Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 NÁMSGREIN 1

„Farið því og gerið fólk ... að lærisveinum“

„Farið því og gerið fólk ... að lærisveinum“

ÁRSTEXTINN 2020 ER: Farið því og gerið fólk að lærisveinum, skírið það. – MATT. 28:19.

SÖNGUR 79 Kennum þeim að vera staðfastir

YFIRLIT *

1, 2. Hvað segir engill konunum við gröf Jesú og hvað segir Jesús sjálfur við þær?

ÞAÐ er snemma morguns 16. nísan árið 33. Nokkrar guðhræddar konur ganga daprar í bragði að gröfinni þar sem lík Drottins Jesú Krists var lagt til hvíldar tveim dögum áður. Þær eru með jurtir og ilmolíur sem þær ætla sér að bera á líkið en þegar þær koma að gröfinni er hún tóm. Þær eru furðu lostnar! Engill segir þeim að Jesús sé risin upp frá dauðum og bætir við: „Hann fer á undan ykkur til Galíleu og þar fáið þið að sjá hann.“ – Matt. 28:1–7; Lúk. 23:56; 24:10.

2 Þær eru leiðinni frá gröfinni þegar Jesús kemur sjálfur á móti þeim og segir við þær: „Farið og segið bræðrum mínum frá svo að þeir fari til Galíleu og þar munu þeir sjá mig.“ (Matt. 28:10) Það hljóta að vera mjög mikilvæg fyrirmæli sem Jesús ætlar að gefa lærisveinum sínum því að þetta er það fyrsta sem hann skipuleggur eftir að hafa risið upp frá dauðum.

HVERJUM VORU FYRIRMÆLIN ÆTLUÐ?

Þegar Jesús hitti postulana og fleiri í Galíleu eftir að hann var upprisinn sagði hann þeim að ,fara og gera fólk að lærisveinum‘. (Sjá grein 3 og 4.)

3, 4. Hvers vegna getum við sagt að fyrirmælin í Matteusi 28:19, 20 hafi náð til fleiri en postulanna? (Sjá forsíðumynd.)

3 Lestu Matteus 28:16–20. Á fundinum sem Jesús kallaði saman lýsti hann í stórum dráttum því mikilvæga verki sem lærisveinar hans áttu eftir að vinna alla fyrstu öldina – sama verki og við vinnum nú á dögum. Jesús sagði: „Farið því og gerið fólk af öllum þjóðum að lærisveinum ... og kennið því að halda öll fyrirmæli mín.“

 4 Jesús vill að allir fylgjendur sínir boði trúna. Fyrirmælin náðu ekki aðeins til 11 trúfastra postula hans. Hvernig vitum við það? Voru engir nema postularnir viðstaddir á fjallinu í Galíleu þegar Jesús gaf fyrirmælin um að gera fólk að lærisveinum? Munum að engillinn sagði við konurnar: „Þar [í Galíleu] fáið þið að sjá hann.“ Trúfastar konur hljóta því að hafa verið viðstaddar við þetta tækifæri. En nefna má fleiri rök. Páll postuli greinir frá því að Jesús hafi ,birst meira en 500 lærisveinum í einu‘. (1. Kor. 15:6) Hvar gerðist það?

5. Hvað má sjá af 1. Korintubréfi 15:6?

5 Við höfum gildar ástæður til að trúa að Páll hafi átt við fundinn í Galíleu sem talað er um í Matteusi 28. kafla. Hvaða ástæður eru það? Í fyrsta lagi voru flestir lærisveinar Jesú Galíleumenn. Fjall í Galíleu var því mun eðlilegri staður en heimili í Jerúsalem til að kalla saman mikinn fjölda fólks. Í öðru lagi hafði Jesús þegar hitt postulana 11 á heimili í Jerúsalem eftir að hann reis upp. Ef Jesús hefði aðeins ætlað postulunum að boða trúna og gera fólk að lærisveinum hefði hann getað kallað þá saman í Jerúsalem í stað þess að segja þeim, konunum og öðrum að hitta sig í Galíleu. – Lúk. 24:33, 36.

6. Hvernig sýnir Matteus 28:20 að fyrirmælin um að gera fólk að lærisveinum eiga við nú á dögum og í hvaða mæli er farið eftir þeim?

6 Tökum eftir öðru mikilvægu atriði. Fyrirmæli Jesú um að gera fólk að lærisveinum náðu ekki aðeins til kristinna manna á fyrstu öld. Hvaða rök eru fyrir því? Þegar Jesús gaf fylgjendum sínum fyrirmælin lauk hann máli sínu með því að segja: „Ég er með ykkur alla daga allt þar til þessi heimsskipan endar.“ (Matt. 28:20) Eins og Jesús sagði er unnið að því af fullum krafti núna að gera fólk að lærisveinum. Hugsaðu þér! Næstum 300.000 manns skírast sem vottar Jehóva á hverju ári og gerast lærisveinar Jesú Krists.

7. Um hvað ræðum við núna og af hverju?

7 Margir sem eru í biblíunámi hjá okkur láta með tímanum skírast. En aðrir virðast vera hikandi við að gerast lærisveinar. Þeir hafa ánægju af náminu en taka ekki framförum. Ef þú ert með biblíunemanda viltu eflaust hjálpa honum að fara eftir því sem hann lærir og gerast lærisveinn Krists. Í þessari grein er rætt hvernig við getum náð til hjarta nemandans og hjálpað honum að styrkja samband sitt við Jehóva. Af hverju þarf að ræða það? Af því að í sumum tilfellum gætum við þurft að ákveða hvort við höldum áfram að kenna nemandanum eða hættum því.

REYNDU AÐ NÁ TIL HJARTANS

8. Hvers vegna getur verið erfitt að ná til hjartans?

8 Jehóva vill að fólk þjóni sér vegna þess að það elskar hann. Markmið okkar er því að hjálpa nemendum okkar að skilja að Jehóva er mjög annt um þá hvern og einn og að hann elskar þá heitt. Við viljum hjálpa þeim að líta á Jehóva sem ,föður munaðarlausra og verndara ekkna‘. (Sálm. 68:6) Þegar nemendurnir gera sér grein fyrir hve innilega Guð elskar þá snertir það sennilega hjarta þeirra og þeir fara líka að elska hann. Sumum finnst kannski erfitt að líta á Jehóva sem kærleiksríkan föður af því að þeir hafa ekki kynnst raunverulegri föðurást í heimahúsum. (2. Tím. 3:1, 3) Leggðu  því áherslu á aðlaðandi eiginleika Jehóva þegar þú kennir. Sýndu nemendum þínum fram á að Guð kærleikans vill að þeir fái að lifa að eilífu og er tilbúinn að hjálpa þeim til þess. Hvað annað getum við gert?

9, 10. Hvaða bækur ættum við að nota þegar við höldum biblíunámskeið og hvers vegna?

9 Notaðu bækurnar „Hvað kennir Biblían?“ og „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“. Þessar bækur eru samdar sérstaklega til að hjálpa okkur að ná til hjartna nemendanna. Fyrsti kaflinn í bókinni Hvað kennir Biblían? svarar til dæmis spurningunum: Er Guði annt um okkur eða er hann harðbrjósta? Hvað finnst Guði um ranglætið sem við megum þola? Og geturðu átt náið samband við Jehóva? Hvað um bókina „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“? Hún sýnir nemandanum fram á hvernig hann getur skapað sér betra líf og eignast nánara samband við Jehóva með því að fara eftir meginreglum Biblíunnar. Undirbúðu þig  vel fyrir hverja námsstund þó að þú hafir farið yfir efnið áður með öðrum og hafðu þarfir nemandans í huga.

10 En segjum sem svo að nemandinn velti fyrir sér máli sem er ekki rætt í neinu af ritunum í verkfærakistunni. Kannski gætirðu hvatt hann til að lesa um það sjálfur í öðrum ritum þannig að hægt sé að halda náminu áfram með hjálp annarrar bókarinnar sem nefndar eru að ofan.

Byrjaðu námsstundina með bæn. (Sjá 11. grein.)

11. Hvenær ættum við að byrja á að fara með bæn í upphafi og lok námsstundar, og hvernig getum við vakið máls á því?

11 Byrjaðu námsstundina með bæn. Yfirleitt er best að byrja sem fyrst á að fara með bæn í upphafi og lok námsstundar, helst á fyrstu vikunum eftir að reglulegt nám hefst. Biblíunemandinn þarf að gera sér grein fyrir að aðeins er hægt að skilja orð Guðs með hjálp anda hans. Sumir biblíukennarar nota Jakobsbréfið 1:5 til að vekja máls á bæninni. Þar stendur: „Ef einhvern á meðal ykkar skortir visku ætti hann ekki að gefast upp á að biðja Guð um hana.“ Kennarinn spyr síðan nemandann: „Hvernig getum við beðið Guð um visku?“ Nemandinn áttar sig líklega á að við þurfum að fara með bæn.

12. Hvernig geturðu notað Sálm 139:2–4 til að hjálpa nemanda að tjá sig opinskátt í bæn?

12 Kenndu nemandanum að biðja. Fullvissaðu hann um að Jehóva langi til að heyra innilegar bænir hans. Segðu honum að þegar við biðjum einslega getum við tjáð okkur opinskátt við Jehóva – tjáð tilfinningar sem við hikum kannski við að segja nokkrum öðrum frá. Jehóva veit hvort eð er hvernig við hugsum innst inni. (Lestu Sálm 139:2–4.) Við getum líka hvatt nemanda okkar til að biðja Guð um hjálp til að breyta röngum hugsunarhætti og sigrast á slæmum venjum. Segjum til dæmis að nemandi sem hefur verið í námi hjá okkur um tíma hafi ánægju af ákveðinni hátíð sem á sér heiðinn uppruna. Hann veit að hann ætti ekki að halda hana en sannleikurinn er sá að hann langar enn til að gera það að einhverju marki. Hvettu hann til að segja Jehóva nákvæmlega hvernig honum er innanbrjósts og sárbæna hann um hjálp til að elska aðeins það sem hann elskar. – Sálm. 97:10.

Bjóddu biblíunemandanum að sækja samkomur. (Sjá 13. grein.)

13. (a) Hvers vegna ættum við að bjóða nemendum okkar að sækja samkomur eins fljótt og hægt er? (b) Hvað getum við gert til að nemandinn kunni vel við sig í ríkissalnum?

13 Bjóddu nemandanum að sækja samkomur eins fljótt og hægt er. Það sem nemandi þinn heyrir og sér á samkomum getur snert hjarta hans og hjálpað honum að taka framförum. Sýndu honum myndbandið Hvernig fara samkomur okkar fram? og bjóddu honum að vera samferða þér á samkomu. Bjóddu honum far ef hægt er. Það er góð hugmynd að taka með þér ýmsa aðra boðbera þegar þú heldur biblíunámskeiðið. Þannig kynnist nemandinn öðrum í söfnuðinum og kann eflaust betur við sig þegar hann mætir á samkomur.

HJÁLPAÐU NEMANDANUM AÐ ÞROSKAST Í TRÚNNI

14. Hvað getur orðið til þess að biblíunemandi vilji taka framförum?

14 Markmið okkar er að hjálpa biblíunemandanum að þroskast í trúnni. (Ef. 4:13) Þegar einhver þiggur biblíunámskeið hefur hann kannski mestan áhuga á hvað hann fær sjálfur út úr því. En þegar hann fer að elska Jehóva fer hann líklega  að hugsa um hvernig hann getur hjálpað öðrum, meðal annars þeim sem eru nú þegar í söfnuðinum. (Matt. 22:37–39) Þegar þér finnst það tímabært skaltu ekki vera feiminn við að nefna að hægt sé að styðja starfsemi safnaðarins með fjárframlögum.

Kenndu nemandanum að takast á við vandamál. (Sjá 15. grein.)

15. Hvernig getum við hjálpað biblíunemanda að bregðast rétt við þegar upp koma vandamál?

15 Kenndu biblíunemandanum að takast á við vandamál. Segjum sem svo að nemandi þinn sé óskírður boðberi og segi þér að einhver í söfnuðinum hafi sært hann. Í stað þess að taka afstöðu í málinu gætirðu sýnt honum hvað Biblían hvetur okkur til að gera. Hann getur valið að fyrirgefa. En ef hann getur ekki látið kyrrt liggja ætti hann að ræða málið á mildilegum nótum við bróðurinn eða systurina. Markmiðið ætti að vera að ,endurheima bróðurinn‘. (Samanber Matteus 18:15.) Hjálpaðu nemandanum að búa sig undir samtalið. Sýndu honum hvernig hann getur notað appið JW Library®, Efnislykilinn að ritum Votta Jehóva og jw.org® til að finna leiðir til að takast á við málið. Því meira sem hann lærir áður en hann skírist því auðveldari verða samskipti hans við aðra í söfnuðinum í framtíðinni.

16. Hverjir eru kostirnir við að bjóða öðrum boðbera að vera með í biblíunámsstund?

16 Bjóddu öðrum í söfnuðinum að vera með í biblíunáminu og bjóddu farandhirðinum með þegar hann heimsækir söfnuðinn. Hvers vegna? Fyrir utan það sem áður hefur komið fram geta aðrir boðberar kannski hjálpað biblíunemandanum í málum sem þú hefur litla reynslu af. Nemandinn hefur ef til vill reynt nokkrum sinnum að hætta að reykja en ekki tekist það. Taktu með boðbera sem hefur reykt en tókst að hætta, kannski eftir nokkrar tilraunir. Hann gæti veitt góð ráð sem nemandinn þarf á að halda. Ef þú veigrar þér við að kenna að reyndum bróður eða systur viðstöddum geturðu boðið honum eða henni að stjórna umræðunum í þetta sinn. Nýttu þér að minnsta kosti reynslu annarra. Mundu að markmið okkar er að hjálpa nemandanum að styrkjast í trúnni.

ÆTTIRÐU AÐ HÆTTA AÐ KENNA NEMANDANUM?

17, 18. Hverju ættirðu að velta fyrir þér ef þú ert að hugsa um að hætta að kenna nemanda?

17 Ef biblíunemandinn tekur ekki framförum þarftu fyrr eða síðar að spyrja þig hvort þú eigir að halda námskeiðinu áfram. Veltu fyrir þér getu nemandans áður en þú tekur ákvörðun. Fólk tekur mishröðum framförum. Eru framfarir nemandans eðlilegar miðað við aðstæður hans? Er hann farinn „að halda“ eða fara eftir því sem hann lærir? (Matt. 28:20) Framfarirnar geta verið hægar en þær ættu að vera stöðugar.

 18 En hvað ef nemandi sem hefur verið í biblíunámi um tíma sýnir þess lítil merki að hann kunni að meta námið? Ímyndaðu þér þessar aðstæður: Nemandinn er búinn að fara yfir bókina Hvað kennir Biblían? og er jafnvel byrjaður á bókinni „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“ en hann hefur ekki mætt á eina einustu samkomu – ekki einu sinni minningarhátíðina. Og hann afboðar oft námsstundina af litlu tilefni. Í slíku tilfelli ættirðu að tala alvarlega við nemandann. *

19. Hvað gætirðu sagt við nemanda sem virðist ekki kunna að meta biblíunámið, og hvað þarftu að hugleiða?

19 Þú gætir byrjað á að spyrja hann: „Hvað væri erfiðast fyrir þig ef þú yrðir vottur Jehóva?“ Nemandinn svarar kannski: „Ég hef gaman af biblíunáminu en ég verð aldrei vottur Jehóva.“ Ef nemandinn hugsar þannig eftir að hafa verið í biblíunámi um tíma er þá nokkur ástæða til að halda námskeiðinu áfram? Á hinn bóginn gæti nemandinn sagt frá því í fyrsta sinn hvað aftrar honum. Hann er kannski hræddur um að hann geti aldrei boðað trúna hús úr húsi. Þú ert betur í stakk búinn til að hjálpa honum núna þegar þú veist hvernig hann hugsar.

20. Hvernig getur Postulasagan 13:48 hjálpað okkur að vega og meta hvort við eigum að halda áfram að kenna nemanda?

20 Því miður eru sumir nemendur eins og Ísraelsmenn á dögum Esekíels. Jehóva talaði um þá við spámanninn og sagði: „Þú ert þeim eins og sá sem syngur ástarljóð við góðan undirleik. Þeir hlusta á orð þín en fara ekki eftir þeim.“ (Esek. 33:32) Það getur verið erfitt að segja nemanda að þú ætlir að hætta að kenna honum. En „tíminn er orðinn naumur“. (1. Kor. 7:29) Í stað þess að eyða tíma í nemanda sem tekur engum framförum þurfum við að finna fólk sem sýnir að það hefur ,það hugarfar sem þarf til að hljóta eilíft líf‘. – Lestu Postulasöguna 13:48.

Ef til vill eru aðrir á svæðinu að biðja Guð um hjálp. (Sjá 20. grein.)

Eyddu ekki tíma í nemanda sem tekur ekki framförum. (Sjá 20. grein.)

21. Hver er árstextinn 2020 og hvers vegna á hann vel við?

21 Árstextinn 2020 mun hjálpa okkur að verða færari í því starfi að gera fólk að lærisveinum. Textinn er sóttur í orð Jesú á fundinum mikilvæga sem hann hélt á fjalli í Galíleu: ,Farið því og gerið fólk að lærisveinum, skírið það.‘ – Matt. 28:19.

Leggjum okkur fram um að verða færari í því starfi að gera fólk að lærisveinum og hjálpa nemendum okkar svo að þeir láti skírast. (Sjá 21. grein.)

SÖNGUR 70 Leitum að hinum verðugu

^ gr. 5 Árstextinn 2020 hvetur okkur til að ,gera fólk að lærisveinum‘. Þessum orðum Jesú var beint til allra þjóna Jehóva. Hvernig getum við náð til hjartna biblíunemenda okkar þannig að þeir verði lærisveinar Krists? Í þessari grein er rætt hvernig við getum hjálpað nemendum okkar að eignast nánara samband við Jehóva. Við skoðum líka hvernig við getum séð hvort við eigum að halda áfram að kenna einstaklingnum eða ekki.

^ gr. 18 Horfðu á myndskeiðið Hættum biblíunámskeiði ef nemandinn tekur ekki framförum í Sjónvarpi Votta Jehóva.