehóva nálgaðist hann okkur. (Jak. 4:8) Jehóva notar einnig tíma og krafta í að mennta okkur. Það sýnir að við erum honum mikils virði. Hann þekkir okkur eins og við erum og veit hvaða möguleikar búa í okkur. Og hann agar okkur vegna þess að honum er annt um okkur. (Orðskv. 3:11, 12) Það eru sterk rök fyrir því að hann meti okkur mikils!

8. Hvaða áhrif getur Sálmur 18:28–30 haft á viðhorf okkar til erfiðleika?

8 Sumir töldu Davíð konung einskis virði. Samt vissi hann að Jehóva elskaði hann og studdi. Þess vegna gat hann séð aðstæður sínar í réttu ljósi. (2. Sam. 16:5–7) Þegar við eigum erfitt eða erum langt niðri getur Jehóva hjálpað okkur að sjá hlutina öðrum augum og að yfirstíga hvaða hindrun sem er. (Lestu Sálm 18:28–30.) Þegar Jehóva styður við bakið á okkur getur ekkert hindrað okkur í að þjóna honum með gleði. (Rómv. 8:31) Lítum nú á þrennar aðstæður þar sem er sérstaklega mikilvægt að muna að Jehóva elskar okkur og metur mikils.

Í VEIKINDUM

Að lesa í innblásnu orði Jehóva auðveldar okkur að kljást við neikvæðar tilfinningar vegna veikinda. (Sjá 9.–12. grein.)

9. Hvernig geta veikindi haft áhrif á sjálfsmat okkar?

9 Veikindi geta haft áhrif á tilfinningarnar. Okkur getur fundist að við komum ekki að neinu gagni lengur. Okkur finnst kannski óþægilegt þegar aðrir sjá  að eitthvað er að eða að þurfa að reiða okkur á aðstoð annarra. Og við getum jafnvel skammast okkar fyrir það hve lítið við getum gert þótt aðrir viti ekki af veikindum okkar. En þá uppörvar Jehóva okkur. Hvernig gerir hann það?

10. Hvað getur hjálpað okkur í veikindum samkvæmt Orðskviðunum 12:25?

10 „Vingjarnlegt orð“ getur hvatt okkur þegar við erum veik. (Lestu Orðskviðina 12:25.) Biblían hefur að geyma vingjarnleg orð frá Jehóva sem minna okkur á hve mikils virði við erum í augum hans þrátt fyrir veikindin. (Sálm. 31:20; 41:4) Ef við lesum þessi innblásnu orð, jafnvel aftur og aftur, hjálpar Jehóva okkur að takast á við neikvæðar tilfinningar vegna veikindanna.

11. Hvernig fann Jorge fyrir hjálp Jehóva?

11 Tökum Jorge sem dæmi. Hann var ungur maður þegar hann veiktist alvarlega og sjúkdómurinn ágerðist hratt. Honum fannst hann einskis nýtur. Hann segir: „Það kom mér í opna skjöldu hvað veikindin höfðu mikil áhrif á tilfinningar mínar og hve óþægileg mér fannst öll athyglin sem ég fékk. Þegar mér hrakaði hugsaði ég hvernig líf mitt yrði. Ég var niðurbrotinn og sárbændi Jehóva að hjálpa mér.“ Hvernig hjálpaði Jehóva honum? „Ég átti erfitt með að einbeita mér og var þess vegna ráðlagt að lesa nokkur vers úr Sálmunum sem lýsa umhyggju Jehóva fyrir þjónum sínum. Ég las þessi fáu vers á hverjum degi og fann huggun og hvatningu í þeim. Með tímanum fór fólk að taka eftir því að ég brosti meira. Það sagði jafnvel að jákvæðni mín væri þeim hvatning. Jehóva hafði bænheyrt mig! Hann hafði  hjálpað mér að sjá sjálfan mig í nýju ljósi. Ég fór að einbeita mér að því hvað Jehóva finnst um mig þrátt fyrir veikindin, eins og hann sýnir í orði sínu.“

12. Hvernig geturðu fundið fyrir stuðningi Jehóva þegar þú glímir við veikindi?

12 Ef þú glímir við veikindi máttu vera viss um að Jehóva veit hvað þú ert að ganga í gegnum. Biddu hann innilega að hjálpa þér að sjá aðstæður þínar í réttu ljósi. Leitaðu síðan að hvetjandi orðum sem Jehóva lét skrá í Biblíuna þér til gagns. Einbeittu þér að versum sem sýna hve mikils virði þjónar Jehóva eru honum. Þá skynjarðu að Jehóva er góður við alla sem þjóna honum í trúfesti. – Sálm. 84:12.

Í FJÁRHAGSERFIÐLEIKUM

Þegar við eigum erfitt með að finna vinnu er gott að muna að Jehóva lofar að sjá fyrir okkur. (Sjá 13.–15. grein.)

13. Hvernig getur fjölskylduföður liðið ef hann missir vinnuna?

13 Allir sem þurfa að sjá fyrir fjölskyldu vilja geta séð henni fyrir nauðsynjum. En segjum sem svo að bróðir missi vinnuna þrátt fyrir að hann geri sitt besta. Hann finnur ekki aðra vinnu hvað sem hann reynir. Honum gæti fundist hann gagnslaus vegna þess. Hvernig gagnast það honum að beina huganum að loforðum Jehóva?

14. Hvers vegna stendur Jehóva við loforð sín?

14 Jehóva stendur alltaf við loforð sín. (Jós. 21:45; 23:14) Hann hefur margar ástæður fyrir því. Ein þeirra er að það snertir nafn hans, það er að segja orðstír. Jehóva hefur lofað að sjá fyrir trúum þjónum sínum og hann telur sér skylt að gera það. (Sálm. 31:2–4) Hann veit líka að við yrðum miður okkar ef hann sæi ekki fyrir okkur sem tilheyrum fjölskyldu hans. Hann lofar að sjá bæði fyrir  efnislegum og andlegum þörfum okkar og ekkert getur komið í veg fyrir að hann geri það. – Matt. 6:30–33; 24:45.

15. (a) Í hvaða erfiðleikum lentu kristnir menn á fyrstu öld? (b) Um hvað fullvissar Sálmur 37:18, 19 okkur?

15 Við getum tekist af öryggi á við fjárhagserfiðleika ef við höfum í huga hvers vegna Jehóva stendur við loforð sín. Sú var raunin með kristna menn á fyrstu öld. „Allir nema postularnir dreifðust um alla Júdeu og Samaríu“ þegar miklar ofsóknir hófust gegn söfnuðinum í Jerúsalem. (Post. 8:1) Það hefur haft fjárhagserfiðleika í för með sér fyrir kristna menn. Þeir misstu eflaust heimili og atvinnu. En Jehóva yfirgaf þá ekki og þeir misstu heldur ekki gleðina. (Post. 8:4; Hebr. 13:5, 6; Jak. 1:2, 3) Jehóva studdi trúa kristna menn þá og hann mun líka styðja okkur. – Lestu Sálm 37:18, 19.

ÞEGAR ELLIN SETUR OKKUR SKORÐUR

Við megum vera viss um að Jehóva metur okkur og trúfasta þjónustu okkar mikils ef við einbeitum okkur að því sem við getum gert þrátt fyrir elli. (Sjá 16.–18. grein.)

16. Hvers vegna gætum við efast um að tilbeiðsla okkar sé mikils virði í augum Jehóva?

16 Þegar aldurinn færist yfir getur okkur fundist að við getum lítið gert fyrir Jehóva. Slíkar hugsanir sóttu ef til vill á Davíð konung þegar hann varð gamall. (Sálm. 71:9) Hvernig getur Jehóva þá hjálpað okkur?

17. Hvað lærum við af reynslu Jheri?

17 Reynsla systur að nafni Jheri er gott dæmi um þetta. Henni var boðið að sækja viðhaldsnámskeið í ríkissalnum en langaði ekki að fara. Hún sagði: „Ég er orðin gömul, er ekkja og kann ekki neitt sem Jehóva getur notað. Ég get ekki gert neitt gagn.“ Kvöldið fyrir námskeiðið úthellti hún hjarta sínu í bæn til Jehóva. Þegar hún mætti í ríkissalinn daginn  eftir var hún enn ekki viss um að hún ætti að vera þar. Einn ræðumaðurinn lagði áherslu á að mikilvægasti hæfileiki okkar væri viljinn til að láta Jehóva kenna okkur. Jheri segir: „Ég hugsaði með mér: ,Það kann ég!‘ Ég fór að gráta þegar mér varð ljóst að Jehóva var að svara bæn minni. Hann var að fullvissa mig um að ég hefði eitthvað verðmætt til að gefa og að hann væri fús til að kenna mér.“ Jheri segir þegar hún lítur til baka: „Þegar ég mætti á námskeiðið var ég kvíðin, niðurdregin og leið illa en þegar ég fór þaðan var ég sjálfsörugg. Ég hafði fengið hvatningu og fann að ég var mikils metin.“

18. Hvernig sýnir Biblían að Jehóva metur tilbeiðslu okkar enn mikils þegar við eldumst?

18 Við megum vera viss um að Jehóva hefur enn þá verk fyrir okkur að vinna þegar við eldumst. (Sálm. 92:13–16) Jesús kenndi okkur að Jehóva metur mikils það sem við getum gert í þjónustunni við hann þó að okkur finnist við ekki geta gert nema sáralítið. (Lúk. 21:2–4) Einbeittu þér að því sem þú getur gert. Þú getur til dæmis talað við aðra um Jehóva, beðið fyrir trúsystkinum og hvatt aðra til að vera trúfastir. Jehóva lítur á þig sem samverkamann sinn. Hann gerir það vegna þess að þú hlýðir honum fúslega – ekki vegna þess sem þú nærð að áorka. – 1. Kor. 3:5–9.

19. Hvað fullvissar Rómverjabréfið 8:38, 39 okkur um?

19 Við erum afar þakklát fyrir að fá að tilbiðja Jehóva. Hann er Guð sem metur þjóna sína mjög mikils. Hann skapaði okkur til að gera vilja sinn og það gefur okkur lífsfyllingu að tilbiðja hann. (Opinb. 4:11) Við erum kannski lítils virði í augum heimsins en Jehóva lítur ekki þannig á okkur. (Hebr. 11:16, 38) Ef við erum niðurdregin vegna veikinda, fjárhagserfiðleika eða elli skulum við minna okkur á að ekkert getur gert okkur viðskila við kærleika föður okkar á himnum. – Lestu Rómverjabréfið 8:38, 39.

^ gr. 5 Hefur eitthvað gerst í lífi þínu sem olli því að þér fannst þú einskis virði? Þessi grein minnir þig á hve mikils virði þú ert í augum Jehóva. Í henni er rætt um hvernig þú getur haft heilbrigt sjálfsmat hvað sem á dynur.

SÖNGUR 30 Guð er vinur minn og faðir